Vertu sælt verðleikasamfélag, eftir Bob Dylan, túlkun á fjórða erindinu

Efni þessa erindis er á þann veg að ekki er hægt að misskilja það að Bob Dylan er að gagnrýna þá sem talað er til, þennan flokk eða hóp manna sem sennilega eru vinstrisinnarnir  og mannréttindafrömuðirnir sem hann áður tilheyrði. Heiti það sem erindið byrjar á var ekki á hans tíð tengt neinu jákvæðu, sjóræningjar, þótt á okkar landi og víðar hafi komið fram á okkar tímum stjórnmálamenn í samnefndri hreyfingu sem reynt hafa að bregða jákvæðu ljósi á þessa glæpahópa úr fortíðinni, sem fóru rænandi um höfin. Á þeim tíma sem Bob Dylan orti sitt kvæði, eða sinn söngtexta var enginn slíkur stjórnmálaflokkur kominn fram né í sjónmáli og því má fullyrða að merking orðsins er 100% neikvæð í kvæðinu, eða söngtextanum, eftir því hvernig menn vilja orða þetta.

 

Enn fremur má almennt segja að hann taki sífellt harðar og sterkar til orða eftir því sem á kvæðið líður, og fordæmingin verður meiri, og trúarlegri, kristilegri, að segja má. Það á ekki sízt við um þetta erindi, það fjórða.

 

Svona er þýðingin yfir á óbundna íslenzku:

 

"Sjáið rangeygðu sjóræningjana sitja montna í sólinni á hásæti, skjótandi niðursuðudósir með afsöguðum haglabyssum, og nágrannarnir fagna og klappa við hvert skot. Vertu sæl, Angelína, himininn er að litverpast og ég neyðist til að fara í flýti."

 

Ljóðmyndin "rangeygðir sjóræningjar" er raunar býsna klisjukennd og venjuleg, sem táknmynd fyrir glæpamenn sem eiga sér engar málsbætur, á þessum tíma sérstaklega, 1965, þegar hann tók upp þetta lag fyrir "Bringing It All Back Home". Bæði höfðu kvikmyndir og bækur dregið upp þessa mynd, þannig að ekki er hægt að efast um að þetta er harðýkt staðalmynd af þeim sem brjóta gegn lögum samfélagsins á sem ýktastan máta.

 

Áður í kvæðinu höfðu verið dregnar upp samfélagslegar myndir, og af hruni samfélagsins og samfélagsgerðarinnar, sérstaklega af hruni konungsveldisins, kirkjunnar og feðraveldisins, sérstaklega með orðalaginu "bjöllur krúnunnar", eða "bjöllur konungsríkisins", þar sem saman fara tvö orð, annað sem lýsir kirkjunni, "bjöllur", og svo "kórónunnar", (krúnunnar), á þeim tíma (og ennþá vissulega jafn mikil) tákn fyrir völd, kóngsríki, erfðavald, ríkisstjórnir, forseta, o.s.f.v.

 

Rangeygðu sjóræningjarnir eru þess vegna þessir nýju hópar sem hafa bylt samfélagsgerðinni, krafizt mannréttinda fyrir konur og alla kynþætti jafnt, og aðra sem ekki voru taldir jafnréttháir í feðraveldissamfélaginu.

 

Hér vil ég varpa upp þeirri spurningu hvort hér sé um að ræða aðra hópa mögulega? Er verið að fjalla um aðra byltingarhópa í sögunni? Mögulega, en er ekki líklegast af Bob Dylan sé að fjalla um eigin reynsluheim, rétt eins og í "Positively 4th Street?" frá sama ári? Í "Restless Farewell" frá 1963 er reyndar svipuð umfjöllun einnig, en mildari.

 

Gott og vel, við höldum því áfram með þessa túlkun, hún fellur vel að efninu, að hann sé almennt að skjóta á vinstrimenn og mannréttindafrömuðina.

 

Hér eru þversagnir, að eitthvað sem ekki þolir dagsins ljós undir eðlilegum kringumstæðum er montið og hrokafullt fyrir allra augum í sólarljósinu og á valdastóli. Hann er því að gagnrýna yfirvöldin. Hann er einnig að fjalla um augljósa spillingu, því öðruvísi væri hann ekki að nota orðið "píratar" þarna í kvæðinu, sem aðeins getur haft neikvæða merkingu á þessum tíma.

 

Hann er í rauninni að segja að keisarinn sé nakinn, að gallar yfirvaldanna séu öllum augljósir, að glæpaverkin séu framin fyrir allra augum, en fólk látist ekki sjá þá af ótta við yfirvaldið. Þannig má túlka þetta, að minnsta kosti, og er rétt að túlka þetta, finnst mér.

 

"Angelina" er hefðin, kirkjan, verðleikasamfélagið, að einungis karlmenn komist til valda á eigin verðleikum, eftir nám og vinnu, (eða með hjálp klíkusamfélagsins, forréttindareglna feðraveldisins og stigveldisins innan þess), ekki aðrir hópar.

 

Af hverju eru valdaræningjarnir rangeygðir? Jú, þeir vita ekki hvað þeir vilja, sjá það ekki skýrt, en ryðjast áfram af barnaskap og vantþroska, skemma og brjóta samfélagið eins og börn, fremja hryðjuverk af grunnhyggni og af barnalegri réttlætiskennd.

 

Þeir hafa lögregluna í vasanum, því ekkert er gert til að stöðva þá. Sögnin "Perched" er notuð í frummálinu, sem er yfirleitt notuð um fugla sem tylla sér, en einnig notuð um að hreykja sér og monta sig af einhverju. Í þessu sambandi er það lýsing á nýfengnum samfélagslegum völdum sjóræningjanna, (glæpamannanna) sem merkir að þeir hafa komið sér innfyrir raðir lögreglunnar og réttargæzlukerfisins, inn í dómsdólana og hæstarétt, væntanlega.

 

Orðið sól er einnig merkilegt og lýsandi í þessu sambandi. Talað er um að myrkar gerðir þoli ekki dagsins ljós, sólarljósið. Andstæður eru því hér á ferðinni.

 

Hvað gera svo sjóræningjar kvæðisins? Þeir skjóta niðursuðudósir með afsöguðum haglabyssum. Afsagaðar haglabyssur eru enn sem fyrr táknmynd fyrir vopn hinna óhefluðu sem alla jafna tilheyra ekki samfélaginu en hafa sagt sig úr reglum við það.

 

Þessi athöfn, að skjóta niðursuðudósir, er að mörgu leyti tákn fyrir æfingu í skotfimi, eins og menn vita, en einnig um fánýta iðju, þegar engir aðrir óvinir eru til staðar. Þessi athöfn lýsir þeim sem vilja finna ofbeldisþörf sinni útrás. Þess vegna er hér verið að hæðast að sjóræningjunum, og almenningi jafnt, að almenningur skuli hræðast svo hlálega óvini og óvirðulega.

 

Orðið "nágrannar" þýðir almenningur, eða kjósendur, nautheimskir kjósendur og fávísir í mesta lagi. Þeir fagna sem sagt hverju einasta nýja glæpaverki sem yfirvöldin ómaklegu og glæpsamlegu fremja.

 

Þessi ljóðmynd segir meira, sögnin að klappa leiðir hugann að tónleikagestum, og menningunni allri. Hér er verið að gera grín að menningunni allri, vinstrimenningunni ekki hvað sízt, og gefið í skyn að hún sé úrkynjuð, ómenning.

 

Orðið "nágrannar" vekur fleiri hugrenningatengsl og er sérlega máttugt á þessum stað í kvæðinu. Það þýðir að þessir sjóræningjar spruttu úr sama umhverfi og þeir sem komu þeim til valda, sama spillingin liggur þar til grundvallar í báðum tilfellum.

 

Enn kveður hann það sem hann virðir og tignar, kirkjuna, feðraveldið, "Angelínu", eða kvenengilinn, móðurmyndina og föðurmyndina í senn, og segir að himininn sé að litverpast.

 

Stöldrum hér aðeins við þessa heimsendamynd, himinn sem litverpist. Vissulega þekkjum við Íslendingar þetta þegar um eldgos er að ræða og ýmis önnur náttúrufyrirbæri, og þeir sem sjá skýjaþykkni birtast skyndilega á himninum, en samt er þetta heimsendatákn í vissum skilningi og oft í kveðskap. Svartur himinn að degi til er slíkt tákn að minnsta kosti, sólmyrkvi, til dæmis.

 

Sérstaklega þegar síðasta lína erindisins er skoðuð, "ég verð að fara í flýti".

 

Hann gefur í skyn að tengsl séu milli valdaræningjanna, sjóræningjanna, og heimsendans sem blasir við, að þetta sé allt sjóræningjunum að kenna og almenningi sem kom þeim til valda, en þessir sjóræningjar eru án efa táknmynd fyrir almenna vinstrimenn og mannréttindafrömuði þess tíma, femínista og uppreisnarmenn, kommúnískt byltingafólk.

 

Ég hef sérlegan áhuga á svona kvæðum, sem eru lipurlega ort en lýsa samt þjóðfélagsbreytingum undir rós, og eru þjóðfélagsgagnrýni í gagnstæða átt en flest sem var túlkað sem frá honum kom á þessum fyrstu árum hans sem þjóðlagasöngvara og umbreytingarafls.

 

Menn geta auðvitað reynt að troða inn túlkun í "hefðbundna" átt, að þetta sé enn eitt kommúnistakvæðið hans. Kannski tekst það, ég veit það ekki, það er annarra að skynja það.

 

Annars virðist þetta liggja mjög ljóst fyrir, hann er að kveðja þennan vinstrisinnaða hóp og er að gerast meiri kapítalisti og rokkari, hann er að stíga ný skref á þessum tíma. Þannig að kommúníska mannúðarsiðfræðin er að verða honum fjötur um fót og hann er að reyna að losa sig við hana, en með skrúðmáli og líkingum til að særa sem fæsta.

 

Eftirleikinn þekkja allir sem þekkja sögu Bob Dylans. Hann varð ennþá frægari en áður, og alvöru rokkstjarna.

 

Ég reyni að halda áfram að túlka þetta kvæði, ýmis merkileg erindi eru eftir, en alls er kvæðið sjö erindi, með erindi sem hann söng sjálfur, en ekki Joan Baez á sínum tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.1.): 46
  • Sl. sólarhring: 79
  • Sl. viku: 893
  • Frá upphafi: 131714

Annað

  • Innlit í dag: 41
  • Innlit sl. viku: 717
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband