26.10.2020 | 02:39
Hvernig gætu næstu alþingiskosningar litið út eftir ár?
Við vitum að flokkarnir verða margir sem verða í framboði, eitthvað um tíu talsins, meira eða minna.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins gæti sveiflazt mjög mikið, vegna ýmissa þátta. Fylgið á hægrivængnum hefur ýmsa möguleika, með fleiri flokkum á bláa litrófinu, ef við tölum um litrófið frá bláu yfir í rautt, þar sem kommarnir eru jafnan kallaðir rauðir.
Það sem ég á við er þetta, að ég býst fastlega við því að Sjálfstæðisflokkurinn geti mælzt og komið út í könnunum með fylgi frá 15-18% og upp í 40%.
Í fyrsta lagi má búast við því að mikil vinstrisveifla verði áfram í gangi eins og núna. Samanlagt fylgi allra hægriflokka verður því tæplega meira en 40%, en ekkert er þó víst í pólitíkinni, hún sveiflast sitt á hvað eftir tízkustraumum og umræðumálum.
Ef íhaldsmenn innan Sjálfstæðisflokksins taka flestir ákvörðun um að kjósa aðra flokka býst ég við að hann fari niður í 15-18% fylgi. Ákveðið kjarnafylgi myndi ekki fara, það eru traustir kjósendur sem kjósa ekki út af pólitískri sannfæringu heldur af vana, tryggð, ættrækni og slíku.
Þetta er vegna þess að margir flokkar eru tilbúnir að taka við íhaldsfylginu hægramegin, þeir eru orðnir fimm, ef Guðmundi Franklín tekst að setja saman sitt framboð. Þeir eru: Flokkur fólksins, Íslenzka þjóðfylkingin, Lýðræðisflokkur Guðmundar Franklíns, Miðflokkurinn og Frelsisflokkurinn. Mögulegt er reyndar að þeir bjóði alls ekki allir fram.
Allir þessir flokkar gætu fengið allt að 10% fylgi, og sumir meira, eins og Miðflokkurinn. Sökum þess að í hugum vinstrimanna sem stjórna miklu eru tveir þeirra taldir öfgaflokkar svo þeim er haldið niðri og komast ekki inn á þing, sem er mikill skaði. Það geta einnig orðið örlög fleiri flokka í þessum hópi, því ofstækið er mikið í Píratagreyjunum sem óttast að þessi öfl geti orðið ráðandi í heiminum, og æpa "úlfur, úlfur" við hvert tækifæri. Þetta er dauðhræddi minnihlutinn sem æpir sig hásan sem víðast og virðist fjölmennari en hann er. Sennilega hræðast margir þessar sjóræningjatýpur sem hafa hátt.
Á frjálslynda endanum eru svo flokkar eins og Viðreisn, Píratar og jafnvel Vinstri grænir sem gætu hirt fylgi af Sjálfstæðisflokknum eftir samkrullið í þessari stjórn, þar sem enginn veit hvað snýr upp og hvað snýr niður, og einkenni beggja flokka hafa blandazt.
Annar möguleiki er þó einnig fyrir hendi. Flokkurinn gæti hirt mikið fylgi vinstrisinnaðra kjósenda og miðjusækinna. Það myndi ég kalla "Framsóknarflokksheilkennið", að harðlínuvinstrifólk hefur í sér hægrisinnaða íhaldstaug sem fær útrás svona, það hugsar sem svo, að úr því að næst valdamesta manneskja flokksins skuli herma eftir Pírötum, í dómsmálaráðuneytinu, sé flokkurinn nú ekki svo forhertur afturhaldsflokkur eftir allt saman, og rétt sé að kjósa hann.
Þannig getur Áslaug Arna bæði haft jákvæð eða neikvæð áhrif á fylgi flokksins. Það er happadrætti að leika sér svona að gæfunni og hefðunum.
Framsókn spái ég svipuðu og venjulega, einhverju á milli 5 og 10%. Það virðist eitthvað náttúrulögmál að Framsókn á alltaf sína aðdáendur og sitt stuðningsfólk. Það er kannski bara ágætt, því það framsóknarfólk sem ég þekki er indælt upp til hópa og er saklausara lím miðjupólitíkur en Evrópusambandsfíklarnir í Samfylkingunni.
Ég tel mjög sennilegt að Samfylkingin geti fengið frábæra kosningu og orðið næststærsti flokkur landsins, ef Sjálfstæðisflokkurinn heldur því að haldast stærstur áfram, sem auðvitað er ekki lengur víst. Jafnvel er ekki útilokað að Samfylkingin verði stærsti flokkur landsins eftir ár.
Hann er traustvekjandi, og margir trúa þeim orðum að þeir ætli að hækka örorkubætur, ellilífeyri og hjálpa öllum minnihlutahópum, hvort sem það verður nú mögulegt eða ekki.
Sósíalistaflokkurinn er annar flokkur sem gæti stækkað og komið á óvart. Talsvert miklar líkur eru á því að Vinstri grænir geti þurrkazt út af þingi. Það er alþekkt að vinstrafylgið er ekki traust, og sízt þegar nóg er um aðra flokka að velja um, og gremjan er mikil í þeirra fylgismönnum í þessu stjórnarsamstarfi. Samt gætu þeir fengið svipað fylgi og síðast, og Sósíalistaflokkurinn jafn lítið og síðast. Allt er mögulegt.
Mér finnst sem sagt mjög sennilegt að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin myndi næstu stjórn, með aðstoð tveggja flokka eða eins flokks. Það gæti orðið Viðreisn, Píratar eða Framsókn, jafnvel mögulega Miðflokkurinn, eða einhver nýr flokkur.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.1.): 2
- Sl. sólarhring: 137
- Sl. viku: 715
- Frá upphafi: 133621
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 556
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.