17.4.2021 | 02:01
Þú verður að þjóna einhverjum eftir Bob Dylan, túlkun á fyrsta erindinu.
Nú sný ég mér að lagi á plötunni "Slow Train Coming" frá 1979 með Bob Dylan, fyrstu kristilegu plötunni hans í þríleiknum frá þessum árum. Þetta er fyrsta lagið á þeirri plötu sem heitir "Þú verður að þjóna einhverjum", og er annaðhvort samið rétt í byrjun ársins 1979 eða rétt fyrir upptökurnar undir lok apríl það ár og til 11. maí 1979.
Það er skemmst frá því að segja að bókmenntafræðingar segja að þetta sé eitt lélegasta ljóð Dylans eða texti og ein versta platan hans, ófrumlegasta og óskáldlegasta, ásamt öðru kristilegu efni frá honum. Engu að síður vil ég taka þetta til umfjöllunar hér.
Þetta lag var valið næstversta lag og texti eftir Bob Dylan árið 2013 af lesendum hins virta og útbreidda Rolling Stone tímarits, en það er engu að síður uppáhald margra kristinna áhangenda hans.
Það lítur helzt út fyrir að hann hafi annaðhvort samið textann fyrir framan hljóðnemann, spunnið hann upp, eða párað hann í flýti niður á blað án umhugsunar, þannig virkar þessi texti á mann, hvort sem maður hlustar á hann sjaldan eða oft. Undarlegt, miðað við hversu miklu minni afköst hans voru á þessum áratug en á milli tvítugs og þrítugs, þegar hann samdi miklu betri ljóð, að flestra mati. Honum fór mikið aftur, sem er hin viðtekna túlkun og skoðun.
Það mætti jafnvel segja að þetta sé með alverstu dægurlagatextum sem hafa verið samdir, því barn gæti hafa samið þetta. Það mætti segja að þessi texti sé verri en froðan sem vall uppúr Britney Spears, en var raunar samið af öðrum jafnan. Það mætti nefna ýmsa rappara eða nútímatónlistarmenn í sömu mund, en Britney er oft tákn um léttvægt popp.
Engu að síður er þessi texti eftir stórskáldið Bob Dylan, og sé maður aðdáandi hans vill maður fjalla um öll verk hans, ekki bara þau beztu.
Svo hér er íslenzka þýðingin, yfir á óbundið mál:
"Þú mátt vera sendiherra Englands eða Frakklands. Þú mátt vera fíkinn í fjárhættuspil, þú mátt sækjast eftir dansi. Þú mátt vera þungavigtarheimsmeistarinn í heiminum. Þú mátt vera áhrifavaldur og eitt af fína fólkinu með langa perlufesti. En þú verður að þjóna einhverjum. Já, vissulega verður þú að þjóna einhverjum. Það má vera Djöfullinn og það má vera Drottinn, en þú verður að þjóna einhverjum."
Hvers vegna fjallar hann í fyrsta erindinu um sendiherra, ef maður tekur þennan texta alvarlega sem eitthvað bókmenntaþrekvirki?, sem ég ætla að reyna að gera í þessari pistlaröð, eins og venjulega.
Guðfræðingar og trúaðir menn hafa í gegnum aldirnar talað um að menn séu annaðhvort sendiboðar eða erindrekar Djöfulsins eða Drottins, þetta er því í þeirri hefð. Þetta er þessi alræmda tvíhyggja, sem enn gegnsýrir menninguna að allmiklu leyti, og hófst kannski með áhrifum Zaraþústratrúarinnar á Gyðingdóminn fyrir margt löngu, fyrir Krists burð.
Hvers vegna minnist hann á England og Frakkland sérstaklega? Kannski vegna þess að þessi tvö lönd voru mest bundin bandarískri sögu áður en Bandaríkin lýstu yfir sjálfstæði.
Svo minnist hann á fíknina og fjárhættuspilin. Hvers vegna skyldi það nú vera? Allt gert í hálfkæringi, en kannski býr eitthvað annað og meira undir. Skoðum það og athugum hvort svo gæti verið, og hvort það sé mögulegt. Er hægt að finna dýpri merkingu í þessum almennu orðum?
Hann var sjálfur að koma úr ári fíknarinnar hjá honum sjálfum, en það er almennt talið að kókaínneyzla hans og hassreykingar hafi farið talsvert úr böndunum árið 1978, í tónleikaferðalaginu langa og erfiða allt það ár. Þannig að þetta er honum nærtækt og hugleikið, eitthvað sem hann er að kljást við þegar hann semur lagið.
Hvers vegna minnist hann þá á fjárhættuspilin og hvernig koma þau við líf hans á þessum tíma? Þess ber að geta að langflestum ber saman um það að öll lögin á plötunni "Slow Train Coming" séu sjálfsævisöguleg, að hann sé að semja um sjálfan sig og sínar tilfinningar, að ljóðmælandinn sé hann sjálfur, en ekki neinn annar. Ég tek þann pól í hæðina einnig í umfjöllun minni.
Það er talið af Dylanfræðingum, en þeirra verk hef ég talsvert lesið, að Dylan sé fjárhættuspilari sjálfur, þannig að raunar er hann ekki að tala eða syngja um sjálfan sig þarna.
Hann er þarna sennilega að dæma líferni sem honum finnst syndsamlegt. Svo einfalt er nú það.
Síðan fer hann að tala um fólk sem nýtur þess að dansa. Gleymum því ekki að þetta var búið til á miðju diskótímabilinu, snemma árs 1979, svo þetta er honum nærtækt í menningunni. Hann er að draga upp mynd af því sem er í tízku þegar hann yrkir þetta, lýsa sínum eigin nútíma mjög nákvæmlega.
Það er ekkert skáldlegt við þetta í raun, þetta er bara framvarp veruleikans.
Næst segir hann að hlustandinn megi hans vegna vera þungavigtarheimsmeistarinn í hnefaleikum og að boðskapurinn eigi við slíkan mann líka. Hann tekur sem sagt ólík dæmi og segir að það sama eigi við um alla.
Næst tekur hann fyrir fína og ríka fólkið, og að það sé ekkert undanskilið þessum kristilega boðskap, sem var og er bundinn við fríkirkjurnar og sértrúarsöfnuðina frekar en þjóðkirkjurnar, eða þannig var þetta enn frekar þegar hann samdi þetta, því slík mörk hafa máðst út í dag, með kvenprestum og femínisma í kirkjunum, Kölski allsráðandi í kirkjunum eins og annars staðar.
Næst kemur viðlagið sem er sáraeinfalt, boðskapurinn er þessi tvíhyggja, bókstafstrúin, það eru bara til tveir litir, svartur og hvítur, gott og illt og ekkert þar á milli, Djöfullinn eða Drottinn. Sumir túlka kristnina svona, ekki allir. Það er fremur sjaldgæft á okkar tímum, þegar kristin trú er orðin léttvægari hjá flestum kvenprestum, eiginlega eins og létt smurálegg ofaná brauð, ekki Alfa og Omega eins og áður var algengt, á miðöldum, til dæmis.
Ástæðan fyrir því að þessi kveðskapur er svona lítils metinn af mörgum er kannski einmitt þessi, að þetta er svona sáraeinfalt og skýrt, ekkert reynt til að gera þetta torræðara, bara sagt berum orðum, hrátt og einfalt. Allar líkingar og orðskrúð Biblíunnar horfið og í staðinn kominn eins einfaldur boðskapur og hægt er.
Svo til að kóróna ástæðuna fyrir að margir hneykslast á því hversu lélegt lag þetta sé er eintóna söngurinn og laglínan, en aðeins tvö grip er hægt að nota í laginu, tvo mollhljóma, það er allt og sumt, og söngurinn er sérlega eintóna í ofanálag, og lagið tekur fimm mínútur rúmlega í flutningi, sem er talið frekar langt miðað við mörg dægurlög, en er þó stutt miðað við mörg lög Dylans, raunar.
Barnslega einföld lög eiga það þó til að ná dýpra inní sálir fólks en það sem flóknara er. Þannig mætti fullyrða að þetta sé velheppnað lag, en það fer eftir smekk hvers og eins. Þetta lag á sér marga aðdáendur, og fleiri en harðir bókstafstrúarmenn kristnir kunna að meta það, svo sem.
Dylan fékk Grammy verðlaunin fyrir bezta sönginn sem karlsöngvari með þessu lagi, þetta árið, sem veitt voru árið eftir, árið 1980. Þannig að eitthvað þykir sannfærandi við þetta einfalda lag, að minnsta kosti, og heillandi.
Það má vera ljóst að öll bókstafstrú byggist á þessu, þessari hörðu og miskunnarlausu túlkun. Léttúðin er dæmd ógild, og hluti af Satans klækjabrögðum. Margir innan kristninnar taka þann pól í hæðina raunar, sem sökkt sér hafa ofaní sína trú, eða trúarbrögð almennt.
Það er eiginlega ekkert meira hægt að segja um þetta fyrsta erindi. Fátækleg verður umfjöllunin um næstu erindi líka, en áfram held ég sennilega með þessa umfjöllun síðar. Það er fátt hægt að segja um svona einfaldan kveðskap, en boðskapurinn er að minnsta kosti ljós. Fleiri túlkunarmöguleikar koma varla til greina, nema menn fari að búa til einhverja nýja merkingu í löngu þvæld og útjöskuð klisjuorðin sem notuð eru aftur og aftur í textanum.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.1.): 46
- Sl. sólarhring: 79
- Sl. viku: 893
- Frá upphafi: 131714
Annað
- Innlit í dag: 41
- Innlit sl. viku: 717
- Gestir í dag: 37
- IP-tölur í dag: 37
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.