Angelína eftir Dylan, þriðja erindi, túlkun.

Þetta kvæði er svo torskilið að rétt er að fjalla um eitt erindi í einu. Hér kemur túlkun á þriðja erindinu. Þýðingin er svona:

 

"Augu hans voru tvær rifur sem hefðu gert hvern snák stoltan, með andlit sem sérhver málari hefði málað þegar hann gekk í gegnum mannþvöguna. Svo dýrkaði hann guð (gyðju) með líkama vel vaxinnar konu og haus hýenu."

 

Margir enskir túlkendur hafa hér bent á eitt vandamál af mörgum við að útskýra kvæðið, að ekki er útskýrt hver þessi "hann" er sem skyndilega birtist í þessu þriðja erindi fyrirvaralaust, en áður var um fyrstu persónu frásögn að ræða. Margar ágizkanir hafa komið fram og margir telja Dylan lýsa einhverskonar mannpúka, eða Satan sjálfum, en um það eru skiptar skoðanir, en kannski er það "Höfðingi heimsins" (sem er ákveðin túlkun á Satan sem táknmynd nútímamannsins og mörgu sem hann stendur fyrir) sem fær þessa lýsingu, eða nútíminn, kannski er þetta holdgervingur syndsamlegs nútímalífernisins, sem þarna fær þessa ógnvekjandi villidýrslýsingu, en að hálfu leyti þó mennska.

 

Rétt er að staldra hér við og reyna að fá þetta á hreint, ef þess er nokkur kostur, en það er auðvitað ekki hægt, en eitthvað er þó hægt að komast nær því.

 

Fyrst ber að nefna að sumir telja þetta einfalt ástar/haturs kvæði og hér sé aðeins verið að lýsa þriðja aðilanum, þeim sem stal konunni frá ljóðmælandanum. Hér sé því um þríhyrning að ræða. Það er þó of einföld skýring, finnst mér, eins og býsna mörgum sem hafa reynt að túlka verkið.

 

Samt, ef maður þekkir til aðferða Dylans er þetta mjög algeng vinnuaðferð hjá honum. "Man in The Long Black Coat" frá 1989 er annað slíkt dæmi. Þar virðist hann jafnvel vera að endurvinna þetta erindi og gera úr því heilt nýtt kvæði, nýtt dægurlag.

 

Erindið hefur þó á sér aðrar hliðar. Þetta tilheyrir auðvitað trúartímabilinu kristilega hans Dylans, 1979 - 1981, og verður að skoðast í því samhengi. Ekki er tilviljun að hann vísar í hugmyndir um Djöfulinn, í fornri og nýrri list, og að Höggormurinn er eitt nafn Satans. Það virðist því af öllu samhenginu að dæma að hann sé að lýsa "Höfðingja heimsins", Satan í þessu erindi, freistaranum, sem freistaði Krists í eyðimörkinni.

 

Ef menn muna túlkanir á fyrri erindum kvæðisins kemur þetta heim og saman. Ljóðmælandinn er engill, riddari eða forn guð úr heiðnum trúarbrögðum. Hann er einhver sem er kominn til að vernda fólk eða bjarga mannkyninu.

 

Í öðru erindinu kemur fram að ljóðmælandinn er með blóðugt, ljóst hár. Grunur vaknar að andstæðingur hans hafi veitt honum þetta sár, jafnvel með sverði, eiginlegu eða óeiginlegu, kannski er þetta líkingamál og kannski ekki, kannski bert mál, ber lýsing. Í þriðja erindinu sem hér er til umfjöllunar er þessum umrædda andstæðingi hans því lýst.

 

Líkamlegur glæsileiki hefur oft verið tengdur við Satan og efnisleg dýrð, kvenhylli og annað slíkt. Lýsing Dylans á Satan í erindinu er þessvegna hefðbundin að því leytinu til og varla fer margt á milli mála, hafi maður kynnt sér kristilegar bókmenntir og túlkanir um þetta.

