Að eiga andrá

ÞEGAR karl og kona hittast fyrsta sinni eiga sér oft stað frumtengzl, þegar hrif eru til staðar. Sumir hafa talað um það að íslenzkuna skorti lýsingarorð og nafnorð fyrir þessi hrif og frumkynni, en þó hygg ég ekki svo vera. Rétt er að rifja upp ýmis hugtök og einnig eru hér nýyrði nokkur.

Mikið er talað um engilsaxneska tungumálaspillingu, og vissulega er mest um hana á okkar tímum. Við höfum þó hvert og eitt vopnin í þeirri baráttu, en þau eru fyrst og fremst okkar eigin máltilfinning, reynzla okkar og þekking. Það er alltaf vanzi að koma upp um vanþekkingu sína, en hitt er réttast, að "svo lengi lærir sem lifir", og enginn er fullnuma í neinni grein.

Enskan er þrátt fyrir allt germanskt og indóevrópskt tungumál, og sumar breytingar færa okkur nær norrænunni og forníslenzkunni en fjær. Ég held að nýyrðasmíð geti orðið skemmtun fyrir ungu kynslóðina, rétt eins og ýmislegt annað. Það er þrátt fyrir allt áhyggjuefni að aftur er það orðið lenzka að syngja á ensku og bregða fyrir sig orðum eða setningum á hreinni og tærri ensku. Það er ákveðið menntasnobb, eins og latínan var áður fyrr.

Hér vil ég benda á nokkur dæmi um það hvernig má þýða ensk orð eða hendingar. Þetta með frumkynnin er það sem eiginlega að öllum lýtur og allir hafa áhuga á. Ef fólk er að kynnast og er ekki visst um áhuga hins aðilans má tala um að "eiga sér andrá" í staðinn fyrir að "hafa móment". Þetta er fullkomlega rökrétt þótt sumum finnist þetta hljóma undarlega í fyrstu. Þó er ennþá íslenzkari hugsun í því að tala um að "eiga saman andrá", eða að spyrja: "Áttum við samhljóm?" Jafnvel má spyrja: "Fann ég fyrir hrifum?", "fann ég fyrir áhuga", sem er hefðbundnast að segja. Þannig má nær endalaust telja, því íslenzkan er ríkt tungumál, aðeins þarf að grafa örlítið í glatkistuna til að finna það sem við á, og kannski stundum búa til nýyrði og nýhendingar.

Annað nýyrði vil ég leggja til, sem er sefhyggni í staðinn fyrir rómantík, og lýtur það að þessari sömu tilfinningasemi ástarinnar. Nokkur rök eru fyrir því að nota þetta nýyrði í staðinn fyrir orðið rómantík. Rómantík er, eins og menn vita, bæði bókmenntastefna og menningarstefna, og svo einnig nánd og innileiki í sambandi. Orðið sefi merkir bæði hugur, og svo einnig ást.

Þáttargerðarmenn mega vera iðnari við að íslenzka heiti sjónvarpsþátta. Íslendingar tala um að lifa af, "survivor" er því "aflifandi" á íslenzku, sá sem lifir af. "Bachelor" er auðvitað piparsveinn á íslenzku, en önnur orð sem hafa jákvæðari hljóm eru til. Biðill er gott orð, sveinn, eða ungsveinn. X factor er hinn óþekkti fasti, eða hinn óþekkti eiginleiki, og idol er skurðgoð eða átrúnaðargoð. Þessi orð þurfa að heyrast oftar í stað þeirra sem notuð eru. Svo er nóg hugkvæmnin, og nær endalaust hægt að halda áfram í nýyrðasmíðinni.

INGÓLFUR SIGURÐSSON,

Furugrund 58, Kópavogi.

Frá Ingólfi Sigurðssyni:


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 603
  • Frá upphafi: 132934

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 438
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband