Ég tel nú að popptexta almennt megi meta að verðleikum meira en gert er, ekki aðeins þessa sem eru eftir Bob Dylan. Það er alveg hægt að taka hvaða popptexta sem er og hluta sundur sem ljóð sem þarf túlkunar við, eins og ljóðin sem eru í ljóðabókunum.
Hér ætla ég að brydda uppá þeirri nýbreytni að koma með söngtexta eftir Bítilinn fyrrverandi Paul McCartney og meðhöndla sem ljóð, af plötunni "Pipes Of Peace" frá 1983, sem George Martin útsetti einmitt, eins og Bítlaplöturnar forðum daga.
Mér finnst raunar báðar plöturnar sem Paul gerði með George Martin alveg prýðilega góðar, og þó "Tug Of War" frá 1982 enn betri, eins og flestir eru mér sammála um.
Svona er lausleg þýðing alls ljóðsins yfir á íslenzku:
"Nú jæja, þau geta meðhöndlað þig eins og bróður. Jamm, þau geta látið eins og þú sért trúður. En ef þau láta eins og þú sért elskandi þá fá þau ljúfustu smáskemmtunina í bænum. Þið fáið ljúfustu smáskemmtunina... ljúfustu smáskemmtunina í bænum!
Þú hefur verið í bransanum býsna lengi, en þú ert enn eftirsóttur upp að einhverju marki. Og ef þau gera tilraun til að rakka þig niður og gera lítið úr þér skaltu reyna að vera fyndinn og láta þau brosa.
Og ef þau meðhöndla þig eins og bróður muntu aldrei svíkja þau, en ef þau fara með þig eins og elskanda fá þau ljúfustu smáskemmtunina í bænum. Þau hafa fengið ljúfustu smáskemmtunina... ljúfustu smáskemmtunina í bænum!
Þið fenguð ljúfustu smáskemmtunina... ljúfustu smáskemmtunina... ljúfustu smáskemmtunina í bænum.
Sóló.
Þú fékkst ljúfustu smáskemmtunina... ljúfustu smáskemmtunina..."
Ekki kannski mikið bókmenntaþrekvirki útaf fyrir sig, en samt skemmtilegt lag og texti með boðskap og innihald.
Paul McCartney hefur alltaf verið talinn verra ljóðskáld en John Lennon, kannski að ósekju, en það sést svo sem af þessu litla ljóði að metnaður hans liggur frekar í lagasmíðunum. Samt hefur hann búið til góða texta, sem því sé haldið til haga.
Hver er þá boðskapur verksins og hvernig er hægt að túlka það?
Ég tel að það sé alveg pottþétt að þetta er sjálfsævisögulegt verk eftir Paul McCartney, eins og kannski flest hans verk. Hann er að yrkja um sjálfan sig og sitt líf, eða leggja út af eigin tilfinningum og túlka þær enn frekar, eins og sennilega flestir tónlistarmenn gera, nema stórskáld eins og Bob Dylan, enda hefur hann fengið Nóbelsverðlaunin fyrir framlag sitt til bókmenntaheimsins, og er vel að þeim kominn svo sem eftir margvísleg afrek sín á því sviði.
"Ljúfasta smáskemmtunin" er hógvær lýsing hans á eigin tónleikum.
Hann er að yrkja um það hvernig hann fækkaði tónleikum og frestaði þeim eftir að John Lennon var drepinn undir lok ársins 1980. Hann er einnig að yrkja um samband sitt við John Lennon og um þá gagnrýni sem hann hefur fengið sem lélegt textaskáld allan sinn tónlistarferil. Það er alveg augljóst, þetta er ekki torvelt verk að túlka, svo mikið er víst.
Hann er að segja með þessu ljóði að hann sé tilbúinn að spila á tónleikum ef fólk fær hann til þess, eða þannig er auðveldast að túlka verkið.
Þó er það býsna sláandi að hann spilaði ekkert á tónleikum á þessum árum og það var yfirlýst stefna hans, eftir að John Lennon var drepinn, allt til ársins 1989, fyrir utan staka tónleika eins og Live Aid 1985, til dæmis.