 

Síðan kemur lýsingin á gyðjunni sem þessi óvinur dýrkar og trúir á. Merkilegt er að orðið "god" er notað en ekki "goddess", og bendir það til að um tvíkynjaða veru sé að ræða, nýlegt upphlaup kirkjunnar íslenzku kemur uppí hugann, Transjesúinn frægi. Þetta er annað minni úr kristnum fræðum, að Djöfullinn sé hið afskræmda holdi klætt í sumum slíkum lýsingum. Dylan fer því aðeins í hefðirnar í sinni lýsingu.

 

Nafn kvæðisins er Angelína, sem hægt er að þýða sem Kvenengill, eða Engillína. Allt myndmálið minnir því á aldirnar kristnu, þegar englar, púkar og menn léku stórt hlutverk.

 

Hýenuhausinn sem gyðjan er með þarf frekari umfjöllunar við.

 

Hýenan er afrískt rándýr og kjötæta, frægt í þjóðsögum og menningunni, hatað og fyrirlitið, en virt einnig og dýrkað af frumstæðum samfélögum.

 

Hýenan var talin geta breyzt í menn, skipt hömum og rænt börnum eða búfénaði, rænt grafir og haft áhrif á anda manna, eða yfirtekið hann. Líkamshlutar hýena hafa verið notaðir í afrískri heiðni og galdratrú. Hýenan sjálf er jafnvel talin göldrótt í sumum svona trúarbrögðum.

 

Af öllu þessu sést að myndin sem Bob Dylan dregur upp er mjög öflug og skýr; hún er yfirfull af táknum, ef svo má segja.

 

Klókur er þessi óvinur, því snákar eru taldir undirförlir og lymskulegir, ekki aðeins í kristinni hugmyndafræði heldur víðar. Við skulum því ekki festa okkur of mikið í hinni kristilegu túlkun á kvæðinu, það fer út yfir mörk kristninnar og yfir í hið samtrúarbragðalega.

 

Þessi óvinur er grunnhygginn, hann sér aðeins yfirborðið en ekki það sem undir býr, því hann elskar fegurðina yztu, ekki þá sem dýpra býr, það sést á lýsingunni.

 

Hann gengur gegnum mannþröngina, og lýsingin minnir á diskótek þessa tíma, og veiðiaðferðirnar notaðar þá til að ná sér í maka eða bólfélaga. Áherzla er lögð á trúvilluna, að okkar menning er ókristileg og komin af réttri braut, ef Angelína er mannkynið, eins og mér finnst sennilegt.

Ég tel að þetta þriðja erindi lýsi nútímanum, að Satan er mitt á meðal okkar í nútímanum og hann er allsráðandi, ef svo má segja, það er tekið meira mark á honum en þeim sem eru kristnir, hann er táknmynd fyrir vísindin og vísindatrúna, húmanismann, femínismann, demókrata, jafnaðarmenn og vinstrimenn, og hægrimenn sem svíkja lit.

 

Þessi óvinur Guðs er trúverðugur í nútímanum, það er ekki efazt um hann. Þegar því er lýst hvernig hann nær sér í kvenfólk eins og hendi sé veifað er því á sama tíma lýst hvernig hann beygir samfélagið undir sinn vilja, fær sitt fram með milljónum, óendanlegum auði og fjármagni, ef svo má segja. Þetta er SIGURVEGARI nútímans.

 

Samt er hann fallinn engill og fordæmdur eins og af lýsingunni má ráða. Hann á ekki vísa vist í Himnaríki heldur Helvíti eftir dauðann, augljóslega. (Ef notuð er hin kristilega túlkun).

 

Þessi aðili er einnig táknmynd fyrir rökin sem duga á fjöldann, þá hyggju sem nýtur mestrar hylli en er samt Guði andstyggileg. Þessi aðili eða andstæðingur Guðs er hugsanlega Andkristur.

 

Það finnst ekkert á hann og hann kemst upp með svik og pretti. Það er ekki hægt að kveða hann í kútinn, hann er ósigrandi andstæðingur, í bili að minnsta kosti.

 

Sögusviðið er mótað, og við bíðum spennt eftir framhaldinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 185
  • Sl. sólarhring: 192
  • Sl. viku: 754
  • Frá upphafi: 127190

Annað

  • Innlit í dag: 114
  • Innlit sl. viku: 564
  • Gestir í dag: 104
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband