3.9.2025 | 02:16
Skemmtileg frétt á Vísi um nágrennið sem ég ólst upp í
Í gær kom sú frétt á Vísi vefútgáfu að Bjarnhólastígur var valinn gata ársins í Kópavogi 2025. Þetta er í næsta nágrenni við mitt æskuumhverfi.
Þetta tek ég orðrétt uppúr fréttinni á Vísi:
"Bjarnhólastígur ber með sér sögu og þróun Kópavogs. Flest hús við Bjarnhólastíg voru reist á sjötta tug síðustu aldar, í kjölfar fyrstu skipulagsvinnu á svæðinu sem hófst 1948. Nafn götunnar er dregið af sumarbústað sem stóð vestan við Víghól áður en byggðin tók á sig núverandi mynd. Uppbyggingin á Digranesi markaði upphaf þéttbýlismyndunar í Kópavogi og er Bjarnhólastígur hluti af þeirri sögu. Leikskólinn Kópahvoll er staðsettur við Bjarnhólastíg 26, á hæð rétt við Víghól, friðað náttúrusvæði í grónu og rólegu hverfi í austurhluta Kópavogs." (Talsvert fyrir neðan við hann raunar, innskot frá mér). "Skólinn var opnaður 1970 og markaði tímamót í sögu bæjarins sem fyrsti leikskólinn í Kópavogi sem byggður var sérstaklega sem slíkur".
(Lovísa Arnardóttir skrifaði fréttina og setningarnar innan gæsalappa sem ég vitna hér beint í eru þessvegna hennar skrif).
"Á lóðinni milli Bjarnhólastígs 3 og 9 er í dag opið leiksvæði, en á sjöunda áratugnum og fram til aldamóta var þar starfræktur gæsluvöllur. Völlurinn var mikilvægur samkomustaður barna og fjölskyldna í hverfinu og hefur gegnt lykilhlutverki götunnar í gegnum tíðina". (Einnig úr sömu frétt).
Þessi frétt er svo vel sögð og nákvæm aftur í tímann að mig grunar að Lovísa hafi tengsl við Kópavoginn eða sé úr Kópavoginum. Einnig kemur það mér á óvart að þarna eru atriði sem mér var ekki alveg kunnugt um, svo hún hlýtur að hafa talað við eitthvað gamalt fólk sem enn man eftir þessu. Ef hún ólst þarna upp sjálf, þá hefur hún kannski talað við foreldra sína eða ömmur og afa, hver veit?
Þetta með að skipulagsvinnan í í austurhluta Kópavogs eða á svæðinu hafi byrjað árið 1948, það vissi ég ekki. Það hefur þá verið einmitt á sama tíma og afi var á fullu að byggja sitt einbýlishús þarna alveg í næsta nágrenni, og Ingvar bróðir hans við Hafnarfjarðarveginn, Borgarholtið og Hamraborgina, eða nánar tiltekið við Hábraut 4.
Það vissi ég þó af lýsingum ömmu og afa og annarra að það voru mjög fá hús í Kópavogi um þetta leyti, 1948, aðallega sumarbústaðir, eða eitt og eitt hús á stangli þar sem gjarnan var búskapur stundaður og götur voru jafnvel kenndar við seinna.
Einnig get ég staðfest það sem hún skrifaði að flest húsin þarna voru reist á sjötta tug 20. aldarinnar, eða frá 1950-1960.
Ég get verið ennþá nákvæmari. Samkvæmt því sem mér var sagt þá var þróunin hæg fram til 1954. En frá 1955 til 1960, og síðan stöðugt eftir það og í síauknum mæli fjölgaði húsunum. Þannig spruttu húsin upp ört 1956-1960, var mér sagt.
Það er áhugavert þetta með að skipulagsvinnan hafi hafizt 1948.
Mér voru sagðar skemmtilegar og áhugaverðar sögur um hitaveituna og rafmagnið, hvernig sumt var komið 1950 og annað ekki.
Rafmagnið var komið 1950 og heita vatnið, en ekki kalda vatnið!
"Þetta kemur allt með kalda vatninu" var orðatiltæki sem endalaust var sagt þegar ég var barn. Það þýddi að eitthvað væri búið að skipuleggja og lofa, en ekki enn orðið að framkvæmd. Ætli það hafi ekki hreinlega orðið til á þessum fyrstu árum þéttbýlis í Kópavogi?
Eins og ég hef oft skrifað um, þá reyndi ég að böggla saman handriti að bók um sögu ömmu og afa og verkstæðisins. Ekki var ég ánægður með útkomuna, enda með fullkomnunaráráttu, en kannski er hægt að laga þetta sem ég skrifaði og gefa út, ef einhver finnst útgefandinn.
Allavega, ég safnaði að mér fróðleik við þá vinnu sem ég get vitnað í.
Þannig get ég bætt því við að símalaust var í hverfinu hjá flestum allavega fram til á að gizka 1955 og kannski lengur. Afi hinsvegar lét tengja símalínur til hússins og það kostaði hann talsvert, en hann taldi það nauðsynlegt fyrir viðskiptin, sem var rétt.
Þannig voru sögur um það að krakkarnir, mamma og hennar systkini voru fengin til að hlaupa í nágrannahúsin til að sækja nágrannana, sem var hringt í til okkar, á meðan síminn var ekki kominn til þeirra!
Þetta er vissulega svolítið sérstakt, svona sögur eru ekki til úr öllum hverfum!
Ofnar voru til hjá okkur og heitt vatn í þeim alveg frá 1950. Þá var olíukynding en á verkstæðinu var kolakynding.
Kalt vatn var sótt í brúsa og bala og önnur ílát í önnur hús, austar í Kópavoginum, og síðar þarna í hús við Álfhólsveginn, og loks kom kalda vatnið, held að það hafi verið upp úr 1955, eða kannski eitthvað fyrr. En einhver ár voru án þess.
Rafmagnið var einnig komið 1950. En þá voru loftlínur og þegar kom mikill stormur eða annað óveður þá fór oft rafmagnið af. Ég man eftir kertunum.
Ég man eftir ljósunum úr Hafnarfirðinum og Reykjavík eða frá austurbænum í Kópavogi þegar rafmagnið fór af.
Sennilega voru raflagnirnar settar í jörð á níunda áratugnum, þegar ég var unglingur. Þá hætti hið reglubundna rafmagnsleysi.
Við vorum með staur nálægt vesturhlið hússins. Þar var lögn sem alltaf var að slitna í óveðrum og þurfti að laga.
Það voru tveir stórir eldspýtnastokkar sem amma hélt mikið uppá því þetta voru gamlar jólagjafir. Á öðrum voru myndir af sveitabæjum.
Þegar við keyptum litla eldspýtnastokka voru eldspýturnar settar í stóru stokkana, því þeim mátti ekki henda, það hefði verið óvirðing og vantþakklæti í þeirra sem gáfu þá.
Nema ég man eftir því að brennisteinninn á hliðum þeirra fór að verða mjög óvirkur af of mikilli notkun. Stundum fékk amma mig til að fást við eldspýturnar því hún sagði að ég væri með svo litla og lipra fingur. Oft tók það mig samt nokkrar tilraunir.
Ég held að þéttbýlið í vesturbænum hafi eitthvað verið byrjað nokkuð snemma í Kópavoginum, en sennilega mest uppúr 1960.
Það er ýmislegt fleira sem snertir mig persónulega og mína æsku sem kemur fram í þessari skemmtilegu frétt Lovísu.
Gæzluvöllurinn sem hún fjallar um á milli Bjarnhólastígs 3 og 9 kemur við sögu minnar æsku.
Hún talar um sjöunda áratuginn og fram til aldamóta, þá hafi hann verið starfræktur, það er að segja frá 1960 til 2000. Það getur vel passað. Annars var þessi staður alltaf kallaður "róló" þegar ég var krakki! Leikvöllur heyrði maður kannski líka.
Ég hef að vísu fáar skýrar minningar sem smákrakki, en mér var sagt hvernig þetta var. Ég held að það hafi verið 1973-1974 sem reynt var að "setja mig á róló", en ég hafi ekkert verið voðalega hrifinn af því. Ekki var ég allavega nægilega félagslyndur til að þetta hafi verið eitthvað sem ég sóttist eftir sérstaklega.
Agnes frænka mín lék oftast við mig á þeim árum, við erum jafnaldrar, hún fæddist einum mánuði á undan mér, og dóttir bróður mömmu.
Við höfðum stórt og mikið leiksvæði hjá afa og ömmu á Digró, við verkstæðið og niður Digraneshlíðarnar. Ég man ekki eftir neinum reglum nema að leika sér ekki of nálægt bílunum, því þá gætu slys orðið.
Ég held að ég hafi haft gaman af að róla þarna á vellinum, mig rámar í það. En ég kynntist ekki krökkum þarna held ég. Mig rámar í að mér hafi leiðst formlegheitin, að þarna voru einhverjar gæzlukonur að setja fyrir verkefni og tala eitthvað.
Það var eins þegar ég fór í Digranesskóla, byrjaði 1976 í sex ára bekk. Það var ekki fyrr en 1978 þegar ég fór að njóta mín í skóla. Þá fékk ég athygli sem góður teiknari.
Minn bezti vinur var stóri Bergsveinn, Bergsveinn Marelsson. Síðan voru nágrannabörn sem maður var mikið með, Lilja, litli Bergsveinn og Þurý.
Mín félagsmótun var þannig þegar ég var smákrakki að ég kynntist fáum og kynntist þeim vel. Þannig treysti ég ömmu bezt.
En ég man samt eftir því að mér fannst mjög gaman að kynnast krökkum sem voru jafnaldrar mínir úr föðurættinni. Þar kynntist maður öðruvísi fólki og skoðunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 3. september 2025
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Skemmtileg frétt á Vísi um nágrennið sem ég ólst upp í
- Ég er sammála því sem Baldur Þórhallsson ýjaði að og aðrir næ...
- RÚV hrærir í wókgrautnum þar til enginn horfir á þá ömurlegu ...
- Wókið er ekki dautt, en rotið er það og kennir fólki að tízka...
- Áhrif Giordano Brunos á frönsku byltinguna. Eins og Kristur h...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.9.): 81
- Sl. sólarhring: 140
- Sl. viku: 771
- Frá upphafi: 156861
Annað
- Innlit í dag: 57
- Innlit sl. viku: 632
- Gestir í dag: 51
- IP-tölur í dag: 51
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar