18.9.2021 | 07:37
RÚV ætti að leggja niður eða endurreisa til upprunahorfs
Það er vitað mál að þjóðskáldið Matthías Jochumsson var ekki venjulegur prestur eða skáld, heldur hafði hann einnig áhuga á guðspeki, en guðspeki er ekki það sama og guðfræði, heldur tengist hún dulspeki, Helena Blavatsky er til dæmis höfundur frægra dulspekirita.
Ég tel að Matthías hafi ort Lofsöng undir slíkum áhrifum.
Í kvæðinu er orðið "forlagahjól", sem nær langt út fyrir kristnina að merkingarþunga og merkingarbærni. Mjöllnir Ásatrúarinnar er þetta forlagahjól, og í Búddatrúnni er talað um hjól endurfæðingarinnar. Eitt svona orð lyftir kvæðinu og vísar út fyrir ýmis mörk.
Orðið "duft" er einnig stórkostleg í þessu sambandi, því það minnir okkur á að við erum duft og rísum af jarðefnunum.
Sögnin að kvaka er vissulega ekki mikið notuð í skáldskap nú til dags enda orðið helzt notað um fugla núorðið. Engu að síður finnst mér þetta mjög rétt orðanotkun, hún bendir á dýrslegt eðli mannsins og syndsamlegt, til dæmis. Með þessu eina orði er verið að feykja burt þeirri villu nútímafólks að það sé sjálft máttugra en nokkur guð.
Andstæðan við orðið "guðsríkisbraut" í ljóðinu (sem ég hef viljandi í einu orði) er "helstefnubraut", þessi braut sem þekkt er úr okkar samtíma.
Auðmýktin er þekkt úr trúarbrögðum mannkynsins sem grunnstef. Þegar Matthías ákallar guð á þennan hátt finnst mér það færast út yfir mörk kristninnar. Vissulega er kvæðið byggt á Biblíunni, en hægt er að nota Biblíuna sem efnivið fyrir verk sem hafa víðari tilvísun. Biblían spratt líka úr jarðvegi fjölgyðistrúarbragða.
Er orðið "hertogi" úrelt sem kemur fram í ljóðinu?
Hugmyndin um guð sem hertoga eða herforingja nær langt aftur fyrir Krists burð, hún er ævaforn. Jafnvel trúin á stokka og steina gengur út frá því að þar séu vættir og dulmögn sem hafi yfirnáttúrulega krafta.
Nei, þjóðsöngurinn er ekki jafnaðarkveðskapur. En ef þjóðfélagið á allt að lúta þessari jöfnunarstefnu, hvar verða þá kennileitin og hápunktarnir? Rétt eins og styttum er fargað í útlöndum, á þá að setja okkar menningu í geymslu ef hún passar ekki við kröfur nútímans?
Mér líkar einnig mjög vel við þérunina í Lofsöngnum, orðmyndin vér er notuð, sem er upprunalegri fleirtala. Við átti við um tvo einstaklinga en vér þrjá og fleiri.
Er það of mikið sagt að maður telji að RÚV ætti að leggja niður í núverandi mynd? Bragi Valdimar gerir lítið úr þjóðsöngnum og Gísli Marteinn er eins og hann er, hann reynir að vera ungur í anda og fyllir þáttinn sinn þesskonar efni, unglingaefni, en spurning hvort ekki séu fleiri aldurshópar sem vilji fá eitthvað við sitt hæfi.
Menningin í sjónvarpinu íslenzka verður að eiga sinn stað, og ríkisstyrkt sjónvarpsstöð eins og RÚV sem einnig fær auglýsingatekjur er eina sjónvarpsstöðin sem ætti að sinna menningarhlutverki, en ekki afþreyingarhlutverki eingöngu.
Það er eins og ekkert eftirlit sé með RÚV. Þar vinnur fólk sína þætti í egóflippi og fer yfir þá línu að eltast við unglingatízkuna frekar en að sinna rótgróinni menningu, gamaldags og viðurkenndri.
Þessi gagnrýni á RÚV er ekki nöldur í fólki eingöngu sem sett er utangarðs sökum aldurs eða annars. Það segir sig sjálft að ríkissjónvarp á að sinna menningu, jafnvel eingöngu en ekki afþreyingu.
Þátturinn Orðbragð byrjaði sem menningarþáttur. Kemur það á óvart að nú á líka að gera hann að unglingaþætti? Er ekki nóg að Gísli Marteinn sinni því hlutverki?
Væri nokkuð að því að þérun yrði aftur tekin upp í RÚV, til að kenna fólki virðulegar hefðir frá fyrri tíð? Kiljan er ennþá ágætis bókmenntaþáttur, en eftir að Jón Ólafsson hætti með "Af fingrum fram" vantar vandaða tónlistarþætti þar sem lifandi tónlist er flutt í miklum mæli, og helzt frá tónlistarmönnum sem lítið eða ekkert komast í sviðsljósið.
Menntamálaráðherra ber ábyrgð á RÚV. Starfandi menntamálaráðherra ætti að sýna RÚV aðhald. RÚV ætti ekki að vera stöð til að græða peninga, heldur hjálpa menningunni sem er deyjandi á Íslandi.
Þessu tengt. Ég heyrði afgreiðslumenn í búð tala saman, og annar sagði" Tölvan frostnaði", og "ríbútta".
Um 1990 var farið í málræktarátak. Það er miklu meiri þörf á því núna en þá. Leyfum frjálsum sjónvarpsstöðvum að sinna afþreyingu. Menntun, menning, listir, saga, þjóðrækni, þetta ætti að vera einkenni RÚV, eins og RÚV byrjaði, frá 1966 og fram að hruninu 2008, eða erfitt er að setja þessi síðari mörk.
Ekki hef ég trú á sósíalisma þótt Gunnar Smári sé með slíkan flokk, en ég er sammála honum um skaðsemi nýfrjálshyggjunnar, hnignun RÚV er hluti af því.
Svo vil ég endilega fá þulurnar aftur.
Reyndar er það mjög gott hjá Gísla Marteini að enda sína þætti með tónlistaratriðum, ekki skal neita því.
Ég sakna sjónvarpsins eins og það var áður. Fræðandi þættir um allt mögulegt þar sem farið er djúpt í umfjöllunarefnin, eins og þættir frá BBC, slíkt væri velkomið, nema að þeirri fyrirmynd um okkar veruleika og líka erlend viðfangsefni.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Líta femínistar í eigin barm? Er ástæða fyrir bakslaginu?
- Jahve er djöfullinn og hann stendur á bakvið öll stríð, og er...
- Sjálfstæðismenn þurfa að sinna menningarmálum meira
- Vinstrimenn ættu að skammast sín, en ekki hægrimenn. Mengun e...
- Dyrfjöllin að Hábraut 4 í Kópavogi - í bernskuupplifun minni
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 184
- Sl. sólarhring: 195
- Sl. viku: 753
- Frá upphafi: 127189
Annað
- Innlit í dag: 113
- Innlit sl. viku: 563
- Gestir í dag: 103
- IP-tölur í dag: 103
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.