Ég held að þetta sé eina skýringin á þessu ljóði sem er mjög trúverðug. Nema ef hann er að syngja þetta til kvenna, að þær verði að vera honum góðar til að hann þýðist þær, það er auðvitað alltaf klassíska skýringin með alla eða flesta söngtexta.
Í enskunni eru línur svona "You've been around a long time", ég þýði það sem bransann, samkvæmt þessari skýringu og túlkun á boðskapnum.
Það er alla vega langsótt að ætla að skýra þetta á annan hátt en hér er gert. Það er einna algengast í öllum ljóðum og kveðskap að höfundurinn eigi eintal við sig, ávarpi sjálfan sig og reyni að kenna sér eitthvað, ávíta sig, hrósa sér, eða læra af einhverju, eða sé að tala til einhvers nákomins, eiginkonu eða manneskjunnar sem hann er ástfanginn af eða hefur áhuga á, lítinn eða mikinn.
Allt í þessu ljóði passar við reynslu McCartneys sjálfs á þessum tíma. "Þú hefur verið í bransanum lengi" (Bítlarnir byrjuðu fyrir 1962, þannig að tuttugu ár teljast kannski langur tími).
"Þú ert enn eftirsóttur upp að einhverju marki". Það passar, vinsældir hans höfðu ekkert dvínað á þessum tíma að ráði. Þetta er jafnvel mjög svo hógvær athugasemd sem hann gerir um sjálfan sig.
"Ef þau gera lítið úr þér". Þetta passar líka. Paul McCartney var oft rakkaður niður af gagnrýnendum, fyrir lélega texta, samt ekki alltaf.
"Skaltu reyna að vera fyndinn". McCartney er þekktur sem skapgóður maður, sem tók gagnrýni Lennons brosandi, en svaraði honum samt í textum og lögum sem hann gaf út, og sennilega er í þessum texta slíkt svar til Lennons, þótt hann hafi verið látinn þegar þetta var ort. Hann var enn í andlegu sambandi við sinn gamla félaga og samstarfsmann, Paul McCartney.
"Ljúfustu smáskemmtunina". Paul McCartney hefur sama viðhorf til skemmtanabransans og til dæmis Björgvin Halldórsson, að hann sé að skemmta fólki en ekki kenna því eitthvað eins og Woody Guthrie og Bob Dylan hafa talið sig gera, samkvæmt túlkendum verka þeirra.
"Þau geta látið eins og þú sért trúður". Þetta er eiginlega endurtekning á því sama, að fólk taki hann ekki alvarlega sem tónlistarmann því hann sé alltaf svo léttur og skemmtilegur. Hann svarar því með því að jákvæðni sé eina svarið, að kærleikurinn sé það eina sem skipti máli þegar upp er staðið. Það hefur verið hans boðskapur frá upphafi, með fáeinum undantekningum, og boðskapur allra Bítlanna, býst ég við, ekki síður Lennons.
Paul McCartney er einn af mínum uppáhaldstónlistarmönnum eins og hinir Bítlarnir líka. Ég vil ekki halda því fram að textarnir hans séu lélegir og ekki verðugir túlkunar, þótt hann hafi ekki fengið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum eins og Bob Dylan.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Það er sama hvað gerist, sjálfseyðing Vesturlanda er á sjálfs...
- Ekkert eða fátt breytt? Hlutverkaleikur? Inga Sæland í gervi ...
- Spænska veikin var af fuglaflensustofninum. Þessa sýkingu þar...
- Okkar vestræna þjóðfélag sem Nató-Kata og Nató-Þórdís Kolbrún...
- Eins og í Bandaríkjunum þarf stuðning þeirra sem ættaðir eru ...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 68
- Sl. sólarhring: 187
- Sl. viku: 752
- Frá upphafi: 129867
Annað
- Innlit í dag: 62
- Innlit sl. viku: 573
- Gestir í dag: 58
- IP-tölur í dag: 58
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.