"Góði vinur", eftir Paul McCartney, á fyrstu Wings plötunni frá 1971, "Wild Life", þýðing, túlkun.

Þessi merkilegi texti er án nokkurs vafa skot á John Lennon og stórmerkilegur á marga lund.

Hann er merkilegastur fyrir það að hann er dæmi um það hvernig hægt er að taka árásum vel. Textinn er án efa svar við lagi John Lennons "How Do You Sleep?" fyrr frá árinu 1971, af plötunni "Imagine".

Ég tek undir þá gagnrýni að platan "Wild Life" er ekki vandlega unnin, en margt á henni er snilldarlegt engu að síður, ekki sízt þetta lag, sem er síðasta lag plötunnar.

 

Það sem mér finnst sérlega merkilegt við þennan texta er að Bítlinum fyrrverandi tekst þarna að búa til flóknar vísanir og líkingar, fínlegar aðdróttanir sem eru langt frá því að vera ruddalegar, og blanda þeim saman við allskonar hálfkveðnar vísur sem áheyrandinn eða lesandinn verður einn að ráða í. Þannig má segja að þetta sé eitt "dylanska" ljóð eftir Bítilinn Paul McCartney. Hann hefur margsinnis viðurkennt aðdáun sína á Bob Dylan og hvernig hann breytti lífi allra Bítlanna, en textagerð þó sérstaklega.

 

Á netinu má finna allskonar vangaveltur um hvor Bítillinn byrjaði á undan svona árásarsöngvum, en ef maður skoðar upplýsingar þær sem John Lennon gaf um lagið "How Do You Sleep?" sannfærist maður strax um það að árásargjarnari aðilinn átti upptökin, auðvitað John Lennon, því hann sagðist hafa byrjað að semja lagið 1969, áður en Bítlarnir hættu, og að spennan á milli þeirra tveggja hafi verið til frá upphafi.

 

Samkvæmt þessu samdi Paul ásamt Lindu sinni alla plötuna "Ram" sem svar við árásum John Lennons og gagnrýnenda almennt á hans tónlist, en þetta lag er afgangur af þeirri plötu, "Góði vinur".

 

Svona er þýðing textans:

 

"Góði vinur, hvað er klukkan? Er þetta virkilega jaðarinn? Skiptir þetta þig virkilega svona miklu máli? Ertu hræddur, eða er það satt? Góði vinur, fleygðu víninu, ég er ástfanginn af vini mínum. Í raun og sannleika, ungur og nýgiftur. Ertu bjálfi, eða er þetta satt? Hræðist þú, eða er það satt?"

 

Síðan er þessi texti margendurtekinn og lagið er býsna langt miðað við svona stuttan texta.

 

Mér finnst þessi stutti texti snilld, hann er svo margræður að það er alveg með ólíkindum. Hann minnir á beztu verk Dylans.

 

Þrátt fyrir að John Lennon hafi fengið betri útreið hjá gagnrýnendum á þessum tíma var það ekki alveg réttlátt. Hann var fullur af minnimáttarkennd, sennilega allt sitt líf til enda þess, þrátt fyrir að vera hæfileikabúnt.

 

Sá orðrómur að Lennon hafi verið betri textahöfundur en McCartney er þvæla, lygi og vitleysa. Báðir voru þeir svipaðir textahöfundar, einstaka sinnum tókst Lennon vel upp í textum, einnig McCartney. Þeir gerðu mest af léttum ástarsöngvum, en mér finnst McCartney oftar hafa tekizt að búa til flókna og ljóðræna texta. Það tókst Lennon þó reyndar nokkrum sinnum líka.

 

"How Do You Sleep?" er sérlega ósmekklegur og ruddalegur texti í garð félagans úr hljómsveitinni, grímulaus árás.

 

Þessi texti er bæði sáttartilraun og einnig þó árás, jafnvel mun lúmskari en sú sem Lennon gerði.

 

Sennilega hafa þeir báðir glímt við ótta við samkynhneigð eins og flestir af þeirra kynslóð, og þessvegna eru þessar fyndnu og margræðu setningar í textanum einhverskonar ástarjátning Pauls til Johns en bara á þannig máli að það má skiljast á alla vegu.

 

"Hvað er klukkan?" er einföld setning og almenn sem hefur margræða merkingu í þessu sambandi. Með spurningunni er Paul að spyrja John hvort traustið á milli þeirra sé að hverfa, þannig má ráða í þetta, að dagslokin þýði önnur endalok og meiri.

 

"Góði vinur", titill lagsins og margendurtekinn frasi er einnig setning sem er margræð. Í ljósi setninganna sem ýja að hugsanlegum samkynhneigðum kenndum hjá báðum eða öðrum er þetta ávarp mjög margrætt, sem túlka má á ýmsan hátt. Einnig felst í þessu sáttaboð, því þetta er auðvitað vinsamlegt ávarp og kærleiksríkt í alla staði. "Sá vægir sem vitið hefur meira", hann hefur haft eitthvert slíkt orðtak í huga, sennilega, þegar hann samdi þetta.

 

"Er þetta virkilega jaðarinn?" Hvaða jaðar skyldi það nú vera? Er það jaðar vináttu þeirra félaganna, eða takmörk taugakerfa þeirra og annarra? Er hann að spyrja hvort vináttan þoli ekki hégómleikann eða aðra mannlega bresti, hvort mannlegir lestir vegi þyngra en dyggðir og kostir mannskepnunnar? Þessi jaðar getur verið ótalmargt, en þetta er það sem liggur beinast við. Virkilega gott ljóð og margrætt sem hægt er að túlka á ýmsa vegu.

 

"Skiptir þetta þig virkilega svona miklu máli?" er næst í ljóðinu.

 

Hann er að fjalla um hégómann og minnimáttarkenndina sem birtist í verki Lennons, "How Do You Sleep?" Þegar Lennon syngur um að Paul hafi í rauninni ekkert gert nema "Yesterday" er hann í raun að túlka það gagnstæða, að honum finnist lög Pauls vera fremri sínum. Ég er raunar ekki endilega alveg sammála því, þar sem þeirra hæfileikar hafa verið býsna svipaðir, tveir mjög hæfileikaríkir tónlistarmenn.

 

"Ertu hræddur, eða er þetta satt?"

 

Þarna verða málin enn flóknari. Hræddur við hvað og hvað er satt?

 

Sumir hafa sagt og sennilega réttilega að í Yoko Ono hafi John Lennon fundið mömmu sína, hún var eldri en hann eftir allt saman og mjög sterkur persónuleiki sem dáleiddi Lennon. McCartney hefur sennilega skynjað þetta.

 

Lagið "Help" eftir John Lennon kom út 1965, sem hluti af Bítlaefni. Það var eitt fyrsta táknið um að John Lennon væri að fá taugaáfall út af frægðinni og álaginu hennar vegna.

 

Síðan má rekja lög Lennons eftir þetta og sýna fram á þetta sama. "Nowhere Man", "I'm Only Dreaming", "Doctor Robert" , "Tomorrow Never Knows", "Good morning, Good morning", og þannig mætti lengi telja.

 

Kaldhæðnin sem örlaði á áður verður allsráðandi hjá honum. Aðeins með Yoko Ono fær hann hugarhægð.

 

Spurningin "Ertu hræddur?", á við þetta, sennilega.

 

Hin spurningin í línunni, "Eða er þetta satt?" er öllu flóknari.

 

Það hefur löngum verið talið að neikvæðni frá hinu kyninu geti verið dulin ástarjátning.

 

Þessvegna byrjar Paul þarna í textanum í gríni eða alvöru að ýja að samkynhneigðum tilfinningum milli þeirra, eða þó sérstaklega frá John í sinn garð.

 

"Góði vinur, fleygðu víninu, ég er ástfanginn af vini mínum".

 

Hér heldur hann áfram á sama hátt. Allri neikvæðni Lennons er slegið upp í grín, eða ályktun þess efnis að þetta séu kynferðislegir órar Lennons í sinn garð.

 

Einnig er mögulegt að "friend" eigi við um Lindu McCartney, því vinir geta verið af báðum kynjum. Einnig er hægt að taka þetta auðvitað sem ástarjátningu Pauls í garð Johns, eða eitthvað allt annað. Allur textinn er þannig mitt á milli gamans og alvöru að það er erfitt að vera viss.

 

Þetta er allt fullt af margræðni, og er ennþá merkilegra fyrir vikið.

 

"Í raun og sannleika, ungur og nýgiftur".

 

Þeir voru báðir tiltölulega nýgiftir, en í þessu sambandi verður þetta ennþá margræðara, því báðir áttu þeir eiginkonur en voru ekki hvor giftir öðrum. Sennilega má taka þetta enn sem mjög snjalla kímni, með kannski vott af sannleika í líka.

 

"Ertu bjálfi, eða er þetta satt? Hræðist þú, eða er þetta satt?"

 

Þarna held ég að Paul McCartney sé loksins að tala við sjálfan sig eða syngja til sjálfs sín. Lennon heldur því fram að hann sé bjálfi í sínu lagi, og þarna spyr Paul sig loksins að því íhugandi hvort Lennon geti haft rétt fyrir sér, með sömu orðum og hann beindi til félagans fyrrverandi að hluta til.

 

Orðið "bjálfi" er orð sem McCartney beinir algjörlega til sjálfs sín, held ég, í þessu lagi. Hann var nefnilega talinn einfeldningur af pressunni, barnalegur ástarsöngvari en ekki alvarlegur þjóðfélagsþenkjandi, vinstrisinnaður eins og John Lennon. Léleg krídíkin sem hans plötur fengu hafa orðið kveikjan að laginu ásamt árásum Lennons í sama dúr, sem Lennon þó vildi segja að væru góðlátlegar, í viðtölum seinna. Sennilega hefur það verið rétt.

 

Þá spyr Paul sig hvort hann hræðist eitthvað eða hvort hann beri margræðar tilfinningar til Johns, býst ég við að túlka megi þessar síðustu línur ljóðsins.

 

Einnig eru þessi margræðu orð að túlka ótta McCartneys við að vera léttvægur og ómerkilegur lagahöfundur í samanburði við Lennon. Hann hinsvegar skilur þetta eftir í lausu lofti sem spurningar, án þess að svara þeim, og í því er falin hógværð McCartneys, hann neitar að taka þátt í sandkassaleik ásakana í garð Lennons, en spyr svona fyndinna og margræðra spurninga.

 

Þrátt fyrir allt er lag Lennons einnig ágæt tónsmíð, "Ho Do You Sleep?", nema það lýsir hans árásartaktík í hnotskurn en þetta lýsir árásartaktík McCartneys í hnotskurn, miklu frekar.

 

Öll "Imagine" plata Lennons er full af minnimáttarkennd, til dæmis lagið "Crippled Inside" sem væntanlega er einnig beint að honum sjálfum, en hann skrifaði og samdi mest um sjálfan sig sem sólólistamaður, og svo Yoko auðvitað.

 

Þrátt fyrir allt tek ég undir það að Paul McCartney hefði átt að semja miklu fleiri lög fyrir þessa plötu og lengja textana og gera lögin flóknari með milliköflum. Platan er öll gróf og hráunnin, en full af snjöllum textum og lögum engu að síður, þannig að hún er býsna góð þrátt fyrir allt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.3.): 179
  • Sl. sólarhring: 222
  • Sl. viku: 1147
  • Frá upphafi: 141076

Annað

  • Innlit í dag: 121
  • Innlit sl. viku: 853
  • Gestir í dag: 114
  • IP-tölur í dag: 112

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband