Hin þöglu ár Cat Stevens, 1968 og 1969, berklana fékk hann 1968 en ekki 1969. (Sagnfræðigrúsk og tónlist).

Cat Stevens varð frægur sem unglingur, heimsfrægur, þó ekki jafn frægur og hann varð síðar. Hann var 18 ára þegar hann fyrsta hljómplata kom út, á 19. ári, "Matthew and Son", 1967, á sama ári kom út "New Masters", en þá var hann orðinn 19 ára.

Hér með er það leiðrétt í þessum pistli mínum að hann fékk berklana árið 1968 en ekki 1969 eins og kemur fram í Wikipediu ranglega og í ýmsum öðrum heimildum.

Mín heimild fyrir þessu er traust, tímaritsgrein frá 12. október 1968, þar sem viðtal er tekið við listamanninn, Record Mirror er tímaritið, viðtalið tók Derek Boltwood, og heitir viðtalið "Cat's Back!". (Cat er kominn aftur).

Viðtalið birtist 12. október 1968, eftir útkomu smáskífunnar "Here Comes My Wife", en á B-hliðinni var lagið "It's A Supa(Dupa) Life". Smáskífan mun hafa komið út 18. október 1968, en oft eru viðtöl tekin rétt áður en plötur koma út, þegar fréttatilkynningar hafa borizt um útgáfu tónlistar rétt áður en varan kemur á markaðinn og í hljómplötuverzlanir. Samkvæmt þeim beztu upplýsingum sem má finna var smáskífan hljóðrituð 7. september 1968. Mike Vickers er skráður sem tónlistarstjóri eða tónlistarleiðbeinandi, en Cat Stevens sjálfur sem útsetjari, höfundur og söngvari.

Berklaveiki Cat Stevens var innrömmuð af þessum tveimur smáskífum, sú fyrri kom einnig út 1968, sem innihélt lögin "Lovely City", og "Image of Hell", kom út 23. febrúar 1968 í Bretlandi og síðan í öðrum löndum.

Lew Warburton er skráður sem musical director eða tónlistarstjóri á þessari fyrri smáskífu ársins 1968. Fyrra lagið er sagt útsett af Noel Walker og Cat Stevens en seinna lagið er sagt útsett af Noel Walker einum.

Í fréttatilkynningu fyrri smáskífunnar er Cat Stevens kallaður "Fast-fading British pop sensation", eða poppstjarna á hraðri niðurleið, eða stjörnuhrapstónlistarmaður eða eitthvað slíkt. Þar er smáskífunni lýst sem léttilegu sýrupoppi. Þar er fjallað um að Cat Stevens sé þjóðfélagsgagnrýnandi eins og Bob Dylan, og þó léttvægari.

Smáskífan "The View From the Top", með "Where Are You?" kom út 13. júní 1969, og samkvæmt sumum heimildum tekin upp 7. september 1968 líka, en þó samkvæmt öðrum og traustari heimildum tekin upp 1969, rétt áður en hún kom út.

Tveir menn eru nefndir "music directors" fyrir þessa plötu frá 1969, Phil Dennys og Mike Vickers. Mike Hurst er nefndur útsetjari, producer. Cat Stevens er einnig skráður sem útsetjari, en einnig sem höfundur og söngvari.

Yfirútsett segja sumir. Semballinn forni fer ekki vel í alla en mér finnst þetta toppurinn á tónlistarferli Cat Stevens, gjörsamlega stórkostleg lög bæði tvö frá 1969.

Eins og kemur fram á All Music tónlistarvefnum þá var smáskífan sem kom út 1969 metnaðarfull og ætluð sem "Comeback", henni var ætlað að gera Cat Stevens vinsælli en nokkrusinni fyrr, en það mistókst, salan var dræm og smáskífan komst hvergi á vinsældarlista í heiminum. Í kjölfarið hætti Cat Stevens hjá Deram fyrirtækinu.

Cat Stevens hefur oft sleppt því að nefna ártöl þannig að fólk hefur ekki fengið skýra mynd af ferlinu með berklaveikina sem hann fékk og tengslin við islamstrúna sem hann tók 1977.

Í viðtalinu sem birtist við hann 12. október 1968 kemur fram að hann hafi verið níu mánuði að ná sér. Þau orð eru frá blaðamanninum sjálfum komin og eru mjög ónákvæm þegar nánar er að gætt og kafað ofaní orð Cat Stevens sjálfs í viðtalinu.

Samkvæmt þessum orðum blaðamannsins Derek Boltwood fékk Cat Stevens berklana í janúar eða febrúar 1968 og var búinn að ná sér í september 1968. Athugum þetta nánar.

Í viðtalinu segir Cat Stevens: "Few weeks treatment", "then nice long rest in the country".

Þessi orð Cat Stevens er það næsta sem við komumst sannleikanum í þessu máli og er hægt að tímasetja þetta enn nánar með því að athuga útgáfur smáskífanna frá 1968.

Fyrri smáskífan kom út 23. febrúar 1968. Það eru stórar spurningar sem vakna um þessa fyrri smáskífu. Ekki er hægt að finna viðtal við listamanninn frá þeim tíma svo getgátur verða að nægja.

Það gerist stundum að plötufyrirtæki gefa út lög eða plötur með listamönnum annaðhvort þegar þeir eru dánir eða þá hættir eða þá að um er að ræða gamalt efni og óútgefið.

Ekki er hægt að finna neinar upplýsingar um það hvernig stóð á útgáfu smáskífunnar frá 23. febrúar 1968, hvort þetta var efni sem var áður hljóðritað eða nýhljóðritað í febrúar eða janúar 1968.

Hinsvegar er það ljóst að Cat Stevens var með svo góða heilsu um það leyti sem hún kom út að hann er skráður sem meðútsetjari á fyrra laginu, "Lovely City".

Þetta bendir til þess að hann hafi fengið berklana í febrúar 1968 skömmu eftir útgáfu þessarar smáskífu. Skyndilega varð hann veikur og var fluttur á spítala, en samkvæmt lýsingum hans sjálfs var hann nokkrar vikur á spítala, samkvæmt lýsingunni varla meira en einn mánuð. Það var sennilega í marzmánuði 1968 og kannski fram í apríl. Hin langa dvöl í sveitinni til hressingar hefur þá verið í apríl, maí, júní, og júlí 1968 að öllum líkindum. Síðan fer hann að hljóðrita nýja smáskífu 7. september 1968 og hefur náð nokkurnveginn fullri heilsu þá.

Um sumarið 1968 varð Cat Stevens tvítugur, og þá þegar orðinn nokkuð lífsreyndur maður ekki eldri en það, og búinn að fá allavegana vænan smjörþef af heimsfrægð, en meira var af henni rétt handan við hornið, en mest seldi hann af plötum 1970-1975, og jafnvel eftir að hann snérist til islamstrúar og hætti að gefa út komu út safnplötur með honum.

Á spítalanum eða öllu heldur frekar í sveitinni samdi hann um 40 lög og það hefur komið fram í viðtölum við hann.

En hér er nokkuð sem virðist ekki koma rétt fram allsstaðar í viðtölum við hann eða annarsstaðar, en það er samband hans við útsetjarann Mike Hurst eða ástæðan fyrir því að hann yfirgaf Deram útgáfuna árið 1969.

Sú söguskýring sést um það bil allsstaðar að hann hafi fengið berklana árið 1969 og samið lögin á plötuna "Mona Bone Jakon" í spítalavistinni. Þetta er augljóslega ekki rétt eins og ég útskýri hér. Hann fékk berklana 1968, og samdi þá allavega nokkur lög sem komu á þeirri plötu, en kannski ekki öll.

Cat Stevens var með leikrit í vinnslu árið 1969, Revolussia, og lagið heimsfræga "Father and Son" er afkvæmi þeirrar vinnu. Það átti að gerast í rússneski byltingunni 1917.

Í viðtalinu sem birtist 12. október 1968 virðist Cat Stevens sáttur við strengina og þessar gamaldags útsetningar sem allir kenna um vinsældarskorti hans um þær mundir, og hann sjálfur líka.

Það bendir til þess að hann hafi sjálfur fengið að ráða einhverju um útsetningarnar, en þó ekki haft sterkan vilja eða endilega krafizt þess að breyta mikið til. Þó mun það rétt vera að plötuútgáfan réð mestu um þetta.

Frá og með "Mona Bone Jackon" sem kom út 24. apríl 1970 verður Cat Stevens stórstjarna og almennilega heimsfrægur.

Þarna kemur hann fram sem hippi, það er að segja með kassagítarundirleik, bassa og trommur, en ekki þessa eilífu strengi og "grátandi fiðlur", eins og Sverrir Stormsker held ég að hafi orðað þetta einu sinni á plötuumslagi hjá sér um eigin útgáfu.

Hippatónlistin var þannig yfirleitt, með fremur einföldum undirleik, en þó gat hún farið útí sýrupopp, framúrstefnulegt rokk, synfóníurokk og fleira.

Ég held að stærsta ástæðan fyrir því að Cat Stevens sló almennilega í gegn með þessum einföldu útsetningum hafi verið sú að þarna var hann í takt við tímann, hann kom fram sem einn af hippunum, en ekki sá sem eftirapaði eldri tónlist.

En það má rekja atburðarásina aftur í tímann. Um sumarið 1969 þegar smáskífan kemur út sem átti að endurvekja frægð hans þá verða mikil vonbrigði í herbúðum kappans, og ekki síður hjá Deram útgáfunni.

Cat Stevens hefur lýst því að hann hafi krafizt dýrra tónlistarmanna viljandi, til að grafa undan samningnum, og að hann hafi hótað lögsóknar vegna þess að hann hafi ekki fengið að ráða nógu miklu sjálfur.

Allavega var hann leystur undan samningnum árið 1969. Skortur á sölu á smáskífunni hefur valdið þar mestu um. Það er alveg ljóst að um sumarið og haustið 1969 höfðu mjög fáir trú á Cat Stevens sem vörumerki og tónlistarmanni, en þó nálgaðist heimsfrægðin mesta einmitt um það leyti.

En til að svara spurningum um fyrstu smáskífuna án breiðskífu, sem kom út 23. febrúar 1968, þá vil ég segja að ég tel að hún hafi verið hljóðrituð áður en hann fékk berklana, sennilega í janúar eða febrúar 1968. Lagasmíðarnar eru ekki alveg eins, þær eru einfaldari og jafnvel reiðilegri og beizkjufyllri en áður, það má heyra mun á þeim en lögunum á "New Masters", frá 1967, þannig að tæplega voru þetta afgangslög af þeirri plötu beinlínis, heldur frekar tilraun til að búa til sýrukenndari hljóm og endurvekja vinsældir hans.

Nú er það svo að smáskífan "Here Comes my Wife" frá október 1968 sýnir ekki breytingar, heldur er hún í sama anda. Því held ég að sú kenning standist ekki að veikindin hafi breytt honum og að þá hafi hann búið til þau lög sem gerðu hann að stórstjörnu. Skýringin er eitthvað flóknari, sambland af heppni og að vera réttur maður á réttum tíma, með réttum tónlistarmönnum í kringum sig, ásamt því að semja óvenju góð lög um það leyti, 1968-1970, þegar "Mona Bone Jakon" kom út.

Mestu breytingarnar finnst mér verða með smáskífunni "The View From the Top" frá sumrinu 1969. Þar syngur hann um að hann sé þreyttur á frægðinni. Orðið top er líkingamál yfir frægðina. Hann syngur um einmanaleika frægðarinnar og þó sækist hann eftir meiri frægð á sama tíma!

Nú kann reyndar vel að vera að þetta lag hafi verið samið þegar hann náði sér af veikindunum árið 1968. En þarna passa útsetningarnar óvenju vel, allir strengirnir og virðuleikinn sem minnir á fyrri aldir og klassíska tónlist fyrri alda.

Ég fullyrði það að Cat Stevens samdi aldrei neitt eins gott og þessi tvö lög á smáskífunni frá 1969. Það fáránlegasta er þó að sjaldan seldist nein tónlist hans eins illa eða lítið eins og sú smáskífa. Þetta sýnir enn og aftur að aðdáendur eru ekki dómbærir, hvað þá gagnrýnendur.

Þessa söguskoðun má margreyna með því að skoða heimildir þær sem ég hef nefnt, viðtölin og fleira.

Sjálfsmyndin sem Cat Stevens gerði af sjálfum sér og birtist síðast í viðtalinu frá 1968 er jafnvel með dagsetningunni á, 1968. Það er því margtuggin vitleysa að berklana hafi Cat Stevens fengið 1969, það var frá febrúar til júlí 1968 eins og augljóst er.

En það dýrmætasta sem má af þessu læra er þetta, að vinsældir og gæði fara ekki saman. Það er hvorki hægt að segja að gagnrýnendur né áheyrendur séu dómbærir á gæði tónlistar. Þar kemur fleira til.


Bloggfærslur 27. ágúst 2025

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.8.): 10
  • Sl. sólarhring: 96
  • Sl. viku: 591
  • Frá upphafi: 156022

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 472
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband