13.2.2021 | 20:47
Angelína eftir Bob Dylan, túlkun á áttunda erindinu.
Ég legg metnað minn í að skrifa eins vandaða pistla og mér er unnt, og verð að sætta mig við að ekki njóta þeir allir mikils lesturs. Stundum hitti ég þó á sæmilega vinsæl viðfangsefni og gleður það mig, en ekki er alltaf hægt að fara eftir því sem vinsælt er. Nú er komið að því að fjalla um áttunda erindi kvæðisins Angelína eftir Bob Dylan. Nokkrir kristilega þenkjandi einstaklingar hafa áhuga á þessu og líka mjög bókmenntalega sinnað fólk, sem eru allmargir.
Áttunda erindið er það næstsíðasta sem ég tek fyrir, því það tíunda var búið, ég byrjaði á því, þar sem það vakti athygli mína í sambandi við heimsatburði þá sem hafa verið að gerast, og margt sem hægt er að heimfæra uppá þá úr þessum erindum, eins og ég hef fjallað um í öðrum pistlum mínum um þetta merkilega kvæði eftir Bob Dylan, eða söngtexta. Úr því að aðrir hafa með bókmenntalegum hætti fjallað um kvæði hans taldi ég rétt að segja frá hvernig ég túlka þetta verk.
Þýðingin á áttunda erindinu yfir á laust mál á íslenzku er á þessa leið:
"Henni var stolið frá móður sinni þegar hún var þriggja daga gömul. Núna hefur hefnd hennar verið fullnægt og auðævi hennar hafa verið seld. Hann er umkringdur af englum Guðs og hún er með bundið fyrir augun, en það á sömuleiðis við um þig, Angelína."
Ég hef lent í erfiðleikum með túlkun þessa erindis. Ég hef kynnt mér túlkanir annarra, en þær eru fátæklegar, fáir hafa fjallað um þetta kvæði Dylans og ritrýnt það, þar sem þetta er afgangslag sem kom ekki út fyrr en á "Bootleg series 1-3 1991", ekki á opinberu plötunni 1981, eins og búast hefði mátt við.
Aðalvandinn við þetta erindi er tvíþættur að minnsta kosti. Hér er komin ný persóna til sögunnar sem ekki var minnzt á í fyrri erindum, að því er virðist, einhver "hún" sem augljóslega er ekki Angelína, eitthvað annað fyrirbæri. Í öðru lagi er ljóðmálið og líkingamálið mjög almennt og varla endilega kristilegt og því erfitt að túlka það á sértækan hátt, en það verður þó hér reynt í samræmi við annað efni kvæðisins.
"Þriggja daga gömul" er kannski fyrsta vísbendingin. Í Biblíunni eru margar vísanir í töluna þrjá og þrjá daga en ég er ekki viss um að þær eigi við hér. Mögulegt er að hér sé verið að vísa í enn eldri talnaspeki, þá sem er heiðin og fyrir daga kristninnar og gyðingdómsins sem trúarbragða, en það er þó alls óvíst, og er eitthvað sem þarf að rannsaka betur og fjalla um.
Fyrst er hér nokkuð sem tengist tölunni þrír. Í kristninni ber það kannski hæst að Jónas var þrjá daga í hvalnum og Kristur reis upp frá dauðum á þriðja degi, eða var í Helju í þrjá daga einsog sumir vilja orða þetta.
Annars er þetta mjög almennt með töluna þrír. Hér gæti verið átt við heiðna merkingu eða almenna merkingu. Talan þrír er fyrsta tala fullkomleikans að því er talið er, og hins endanlega og fullkláraða. Þessi tala er tenging við dularheiminn og hið ókunna, hún hleypir að því nýja en er einnig tala sköpunar, en óvissu í einhverjum tilfellum.
Þetta er auðvitað mjög heilög tala í flestum eða öllum trúarbrögðum og kenningakerfum mörgum, dulspeki og fjölmörgu öðru. Talan tengist vísindum sömuleiðis. Frumlitirnir eru þrír til dæmis, rauður, blár og gulur, eða rauður, blár og grænn í náttúruvísindum.
Sumir fræðingar segja að talan þrír merki samræmi, fullkomnun og nýtt líf, algjörleika, og fræðingar í kristilegum málefnum margir sammála því. Í galdramálum var þrítekning talin galdur, annað hvort til að deyða eða lífga við, svo dæmi sé tekið, en slík túlkun er reyndar af flestum talin úrelt í dag og eiga einungis við hjátrú.
Að "henni" hafi verið rænt sem ungabarni þriggja daga gamalli hefur raunar nokkuð augljósa merkingu. Rétt eins og Hebrear hinir fornu trúðu því að sá sem í gröfinni lægi væri ekki dauður fyrr en á þriðja degi, og upprisa Krists því ekki gild fyrr en á þriðja degi samkvæmt því, þá var lífið ekki staðfest fyrr en á þriðja degi, með þeim rökum - eða sálin kom í ungbarnið, svo þetta sé orðað á annan hátt.
Ævaforn er þessi táknfræði og miklu, miklu, eldri en kristnin. Hún er sennilega jafngömul mannkyninu. Hina heilögu þrenningu, og óhelgu, má finna í nánast öllum trúarbrögðum, heiðnum eða ekki, fjölgyðistrú eða eingyðistrú. Því er erfitt að finna nákvæmlega rétta merkingu hér.
Angelína er mannkynið allt, en þessi "hún" er hluti mannkynsins, samkvæmt minni túlkun. Þessi ónefnda manneskja eða kona er sem sagt germanska og heiðna mannkynið, sem tók upp austræn trúarbrögð. Móðirin var og er hin heiðna trú, Ásatrúin, sem okkar norræna mannkyn hefur skilizt við og sem það hefur svikið og sín goð. Loki er sá sem rændi okkur. Móðirin er einnig blessunin, sem er horfin, og erfitt er að fá aftur.
Þetta er sú réttláta tegund sem átti blessunina vísa og naut hennar um nokkurt skeið en hefur afsalað sér henni og tekið á sig bölvunina, sem aðeins eykst í nútímanum. Þessi "hún" er því aðalpersóna, það er sameiginleg sál sem var til 1981, en er nú dauð, horfin frá jörðinni. "Hún" er því dauð, fékk tækifæri sem hún notaði ekki, tækifærin voru enn til staðar árið 1981, nema kvæðið kom þá ekki út, sem sennilega hefði engu breytt þótt lagið hefði komið út og kvæðið, þróunin var komin á fullt, helstefnuþróunin.
"Hefnd hennar hefur verið fullnægt"? Hvað skyldi það nú eiga að merkja? Það vísar fram í framtíðina. Ekkert óréttlæti á sér stað án þess að þess sé hefnt og að fyrir það sé refsað, þótt sú refsing sé ekki endilega komin fram nú þegar. Allar gjörðir hafa afleiðingar, og skortur á gjörðum engu að síður. Lögmál orsaka og afleiðinga er hér til umfjöllunar. "Hefur verið"... takið eftir orðalaginu, framtíðin er orðin, þetta er búið að gerast þótt það sé óorðið enn að mestu.
"Eigur hennar hafa verið seldar (eða auðævi hennar hafa verið seld)". Þetta er í raun margræðrar merkingar. Þarna er verið að fjalla um svikin, líkamarnir seldir, þrælar og ambáttir, zombíar, ekki frjálst fólk með lifandi anda, sálirnar hafa verið drepnar og leiddar til Helvítis, (en ekki allt búið að gerast í því efni) og vil ég í því sambandi benda á Lúkas 12,4: "En ég segi yður, vinir mínir: Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, og geta ekki að því búnu meira gjört. En ég skal sýna yður, hvern þér eiguð að hræðast; hræðist hann, sem eftir að hann hefir líflátið, hefir vald til að kasta í helvíti; já, ég segi yður, hræðist hann." Þetta eru orð Krists, vel að merkja.
"Hann er umkringdur af englum Guðs, og hún er með bundið fyrir augun, en það á sömuleiðis við um þig, Angelína."
Þetta er mjög auðskilið þegar búið er að lesa skýringar við hin erindin á undan. Það er Satan, sá sem ræðst á mannkynið og jörðina núna og oft áður, höfðingi heimsins, sem er umkringdur af englum Guðs, (í tapaðri stöðu). Fólkið sem ætti að vera frjálst og kjósa rétt það kýs vitlaust og er þrælkað, það veit ekki, þorir ekki að vita, þorir ekki að lifa (með bundið fyrir augun), og allt mannkynið þar af leiðandi í heild. Afleiðingin af því er að englar Guðs hafa umkringt og sigrað allt mannkynið um leið, eins og Satan, fyrst mannkynið tekur sér stöðu með Satan en ekki á móti honum.
Eins og ég hef tekið fram hér á undan eru mörg vafaatriði þegar kemur að túlkun þessa erindis og þessa ljóðs alls, en hér hef ég þó að minnsta kosti fylgt sömu túlkunarfræði og í öðrum erindum, þannig að sama merkingin haldist. Að meginstofni tek ég þetta sem kristilegt kvæði, en gef þó möguleika á öðrum túlkunum með, en ætli maður að túlka það alveg með heiðnum eða veraldlegum hætti þyrfti að nota þennan grunn og byggja ofaná hann með annarskonar túlkunum og röksemdum.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 7
- Sl. sólarhring: 77
- Sl. viku: 611
- Frá upphafi: 132064
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 505
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.