12.12.2020 | 07:12
Skyldi Sigmundur Davíð eiga endurkomu sem forsætisráðherra?
Mig dreymdi fyrir því að Joe Biden yrði næsti forseti en Donald Trump hefði þó áhrif á einhvern hátt. Mig dreymdi Joe Biden með kórónu eins og konung, en andlit Trumps var við öxl hans, eða eins og hann væri fálki eða eitthvað slíkt, Trump, það er að segja.
Miðað við það sem gerzt hefur eftir kosningarnar gæti þetta ræzt, en um það er ég ekkert svo viss, vil ekki telja það of merkilegt sem ég hef fram að færa. Einhverjar vendingar og sviptingar gætu enn orðið sem gætu breytt stöðunni, þótt það sé orðið ólíklegra að Trump verði forseti næstu 4 árin, að minnsta kosti.
Það er þá vissulega ekkert frá mér komið ef mark er takandi á svona draumarugli, heldur draumgjöfum mínum, enda er sá sem er sofandi draumþegi og sá sem er vakandi, á annarri jarðstjörnu í 99% tilvika, draumgjafi eins og dr. Helgi Pjeturss komst að í Nýölum sínum á fyrri hluta 20. aldarinnar.
Hér er sem sagt draumur um hugsanlega endurkomu Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra, ef maður vill túlka hann þannig.
Mig dreymdi að ég væri staddur í langferðabíl og ekið var um holótt landslag. Bílstjórinn var Sigmundur Davíð, röddin auðþekkjanleg, djúp og auðheyranleg og svo leit hann um öxl til farþeganna öðru hvoru til að svara spurningum sem hrópaðar voru að bílstjóranum. Eiginlega allir virtust halda að það væri ekki hægt að aka um þetta landslag, nema hann.
Það sem var merkilegt við drauminn var þetta, að hann var ímynd hins traustvekjandi manns, því farþegarnir voru skelfdir og spurðu hvort leiðin væri ekki ófær. Þá fór hann léttilega yfir einhverja torfæru og draumnum lauk eftir einhverja slíka byltu en allir voru heilir á höldnu. Oft heyrðist hann hrópa: "Þetta er ekkert mál, ég hef stýrt yfir meiri ófærur en þetta".
Ég hef velt því fyrir mér hvort túlka beri þetta þannig að ég sé undir of miklum áhrifum frá þeirri pólitík sem Miðflokkurinn stundar eða hvort þetta merki að Sigmundur Davíð leiði þjóðina í annað sinn út úr kreppu og ógöngum, eins og hann gerði eftir Jóhönnustjórnina á sínum tíma, og svo er þetta kannski allt ómarktækt.
Alla vega, Sigmundur Davíð hefur einusinni fengið traust þjóðarinnar og kannski fær hann það aftur til að gera góða hluti.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 79
- Sl. sólarhring: 129
- Sl. viku: 779
- Frá upphafi: 133325
Annað
- Innlit í dag: 67
- Innlit sl. viku: 570
- Gestir í dag: 64
- IP-tölur í dag: 64
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.