27.2.2021 | 19:20
Vertu sælt verðleikasamfélag, eftir Bob Dylan, túlkun á fyrsta erindinu
Sumir halda að þetta kvæði sé um Joan Baez, en það stenzt þó tæplega, því Bob Dylan söng með henni á tónleikum stóran hluta ársins 1965, þegar þetta var hljóðritað, þannig að ekki var sambandi þeirra lokið þá.
Þetta kvæði var að öllum líkindum sett saman árið 1964, um sama leyti og "Mr. Tambourine Man", sem talið er frá febrúar 1964. Það lýsir þeim breytingum sem urðu á Bob Dylan um þetta leyti, þegar hann var að kveðja þjóðlagatónlistina og verða rokkari. Það lýsir þó þjóðfélagsbreytingum sem urðu síðar og hefur forspárgildi eins og kemur fram í þessum ritdómi og túlkun.
Svona er þýðingin yfir á óbundna íslenzku, á fyrsta erindinu:
"Vertu sæl Angelína, bjöllum ríkisins hefur verið rænt af glæpamönnum, ég verð að fylgja hljóðinu. Þríhyrningurinn gellur og lúðrarnir blása hæglátlega. Vertu blessuð, Angelína, himininn logar og ég verð að fara."
Það er ekki hægt að flokka þetta sem venjulegt ástarljóð eða skilnaðarljóð til konu eða stúlku. Það lýsir þjóðfélagsbreytingum, samvitzkubiti og stríði, menningarstríði, hruni menningar og heimsendi. Þetta er eitt fyrsta og bezta spádómsljóðið sem Bob Dylan hefur sett saman.
"Bjöllur krúnunnar, bjöllur kóngsríkisins... "the bells of the crown", þetta líkindamál hefur vafizt fyrir mörgum, en er þó vel hægt að útskýra.
Fyrstu drögin að textanum "Chimes of Freedom" voru samin eftir morðið á John F. Kennedy, og lýsa jarðarför hans, þar sem svipað orðalag kemur fyrir. Öllum Dylanfræðingum ber saman um það að morðið á Kennedy hafði mjög djúpstæð áhrif á Dylan, og varð til þess endanlega að hann hætti að samsama sig mannréttindahreyfingunni vinstrisinnuðu og uppreisnarliðinu vinstrisinnaða í þjóðlagatónlistinni. Að minnsta kosti í bili eða á yfirborðinu, hvað svo sem deila má um í raun, en hvernig geta menn verið sammála um eitthvað eins og þetta sem er tilfinningamál og stjórnmálalegs eðlis mjög svo mikið?
Hitt er staðreynd, að hann hætti að semja svona baráttusöngva vinstristefnunnar undir lok ársins 1963 og fór að snúa sér að almennari málum, fór að hunza þessar vinstriáherzlur sterku sem höfðu einkennt hann í upphafi. Þetta lag er því um þessar breytingar að miklu leyti, samið 1964, sennilega, frekar en 1965, þegar það var hljóðritað, einungis einusinni.
Fleira má segja um orðalagið "bells of the crown", það er mjög lýsandi og hefur víðar skírskotanir. Kirkjuklukkur koma upp í hugann, kirkjur feðraveldisins, vald hægrisinnuðu yfirstéttanna, sem Dylan var ekki eins andvígur og sumir hafa haldið, enda þáði hann frá þeim ríkidæmi sitt og völd, og hafði samvizkubit þessvegna og hefur kannski enn.
Þetta kvæði er miklu skiljanlegra nú en þegar það var samið. Þá var það flestum óskiljanlegt, en ekki lengur. Af hverju gaf Bob Dylan út allar þessar plötur þar sem hann söng lög sem Frank Sinatra hafði gert vinsæl? Af hverju snéri hann baki við vinstrielítunni að miklu leyti árið 1964? Bob Dylan er tvíburi eins og Bubbi Morthens, gleymum því ekki, og sama kamelljónseinkennið er sagt hluti af persónuleika tvíburanna.
Af hverju sleit Bob Dylan tengslin við margt af þessu fólki sem gerði hann vinsælt, þjóðlagatónlistarfólkið og fór að umgangast rokkara og æ ríkari yfirstéttir? Að vísu sleit hann ekki alveg tengslin við þetta fólk, en hann hann hætti að vera fátækur á árunum 1963 og 1964 og varð nokkuð vel stæður, sérstaklega vegna greiðslna fyrir lög sem aðrir gerðu vinsæl, en voru eftir hann sjálfan, eins og "Blowing In The Wind".
Bob Dylan stóð því með annan fótinn í hægrinu og hinn í vinstrinu. Hann var maður tveggja tíma, kynslóða einnig. "Farewell Angelína" lýsir þessu og mörgu öðru einnig.
Í "Farewell Angelína" lýsir Dylan viðbjóði sínum á vinstraliðinu og afhelgun á feðraveldinu. Enda söng hann þetta aldrei á tónleikum.
Dylan var alltaf utangarðsmaður, meira að segja í þjóðlagakreðslunni 1962 og 1963. Hann var þó eini nemandi Woody Guthrie sem fékk hreina 10 úr hans skóla, ef svo má segja, enda er Dylan afburðagáfaður eins og ekki er hægt að neita.
Fyrst þegar ég heyrði viðtölin við Dylan frá 1965 voru þau mér nokkur ráðgáta, hvernig hann snéri útúr spurningum blaðamannanna í sífellu og engu vildi svara. Samt eru þau svör skiljanleg ef betur er að gáð.
Dylan vildi ekki vera í þessari stöðu, vildi ekki vera gerður ábyrgur fyrir þessum þjóðfélagsbreytingum, vildi ekki bera þessa ábyrgð, að vera málsvari sinnar kynslóðar, eða vinstraliðsins alls. Hans samúð var meira á miðjunni, bæði með hægrinu og vinstrinu, og þessvegna stimplaði hann sig snemma útúr því sem aðrir gátu túlkað sem eitthvað öfgakennt, eða reyndi það að minnsta kosti, þótt ákveðinn kommastimpill hafi að vísu aldrei losnað af honum, eins og gerist og gengur um samfélagsstimpla og þjóðfélagsstöðu sem fólk kemst í óviljandi eða viljandi.
Þegar hann lýsir arðræningjunum vinstrisinnuðu sem "rangeygum pírötum" seinna í þessu kvæði er ekki hægt að lýsa því öðruvísi en sem andúð og viðbjóði á þeim. Hins vegar er þetta túlkunum háð og þetta kvæði hefur verið túlkað á margvíslega vegu.
Bara þessi tvö orð eru upplýsandi, "bjöllur ríksins", "bells of the crown". Bjöllur krúnunnar væri enn nákvæmari þýðing.
Nú vill svo til að orðið krúna hefur sérstaka merkingu í enskunni, sem konunglegt vald, keisaradæmi eða einveldi. Við erum eiginlega komin aftur í frönsku byltinguna, muninn á þeim eðalbornu og lýðnum. "Crown" þýðir kóróna fyrst og fremst, en hefur svo afleiddar merkingar margar. Þetta er raunar norrænt orð, sama orðið og kóróna eða krúna, nema stafavíxl hefur orðið.
Bjalla eða klukka er hins vegar tengt við kirkjuna, kirkjuklukkur, jarðarför Kennedys. Enda er lag um drápið á Kennedy á nýjustu plötu Dylans, frá þessu ári. Það sýnir hversu mikil áhrif morðið á Kennedy hafði á Dylan, meðal annars.
Þannig að orðalagið "bells of the crown" er lýsing á feðraveldinu, annað orðið lýsir kirkjunni, (bells) og hitt lýsir hvítri yfirstétt vestrænna karlmanna (crown), konungsríkið.
Hitt fjalla ekki allir um, að samúð Dylans liggur með krúninni, eða feðraveldinu, eða yfirstéttinni vestrænu og karllægu í kvæðinu. Það vilja vinstrimenn síður viðurkenna.
Angelína þessi er ekki fallinn engill eða fallinn kvenengill eins og í "Angelína" frá 1981 sem ég hef nýverið lokið við að fjalla um. Dylan ber lotningu fyrir þessum kvenengli, í þessu kvæði, og hann er að afsaka sig allan tímann fyrir vinstrisinnaðar áherzlur sínar í fortíðinni, að því er virðist.
Þessi Angelína er tákngervingur fyrir feðraveldið, fyrir kirkjuna, hefðina, virðuleikann og heilagleikann, eða hægristefnuna, fjármagnið, völdin, sem Dylan telur allt farið að rýrna með mannréttindahreyfingunni, sem hann er hluti af, en er ekki sáttur við þá hlutdeild, samkvæmt því sem margir hafa túlkað, og er sennilega alveg rétt.
Þessi Angelína er Verðleikasamfélagið, verðleikar karlmanna metnir sem gildir.
"Bjöllum ríkisins hefur verið rænt", segir hann og gefur út þessa tilkynningu sem öllum ætti að vera ljós, en kannski ekki, því þarna standa menn í hringiðu viðburðanna. Tilkynningin er því stærri en hún gefur til kynna, úr því að hún er yfirleitt gefin og í samhengi viðburðanna og hvaða hlutverki Dylan gengdi í mannréttindahreyfingunni og mannúðarhreyfingunni, vinstribylgjunni.
"Have been stolen by bandits", segir reyndar í frumtextanum, þannig að hann lýsir sér sem ræningja og sjóræningja, og öllu þessu vinstraliði raunar.
"Ég verð að fylgja hljóðinu" kemur næst. Sumir telja að ljóðmælandinn sé hermaður, en ekki nema í þessu menningarstríði, segi ég.
Sem sagt, virðingin er að hverfa frá kirkjunni og elítunni sem stjórnað hefur heiminum lengi, þessu klukknahljómur eða bjölluhljómur sem hann verður að fylgja er tákn um heilagleika og vald, sem fluzt hefur frá hægrisinnaða feðra- og -kirkjuveldinu yfir á jafnaðarmenn og mannréttindafrömuði þessa tíma, og framtíðarinnar. Svipaðar hugleiðingar eru á ferli í laginu "The Times They Are-A Changing", þar sem kynslóðabilinu er reyndar betur lýst.
Á sama tíma er þessi klukknahljómur stolni tákn um andlegt vald, trúarlegt vald, sem femínisminn hefur yfir sér, húmanisminn og jafnaðastefnan. Eins og á endurreisnartímanum og miðöldum er þetta vandlætingarvald, refsingarvald og ofbeldisvald, pyntingavald.
"Þríhyrningurinn gellur og lúðrarnir blása hæglátlega"... Jarðarför feðraveldisins, kirkjunnar, vestræna heimsins og Kennedys um leið.
Vertu sæl Angelína (Vertu sælt Verðleikasamfélag), himininn logar og ég verð að fara". Þannig lýkur erindinu.
Verðleikar karla eru ekki lengur metnir í gildi nema að litlu leyti, sem undaneldisdýr og hlýðnir vinir, kjölturakkar og eitthvað slíkt.
"Himininn logar", hér eru myndir úr hugmyndaheimi sértrúarsöfnuðanna og kirkjunnar, heimsendalýsing, þessi kröftugi endir á erindinu sýnir hvar samúð Dylans liggur, með feðraveldinu, og hann er sár yfir þátttöku sinni í mannréttindahreyfingunni og hvernig margt í þeim efnum finnst honum oftúlkað öðrum í hag.
"Og ég verð að fara"... þá á hann bæði við að yfirgefa friðarhreyfinguna, vinstrihreyfinguna, og svo er hann að tala um heimsendann sem er í nánd út af öllu saman, raunverulegan, sem hann trúir á, sem kristinn einstaklingur jafnvel svo snemma sem þarna, með rætur í Gyðingdómnum, trúarbrögðum foreldra sinna og ættar, sem aðeins dýpkar skilning hans og þekkingu á Biblíunni og myndmáli hennar.
Þetta er samt veraldlegt kvæði, með trúarlegar og kristilegar skírskotanir. Það lýsir þjófélagsbreytingum sem honum geðjast ekki að. Ég mun reyna að útskýra önnur erindi síðar.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.1.): 36
- Sl. sólarhring: 65
- Sl. viku: 743
- Frá upphafi: 131949
Annað
- Innlit í dag: 24
- Innlit sl. viku: 612
- Gestir í dag: 21
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.