Þegar fyrsta Macintosh tölvan kom á markaðinn árið 1984 var það bylting. Þessi litla og netta tölva varð strax umdeild, öflug en lítil. Andstæðingar hennar, sem notuðu önnur stýrikerfi, Bill Gates þeirra sterkastur, héldu því fram að hún væri aðeins fyrir börn og unglinga sem spiluðu tölvuleiki. Samt sannaði hún sig sem geysivinsæl tölva fyrir almenning og sérfræðinga með tímanum.
Byltingin fólst í notendavænna umhverfi, en fyrst og fremst í WYSIWYG, (What you see is what you get). DOS og Windows notendur horfðu á sína grænu skjái og þurftu að þekkja svolítið í forritunarmáli til að prenta og sjá um sína tölvuvinnslu, það var ekki fyrr en löngu seinna sem Windows náði Macintosh í notendavænni birtingu á skjánum, og þá með því að gera samninga við Apple og Macintosh - eða stela úr þeirra ranni eins og einn maður orðaði það sem ég þekki.
Á vissan hátt má segja að Macintosh hafi dáið - en samt ekki árið 1998 þegar byrjað var að skipta út sérkennandi einkennum og aukatækjum Macintosh fyrir sameiginleg aukatæki í Windows (Bill Gates) heiminum, USB lyklaborð og mýs, prentara og annað, og PPC örgjörvinn búinn að leysa 68k örgjörvann af hólmi. Imakkinn sem sló í gegn var ein fyrsta afurðin í þeirri nýju línu. Kannski óhjákvæmilegt til að auka vinsældir þessara tölva, en fórnarkostnaðurinn var mikill.
Það er svo margt frábært við fyrstu makkana frá 1984 til 1995, með 68k örgjörvana. Fyrir það fyrsta er það tölvumúsin sem er eingild en ekki tvígild. Tvígild tölvumús er með tvo smellitakka, annan fyrir val og hinn fyrir aukaval. Það finnst mér óþarfi og er Windows eftirhermueinkenni.
Hægt var að kaupa teiknibretti í staðinn fyrir þessar eingildu tölvumýs, þar sem hægt var að teikna með rafpenna á spjald og útkoman var nákvæmlega eins og með blaði og penna. Adobe Photoshop var upphaflega hannað algjörlega frá grunni í Macintosh tölvum um 1990.
Tónlistarforritin voru annáluð fyrir gæði í þessum fyrstu Macintosh tölvum.
Ritvinnsluforritin fyrstu voru einföld og snjöll, og blómaskeiðið var fram til 1994 þegar PPC örgjörvinn fór að birtast.
Seinni tíma ritvinnsluforrit urðu flókin og hægvirk. Að lokum fór svo að Bill Gates og Microsoft Word drápu næstum alla samkeppni, og í fjölmarga áratugi hefur Office Mac (Microsoft merki) verið næstum allsráðandi í Apple tölvum þegar kemur að ritvinnslu, en ClarisWorks, AppleWorks og loks Pages átti að koma í staðinn, en náði aldrei slíkum vinsældum.
Hvað varð til þess að Microsoft Word varð svona vinsælt ritvinnsluforrit í Macintosh tölvum?
Ef maður ætti að nefna eitt forrit, þá var það Microsoft Word 5.1 fyrir Mac, sem kom á markaðinn árið 1992. Það var hraðvirkt og það var fullkomið, hægt var að bæta við valblöðin og einfalda þau, því forritið var þannig hannað, einstakt.
Þrátt fyrir að Word 6.0 árið 1994 hafi verið erfitt í vinnslu var það um seinan fyrir önnur fyrirtæki, þau höfðu tapað það miklu í samkeppninni að þau höfðu gríðarlega mörg orðið gjaldþrota eða keypt af stærri fyrirtækjum þannig að mjög fá merki voru eftirlifandi þegar Imakkinn birtist 1998.
Það er samt einföldun að segja að Microsoft Word hafi fengið markaðsráðandi stöðu á ritvinnslumarkaðnum fyrir Macintosh tölvur vegna gæðanna einna.
Áhugaverðasta þróunin átti sér stað árin á undan, frá 1985 til 1991, þegar Microsoft Word 5.0 kom á markaðinn og fór að ýta öðrum fyrirtækjum útí kuldann og gjaldþrotin.
Fyrsta útgáfan af Microsoft Word fyrir Macintosh kom árið 1985, það var Word 1.0. Bill Gates sá strax markaðsmöguleikana, og þar sem DOS var leyst af hólmi fyrir Windows um svipað leyti er talað um að samningar hafi náðst á milli Bill Gates og Steve Jobs um forrit fyrir Macintosh í skiptum fyrir framleiðsluleyndarmál sem bætt gætu DOS stýrikerfið og fæddi af sér Windows á árinu 1985.
Ég hef safnað Macintosh tölvum og forritum og þess vegna hef ég einnig áhuga á þessari sögu.
Microsoft Word 1.0 og 1.05 er aðeins hægt að nota í fyrstu svarthvítu Macintosh tölvunum, 128, 512, Plus, Classic og SE. Í raun er það fátt sem skilur þetta forrit frá öðrum ritvinnsluforritinum fyrir Macintosh á þessum tíma og að sumu leyti er það hægvirkara og ómerkilegra, en það verður þó að teljast með fleiri valmöguleika en þau flest.
Strax með Microsoft Word 3.0 fyrir Macintosh árið 1987 tóku vinsældirnar stökk og enn meira stökk árið 1989 þegar útgáfa 4.0 kom og 1991 þegar útgáfa 5.0 kom.
Samt voru miklu betri forrit í boði þá, eins og WriteNow 1.0 og 2.0, sem Steve Jobs átti þátt í að hanna og FullWrite Professional, og mörg fleiri, sem voru hraðvirkari og bendillinn fór strax á réttan stað, eftir Macintosh stöðlum, sem Bill Gates og Microsoft fylgdu ekki, þannig að nauðsynlegt var að ýta á takka á lyklaborðinu til að finna þann stað þar sem síðast var unnið í skjalinu, og það er þannig enn með Microsoft Office.
Stilliáhrif frá Windows notendum tel ég að hafi valdið mestu um sigur Microsoft forritanna á Macintosh stýrikerfunum. Af því að svona margir voru að nota þessi forrit í Windows heiminum (90% árið 1986 og árin á eftir), þá þótti fólki auðveldara að nota Word í Mac, til að skiptast á gögnum með mjúkum disklingum (floppy) við annað fólk.
Þetta er "The Winner Takes It All" syndrómið sem Abba söng um - að sigurvegarinn hirðir meira en honum er ætlað, fer að kúga keppinautana í krafti stærðar sinnar.
Engu að síður hefur Mac umhverfið orðið meira ráðandi á allra síðustu árum, því eitt hefur aldrei breyzt á öllum þessum áratugum að metnaður og gæði hafa verið aðalsmerki hjá Apple fyrirtækinu. Finnst mér að vísu einokunartilburðirnir orðnir svívirðilega miklir í sambandi við að hafa kóðana lokaða og einkaleyfaeinokunin ráðandi.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 35
- Sl. sólarhring: 43
- Sl. viku: 538
- Frá upphafi: 132110
Annað
- Innlit í dag: 30
- Innlit sl. viku: 432
- Gestir í dag: 28
- IP-tölur í dag: 28
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.