17.7.2021 | 00:05
Táknmál eftir Bob Dylan, túlkun á fjórða erindinu.
Þetta er í raun síðasta erindi ljóðsins, því næstu erindi eru endurtekningar á erindum númer eitt og tvö sem ég er þegar búinn að fjalla um.
Ég er búinn að rekja það hvernig þetta kvæði virðist lýsa mjög svo hversdagslegum atvikum á yfirborðinu, en samt nokkuð undarlegu orðavali í sambandi við þau. Annað hvort hefur því höfundurinn slegið til höndunum og slegið slöku við, ellegar þá að hann er svona yfirmáta vandvirkur í orðavali á vel útfærðu ljóði í dulmálsstíl.
Svona er íslenzkan:
"Link Wray var spilandi, ég var greiðandi í glymskrattann fyrir orðin sem ég var segjandi svo misskilin. Hann gerði mér ekkert gagn."
Lengra er þetta erindi ekki. Allt mjög snubbótt og snaggaralegt eins og kvæðið allt.
Margir hafa hunzað þetta kvæði alveg þegar verið er að fjalla um kveðskap Dylans og verk hans, því hann hefur ekki sjálfur sinnt um að syngja það á tónleikum og það er ekki til í hans útgáfu, nema í þessum dúet með Eric Clapton frá 1976 sem minnzt var á áður.
Engu að síður held ég mikið uppá þetta. Dylan er ævisögulegur höfundur, jafnvel þótt hann sé alvöru skáld sem kann að klæða líf sitt í skáldlegan búning og líkingamál. Um leið og hann notar atvik úr eigin lífi býr hann til listaverk og fjölskrúðug verk með mörgum litum, eða eins og málarar á borð við Rubens og Van Gogh, litadýptin er mikil og táknmálið auðugt, nema á kristilega skeiðinu 1979 til 1981 og poppfroðuskeiðinu frá 1984 til 1989.
Link Wray var bandarískur tónlistarmaður sem fæddist 1929 og lézt 2005 76 ára gamall. Hann er af mörgum og kannski flestum talinn "eins hittara maður", þótt hann hafi gefið út meira á löngum ferli.
Hann er frægastur fyrir lagið "Rumble" sem er frá 1958, og er hljóðfært, eða instrumental eins og sagt er á vondri íslenzku. Lög án söngs og aðeins með hljóðfærum er rétt að kalla hljóðfærð lög, af orðinu hljóðfæri, sem eru þar í aðalhlutverki.
Link Wray er þekktur fyrir að hafa verið áhrifavaldur mikilla tónlistarmanna, ekki sízt í þungarokkinu. Hann var einn af þeim fyrstu sem kynntu til sögunnar bjagaða gítarhljóma og orkuhljóma svonefnda (power cords), sem vinsælir hafa alltaf verið í pönki, þungarokki, glysrokki og dauðarokki.
Jimmy Page, Iggy Pop og Neil Young hafa allir nefnt hann sem mikinn áhrifavaldi í tónlistarsköpun sinni. Bob Dylan og Bruce Springsteen spiluðu báðir lagið "Rumble" á tónleikum honum til heiðurs er hann lézt árið 2005, sem merkir að þeir hafa einnig talið hann áhrifavald á sína tónlistarsköpun.
Nú er það alls ekki ljóst hvers vegna í ósköpunum Bob Dylan notar nafn hans í þessu mjög svo dularfulla kvæði, og það eykur á dulúð þess frekar en að útskýra eitthvað.
Hitt er alveg ljóst að mjög líklegt er að þetta sé lýsing á hans eigin lífi, eða æsku. Hann hefur verið 17 ára eða þar um bil þegar lagið "Rumble" kom út og þá voru einmitt glymskrattar geysivinsælir á börum, veitingahúsum og í sjoppum.
Þá vaknar spurningin hvort allt þetta kvæði fjalli um æskuatvik sem Bob Dylan lenti sjálfur í. Það kann að vera.
Það er fleira sem þarf að athuga við að nefna Link Wray þarna. Hann var af Shawnee ættum, sem er einhverskonar indíánaættbálkur í Ameríku. Hann lýsti því oft sjálfur hvernig hann og fjölskylda hans lentu í kynþáttafordómum margsinnis á þessum árum fyrir miðja tuttugustu öldina og langt fram eftir ævinni. Hljómplatan "Desire" sem kom út 1976 en var hljóðrituð 1975 fjallar öll meira og minna um minnihlutahópa í Bandaríkjunum, ofsótta útlaga og glæpamenn, eða kynlega kvisti. Ef þetta lag var afgangslag af þeirri plötu skýrir það eitthvað um þessa tilvitnun.
Engu að síður er ekki hægt að skýra þetta lag út frekar með þessari tilvitnun, því lagið virðist varla fjalla um nokkurn skapaðan hlut, nema undarleg samskipti, sem ekki verða skýrð fullkomlega.
Annars er hægt að skýra þetta á annan hátt. Tíðarandinn 1958 var svolítið annar en 1975. Kannski hefur Bob Dylan gert sér grein fyrir því að ástæðan fyrir deilunum við eiginkonuna var mismunandi uppeldi kynjanna, og vel að merkja voru ýmsar bylgjur femínisma búnar að ríða yfir bandarískt samfélag á þessum tíma þótt hið íslenzka samfélag hafi verið fremur grænt í þeim efnum. Þannig kann Link Wray í huga hans að hafa tengzt feðraveldinu og sjónarmiðum sem konan hans var ekki sátt við, mögulega. Sérstaklega í ljósi síðustu línunnar: "Hann gerði mér ekkert gagn". (Eða hann hjálpaði mér ekkert, var ekki góð fyrirmynd, eða vísaði mér ekki á rétta leið, eitthvað slíkt).
Annars eru þetta bara vangaveltur og skýringarnar á þessu kunna að vera einhverjar allt aðrar.
Ég hef í fyrri pistlum minnzt á þá útskýringu að þetta ljóð kunni að vera lýsing á upplifun einstaklings sem geimverur hafa rænt og skilað aftur, sem man aðeins brot af reynslu sinni, eins og oftast gerist.
Það passar við þessi orð líka, vegna þess að geimverurnar raða minni hinna rændu oft upp á nýtt og búa til hálfgert ofskynjunarmynstur, og tjá sig með minningabrotum manneskjunnar sem brottnumin er.
Hins vegar er þetta aðeins enn ein skýringatilraun á þessu ljóði. Hún gæti bætt við heildarskilninginn, en það vantar fleiri orð og fyllri lýsingar til að hægt sé að komast áfram með einhverri vissu. Ljóðið er svo stutt og fátæklegt að maður verður áfram í vafa sama hvað skýringatilraunir eru reyndar.
Þó er þarna línan "Svo misskilin(n). Með þessum orðum gæti hann átt við að orðin sem hann sagði hafi verið misskilin eða hann sjálfur verið misskilinn, en það kemur auðvitað útá eitt.
Þó er ágætt að fá þessa lýsingu þarna, þessa stuttu setningu. Hún bendir til þess að hlutverkunum sé snúið á hvolf, að hann sé að lýsa sjálfum sér sem manni sem á erfitt með að tjá sig og noti táknmál, að hann sé að kveða þetta við sál sína, sjálfan sig, setja ofaní sál sína og sjálfan sig.
David Weir heldur þessu oft fram í túlkunum sínum á kvæðum Dylans. Ég er yfirleitt ósammála honum. Í þessu kvæði vil ég samt halda þessu opnu að þetta geti verið skýring á þessu kvæði.
Ef þetta er hin rétta skýring er ekkert yfirnáttúrulegt við þetta ljóð. Þá er þetta einföld upprifjun á æskuatviki, þar sem frávarp er notað, eigin vantmetakennd er varpað yfir á aðra eins og algengt er. Vantmetakennd skrifa og ég segi, ekki vanmetakennd. Það er eitt það versta af djöflunum og tröllunum að vera með þetta goðlast í garð Vana, sem eru goð gnægtarinnar. Að færa þau aftur á þeirra rétta stall er stórt og nauðsynlegt skref í lífstefnuáttina með því að leiðrétta þessa gömlu villu, vant- forskeyti, sem merkir skort, en van- forskeyti sem merkir gnægð.
Nú, aftur að kvæði Dylans. Er hin yfirnáttúrulega skýring þá úr sögunni fyrst hægt er að skýra þetta á ævisögulegan hátt? Um það vil ég ekkert fullyrða endanlega. Ljóð eru persónuleg upplifun, bæði að lesa þau og skrifa. Ljóðaskýringar geta hjálpað uppá skilninginn, en endanleg túlkun er hvers og eins.
Að lokum vil ég segja að þetta kvæði er með þeim betri eftir Dylan. Hann nefnilega skilur eftir nægilegt rúm fyrir sjálfsgagnrýni, sem hann því miður gerir ekki í öllum verkum sínum, ef þau snúast um "fingurbendandi boðskap", eins og hann orðar það, eða ávítandi boðskap, skammarræður, heimsósómakveðskap, var þetta kallað á Íslandi einu sinni fyrr á öldum.
Heildarboðskapurinn er nefnilega sígildur, að samskiptavandamál þarf að leysa, bæði milli einstaklinga og þjóða. Síðasta lína þessa kvæðis er frelsunarsetningin: "Hann var ekki góð fyrirmynd". Sá sem temur sér þetta viðmót hefur gert sitt bezta til að vera auðmjúkur í samskiptum við aðra.
Til þess að breytast þurfum við nefnilega að viðurkenna gallana við hetjurnar okkar, eða fyrirmyndir okkar. Samt hefur okkar nútími ekkert endilega rétt fyrir sér eða áhrifavaldar okkar nútíma.
Enn fremur er hægt að halda áfram svolítið meira. Hann lýsir því að hann hafi verið "greiðandi" í glymskrattann. Á íslenzku kemur þetta sérlega skemmtilega út, því orðið glymskratti er svo lýsandi, gamla fólkið þoldi ekki þessi óhljóð sem voru svo ólík blíðu baulinu í beljunum sem það þekkti.
Sögnin að greiða eða borga í þessu sambandi er mjög lýsandi. Við erum alltaf að halda púkunum uppi í sál okkar, við erum að borga okkar eigin djöflum og halda þeim á lífi með hinum eða þessum hættinum.
Svo er þarna annað furðulegt sem erfitt er að skýra. Hvers vegna segir skáldið að hann hafi borgað fyrir orðin sem hann sjálfur var að segja, en ekki söng Link Wray eins og eðlilegt hefði talizt?
Þetta get ég raunar ekki útskýrt, því þetta er þversögn.
Forsetningin "for" sem þarna er notuð getur reyndar einnig þýtt þar sem eða með. "Með orðunum var ég að borga í glymskrattann" er hægt að þýða þetta, nema það verður enn óskiljanlegra.
Einnig getur þýðingin verið "Ég greiddi í glymskrattann þar sem orðin sem ég mælti voru svo misskilin". En þetta er líka ruglingslegt.
Annars ef úrfellingarmerki hefði staðið fyrir framan "for" hefði þetta verið skiljanlegra, þá hefði merkingin verið: "Ég borgaði í glymskrattann áður en ég sagði orðin sem voru svo misskilin". Úrfellingarmerkið vantar og það skapar vandræði í merkingunni. Það þekkist að "before" er stytt í "'for".
Eins og þetta kemur fyrir í textanum er þetta ennþá klúðurslegra og óskiljanlegra.
Nú ber þess að geta að oft párar Dylan texta sína niður rétt áður en hann tekur upp lögin, eða hann gerði það reyndar oftar hér áður fyrr, nýlegri textar eru miklu vandaðri langflestir.
Þess vegna er mögulegt að hann hafi gleymt úrfellingarmerkingu í því handriti textans sem notað hefur verið sem fyrirmynd að eftirskriftinni sem þekkt er. Þó er það fremur ólíklegt, því mér skilst að Dylan beri sjálfur ábyrgð á því sem birtist eftir hann á prenti, að hann fari yfir það allt áður en það er birt.
Nema hér komi önnur skýring til greina. Kannski endurtók hann línur úr textanum, ef um var að ræða sunginn texta. Þá voru sömu orð sem söngvarinn söng í glymskrattanum og hann notaði og voru misskilin. Ýmsar skýringatilraunir koma vissulega til greina í þessu máli, og ég held að ég hafi velt við öllum steinum, eftir megni að minnsta kosti.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.1.): 45
- Sl. sólarhring: 83
- Sl. viku: 495
- Frá upphafi: 132228
Annað
- Innlit í dag: 40
- Innlit sl. viku: 393
- Gestir í dag: 39
- IP-tölur í dag: 39
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.