Ég fór að rifja það upp við netumræður hvað Megas sagði mér um upptökur á plötunni "Á bleikum náttkjólum". Gefnar hafa verið út margar bækur um hvenær Bob Dylan hljóðritaði sínar plötur og við hvaða aðstæður en aðeins ein slík bók er til um Megas eftir Óttar Guðmundsson geðlækni, en hann er einnig góður vinur Megasar og frændi.
Ég tel að ástæðan fyrir því að diskarnir mínir náðu ekki meiri útbreiðslu en raun bar vitni að ég kom fram með öðruvísi texta en flestir. Megas var þó aldrei að setja það fyrir sig, og vildi að ég hefði trú á sjálfum mér. Hann tók eftir því að ég var feiminn og reyndi að gefa mér góð ráð.
Ég spurði hann um lagið "Um raungildisendurmat umframstaðreynda", sem hann gaf út í söngbókinni sinni "Kominn en fráleitt farinn" árið 1973. Ég spurði hvort hann hefði aldrei hljóðritað það, en það var ekki á stóru plötunum hans. Hann sagðist jú hafa hljóðritað það, en skilið það eftir óútgefið. Þá fór hann að tala um plötuna "Á bleikum náttkjólum" og það var áhugavert.
Hann sagðist hafa tekið upp nokkra svona "langhunda" fyrir "Á bleikum náttkjólum", en hafi svo ákveðið að sleppa því að hafa þá á plötunni. Hann sagði að svona löng lög "ætu upp allt plássið á hliðunum svo ekki væri pláss fyrir nema örfá lög".
Þá fékk ég uppúr honum þessar dýrmætu upplýsingar að "Á bleikum náttkjólum var tekin upp seinni hlutann í júlí 1977 og fyrri hlutann í ágúst 1977 í Hljóðrita í Hafnarfirði.
"Gamli skrjóðurinn", "Orfeus og Evridís" "Útumholtoghólablús", slík lög voru hluti af fyrri hluta vinnunnar, svo var skipt um gír og endað með pönki. Mjög fjölbreytileg plata sem stundum hefur verið kosin sem bezta plata Íslandssögunnar. Þannig var það í bók eftir einn bloggara hér, Jens Guð, en bókin hans hafði talsverð áhrif á mig á unglingsárunum.
Ég kvartaði undan því við Megas eitt sinn að nóturnar við "Við sem heima sitjum nr 45" pössuðu ekki við laglínuna á plötunni. Hann hló nú að því og sagði að það væri ekki skrýtið, því í hljóðverinu hafi hann ákveðið á síðustu stundu að búa til nýtt lag við þetta ljóð, sem hæfði betur rokkinu og pönkinu, í anda "Paradísarfuglsins" sem þá var nýskriðinn úr egginu, orðinn til.
Þannig var "Við sem heima sitjum" eitt síðasta lagið sem var tekið upp fyrir plötuna, og til að hæfa ákveðnu þema sem hann bjó til, um mismunandi tíðaranda og tónlistarstefnur, þar sem nýi tíminn hitti þann gamla fyrir.
Hið gullfallega lag "Fátækleg kveðjuorð (til-)" er víst byggt á gömlu píanóverki (eða æskuverki hans) og textinn svo meitlaður við. Þetta lag er hreinasta perla eins og flest eða allt á plötunni. Þar kemur hann inná orð Arthurs Rimbauds, snillingsins unga, sem einnig hafði mikil áhrif á hann.
Hann sagði mér frá "Paradísarfuglinum", hvernig hann var enduruppbygging á eldra lagi sem samið var við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.
"Útumholtoghólablús" er byggður á kynnum af útigangsmönnum og ólánsfólki í Reykjavík.
"Saga úr sveitinni" er kvæði byggt á reynslusögu manns sem hann þekkti.
"Heimspekilegar vangaveltur um þjóðfélagsstöðu" er eitt af þessum lögum sem hann bjó til fyrir plötuna til að búa til stemmningu úr Reykjavík, ekki of hástemmda, heldur eðlilega, líka götulífinu, og það tókst vel, og svo gert grín að frægu skáldi undir lokin.
"Gamli skrjóðurinn" er æskuverk, samið á sama tíma og "Gamli sorrý Gráni", þegar hann var enn um fermingu.
Syrpan um Sæma fróða eru ein beztu lögin og textarnir. Dæmi um lög sem hann breytti í hljóðverinu á síðustu stundu og gerði enn betri.
"Jón Sívertsen og sjálfstæðisbarningur Ísfirzkra" er einnig þannig sönglag, byggt á eldra lagi eftir hann sjálfan, snúið upp í nýtt lag í hljóðverinu.
"Heilnæm eftirdæmi" er að hluta til demóteip sem er bætt ofaná og ljóðið á sér eldri fyrirmynd annars skálds. Ótrúlega margar tilraunir voru þarna í gangi eins og oft hjá Bítlunum og útkoman frábær.
Það er sérlega skemmtileg saga á bak við síðasta lagið, "Vögguvísa á tólftu hæð". Ég spurði hann um þetta lag, og hann hló nú líka að því og sagði að eitt sinn þegar spóla var að verða búin hafi hann raulað þetta og textinn hafi verið:"Er ekki bandið að verða búið?... er ekki bandið að verða búið?"... og síðan hafi þeir ákveðið að nota þetta undir breyttum texta og hljóðrita almennilega, og það hæfði vel fjölbreytileika plötunnar, enn ein tónlistarstefnan, hugljúft vögguljóð í lokin.
Ennþá vekur þessi hljómplata upp skemmtilegar stemmningar. Það má segja að allir tónlistarmennirnir sem þarna voru saman komnir hafi verið miklir hæfileikamenn. Diddú þar með talin, enda konur líka menn.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 71
- Sl. sólarhring: 112
- Sl. viku: 736
- Frá upphafi: 127363
Annað
- Innlit í dag: 59
- Innlit sl. viku: 546
- Gestir í dag: 57
- IP-tölur í dag: 54
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.