Táknmál, eftir Bob Dylan frá 1976, túlkun á erindi 1.

Þannig var að Bob Dylan hljóðritaði enga sólóplötu árið 1976, né heldur 1977. Engu að síður samdi hann lög á þessum tíma, að minnsta kosti árið 1977, þegar hann samdi nær öll lögin á "Street Legal" frá 1978, og samkvæmt áreiðanlegum heimildum bjó hann að minnsta kosti til 10 lög árið 1976, eða sem svarar einni hljómplötu, en fyrir vini sína spilaði hann þau, og ganga þau undir nafninu "I´m Cold", eftir einu laganna, hrollvekjandi sársaukasöngvar þegar hann var að skilja við konuna sína, en þetta tók hann hvorki upp né gaf út.

Ég hef nú lengi pælt í ferli Dylans, og finnst mér þessi tvö lög frá 1976 sem þekkt eru betri en lögin á "Slow Train Coming" frá 1979. Öll þau lög eru andlaus endurtekning á Biblíunni og klisjum kristilegum, en lögin tvö frá 1976 eru full af dulrænu líkingamáli, ef vel er að gáð. Þetta er annað þeirra.

Þetta lag á sér þá forsögu að Bob Dylan hélt til í tjaldi fyrir utan Shangri-La hljóðverið á vormánuðum 1976 þegar Íslandsvinurinn Eric Clapton var að taka þar upp plötuna sína, "No Reason To Cry". Þeir voru raunar góðir vinir og Dylan oft að fylgjast með vinnu vinar síns í hljóðverinu. Einhverntímann tók Dylan upp gítarinn og raulaði þetta lag fyrir munni sér sem hann sagði nýlegt. Hann sagði að Clapton mætti nota það, sem hann gerði. Einnig raulaði hann annað nýlegt lag, sem hann kallaði "Seven Days", lét Clapton það eiga sig, en annað stórstirni, frægur maður úr Rolling Stones sem þarna var með þeim, Ron Wood, tók Dylan á orðinu og fékk leyfi hans til að nota það í staðinn, á sólóplötu sinni "Gimme Some Neck", sem reyndar kom ekki út fyrr en 1979.

Maður verður að þekkja verk Dylans með ævisögulegum hætti til að skilja undirtónana í því og boðskapinn í raun og veru, því hann er nokkuð vel falinn. Á yfirborðinu fjallar það um yfirborðsleg samskipti fólks á kaffihúsi sem "meika ekki alveg sens" einsog sagt er á vondri íslenzku, samskiptunum er lýst svo klaufalega og illa að þau eru ekki útskýrð almennilega. Sá sem eitthvað hefur kynnt sér ljóðatúlkanir sér þó fljótlega að eitthvað gerist undir yfirborði kvæðsins sem gefur fleira til kynna en orðin ein segja til um.

Ekki er alveg á hreinu hvenær Dylan samdi lagið, samkvæmt Eric Clapton spilaði hann það fyrst í Desire upptökulotunum 1975, en þá hefur hann kannski ekki verið búinn að klára það, þótt hann hafi fullyrt það síðar að það hafi verið unnið hratt, í einni lotu. Þó má búast við að grunnurinn hafi verið búinn til þá, kannski einhverju breytt ári síðar.

Engu að síður telja það margir frá 1976 í þeirri mynd sem allir þekkja það, frá sólóplötu Claptons sem fyrr var nefnd.

Þetta eru í raun aðeins fjögur stutt erindi og ekkert viðlag, en tvö erindi eru endurtekin áður en lagið endar.

Engu að síður er margt á seyði þarna undir yfirborðinu.

Sannkristilegu lögin hans á "Saved" og "Slow Train Coming" eru þannig samsett flest að ekki er hægt að túlka þau nema á einn veg, hinn kristilega. Hér gefast nokkrir túlkunarmöguleikar og um leið og einn opnast þá koma fleiri í ljós.

Fyrst skal það nefna að mannleg samskipti eru meginviðfangsefni Dylans í kvæðum hans og söngtextum en ekki friður eða mannréttindi, þótt margir haldi það sem aðeins þekkja hann af afspurn, eða "Blowing In The Wind".

Einnig er rétt að nefna það hér að hann notar einföld mannleg samskipti til að tákna eitthvað annað oft, og með því að láta eitthvað ekki ganga upp gefur hann vísbendingar um að þetta sé líkingamál hjá honum.

Þetta kvæði er í raun ekki ólíkt þessum lengri og flóknari kvæðum hans um sama efni. Það er einfaldlega samþjappaðra. Að auki og kannski það sem vegur þyngst er að skáldið lét sjálft hafa eftir sér "að hann skildi það ekki sjálfur". Slíkt orð segja að hann telur það merkja eitthvað, því oft gerir hann lítið úr eigin skáldskap, í gríni eða alvöru.

 

Svona er fyrsta erindið þýtt á einfalda íslenzku:

 

"Þú talar til mín með táknmáli, á meðan ég borða samloku í litlu kaffihúsi þegar klukkuna vantar stundarfjórðung í þrjú."

 

Ég tel að hann sé í raun að yrkja um konuna sína og sambandsörðugleika þeirra í hjónabandinu, og að þetta kvæði sé í raun eitt berorðasta og opinskáasta kvæðið hans um þeirra hjónaband, þótt stutt og einfalt sé á yfirborðinu. Einnig kann kvæðið að vera um samband við geimverur og eitthvað enn fleira. Ekki verður komizt yfir allt það efni hér, en þó minnzt á nokkra túlkunarmöguleika.

 

Oft kveður Dylan í ásökunarrómi, og ekki maklega að margra áliti. Þannig er það líka í þessu kvæði og því nauðsynlegt að skoða margt.

Ég tek þá afstöðu að reyna að túlka hvert einasta orð sem gæti skipt máli, sérstaklega orðið samloka, sem er samsett þannig að það gæti verið sandur og norn, þótt stafsetningin sé ekki nákvæmlega sú sama.

Auk þess er tekið fram að kaffihúsið er lítið, og það hefur einhverja merkingu.

En ef við byrjum á byrjuninni þarf að gera sér grein fyrir því af hverju þessi manneskja reynir að tala til hans, eða gefa honum táknmálsbendingar sem hann skilur ekki augljóslega og veit ekki um nærstaddan túlk til að hjálpa sér.

Það þarf að svara öllum spurningum sem vakna, og þær eru margar. Þetta er raunar miklu flóknara kvæði og verk en í fyrstu gæti virtzt.

Sú spurning vaknar hvers vegna það er í nútíð en ekki þátíð, þetta fyrsta erindi. Það gefur þá tilfinningu að þetta sé að gerast núna, eða sé jafnvel alltaf að gerast, og það er engin tilviljun heldur stílbragð sem gefur merkingu í kvæðið allt. Raunar er þátíð annarsstaðar í kvæðinu, en ekki í þessu fyrsta erindi.

Þessi "þú" eða "þið" tala sem sagt alltaf á þessu litla kaffihúsi við ljóðmælandann, hvað sem þetta litla kaffihús ónefnda á að standa fyrir, sem rétt er að skoða betur.

Með því að blanda saman tíðum er gefin tilfinning fyrir eilífðinni annarsvegar og svo fastri fortíð hins vegar, atburðum sem standa sögumanni fyrir hugskotssjónum og skipta meginmáli jafnvel í túlkuninni.

Hugtakið "stundarfjórðungur í þrjú" merkir ýmislegt þegar vel er að gáð. Þetta hugtak merkir "næstum alfullkomnun", því talan þrír stendur oft fyrir fullkomnun og algjörleika.

Dylan hafði áhuga á heiðnum trúarbrögðum á þessum tíma en einnig kristni. Hann var á kafi í dulspeki, tarot, austrænum fræðum, andatrú og kristni í senn, enda í kynnum við þannig fólk, á "Rolling Thunder" tónleikaferðinni um þetta leyti.

Það gefur vísbendingar.

Orðið "sandwich" held ég að sé lykilorð í kvæðinu. Ef við túlkum það ekki á ljóðrænan hátt er kvæðið merkingarlaust. Engin keðja er sterkari veikasta hlekknum í henni. Þannig er þetta einnig með góð ljóð og kvæði, hvert einasta orð í þeim skiptir máli uppá túlkunina að gera.

Norn sandsins merkir þetta orð, tel ég, en þau orð þarf að kljúfa betur niður í einingar og merkingar til að komast áfram.

Hver er ljóðmælandinn ef ekki Dylan sjálfur?

Í fyrsta lagi yrkir hann út frá eigin reynslu, en fær svo innblástur frá íbúa annarrar stjörnu, eins og svo oft gerist hjá honum í hans beztu kvæðum.

Hann getur verið að yrkja um konuna sína. Hann getur verið að yrkja um samskipti okkar mannkyns við geimverur. Hann getur verið að yrkja um sambandsörðugleika okkar mannanna innbyrðis, sérstaklega á milli kynjanna. Hann getur verið að yrkja um kynslóðabilið, mismunandi tungumál kynslóðanna, og fleiri túlkunarmöguleikar eru í boði.

Fyrsta setningin er "You speak to me". Skýrara getur það ekki verið, en þetta er samt óljóst á sama tíma. Þessi "þú" eða "þið" taka frumkvæðið, (getur þýtt hvort tveggja í ensku).

Frásagnir um samskipti manna við geimverur lýsa því oft hvernig tíminn ruglast og brenglast, eins og í þessu kvæði. Einnig er þeim samskiptum lýst sem draumkenndum, það er að segja, geimverurnar nota táknmál sem fólk þekkir til að tjá sig með, ekki endilega orð, heldur myndir, minningar og eitthvað slíkt, raðar saman veruleikanum á nýjan hátt, og oft man fólk lítið sem ekkert eftir slíku, nema kannski löngu síðar, eða skömmu síðar, eða eftir dáleiðslu. Þannig er þetta kvæði að nokkru leyti, það inniheldur minningabrot og svo þetta dularfulla erindi í nútíð, eitthvað sem gerist í sífellu. Raunar er annað erindið þannig líka, en því er skeytt við í mörgum opinberum útgáfum verksins.

Þess vegna er ekki hægt að túlka þetta kvæði endanlega, aðeins er hægt að koma með sennilegar túlkunarkenningar, til að fólk færist nær því og hugsanlegum boðskap þess.

Ef hann er að yrkja um konuna sína þarf maður að svara þeirri spurningu hvers vegna hann tekur þetta fram:"Þú talar við mig, þú yrðir á mig á táknmáli".

Þessi skýring liggur kannski beinast við, að nota táknmálið til að lýsa samskiptaörðugleikum í hjónabandi, sérstaklega þar sem hann þekkir það ekki. Margt bendir til þess að hann sé að yrkja um konu. Þriðja erindið segir: "Does she know I still care?" (Veit hún að að það skiptir mig ennþá máli?).

Að öðru leyti kemur ekki kynið fram eða talan, hver þessi "You" er, (þú/þið).

Af hverju tekur hann þá fram að þetta gerist í litlu kaffihúsi? Er hann kannski ekki að tala um konuna sína heldur einhverja ókunnuga manneskju sem er að reyna að kynnast honum? Það er mögulegt.

Hvað með almenna og algilda merkingu um sambandsörðugleika yfirleitt?

Já, sú skýring gengur upp líka. Þetta eru allt mjög almennar lýsingar, en þannig samsettar að þær gefa marga túlkunarmöguleika, að vísu.

En hvað um kynslóðabilið? Er hann að tala um börn, börnin sín kannski, eða faðir eða móður? Ekki er það útilokað, en ekki víst samt.

Hverju er þá hægt að slá föstu, ef nokkru um þetta kvæði?

Jú, þessum samskiptum er lýst, en hvers vegna?

Kvæðið lýsir samskiptaörðugleikum, svo mikið er víst.

Kaffihúsið er lítið. Af hverju?

Það gefur nánd til kynna, það gefur til kynna að hægt er að gefa sér tíma til að skynja fólkið þarna inni og aðstæðurnar, þegar mannmergðin er ekki yfirþyrmandi og yfirgnæfandi.

Samlokan, eða sandnornin er það orð sem næst þarf að skýra út.

Sandur getur verið tákn fyrir tíma sem er að líða. Hann getur verið tákn fyrir aldir eða aldatugi, miðað við hversu langan tíma tekur að láta píramída eða aðrar slíkar byggingar veðrast.

Sandur getur einnig merkt stuttan tíma, eins og þegar eitthvað er skrifað í sandinn á ströndinni og hafið þurrkar það jafnóðum út.

Sandur getur merkt svörfun eða hruflun, eins og í samhengi orðsins sandpappír, sem notaður er til að pússa eitthvað og slípa.

Sandur getur staðið fyrir ótrygga undirstöðu, en þó hefur verið á það bent að einnig geti hann staðið fyrir trausta undirstöðu, sé hann notaður rétt sem byggingarefni, eða sandkorn af jafnri stærð.

Auk þess leika börn sér oft að sandi á ströndinni, svo hann getur verið tákn fyrir æsku og leiki, til dæmis, eða eftirgefanleika, en þannig eru eiginleikar hans á ströndinni, sveigjanleiki og eftirgefanleiki og mótunareigind.

Sandur getur verið tákn fyrir eitthvað smátt sem er þó hluti af óendanleikanum og einhverju stóru, því sandur er svarf úr sama efni og fjöll eru gerð af, efni stjarnanna er ekki ósvipað. Sandur táknar því að vera lítill hluti af risastórri heild.

Texti í Biblíunni notar sand sem tákn fyrir óendanleikann og mikinn fjölda, að guð gefi fleiri afkomendur en sandkorn jarðarinnar, en það er gríðarlegur fjöldi og mikil frjósemi.

Sandur er tákn fyrir eitthvað sem hægt er að leika sér að, láta renna á milli fingranna, en er þó sjálfstætt, og eilífra en maður sjálfur, þótt minna sé, hvert og eitt korn, það er að segja. Sandur lýsir því ákveðnu afstæði einnig.

Sandur er því einnig tákn fyrir sjálfsblekkingu, fólk telur sig hafa hann á valdi sér, en hann geymir þó söguna og hefur orðið vitni að mörgu og er ekki eitthvað sem hægt er að taka sem gefnu raunar, því hann getur tekið mörg mismunandi form. Hann er síbreytilegur, ef hann er þvingaður til þess af ytri aðstæðum.

Síðan er það nornin. Norn þýðir upphaflega að næra og lækna. Norn er sú heilaga kona sem læknar og nærir, í því efni tek ég mark á útskýringum dr. Helga Pjeturss miklu frekar en annarra, tel þær réttari og upprunalegri.

Norn fékk einnig neikvæða merkingu með kristninni eins og menn þekkja, einhverskonar gömul fræðikona sem vill öðrum illt, og stríðir gegn náttúrulögmálunum, kemur því til leiðar sem enginn mannlegur máttur getur, nema manneskja sem er búin að gera samning við Djöfulinn, þann sem gefur tækni nútímans og er almáttugur en í andstöðu við Guð, þennan sem skapaði himinn og jörð og vill hjálpa, aðeins ef fólk trúir á hann og son hans, og les hans heilaga orð, samkvæmt hefðbundinni kristilegri túlkun og kenningu, en flestir Íslendingar eru sennilega enn í Þjóðkirkjunni, þótt hægt sé að spá því að í framtíðinni verði langflestir Íslendingar múslimar, og islam þjóðtrúin, en islam virðist vera að sigra allsstaðar á vesturlöndum, og á norðurlöndunum ekki hvað sízt, hvað svo sem mönnum finnst um það.

Hvað er þá sandnorn samkvæmt þessari skýringu og tulkun? Það er einhver máttur handan tímans, einhver galdur handan tímans. Hvernig getur sögumaðurinn verið að éta þennan mikla mátt, eða meðtaka hann semsagt?

Hann er því að fræðast í dulrænum fræðum, andatrú eða einhverju slíku, þegar geimveran talar til hans, eða konan hans, eða einhver sem hann þekkir ekki, eða skilur ekki, eða eitthvað slíkt, nær ekki að tengjast til fullnustu. Við sjáum mynstur ef við notum þetta táknmál og líkingamál, en getum ekki slegið neinu föstu samt.

Hins vegar er hann að ná árangri þegar þetta gerist. Það segir línan um að klukkuna vanti stundarfjórðung í þrjú, en þrír merkir fullkomnun samkvæmt flestum æðri trúarbrögðum.

Séu þessar línur teknar saman á merkingafræðilegum grundvelli væri hægt að segja að hann sé alltaf truflaður eða hindraður áður en hann nær markmiði sínu, áður en hann nær fullkomnun. Þessa tilfinningu þekkja margir, og um þetta mætti margt rita, en verður ekki gert hér að þessu sinni, að vísu.

Þá er ég búinn að túlka þetta fyrsta erindi. Eftir er aðeins að lýsa almennum tilfinningum og hughrifum sem það vekur, því slíkt gæti hjálpað við túlkun yfirleitt.

Maður skynjar að textinn er dulúðugur en sáraeinfaldur um leið, næstum því ómerkilegur, eða þannig mætti túlka hann, eins og sennilega langsamlega flestir gera, sem ekki kafa dýpra í hann.

Hin erindin ljóstra einhverju upp, en samt ekki öllu. Textinn í heild heldur áfram að vera leyndardómur þegar búið er að túlka hann að fullu, en þá er að minnsta kosti hægt að velja um fleiri túlkunarmöguleika, í staðinn fyrir að afgreiða hann sem létta og tilviljanakennda samsuðu, sem hann raunar kann að vera líka, um það er ekki alveg hægt að fullyrða, nema Dylan er mikið skáld, og vel rétt að reyna að túlka hans verk vandlega með svona greiningu og vönduðum vinnubrögðum.

Mikið vildi ég óska að Dylan hefði samið fleiri lög á þessu ári og gefið úr plötu með svona lögum. Þetta er Dylan í toppformi, frábær tónlist og ljóðlist. Þarna er hann ekki í neinum sérstökum klisjum, hvorki poppklisjum eins og eftir kristilegu árin 1979 - 1981, né í kristilegum klisjum eins og þau ár.

Þarna er hann í toppformi, en með lítið sjálfstraust að því er virðist, úr því að hann gaf ekkert úr, nema hljómleikaplötu, fór ekki í hljóðver, og leyndi því sem hann samdi. Þeir sem þekkja hann bezt vita að hann var enn að semja á þessum tíma, en leyfði fólki bara alls ekki að heyra það, nema örfáum vinum sínum í mesta lagi.

Að vísu kom Desire út, en hún var öll unnin árið 1975.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 173
  • Sl. viku: 671
  • Frá upphafi: 127214

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 512
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband