4.9.2021 | 00:16
Gerir ást þín ekkert gagn? eftir Bob Dylan frá 1978, plötunni "Street Legal", þýðing og túlkun.
Hljómplatan "Street Legal" eftir Bob Dylan frá 1978 fjallar um heiðin trúarbrögð öðru fremur og þar eru heiðin goð hyllt í hverju lagi ef vel er að gáð, nema fáir hafa áttað sig á þessu. Hún er öll ort á dulmáli. Tarotspil leika stórt hlutverk í kvæðunum, og kristin tákn einungis notuð táknfræðilega, ekki trúarlega, þótt margir hafi flaskað á þessu, til dæmis David Weir. Til að skilja ljóðin á plötunni "Street Legal" þarf gríðarlega þekkingu á öllum trúarbrögðum.
Ég mun einungis fjalla um þennan texta yfirborðslega, voga mér ekki út á hitt hyldýpið án þess að sökkva. Það munu aðrir gera í tímans rás, og fjalla um hina texta plötunnar þannig líka, réttilega. Það eina sem ég vil segja er að allir hafa túlkað þennan texta rangt eins og aðra texta plötunnar, skilið kannski 1%, ekki meira.
Metoohreyfingin bandaríska er farin að ráðast á Bob Dylan, og því er vel við hæfi að fjalla um þann texta sem er mest í anda feðraveldisins eftir hann, "Gerir ást þín ekkert gagn?" frá 1978.
Þessi texti hefur mætt gagnrýni allar götur frá því hann kom út og platan öll, sem er þó án efa bezta plata Dylans, og er þó af ýmsu að taka, frábærar plötur í hrönnum eftir hann.
Hér er þýðingin yfir á óbundna íslenzku:
"Er ást þín raunveruleg eða eingöngu framlengd velvild? Þarfnastu mín til hálfs við það sem þú segir eða er þetta einungis sektarkennd? Ég hef brennt mig á ástinni áður og ég veit útá hvað hún gengur svo þú munt ekki heyra mig kvarta. Verð ég fær um að stóla á þig eða gerir ást þín ekkert gagn? Lætur þú svo stjórnast af holdsins fýsnum að þú skiljir ekki að ég þarfnast stundum einverunnar? Þegar ég dvel í rökkrinu, hvers vegna ryðstu þá inn? Þekkir þú veröld mína, þekkir þú tegund mína, eða neyðist ég til að útskýra? Muntu leyfa mér að vera eins og ég er eða gerir ást þín ekkert gagn? Jæja, ég verið uppi á fjallinu og ég hef verið í rokinu, ég hef farið inn og út úr gleðinni. Ég hef setið til borðs með kóngum og mér hafa verið boðnir vængir og ekkert af því hefur heillað mig svo mikið. Gott og vel, ég skal taka þessa áhættu og verða ástfanginn af þér. Ef ég er bjáni máttu hirða nóttina og morguninn jafnvel að auki. Getur þú matreitt og saumað, látið blómin vaxa? Skilur þú sársauka minn? Viltu hætta á það allt eða gerir ást þín ekkert gagn?"
Já, eins og venjulega hjá Dylan talsvert um ljóðmál, en þetta er samt einn af hans auðskildari textum, að langmestu leyti, og virðist jafnvel persónulegur, fjalla um hann sjálfan.
Þetta ljóð er kannski frægast fyrir línurnar:"Geturðu elskað og saumað, látið blómin vaxa?"
Sem sagt, þessar hugmyndir sem kynjafræðingar eru mjög andvígir.
Fátt af þessu þarfnast útskýringar með. Samt eru nokkuð ljóðræn atriði þarna sem kannski ekki allir gera sér grein fyrir.
"Ég hef verið uppi á fjallinu"... í návist Guðs eða eitthvað slíkt, fjallið er staðurinn þar sem Jesús Kristur predikaði, eða þar sem Guð var og guðirnir í heiðnum trúarbrögðum.
"Ég hef verið í rokinu"... verið umdeildur, verið í rokkheiminum, verið á milli tannanna á fólki, hataður og elskaður í senn sem frægur maður.
"Ég hef setið til borðs með kóngum"... páfinn lét hann spila fyrir sig, en það var reyndar seinna, en hann er að vísa í eitthvað af þvílíku tagi, einhver hefur sýnt honum virðingu, enda orðinn heimsfrægur fyrir löngu þegar hann samdi þetta, árið 1977 eða 1978. Popphetjur og íþróttamenn voru hálfguðir og eru jafnvel enn, nú af báðum kynjum, sem var sjaldgæfara þá.
"Mér hafa verið boðnir vængir"... erfitt að túlka þetta, en vængir tákna annað hvort að vera engill eða púki, púkar eru með svarta vængi og englarnir hvíta vængi, samkvæmt goðafræðinni um engla og púka.
Ég hallast helzt að því að Bob Dylan hafi spámannlega hæfileika og hafi í sínum beztu ljóðum fengið innblástur frá slíkum verum, enda eru sum kvæði hans leiðslukvæði og spádómsljóð, eins og ég hef farið yfir í mörgum pistlum um hans beztu verk.
"Ekkert af því hefur heillað mig svo mikið"... hann er að segja að hann sé þrátt fyrir allt í grunninn syndaselur og venjulegur maður, efnishyggjumaður sem sýnir spámannlegum og andlegum hæfileikum sínum ekki nema litla virðingu, notar þá til að auka frægð sína í bezta falli og sýna ákveðna yfirburði, þegar honum býður svo við að horfa, en hefur lítinn áhuga á að þjóna Guði í hvívetna, nema einstaka sinnum. Það átti þó eftir að breytast ári síðar er hann frelsaðist, og var heillaður af kristninni í tæp þrjú ár, til 1981, nema þá var hann reyndar talsvert mikið farinn að efast aftur og verða veraldlegur á ný, eins og þekkt er orðið, unz hann hallaði sér að gyðingatrúnni sem hann fæddist inní, eins og fjölskylda hans, árið 1983 með plötunni "Infidels".
Allt hitt er auðskiljanlegt öllum sem aðeins eða næstum ekkert pæla í textanum.
Nema viðlagserindið, sem er svolítið dýpra. "Gerir ást þín ekkert gagn?"
Þessi setning er svolítið lúmskt djúp, því samkvæmt Emanuel Swedenborg er sálin ekkert nema ást mannsins, eða hann segir að framlífið snúist um að hver maður gangi inní ást sína, það sem hann elskar, að allt umhverfið í framlífinu verði mótað af fýsnum mannsins, að hinn holdlegi fái konur og vellystingar en hinn andlegi maður samneyti við andlega spekinga, og vont fólk og eigingjarnt muni berjast við þesskonar fólk í Víti, þar muni egóin berjast með ægilegum sársauka.
Þetta er velþekkt guðfræði og sannfærandi. Bob Dylan kann með einföldum orðum að vísa í svona speki, en aðeins ef lesandinn eða áheyrandinn er nógu vel að sér í þessum fræðum. Sá sem vill túlka þetta sem einfalt ástarlag getur alveg eins gert það og látið hin fínni blæbrigði framhjá sér fara.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.1.): 48
- Sl. sólarhring: 53
- Sl. viku: 508
- Frá upphafi: 132176
Annað
- Innlit í dag: 44
- Innlit sl. viku: 403
- Gestir í dag: 41
- IP-tölur í dag: 39
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.