Eru dægurlög úrelt um málefni líðandi stundar sem eru orðin meira en 20 ára?

Ég vil tjá mig um annað en hefðbundin hægrimál eins og mögulegu inngöngu þjóðarinnar í ESB Það er nefnilega mögulegt að í manni rúmist báðar skoðanirnar og sannfæringarnar, að vilja þjóðerniskennd og einnig sameiningu og samvinnu þá sem felst í ESB aðild. Ég tel þetta ekki endilega andstæður.

Sannfæring held ég að komi út frá punktum, áherzlupunktum. Það eru nefnilega ákveðnir áherzlupunktar hjá ESB sinnum sem mér hefur alltaf litizt nokkuð vel á.

Til dæmis tal þeirra um samstöðu. Það var eitthvað sem ég lærði í Digranesskóla af vinstrisinnuðum kennurum þar og svo af pabba og öðrum í föðurfjölskyldunni líka.

Guðmundur Ásgeirsson heldur því fram að ekki verði hægt að troða okkur Íslendingum inní ESB, því Stjórnarskráin leyfi það ekki og vegna úrslita þjóðaratkvæðagreiðslna 2010 og 2011. Hann er mjög rökfastur maður og áhugavert að lesa það sem hann skrifar. Ekki get ég fundið holur í röksemdafærslum hans um þetta, en ég er heldur ekki löglærður eða neitt slíkt.

Þó eru margir sem gæla við þetta, eins og Baldur Þórhallsson og valkyrjurnar í ríkisstjórninni, sumar. Þegar hann mætir í Silfrið og talar um að krónan sé sökudólgur og verði að losna við hana, þá er hann undir rós að tala um að fara í ESB.

En ég ætlaði ekki að skrifa um það hvort það sé mögulegt fyrir þjóðina eða ekki að fara inní ESB eins og málum er háttað, en ég yrði samt ekki hissa á því að einhver klækjabrögð myndu duga til þess ef vilji er fyrir hendi. Það er ég þó ekki svo viss um eftir að hafa lesið það sem Guðmundur Ásgeirsson hefur skrifað um þetta.

Ég ætlaði að blogga hér um nokkra texta og lög sem ég gerði um þetta árið 2003. Ég er líka hér að velta því fyrir mér hvort list sé úreld eftir ákveðinn tíma, ef maður er að fjalla um einhver dægurmál og forsendur breytast. Ég vil vona að svo sé ekki. Laglínurnar standa fyrir sínu. Einhver sannfæring er líka í textunum sem manni getur fundizt heillandi, eins og þeir sem hrífast af málflutningi ESB sinna í dag.

En svo er annað sem mér finnst áhugavert að pæla í, en það er hvort ég meinti þetta á sínum tíma eða hvort þetta var háð, að ég væri hlynntur ESB inngöngu. Ég nefnilega man það ekki. Ég samdi svo mikið af lögum og textum að það kom á færibandi.

Ég man það þó að ég byrjaði með konsept, hugtak, eða þema fyrir plötuna. Nafnið var:"Við eigum að samstillast öll". Plata númer 2 í þríleiknum um nýalska speki og nýölsk málefni.

Mig minnir endilega að ég hafi verið sannfærður um það sem ég var að syngja um 2003, eða meðan ég söng þetta að minnsta kosti og skrifaði niður.

Í föðurfjölskyldu minni er fólk sem flest hefur staðið með Alþýðuflokknum og Samfylkingunni, held ég að rétt sé að fullyrða. Guðmundur Gíslason Hagalín rithöfundur var bróðir ömmu minnar í föðurættinni, og ég held að hann hafi verið í framboði fyrir Alþýðuflokkinn og verið eitthvað viðloðandi pólitík.

Rökin fyrir inngöngunni í ESB eru bæði þau að það sé betra fyrir efnahaginn og jafnvel betra fyrir menninguna. Hér á blogginu hefur reyndar Gunnar Rögnvaldsson frekar en aðrir sannfært mig um að það muni ekki bæta efnahag þjóðarinnar að fara inní ESB, sem sé orðið einskonar kommúnistaríki.

Þegar ég samdi þessi kvæði 2003 þá held ég að ég hafi trúað menningarrökunum og jafnvel líka efnahagsrökunum. Ég var oft í mótstöðu við afa og ömmu, þar sem ég ólst upp að mestu, og móðurfjölskylduna og hef oft skipt um skoðun á ævinni.

"Við erum Evrópuþjóð og eigum því heima í ESB", er nokkuð sem maður hefur heyrt oft. Eða:"Allar Evrópuþjóðir eiga að standa saman".

Ég er vissulega talsvert ginnkeyptur fyrir þessu. Þegar ég var í Digranesskóla þá leit ég á mig sem kommúnista þegar ég fór að skilja orðið. Það var ekki fyrr en ég fór að hlusta á Sverri Stormsker og Stormskersguðspjöll 1987 og lesa Nýal dr. Helga Pjeturss almennilega um svipað leyti sem ég fattaði að þjóðernishyggja og hægristefna eru miklu meira spennandi fyrirbæri.

En ég tek mínar eigin skoðanir til athugunar og endurskoðunar oft, það er að segja ég efast um það sem ég held og sem aðrir halda fram.

Þessi lög um Evrópusambandið og löngun mína til inngöngu í það (eða ljóðmælandans réttara sagt) fóru ekki á CD diskinn undir heitinu "Við eigum að samstillast öll" sem kom út 2003, þau urðu afgangslög.

Ég vil hafa þau með í endurútgáfu, sleppa frekar löngum blúsum sem mér finnst ekki nógu góðir, yfir 10 mínútur að lengd, fullir af sólóum.

Mér finnst pólitíkin á Íslandi ekki sannfærandi. Mér finnst fólk ekki kjósa rétt. Ég hefði viljað fá Frjálslynda flokkinn til valda, eða Íslenzku þjóðfylkinguna eða Frelsisflokkinn.

Er ekki skárra að láta ESB stjórna okkur en eiginhagsmunaseggi eins og eru nú við völd?

Mér lízt hörmulega á ósamstillinguna í nútímanum og samstöðuleysið. Bót á þessu finnst mér ESB bjóða. Ég á mjög erfitt með að trúa því að kristnin sigri aftur eða trumpisminn, jafnvel þótt þeim gangi nokkuð vel í dag, enn að minnsta kosti.

Ég yrði ekki hissa á að allt sem Trump hefur gert verði ógilt, að demókratar komist til valda í Bandaríkjunum og jafnvel að Íslendingar gangi í ESB, þrátt fyrir erfiðleikana við það. Ef það er ekki alveg ómögulegt.


mbl.is Aldrei formlega dregin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. september 2025

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 9
  • Sl. sólarhring: 126
  • Sl. viku: 729
  • Frá upphafi: 158852

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 497
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband