Angelína eftir Bob Dylan, túlkun á fimmta erindinu.

Nú er komið að því að fjalla um fimmta erindið í kvæðinu "Angelina" eftir Bob Dylan. Í þessu erindi er talsvert mikið um þjóðernishyggju sem einna helzt gæti talizt gyðingleg eða bandarísk, vegna tengslanna við Gamla testamentið og bandaríska fánann, "stars and stripes", sem þarna kemur fyrir í textanum, eftir því hvernig á það er litið, eða forngyðingleg, ef hún er túlkuð í anda Mósebókanna, en vísanir eru margar í Biblíuna þessu erindi.

 

Íslenzk þýðing þessa erindis er á þessa leið:

 

"Í dal risanna þar sem stjörnurnar og rendurnar sprungu voru ferskjurnar ljúffengar og mjólkin og hunangið flóðu. Ég var einungis að fylgja fyrirmælum þegar dómarinn sendi mig niður eftir veginum með vitnastefnu þína."

 

Texti sem í fyrstu virðist innantómt málskrúð eða bull en er í raun annað, hann er fullur af tilvísunum og mögulegum merkingum.

 

Fyrsta setningin er tilefni til margvíslegra túlkana og vangaveltna, þessa setningu má túlka á marga vegu. Táknmál setningarinnar er þó fastskorðað og hefðbundið að mjög miklu leyti og því er hefðbundin túlkun auðveldari en í mörgum öðrum erindum kvæðisins, vel að merkja.

 

Dalur risanna er hugtak úr Biblíunni, sem aðeins er þýtt á þann hátt í King James Biblíunni, ekki í íslenzkri þýðingu sem ég hef undir höndum, frá 1968.

 

Í annarri Samúelsbók er talað um Refaímdal, og hugtakið "fjallvígi" er notað yfir "valley of the giants", eða dal risanna. Um er að ræða landsvæði milli Júdah og Benjamíns, sumir telja það hafa verið stærra til forna, á milli Jerúsalems og Betlehems.

 

Um er að ræða sigur Davíðs á Filisteunum, sagan um Davíð og risann Golíat kemur hér inní einnig.

 

Síðan flækjast málin, því bandaríski fáninn kemur næst við sögu í textanum, en hugtakið "stjörnurnar og rendurnar" er mjög fastmótað sem tilvísun í bandaríska fánann, eða Bandaríkin öll eða þeirra þjóðarsál, eða eitthvað þesslegt.

 

Margar skáldsögur hafa verið ritaðar með vísanir í þetta táknmál, til dæmis ein um hvernig erlent og fjölþjóðlegt stórfyrirtæki nær völdum í Ameríku og fer illa með litla manninn. Þetta táknmál hefur einnig verið notað í allskonar listum, tónlist, myndlist, leikritum, og óþarfi að tíunda það allt, nema að nefna það hér, ef fólk vill kynna sér það efni betur.

 

Í fljótu bragði virðist hér vera sögusvið þar sem bandarískur almenningur vinnur bug á vondu, erlendu afli, fjölþjóðlegu, ef tilvísunin í söguna um Davíð og Golíat er notuð sem útgangspunktur og megintúlkunaratriði. Þetta er þó aðeins tilgáta, ein af mörgum, en frekar sennileg raunar og í anda textans.

 

Hér þarf að staldra betur við myndmálið að bandaríski fáninn springi, sé sprengdur, tryllist, brjótist út, blossi upp, eða kollvarpist, en allt þetta getur verið merking á hugtakinu "explode" sem er í upprunalega textanum.

 

Er þetta vísun í einhverskonar styrjöld, eða stríðsástand, átök eða eitthvað slíkt, eða eitthvað allt annað? Úr því að síðasti hluti kvæðisins virðist fjalla um Armageddon, eða Harmageddon, eða heimsendi, þá er freistandi að ætla sem svo að hér sé verið að fjalla um þesskonar heimsslitastyrjöld, en þó gæti verið um að ræða undanfarastyrjaldir fyrir þesskonar atburð eða atburði, ef menn taka mark á slíku, margir efasemdarmenn vilja ekkert með slíkt hafa, veit ég vel, en til að túlka kvæðið þarf maður að vera mýtunum trúr sem það kemur inná, að því er virðist.

 

Angelina er mannkynið og ljóðmælandinn er víkingur, engill eða Lýtir, heiðni guðinn, samkvæmt tilgátu sem ég hef sett fram í túlkunum á öðrum erindum kvæðisins. Hér er kominn tími til að taka það með í reikninginn.

 

Þetta er heimsendakveðskapur, held ég, ljóðmálið í síðustu erindunum er allt á þá lund, myndi ég segja. Þetta er einnig spádómsljóð, mjög greinilega, sem vel gæti átt við okkar tíma, og á því erindið við okkur.

 

Í öðrum erindum kom Satan við sögu, að því er bezt verður skilið og túlkað. Því eru þessar þrjár persónur áberandi, sögumaður, Angelína og Satan, sem er tákn fyrir stjórnmál nútímans og menninguna, húmanismann, femínismann og tízkuna í dag.

 

Við erum með þessum orðum og túlkunum farin að nálgast boðskapinn í þessum orðum, í erindinu. Land mjólkur og hunangs var í Biblíunni fyrirheitna landið, sem Ísraelsmenn fengu að lokum. Þó hefur hugtakið einnig verið notað um Bandaríkin, land mjólkur og hunangs, land frelsisins, land tækifæranna. Svona táknmál er margrætt, eða getur verið það.

 

Með vísun í ofsóknirnar sem gyðingar hafa þolað, ekki bara í seinni heimsstyrjöldinni heldur á miðöldum einnig og í sögunni, þá má segja að réttlæti sé stillt upp við hlið óréttlætis, og að baráttunni sé lýst sem mikilvægri baráttu á milli góðs og illa, eða þetta hefðbundna sem oft er kjarni hverrar góðrar sögu svosem.

 

Hvaða barátta er þetta þá nákvæmlega sem lýst er í þessu erindi? Er það framtíðarbarátta, nútímabarátta eða fortíðarbarátta? Þarna er verið að lýsa að einhver berjist við ofureflið og sigri.

 

Er þetta baráttan fyrir landinu, sem virtist vonlaus þangað til eftir seinni heimsstyrjöldina? Er þetta sigur Bandaríkjamanna tilvonandi á peningaelítunni alþjóðlegu? Er þetta sigur alþýðunnar á kúgurum sínum, peningaöflunum, eigendunum? Margt kemur til greina, en þetta eru allt vænlegir kostir þegar kemur að túlkun kvæðisins.

 

Er það Satan sem verður dæmdur eða mannkynið? Dómarinn er greinilega Guð almáttugur, eftir samhenginu að dæma, en ljóðmælandinn engill, eða heiðinn guð, Lýtir, til dæmis, eða trúaður maður sem telur sig spámann eða boðbera, eða riddara, krossfara.

 

Ljóðmælandinn afsakar sig, og viðurkennir að hafa sært eða valdið skaða, þegar hann notar orðið "only", aðeins að fylgja fyrirmælum. Þannig dregst upp mynd af refsandi engli, sem hefur vald til að eyðileggja og deyða jafnvel í Armageddon, eða við heimsslit, að minnsta kosti syndurunum. Allt er þetta mjög dramatískt, vissulega.

 

Enn betur þarf að skoða samhengið til að fá dýpri merkingu og skilning á inntakinu í þessum orðum og erindinu öllu.

 

Að því er virðist markar þetta fimmta erindi tímamót eða skil í kvæðinu. Engillinn eða heiðni guðinn er ekki lengur í dulargervi, hann er ekki lengur undirgefinn mannkyninu eða hógvær, hann sýnir sig sem voldugan og æðri mönnum, sem refsanda.

 

Erindin á eftir lýsa því stríðinu, Ragnarökum, Harmageddon, Armageddon, heimsslitunum, heimsendi, ef þessi túlkun er notuð, sem virðist mér sennilegust.

 

Þetta eina orð er lykilorð í kvæðinu öllu og erindinu, "explode". Það getur þýtt að springa úr reiði, til dæmis, að hætta að vera bældur, kúgaður og undirokaður, að leita réttar síns og heimta rétt sinn, með góðu eða illu, með stríði eða friði, röksemdum eða ráðdeild, eða ofstopa.

 

Mér virðist þetta vera bandarísk alþýða sem þarna vinnur sigur á ofureflinu, alþjóðlegu, satanísku afli, hugsanlega, sé tekið mið af öðrum vísbendingum.

 

Einnig kemur fram í orðinu "instructions", að það var ekki vilji hans, hjálpandans sem þarna kemur, að koma til bjargar. Hann er aðeins að hlýða Drottni og gerir þetta gegn vilja sínum, en gerir þetta samt.

 

Honum finnst mannkynið ekki eiga rétt á hjálp, honum finnst það vera fordæmt. Þannig er rétt að túlka þetta í samhengi við aðrar vísbendingar í ýmsum erindum.

 

"Vegurinn" (niður eftir veginum) er vetrarbrautin eða geimurinn allur, "down the road" er auðvitað í gegnum geiminn, frá öðrum hnetti.

 

Stefnan eða dómsúrskurðurinn, eða vitnakvaðningin, þetta er orð sem er margrætt og getur beinzt að Satan eða mannkyninu sjálfu.

 

Hröpum því ekki að ályktunum en skoðum möguleikana sem eru í boði. Margt er þarna opið en ekki allt. Undan átökunum verður ekki komizt samkvæmt erindinu og kvæðinu, en sýkna eða sekt, það virðist óljóst.

 

Ekki samt svo óljóst, því Armageddon eða heimsendir snýst alltaf um dóm mannkynsins, og oft dóm Satans einnig.

 

Landið er dýrmætt sem barizt er um. Áherzlan á mikilvægi landsins er mikil í þessu erindi, áherzlan á hvaða þjóðerniskennd sem er og hvaða ættjarðarást sem er, því vísun er túlkanleg á marga vegu, ef fólk kýs að hafa það svo.

 

Landið er í lykilhlutverki í þessu erindi og ættjarðarástin. Þessi atburðir geta aðeins gerzt á þessum eina stað sem lýst er, og því er hér ekki verið að gera lítið úr ættjarðarást eða þjóðerniskennd eins og víða er gert, heldur látið í það skína að allt svona sé óumbreytanlegt, klappað í stein og fyrirfram ákveðið, felist í spádómum jafnvel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 573
  • Frá upphafi: 141258

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 422
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband