30.1.2021 | 20:06
Angelína eftir Bob Dylan, umfjöllun um sjötta erindið.
Tímabært er að hefja umfjöllun um sjötta erindi kvæðisins Angelína eftir Bob Dylan. Frá kristilega tímabilinu á hans ferli, frá 1979 - 1981, þetta var að öllum líkindum samið vorið 1981, eða seinni hluta ársins 1980. Það hafa menn fundið út með samanburði við önnur verk hans, og hvernig hann gerðist fráhverfur kristninni smám saman á þessum tíma, og fór aftur að nota litríkt myndmál og ljóðmál, eins og þetta kvæði ber vitni um, en árið 1979 og fyrri hluta ársins 1980 var hann fastur í hefðbundnu kristilegu ljóðmáli að langmestu leyti, eins og aðrir túlkendur hafa orðið sammála um.
Íslenzk þýðing þessa erindis er eitthvað á þessa leið:
"Þegar þú hættir að vera til, þá hverjum muntu kenna um það? Ég hef reynt mitt bezta að elska þig, en ég get ekki leikið þennan leik. Þinn bezti vinur og minn versti óvinur er einn og hinn sami, Angelína."
Þegar maður hefur ráðið í þær rúnir sem birtast í öðrum erindum kvæðisins og komizt að niðurstöðu um hvað þetta fjallar og hverjar persónurnar eru þá er ekki svo erfitt að skýra og túlka þetta erindi. Þó verður enn að taka það fram þegar þessi ljóðatúlkun er borin á borð og framreidd að hún er ekki algild, hægt er að túlka verkið á aðra vegu sömuleiðis, en rök hef ég leitt að þessu og mín túlkun er nokkurnveginn í samræmi við almenna og viðtekna túlkun á þessu kvæði í öllum meginatriðum.
Þegar svona frásagnarkvæði er túlkað sem hefur boðskap og ekki kemur í ljós í verkinu sjálfu hverjar persónurnar eru, þá er býsna mikilvægt að komast að því um hvaða persónur er verið að fjalla og hvert sögusviðið er.
Við höfum um tvær meginleiðir að velja í túlkun á verkinu sem lita framhaldið. Annaðhvort er þetta innihaldslaust bull frá uppphafi til enda eða þá spádómskvæði eða leiðslukvæði með innihald og boðskap. Ég tek seinni kostinn og hef fylgt honum, þeirri túlkun.
Myndirnar sem eru dregnar upp eru dramatískar og atburðarásin sömuleiðis. Angelína er mannkynið, en sögumaðurinn er engill, kannski Mikael erkiengill, eða Gabríel, eða heiðinn guð, til dæmis Lýtir, sem gegnir hlutverki í sköpunarsögunni, eða þá að þetta er málaliði í rómverska hernum sennilega á tímum frumkristninnar frá Evrópu og Norðurlöndum, því þannig er honum lýst, sem ljóshærðum manni og það þrengir hringinn og túlkunarmöguleikana.
Þessi setning er óskiljanleg án samhengisins: "Þegar þú hættir að vera til..."
Fólk verður að rifja upp það sem fjallað var um í sambandi við önnur erindi kvæðisins, því ekki ætla ég að endurtaka það allt hér. Sumt þarf þó að taka skýrt fram fyrir þá sem ekki hafa kynnt sér hin erindin eða túlkun á þeim.
Það er auðvitað mannkynið sem hættir að vera til vegna syndarinnar. Laun syndarinnar eru dauðinn. Sumar hugmyndir Abrahamstrúarbragðanna í upphafi, sérstaklega gamla gyðingdómsins áður en kristni og islam komu til sögunnar voru á þá leið að dauðinn væri útslokknun og myrkur, eða eilífur svefn. Það voru hugmyndir Zaraþústratrúarbragðanna, Egypta og Grikkja sem breyttu þessu, komu með tvíhyggjuna, Himnaríki og Helvíti og það allt saman inní þessi trúarbrögð með tímanum, en þó aðallega í kringum árið 0, Krists burð, því það var mikill gerjunartími í trúarbragðasögu mannkynsins eins og menn þekkja og vita sem hafa kynnt sér það.
Þessi lína og setning vísar því til þessara fornu hugmynda, sem enn lifa góðu lífi, og eru kannski vinsælli en tvíhyggjan, því þær eru svo líkar vísindabölsýninni og vísindakaldhæðninni sem segir að ekkert líf sé eftir dauðann, ekkert nema útslokknun og myrkur, tómið eitt.
Alla vega er óhjákvæmilegt að túlka þetta þannig. Mannkynið er að útrýma sér, og ljóðmælandinn hefur gert sér fulla grein fyrir því. Hér er enn ein sönnunin fyrir lífi á öðrum hnöttum, því Bob Dylan var ekki á þessari skoðun eftr því sem ég bezt veit þegar hann samdi þetta, hann var enginn sérstakur umhverfisverndarsinni, eða á þeirri skoðun að mannkynið væri að útrýma sér, nema kannski vegna kjarnorkuógnarinnar, en spíritúalísk heimssýn hans kom í veg fyrir að hann færi mikið útí slíkt, nema kannski árið 1963 á plötunni "Freewheeling", í "Talking World War 3 Blues", þar sem hann gerði að vísu grín að öllu saman, en öllu gamni fylgir nokkur alvara, eins og menn vita.
Bara þessi eina lína sannar tilvist fólks á öðrum hnöttum og draumakenningu dr. Helga Pjeturss, því þetta er tekið fram með svo mikilli fullvissu að búizt er við meiri þekkingu á þessu sviði en ríkir á okkar jarðstjörnu. Enginn tæki þetta fram án útskýringa nema búast við þekkingu, sem varla er til á okkar jörð. Ljóðmælandinn er þar af leiðandi íbúi annarrar stjörnu.
"Hverjum muntu kenna um það?" Hér er einnig lykilsetning og lykilspurning. Þetta er leikur mannkynsins, leikur andherja í stjórnmálum og lífinu almennt. Gefið er í skyn að mannkynið muni kenna þeim um sem vilja hjálpa, eins og títt er meðal tapara. Það er hinn heiðni frelsari, leiðbeinandi og hjálpandi, eða engillinn kristni, eftir því hvernig við túlkum þetta, sem fær hinar ómaklegu skammir mannkynsins og sakbendingu, eins og búast má við á helstefnujörðum.
"Ég hef reynt mitt bezta til að elska þig"... þetta gætu allt eins verið orð Drottins almáttugs, en engillinn eða spámaðurinn gæti mælt þetta í orðastað hans, eða sem erindreki hans og stríðsmaður.
"Ég get ekki leikið þennan leik". Hann getur ekki tekið þátt í mannlegu samfélagi, ómenningunni, helstefnuhryllingnum og öllu sem honum fylgir.
"Þinn bezti vinur og minn versti óvinur er einn og hinn sami, Angelína". Satan, að sjálfsögðu. Þeir sem vilja túlka þetta sem ástarkvæði og að um sé að ræða hefðbundinn ástarþríhyrning túlka þetta þannig að þarna sé kominn þriðji maðurinn, hjónadjöfullinn, sá sem kemur upp á milli Angelínu og sögumannsins, ljóðmælandans. Slíkt túlkun er einnig möguleg, eins og ég hef fjallað um áður.
Í þessu erindi kemur ekkert á óvart sem þekkja þessa túlkunarfræði kristilegu og þetta myndmál. Allt er þetta samkvæmt hefðinni. Það eru helzt smáatriðin sem eru athygliverð, eins og ég hef bent á, fullvissan í því sem ekki er þekkt, sem sannar eða bendir til lífs á öðrum hnöttum.
Aftur vil ég benda á orðið "þegar" í setningunni "þegar þú hættir að vera til", ekki "ef þú hættir að vera til. Hér er aðili með vald sem mælir þessi orð, sem þekkir hvað verður, óhjákvæmilega niðurstöðu, sem ekki er sagt frá hvenær verður, útrýming mannkynsins á jörðinni.
Í öðrum erindum sem á eftir fylgja er rétt að vekja upp spurningar um þessar persónur, þegar kannski koma fleiri persónur við sögu, eftir því hvernig þau erindi eru túlkuð.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 57
- Sl. sólarhring: 104
- Sl. viku: 722
- Frá upphafi: 127349
Annað
- Innlit í dag: 46
- Innlit sl. viku: 533
- Gestir í dag: 45
- IP-tölur í dag: 43
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.