9.11.2020 | 18:00
Engar umbúðir - texti og lag frá 1984 sem ég gerði vinsælt í MK 1993. Plastpokabann á undan sinni samtíð.
Afabróðir minn kenndi mér að yrkja, það er að segja, hann kenndi mér bragfræðireglurnar, Ingvar Agnarsson, forstjóri Barðans, mikill Nýalssinni. Þetta kvæði sem ég ætla að birta hér er afrakstur af virðingu minni fyrir speki sem ég lærði af svona kennurum, en Árni Waag líffræðikennari kom þó með fræðsluna og innihaldið að stórum hluta sem birtist í kvæðinu.
Ég ólst upp hjá ömmu og afa að mestu leyti og varð því fyrir áhrifum af mér eldra fólki í málfari og stafsetningu. Einnig lærði ég að virða og tileinka mér öðruvísi málfar en jafnaldrar mínir, enda fólk duglegt að gagnrýna fyrir villur þá.
Ég gerðist vinstrisinnaður vegna áhrifa frá íslenzkukennara mínum, honum Skafta um 1983, og líka þegar ég fór að hlusta á kommúnista eins og Bubba Morthens og Megas, sem þóttu flottastir þá. Svo varð ég hægrisinnaður þegar ég fór að hlusta á Sverri Stormsker 1987 og lesa Nýalana um svipað leyti almennilega.
Það var mér mikil opinberun að hlusta á líffræðikennarann í Digranesskóla tala um mengun og hvað hún væri hneykslanleg. Ég drakk þennan boðskap í mig og þetta varð mitt helzta baráttumál um langt skeið.
Það eru nokkrir bragfræðihnökrar á þessu kvæði, en svona var þetta sungið og frumflutt á Myrkramessunni í Menntaskólanum í Kópavogi seint á árinu 1993. Svona var þetta skrifað, og erfitt að breyta texta sem maður hefur lært utanað. Línan "Já, ætíð dýrka gyðju þessa eina"... er auðvitað röng bragfræðilega, því of langt er á milli stuðla. Er ekki eðlilegt að 13 ára krakki geri villur í bragfræðinni?
Annars kom ég reglulega í heimsókn til þeirra á Hábrautinni og hann fór yfir kvæðin mín, leiðrétti braglýtin og kenndi mér að temja mér fullkomnunaráráttu og sjálfsgagnrýni.
Það vildi bara þannig til að þetta kvæði varð eftir, og var óyfirfarið þegar hann dó, árið 1996. Það lá gleymt og grafið fram til 1993 að mestu, þegar ég fór að syngja það, en einhverra hluta vegna varð það útundan að láta hann fara yfir það. Þrátt fyrir að það sé ekki fullkomið bragfræðilega veit ég að það er ágætt eins og það er, og það naut vinsælda. Hvernig er svo innihaldið og boðskapurinn? Það er eins og ég sé að blanda þarna saman heiðnu goðafræðinni sem ég lærði fyrst hjá honum frænda mínum og svo umhverfisverndinni sem hann Árni Waag innrætti mér svo duglega. Síðan kemur kommúnistaáróðurinn inn líka, frá Skafta íslenzkukennara, í línunni ..."eða herbúðir"...
Ég var eini krakkinn í bekknum mínum sem tók þetta inná sig, hjá mér varð þetta mikið hjartans mál að berjast fyrir umhverfisvernd, því mér fannst það svo heimskulegt og fáránlegt að enginn skyldi sýna þessu athygli og áhuga nema örfáir, og enginn af mínum jafnöldrum. Ég varð því ákafari og þrjózkari eftir því sem áhuginn varð minni hjá öðrum.
Núna löngu síðar er farið að banna plastpoka. Merkilegt hvernig gamalt þráhyggjumál og réttlætismál hjá manni verður loksins viðurkennt, þegar maður er löngu hættur að sinna því og er næstum búinn að gleyma því.
Engar umbúðir (Frá 10. janúar 1984).
Viðlag: E A E
Engar umbúðir
A E
engar umbúðir,
A E
engar umbúðir,
A E
eða herbúðir.
E A E
Hygg að því er götu þína þú gengur
D H E
að gæta þess að jörðin lifi vel.
E A E
Já, ætíð dýrka gyðju þessa eina,
D H E
þá aldrei mun þig kvelja nokkur él
Ef viltu forða þér frá öllum eymdum
þess aðeins gæt að hugsa um þína jörð,
sem fegurst er, og gefur okkur gleði,
svo græða skulum öll nú strindar svörð.
Já, hygg að því, að hugsa um alla jörðu,
henni skaltu þjóna sem guði hér,
því þannig munu geimför hérna á holdi
hennar loksins kynnast sjálfum þér.
Fjarlægum stjörnum við fáum öll að kynnast
er fólkið kann að meta sína strind,
því önnur leið er ekki fær til lífsins
en einmitt sú að fría hennar mynd.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Líta femínistar í eigin barm? Er ástæða fyrir bakslaginu?
- Jahve er djöfullinn og hann stendur á bakvið öll stríð, og er...
- Sjálfstæðismenn þurfa að sinna menningarmálum meira
- Vinstrimenn ættu að skammast sín, en ekki hægrimenn. Mengun e...
- Dyrfjöllin að Hábraut 4 í Kópavogi - í bernskuupplifun minni
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 152
- Sl. sólarhring: 188
- Sl. viku: 721
- Frá upphafi: 127157
Annað
- Innlit í dag: 90
- Innlit sl. viku: 540
- Gestir í dag: 84
- IP-tölur í dag: 84
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.