Mér finnst það svo merkilegt að ljóðið sem ég birti á laugardaginn - sem var söngtexti - fékk yfir 100 gesti og fleiri flettingar en það, en þó ekki mikið.
Það er rétt sem annaðhvort Magnús Sigurðsson sagði við mig í athugasemd eða Ómar Geirsson, að þegar þeir byrjuðu voru fáar flettingar hjá þeim en þeim fór fjölgandi með árunum og eftir því sem fleiri mundu eftir þeim og stíl þeirra.
Mér finnst það jafnvel enn merkilegra þegar þessi kveðskapur minn fær mikinn lestur en pistlar um dægurmálin. Ljóðin eru smíðagripir með anda í sér fólginn að auki, list, hitt er nöldur eða umfjöllun um málefni líðandi stundar.
Annars tilheyrir þetta ljóð, þessi söngtexti, þriðju plötu minni í þrílogíunni um nýölsk málefni, og þessi þriðja var óútefin, og aðallega til í demóformi, eða sem prufuupptökur á betri íslenzku.
Frægðin er eitt af því sem ég hef átt erfitt með að útskýra og skilja, en hef reynt. Þar koma margir þættir inní. En það kæmi mér á óvart ef svona prufuupptökur færu að seljast eftir mig ef þær yrðu gefnar út, en það er samt auðvitað aldrei útilokað, ef lögin eru góð - tíðarandinn er óútreiknanlegur og tízkan. Eitthvað getur komizt í tízku og orðið vinsælt sem þótti jafnvel lélegt þegar það var samið, eða sem höfundurinn sinnti ekki um, hafði kannski ekki tíma til að hlusta á, eða taldi sig ekki hafa tíma til þess.
Jón Ólafsson í Nýdanskri sagði við mig eitt sinn að það skipti ekki máli hvort tónlist væri vel eða illa hljóðrituð, hvernig tóngæðin væru, ef lögin væru góð. Það er auðvitað rétt að ýmsu leyti. Um 1930 og fram til 1967 eða um það bil voru hljóðverin fátæklegri og hljómburður rýrari en síðar varð.
Þó voru blúsararnir gömlu fyrir báðar heimsstyrjaldirnar sígildir og þeirra söngvar, og rokkið byggðist á þeim.
Og þannig er með margar upptökur frá fyrri hluta 20. aldarinnar. Þar er sígild tónlist, en tóngæðin rýr.
En það er nokkuð annað sem hangir á spýtunni sem er spýta umbúðanna sem tónlistin er klædd í. Þókt þekkt sé að snobbað sé niður fyrir sig þá er snobb af einhverju tagi hluti af tízku og vinsældum. Þannig má taka rapp sem dæmi eða teknótónlist og fleiri stefnur sem eru þannig. Þar skiptir allt máli, bæði stælar, kynþáttur, kyn, taktur og textar. Þetta lærði ég þegar ég gaf út hljómdiskinn "Ísland fyrir útlendinga" árið 2010. Þar reyndi ég að tolla í tízkunni og bjó til nokkur rapplög fyrir þá plötu, og eitt þungarokkslag. Nema útkoman var ekki nógu góð, því ég notaði ódýrt hljómborð og allir gátu heyrt að þetta var ekki 100% eftir öllum stöðlunum sem krafizt er af rapptónlistarmanni eða þungarokkara, og þó fór ég eitthvað nær því að fullnægja stöðlum seinni stefnunnar, því ég hafði hlustað lengur á þannig tónlist og var meira sannfærandi sem þungarokkari en rappari þar af leiðandi á þessum lögum plötunnar frá 2010.
En mín tónlist hefur annað, það er að segja þessi örfáu lög sem ég tel nógu góð, þau hafa þessi sígildu gæði, sem maður heyrir þegar lag er gott.
Í því sambandi vil ég vitna í einn virtasta lagahöfund íslenzku þjóðarinnar, sem er Magnús Eiríksson í Mannakornum.
Í Poppbókinni eftir Jens Guð bloggara með meiru sem ég eignaðist ungur er viðtal við hann. Þar kemur hann með ráðleggingar fyrir tónlistarmenn, og ég hef farið eftir einu aðalráðinu frá honum.
Hann sagði í viðtalinu að eitt aðalráðið væri að semja nógu mikið af tónlist, því þá gæti maður valið og hafnað, tekið út úr beztu lögin og gefið út.
Þetta gerði ég vel að merkja ekki þegar ég gaf út mína hljómdiska 1998-2010, nema sjaldan, þetta var oft gert í flýti, en demóin, prufuupptökurnar, geyma oft fjölbreyttari og betri lög.
Ég hef samið nóg af tónlist, en valdi oft ekki vel það sem ég gaf út.
Þannig að jafnvel þótt flest af þessu eftir mig sé í fátæklegum hljómgæðum, þá finnast þarna ágæt lög innámilli og textar, eitthvað sem stenzt ágang tímans.
Þetta ljóð sem ég birti á laugardaginn er frá 3. janúar 2005. Það heitir:"Stjörnur sýna styrkinn." Það er hluti af plötunni:"Frá stjörnunum berst lífið", og ég reyndi að semja nógu mikið í kringum þetta þema og gerði það nokkuð vel.
Mér finnst mjög skrýtið að þetta ljóð fékk svona mikinn lestur, því það er fullt af atriðum sem ég held að fáir skilji, því það er fullt af vísunum í eitthvað sem ég einn skil, annaðhvort úr minni fortíð eða reynslu af málefnum Nýals og Nýalssinna sem ekki margir þekkja til, en ég get gjarnan útskýrt þessi atriði, úr því að ljóðið fékk mikinn lestur og áhugi var fyrir því mikill, 100 manns og rúmlega það, en ég var ekki með orðaskýringar undir, sem hefðu gert kvæðið miklu skiljanlegra.
Tökum þessa línu sem dæmi:
"Margir framhjá keyra og undrast... húsið við Hábraut getur bjargað".
Þarna er ég að yrkja um húsið hans frænda míns, Ingvars Agnarssonar og Aðalheiðar konu hans. Nú væri hægt að líta þannig á þennan kveðskap að hann sé úreltur og barn síns tíma vegna þess að þetta hús var rifið 2007, tveimur árum seinna, og nú er þarna Molinn, sem var notaður fyrir unga listamenn síðast þegar ég vissi, listasmiðja fyrir unglinga.
En ég hef verið að hlusta á gamla tónlist eftir mig og mér líkar vel við sumt og þetta er eitt af því. Þetta rifjar upp skemmtilegar minningar og þetta er perla, eða eins og innsýn í heim sem er sérstakur og næstum horfinn.
Ég skrifaði niður Baldursblótið frá 2000 til 2009. Þarna er komið inná það, en ég v ar ekki búinn að því þarna, en samt að mestu leyti held ég.
Hér get ég komið með fleiri dæmi úr textanum hvernig hann er hvorki bull né markleysa, heldur eitthvað sem var bundið við þennan tíma, 2005, og þanka mína þegar ég samdi þetta þá:
"Sixtínsk bíður, hvar er landsins?... aðrar þjóðir ættu að skoða líka..."
Í fyrsta lagi vil ég taka það fram, að textinn er eins og svipmyndir, eða jafnvel eins og safn af smámyndum, sem raðað er saman. Einnig er áberandi að hið þrönga form kveðskaparins veldur því að ekki er allt sagt í löngu máli, heldur tæpt á ýmsu og það ekki útskýrt framar, en þannig er þetta oft í kveðskap og ljóðum, að skáldið þarf að leyfa ímyndunaraflið lesandans að fylla uppí, því reglurnar banna að of mörg orð séu notuð. Það er hrynjandin svonefnda.
Nú er spurning hvort ég man hver merkingin var. Nei, því hef ég sennilega gleymt að mestu, en sumt rifjast upp.
"Sixtínsk bíður". Þessi stutta setning, tvö orð, þetta minnir á Einar Benediktsson, sem oft hafði mikla hugsun í fáum orðum.
Þetta var alls ekki útí loftið hjá mér. Myndirnar utaná Hábraut 4 á húsi Ingvars og Heiðu voru gerðar að fyrirmynd Sixtínsku kapellunnar. Ingvar Agnarsson var málarinn. Hann hafði háleitar hugmyndir um Ísland og þetta var hluti af því.
Ég fjalla kannski um það síðar nánar. Um það er hægt að rita margt og mikið, en læt það bíða að sinni.
Þessi tvö orð merkja að Heiða, ekkjan, hún vildi gera safn úr húsinu, en það var ekki gert.
"Hvar er landsins...?" Ég man ekki hvað átti að standa þarna. Þetta er eins og gáta og jafn erfitt fyrir mig að ráða hana eins og aðra. Ég held samt að ég hafi ætlað að hafa þetta:"Hvar er landsins stuðningur... frægð... athygli....? Eitthvað í þá áttina.
Síðan kemur þarna almenn hugsun um dauðann:
"Eyðilegging allra gripa þinna..."
Í þessari ljóðlínu er ég að hugsa um "allt hold er mold", sem sagt að við skiljumst við allt jarðneskt við andlátið, og kannski ekkert líf eftir dauðann.
"Eins og konur stórar niður tálgast..."
Þessi setning fjallar um megrunarfíknina sem konur eru haldnar en síður karlar og sumir harma það.
Ég held að þetta séu erfiðustu setningarnar í ljóðinu sem ég hef útskýrt.
En þessar skýringar ættu þó að sýna að ljóð mín eru útpæld þókt þau virðist torskilin sum og jafnvel bull. Hvað með Bob Dylan? Hefur hans kveðskapur ekki verið talinn torskilinn?
Annars fjallar þetta ljóð líka um sjálfsvirðinguna, að allir séu dýrmætir.
Enn þakka ég fyrir góðan og mikinn lestur á þessu ljóði, þessum söngtexta. Það er hvatning að reyna að gefa út þessa óútgefnu hljómplötu kannski seinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 4. ágúst 2025
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.8.): 28
- Sl. sólarhring: 78
- Sl. viku: 899
- Frá upphafi: 154097
Annað
- Innlit í dag: 17
- Innlit sl. viku: 488
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 16
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar