15.6.2021 | 18:59
Grillarinn mun grilla þennan heim (ljóð)
Þetta kvæði er sérstakt listaverk sem þarfnast útskýringa við, til að fólk geti séð margar hliðar á því og hversu langt aftur það nær í söguna túlkunarfræðilega.
Þannig var að ég var í Biblíuleshópnum Destu um þessar mundir og hafði verið um nokkurra ára skeið. Ég var byrjaður að gefa út eigin tónlist á hljómdiskum. Veraldlegt efni samdi ég mestmegnis en nokkur kristileg lög slæddust með og urðu held ég flest eftir mig árið 2001, árið eftir.
Ekki aðeins kristilegar hugmyndir heilluðu mig heldur líka skrýtnar og fornfálegar hugmyndir úr fortíðinni, hugmyndaheimur liðinna kynslóða eða einstaklinga sem voru umdeildir á Íslandi á þessum tíma, sem ég var ekki endilega sammála en heillaðist samt af fyrir að þora að vera öðruvísi og tjá skoðanir sínar.
Eiginlega má segja að þrír einstaklingar hafi hjálpað mér að semja þetta kvæði með sínum kristilegu skoðunum og hugmyndum sem þeir voru þá frægir fyrir eða höfðu verið frægir fyrir. Gunnar í Krossinum í fyrsta lagi, Snorri í Betel í öðru lagi og Megas í þriðja lagi, fyrir ákveðnar myndskreytingar í fyrsta söngvaheftinu sínu, sem kom út 1968 upphaflega og ég komst í sem 11 ára unglingur í Bókasafni Kópavogs árið 1981.
Sjálft hugtakið sem er notað í kvæðinu, aðalhugtakið, það er komið frá Snorra í Betel og ekki allir á eitt sáttir um það.
Annars er ég þarna að viðra harðar kristilegar hugmyndir sem ég fékk að kynnast í bernsku, aðallega hjá ömmu, þótt orðalagið sé ekki hennar, það er svolítið ýkt af mér, en syndahugtakið, þetta lærði ég í bernsku.
Ég held að sum kvæði falli mitt á milli heimsósóma og satýru, eins og þetta. Ég var sannfærður að nokkru leyti, ég var eiginlega að láta reyna á minn eigin efa. Mér finnst skáldskapur góður til þess að láta reyna á eigin efa með því að ýkja hlutina og setja í skáldlegan búning. Þannig getur maður betur gert það upp við sig hvort maður fallist á einhverja hugmyndafræði eða ekki.
Allar tegundir af hnöttum eru til og mannkynjum eins og ég hef kynnzt með starfi hjá Nýalssinnum. Það er því ekki vísindalega ómögulegt að svona hnettir séu til, og sennilega eru þeir til, miðað við að geimurinn er talinn óendanlegur og möguleikar hans óendanlegir.
Giordano Bruno var brenndur á báli af kirkjunni árið 1600 fyrir guðlast, og þykir mörgum í slíkum aftökum eima eftir af mannætusiðferði fortíðarinnar. Í dag eru það femínistar og jafnaðarmenn sem hafa tekið við fordæmingarvaldinu og beita því óspart, hinn svonefndi dómstóll götunnar, sem er alræmdur fyrir ósmekklegheit og óréttlæti.
Svona kvæði verður til þegar fólk vill andmæla kvennaguðfræðinni og sældarhyggjuguðfræðinni, að Guð sé orðinn bitlaus og refsi aldrei neinum en segi já og amen við öllu, sérstaklega syndunum og því sem fyrri kynslóðir börðust gegn.
Svona kvæði verður einnig til vegna mótlætis, þegar maður áttar sig á því hversu lítið tannhjól maður er í höndum örlaganna, og örlagatrú eða örlagahyggja verður niðurstaðan, eins og hún er túlkuð hér. Æðri máttarvöld geta verið af ýmsu tagi, og þótt hér sé fjallað um eingyðistrú á þetta við um trúarhugmyndir annarra trúarbragða einnig.
Síðan er í þessu fyndnin sem er gegnumgangandi. Ég nota almennt hugtak til að varpa ljósi á nútímamenninguna, en er samt ekki að segja að allir eigi að verða grasbítar, því fer fjarri.
Sögnin að grilla og nafnorðið grillarinn verða tákn fyrir þetta hvernig hægt er að æða áfram skeytingarlaust gagnvart siðvenjum og náttúru. Hinn ósigrandi maður verður sigranlegur þrátt fyrir allt.
Svo er þarna einnig verið að hæðast að sólarlandaferðunum, að lífið þurfi að vera betra í heitu löndunum, að grillast getur einnig þýtt að verða of heitt úti í sólinni eða eitthvað slíkt.
Svo er verið að fjalla um framtíðina, helstefnuna, framtíðarsýnin er sýnd, að stefnubreyting sé nauðsynleg. Ég nota eiginlega harða kristilega túlkun til að koma á framfæri víðari þjóðfélagsgagnrýni.
Ég er alltaf býsna sáttur við þetta kvæði. Í því er þessi mátulega blanda af sjálfsgagnrýni og þjóðfélagsgagnýni, gamni og alvöru, í hlutföllum sem gera það á ýmsum jöðrum bókmenntagreina sem hægt er að ímynda sér.
Grillarinn mun grilla þennan heim,
að grillmat verður syndugt manna kjöt.
Í Víti grillast vonzkan alla tíð,
oft verður synd af mannsins ungu hvöt.
Þótt elski eg heimsins ennþá marga snót
ég aðeins drottni hlýða vil hvern dag.
Ég vil ei grillast, verða fjandakjöt.
Ég veit að Drottinn einn minn bætir hag.
Grillast munu háir herrar jafnt
sem heimsins smái lýður, því er ver.
Að grillmat verður guðlaust manna lið,
því guði einum hlýða stöðugt ber.
Þótt biðji ég guð að bjarga öðrum hér
ég bjarga engum, Drottins það er verk.
Mér reynist nóg að sigra mína synd,
þú syndahönd, æ hvað þú æ ert sterk!
Þótt flestir verði að grillmat grimmdum í
ég get ei harmað neitt sem Drottins er,
því Drottinn gaf og Drottinn aftur tók,
og Drottinn sjálfur lífið veitti mér.
Samið þann 9. febrúar 2000, og birtist á hljómdisknum "Kristur kemur" eftir mig frá árinu 2010.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.1.): 34
- Sl. sólarhring: 104
- Sl. viku: 505
- Frá upphafi: 132580
Annað
- Innlit í dag: 16
- Innlit sl. viku: 382
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.