31.8.2025 | 02:04
Áhrif Giordano Brunos á frönsku byltinguna. Eins og Kristur hafði Brúnó ekki síður áhrif eftir dauðann
Brúnóráðstefna var haldin í Norræna húsinu árið 2000. Reyndar voru haldnir tveir fræðslufundir árið 2000 til að minnast Giordano Brunos og ég fór á þá báða. Hinn var haldinn á vegum stofnunar Dante Alighieri og fjallaði meira um Brunó sem listamann og rithöfund en vísindamann. Bókin "Líf um víðan stjörnugeim" sem kom út 2002 geymir fyrirlestra sem þarna voru fluttir og tengd efni frá íslenzkum höfundum og var gefin út í tilefni þessara fræðslufunda tveimur árum fyrr.
Mér þótti sérlega vænt um að menn hrintu þessu til framkvæmda og það af miklum dugnaði og myndarskap. Þannig var að einn af forvígismönnum þessara tveggja funda var mjög skyldur mér, enginn annar en afabróðir minn, Ingvar Agnarsson, sem lézt 1996, fjórum árum áður en atburðurinn varð. Engu að síður hafði hann skipulagt þetta með Þór Jakobssyni og Þorsteini Guðjónssyni og nokkrum öðrum að minnsta kosti tveimur árum áður en hann lézt, og hafði ég oft heyrt hann tala um þetta og ég hlakkaði til og vonaði að úr þessu yrði, sem varð svo sannarlega.
Þeir þrír héldu fundi í Perlunni til að skipuleggja þetta ef ég man þetta rétt, áður en Ingvar dó. Veitingahúsin í Perlunni hafa þá verið búin að opna svona snemma. Ingvar frændi var sá sem fyrstur kom með teikningar í dagblöðum sem minntu á hönnun Ingimundar Sveinssonar, sem hefur þá farið eftir þeim ómeðvitað mögulega. Nema teikningar Ingvars Agnarssonar frænda míns þær áttu að sýna stjörnusambandsstöð, sem sjálfur dr. Helgi Pjeturss hafði hvatt til að yrði reist einmitt á þessum stað, í Öskjuhlíðinni nokkrum áratugum fyrr, eða á fyrri hluta 20. aldarinnar í hinum ýmsu tímaritagreinum og fræðiritgerðum.
Þorsteinn Guðjónsson og Ingvar Agnarsson höfðu verið forystumenn Félags Nýalssinna um nokkurra áratuga skeið, góðir vinir og samstarfsmenn þegar þetta gerðist, þegar þeir byrjuðu að skipuleggja þessa minningarhátíð um Giordano Bruno. Þór Jakobsson veðurfræðingur tók vel í þetta og bar hitann og þungann af mörgum mikilsverðum atriðum, eins og að fá góða fræðimenn úr Háskólasamfélaginu til að taka þátt í þessu líka.
Ingvar hafði lengi þekkt Þór Jakobsson. Hann hafði á yngri árum eitthvað sótt fundi hjá Félagi Nýalssinna, og kannski var hann skráður í félagið, en ótalmargir Nýalssinnar skráðu sig í félagið snemma eftir stofnun þess 1950, en höfðu svo ekki tíma til að mæta á fundi, eða virkni þeirra varð sáralítil með tímanum, hvað varðar að mæta á sambandsfundina allavegana.
Ég talaði nokkur orð við Trausta Jónsson veðurfræðing þegar við gengum frá Norræna húsinu að bílastæðinu, ég hafði svo gaman af að kynnast frægu fólki þá og hef enn.
Þessi áhugi Nýalssinna á Giordano Brunó er skylda, vegna þess að dr. Helgi Pjeturss skrifaði mikið um hann sem hetju sem fór gegn kirkjunni, hetju sem kynnti hugmyndir um endalausan stjörnugeim og sólmiðjukenninguna áður en slíkt varð viðurkennt almennt af öðrum fræðimönnum eða almenningi.
Þegar ég var í menntaskóla skrifaði ég tvær ritgerðir um Giordano Bruno í mannkynssögu. Ég fékk góðar einkunnir fyrir báðar þessar ritgerðir og sagt að ég hefði kynnt mér þetta vel og skrifaði vel. Björn Þorsteinsson frá Siglufirði (1943-2013) sem kenndi meðal annars sögu við Menntaskólann í Kópavogi fékk fyrri ritgerðina, en Þorsteinn Helgason sem einnig kenndi lengi sögu við Menntaskólann í Kópavogi fékk seinni ritgerðina, held að það hafi verið 1993.
En árið 2004 kynnti ég mér Giordano Bruno fyrir alvöru. Það var 4 árum eftir Brúnóráðstefnurnar.
Þá fór ég á bókasöfn og reyndi að finna eitthvað um hann eða eftir hann. Hvergi fann ég neitt, nema í Þjóðarbókhlöðunni. Þar fann ég heil ósköp af bókum eftir Giordano Brunó, en vingjarnlegar konur þurftu reyndar að hafa mikið fyrir því að leita í rykföllnum geymslum.
Ég fann bæði bækur á þýzku og einnig á latínu, og eitthvað smávegis á ensku.
Giordano Brunó skrifaði bæði á latínu og ítölsku. Það að hann skyldi skrifa á þjóðtungu sinni líka, ítölsku, það þótti sérstakt á sínum tíma, og átti þátt í því að varðveita ítölskuna.
Hann skrifaði á ítölsku fyrir almenning en fyrir fræðimenn á latínu, sem var alþjóðatungumál snobbaranna.
Latnesku verkin hans skildi ég ekki. Ég fann minnir mig fleiri en 8 bækur í bláu bandi, með mjög smáu letri, kannski voru þær fleiri. Ritsafnið á latínu.
Síðan fann ég bækur á þýzku allar með gotnesku letri! Ekki var þetta því auðvelt aflestrar, en meira skildi ég í þýzkunni en latínunni að vísu.
Þýzku bækurnar sem voru held ég 6 talsins voru vandleg þýðing á öllum helztu bókunum sem Bruno skrifaði á ítölsku. Þar á meðal var bók sem ég tók nokkru ástfóstri við og byrjaði að þýða úr, en mjög lítið þýddi ég því verkið gekk seint. Það sem heillaði mig við þessa bók það voru ljóðin eftir Brúnó, hinar fegurstu sonnettur, sem ég hef alltaf heillazt af. Ég þýddi um 10 sonnettur en sáralítið af lausu máli, en las talsvert.
Um leið og ég klóraði mig fram úr því að skilja hið gotneska letur þá fór þýzkan að verða mér skiljanlegri. Þessar bækur höfðu verið gefnar út á þýzku í blábyrjun 20. aldarinnar og þýzkan á þessu var skelfilega stirfin og erfið, kansellistíllinn, setningar stundum heil blaðsíða eða meira, endalausar aukasetningar og innskot!
Ein bók eftir Brúnó heitir "Spaccio de la bestia trionfante", gefin út í London 1584. Á íslenzku þýðir þetta:"Útsending hinnar sigursælu skepnu".
Eins og titillinn á þessari bók gefur til kynna þá fjallar hún um átök á milli kristilegra hugmynda og annarskonar hugmynda, sem eru ekki fjarri Ofurmennishugmyndum Nietzsches. Þó fer Brúnó fínna í málin en Nietzsche. Bækur Brúnós eru oft á samræðuformi, þar sem saman er att persónum sem eru tákn fyrir kirkju, íhaldssemi, uppreisn og fleiri öfl sem tókust á.
Brúnó var brenndur á báli árið 1600. Franska byltingin byrjaði árið 1789. Er það langsótt að tala um tengsl þarna á milli? Nei, í rauninni ekki.
Athugum það að Brúnó hafði mikil áhrif. Ekki aðeins bækur hans, heldur persóna hans. Sagt var að jörðin brynni undir honum sama hvar hann var, því hann var bæði kjaftfor og hreinskilinn, bæði í almennum samtölum við fólk og í ritum sínum. Hann var á eilífum flótta og kirkjan sóttist mjög eftir lífi hans.
Giordano Bruno varð kennari ríkra Evrópumanna í fræðasamfélögum Evrópu, og ýmsum menntakreðsum. Hann var virtur fyrir gríðarlega þekkingu bæði á Biblíunni og allskonar dulfræði og fornum fræðum, en áhugi á þeim var vaxandi. Hann var fyrrverandi prestur, svartmunkur sem hafði sagt skilið við kirkjuna. Aðeins 24 ára varð hann prestur, sannkallað undrabarn og snillingur. Hann ferðaðist til margra landa en flúði jafnan því hann vissi að reynt var að klófesta hann til að taka hann af lífi fyrir villutrú og útbreiðslu "falsfrétta" þess tíma. Þá voru ekki til almenn mannréttindi til að hindra völd kirkjunnar og böðla hennar.
En segja má að Brúnó hafi orðið að tízkuvarningi og hetju þrátt fyrir að mörgum væri í nöp við hann fyrir hreinskilni hans á meðan hann var á lífi.
Hann varð að sögusögn og tákni fyrir uppreisn og frelsi, hann varð að tákni gegn kirkjunni og valdinu almennt. Bækur hans voru brenndar á báli, en þó ekki allar.
Eins og Kristur þá varð mýtan um Brúnó sterkari með tímanum, og gleymdist ekki.
En rétt er að geta þess að margt smátt gerir eitt stórt. Það voru auðvitað miklu fleiri en Brúnó sem voru tákn fyrir andstöðu við veraldlegt og kirkjulegt vald, en hann verður þó að teljast með þeim stærstu á þessum tíma og almennt.
Það hvernig Brúnó var drepinn á grimmilegan hátt stöðvaði ekki frægð hans, nema síður væri. Eftir því sem vísindunum fleygði áfram var hans minnzt sem mikilvægrar perlu á festi sannleikans og vísindanna.
Ég held að sannleikurinn á bakvið byltingar, sem ég fjallaði um í síðasta pistli, sé svona, að þær eru lengi á leiðinni og hafa lengi áhrif, ef þær eru ekta, en ekki bara litlar öldur í ölduróti.
Hippabyltingin var heldur ekki stakur atburður, heldur ein bylgja af mörgum í þessa átt, og enn lifum við afleiðingar.
En það sem mér finnst hneykslanlegt er þetta, að hinn viti borni maður ætti að hafa meiri völd og áhrif til að vinna gegn þessum öldum og tízkusveiflum. Þess í stað heldur heimskan áfram að sigra og fólki er stjórnað utanfrá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 31. ágúst 2025
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.9.): 1
- Sl. sólarhring: 51
- Sl. viku: 455
- Frá upphafi: 156359
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 383
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar