Um Ráðgátur, Star Trek og fleiri spennandi sjónvarpþætti.

Um langt árabil var framhaldsþátturinn Ráðgátur í uppáhaldi hjá mér. Svo kom að því að þættirnir urðu minna spennandi og minna sannfærandi, í sjöttu til níundu þáttaröð.

Chris Carter bjó til þættina, eða það er að segja var handritshöfundur í upphafi og hugmyndafræðingurinn á bak við þættina, en hafði aðra handritshöfunda með sér.

Þegar míníseríurnar voru sýndar frá 2016 - 2018 urðu margir aðdáendur fyrir vonbrigðum, en ekki allir samt. Þættirnir strönduðu á tveimur skerjum, Gillian Anderson sem lék Scully hætti að vilja leika í þáttunum og vinsældir þáttanna minnkuðu. Samt er áhugi fyrir þeim ennþá og kannski verða þeir endurræstir með nýjum leikurum, hver veit?

Disney hefur eignazt réttindi þáttanna eins og svo fjölmargt annað skemmtiefni í Bandaríkjunum. Þeir vita að þetta er gullkálfur, en samt gullkálfur sem á í vanda, því hann skilar ekki sama gróða og áður. Alveg eins og Disney keypti Marvel og Lucasfilm Ltd á það einnig 21 Century Fox og ABC sjónvarpsstöðina fyrrverandi.

Á spjallrásum og aðdáendarásum bandarískum voru ýmsir að deila um það hver ástæðan væri fyrir óánægju með nýjustu Star Wars myndirnar og nýjustu X-Files þættina. Alveg eins og sumir héldu því fram að George Lucas hefði verið farið að förlast með sínum nýjustu myndum voru margir á þeirri skoðun að Christ Carter og hans hjálparfólki ætti að skipta út fyrir nýtt handritshöfundateymi að Ráðgátum.

Ég hef talsvert spáð í þetta og ég held að ástæðan fyrir vandræðum þáttanna sé að Chris Carter hafi of hratt og of snemma látið vinsælar persónur deyja í þáttunum, eins og til dæmis Lone Gunmen, þrjá sérvitringa og tölvunörda sem voru uppáhald margra.

Á meðan efniviðurinn er nánast óþrjótandi í svona þætti þá má segja að grunnsagan hafi orðið svolítið þreytt, sonur Scully og Mulders orðið of fyrirferðarmikill á kostnað dulúðarinnar og spennunnar yfir því nýja og ókunna sem einkenndi fyrstu þáttaraðirnar.

Mér fannst einmitt þættirnir fara að minna leiðinlega mikið á sápuóperur þegar komið var fram í 9. seríuna.

Ég held að það sé vel hægt að lífga við X-files þættina. Þá þarf að forðast að keyra ótrúleikann úr hófi fram eins og upprunalegi höfundurinn hefur gert, Chris Carter. Einnig ætti að forðast persónudrama. Vert er að minnast þess að höfundur Star Trek þáttanna Gene Roddenberry vildi forðast of mikið einkalífsdrama í upphaflegu þáttunum. Því miður var einnig vikið frá því í þeirri þáttaröð seinna.

Gömlu og góðu reglurnar eru nefnilega sígildar, og mér finnst frábær leikstjórn og hófstilling í fyrstu Star Trek þáttaröðinni, í anda hins vandaða sjónvarpsefnis sem gert var á sjötta áratugnum.

Vísindaskáldsögukvikmyndir og sjónvarpsþættir eru kannski vinsælli en nokkrusinni fyrr núna, en gæði þeirra eru ekki þau sömu og þau voru. Legends of Tomorrow er gott dæmi, þar sem öllu er búið að snúa uppí glens og grín.

Undarlegt er að hætt var að framleiða Legend of The Seeker af ABC Disney 2010, en þeir voru mjög vandaðir. Þar voru samskipti aðalpersónanna hófstillt þó af báðum kynjum væru, og ekki farið út í leiðinda klisjur eins og þekkist úr sápuóperum.

En aftur að X-files. Upphaflega galdurinn er ekki hægt að endurskapa með upphaflegu handritshöfundunum og leikurunum. Það sýndi sig þegar það var reynt 2016 - 2018. Leikararnir höfðu elzt, sem reyndar var ekki versta vandamálið, heldur hitt, að tilhneiging Chris Carter til að skapa ýkta spennu með ýktum söguþræði og of óraunverulegum átti ekki uppá pallborðið hjá nútímaáhorfendum spennuþátta af þessu tagi. Kröfurnar eru meiri, því þessi tegund spennuþátta hefur þróazt svo gífurlega síðan 2002, þegar upphaflega serían hætti, því þetta er svo vinsæl tegund sjónvarpsefnis, vísindaskáldsöguþættir.

Hins vegar er grunnstefið snjallt, kona og karl á móti allri spillingu heimsins, sem bæði grafast fyrir um allskonar leyndarmál. Hófstilling var nokkuð sem ekki var stundað í þessum þáttum, og það var kannski versta vandamálið. Öll þessi skrímsli vöktu viðbrögð, en betra hefði kannski verið að halda sig aðeins nær jörðinni, og gefa í skyn frekar en að fara útí of miklar fantasíur.

Þrátt fyrir allt átti þessi sería frábæra spretti, bæði í leik, handritsgerð og brellum. Ég vona eiginlega að hún verði endurvakin, með nýju fólki. Tilraunin sem gerð var 2016 - 2018 sýndi reyndar í upphafi gífurlegt áhorf, sem svo dvínaði.

Allur leikarahópurinn er farinn að reskjast. Gillian Anderson með sína brestandi rödd, David Duchovny með sitt þreytulega andlit, og svo allir hinir sem ekki hafa yngzt. Þau brostu varla hvort til annars í seríunni 2016 - 2018, en í upphafi var áhugaglampinn sýnilegur í augum beggja.

Það er auðvitað mjög erfitt að halda fullum dampi í svona þáttaröð í meira en 10 ár. Það sama hefur verið reynt í mörgum öðrum þáttaröðum, og þessi er með þeim langlífustu í þessum geira, þannig að árangur höfundanna, framleiðandanna og leikaranna verður að teljast býsna góður þegar á heildina er litið.

Mér finnst bandarískt sjónvarpsefni í dálítilli lægð. Of mikið er um pólitík og pólitíska rétthugsun. Of mikið er reynt að troða inn boðskap sem ekki allir eru sammála. Skemmtunin á að vera í fyrirrúmi en ekki boðskapur, það er fyrir kirkjur og trúarhópa eða lífsskoðunarfélög, heimspekihópa, listamenn eða stjórnmálahreyfingar.

En það er merkilegt að Baltasar Kormákur og fleiri íslenzkir höfundar og framleiðendur eru virkilega að blómstra á okkar tímum. Þættirnir verða betri og fjölbreyttari með tímanum. Það er gott. Sérstaklega gleðiefni fyrir leikara og aðra listamenn sem fá vinnu þar.

Svo er það þessi spurning: Hvers vegna sýnir ekki RÚV nýju Star Trek þættina, Discovery og Picard?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 115
  • Sl. sólarhring: 116
  • Sl. viku: 780
  • Frá upphafi: 127407

Annað

  • Innlit í dag: 88
  • Innlit sl. viku: 575
  • Gestir í dag: 83
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband