Sérkennileg aðferð við demó, prufuupptökur, hálfrapp svokallað, búið til af mér.

Ég hef verið að hlusta á upptökur frá árinu 2005 eftir mig, demó, prufutökur. Ég hef verið að meta hvort prufuupptökur myndu seljast ef þær yrðu gefnar út. Þar eru til fleiri en 10 lög og vel væri hægt að fylla breiðskífu af góðu efni eftir mig.

Vandinn er sá að ég tamdi mér að búa til demótökur með sérstökum hætti, eða hálfrappa lögin. Það kom til af þeirri ástæðu að það var til að heiðra eða hylla ákveðnar aðferðir frá 1983-1986, áður en ég lærði nokkur gítargrip.

Sérhver tónlistarmaður þarf að marka sína sérstöðu, eða það er ekki verra. Þetta var ein af sérstöðunum sem ég markaði mér. Það hafði ekkert með það að gera að ég teldi mig rappara frá 1983-1986 eða hefði neinn sérstakan áhuga á þeirri tónlistarstefnu.

Þessi lög frá 2005 mynda heild, gerð til að búa til demó eða prufuupptökur fyrir plötuna:"Frá stjörnunum berst lífið", sem aldrei var gefin út.

Ætlunin var að hljóðversvinna þessi demó, en það gerði ég ekki.

Prufuupptökurnar má þó gefa út og slík skífa yrði góð skífa.

Ég keypti Concertone hljómsnældur í Radíóbúðinni í Skipholti frá 1983-1986. Stundum afgreiddi skólasystir mín mig þar eða systir hennar, sem unnu þar, því þetta var fjölskyldufyrirtæki þeirra, Radíóbúðin. Þar var einnig Crown græjan keypt sem ég tók uppá. Jafnvel Macintosh tölvurnar sem ég fór að nota nokkru síðar. Fyrsta árið, þar til ég eignaðist gítarinn, þá notaði ég lítið hljómborð sem ég kunni lítið sem ekkert á. Einnig tók ég potta og pönnur hjá ömmu og trommaði og tók upp á spólur lögin mín. Hún bannaði mér það ekki, en kvartaði stundum yfir því að ég notaði þetta of lengi. Hún bara þreif þetta vel með sápu á eftir. Ég fékk lánaðar sleifar til að berja á pottana og þannig að þeir óhreinkuðust ekkert af því að vera notaðir sem trommur. Þá var ég 12-14 ára. Ég eignaðist gítarinn 1984, fékk hann í fermingargjöf, og þá hætti ég að nota pottana sem trommusett. Það var bara þetta fyrsta ár, 1983, og aðeins fram á 1984, fram til apríl 1984 þegar ég fermdist og fékk gítarinn.

Ég samdi gullfalleg lög við ljóð Davíðs Stefánssonar í janúar og febrúar 1984, og einu hljóðfærin sem ég notaði voru pottar og pönnur og sleifar sem trommukjuðar! Um 1988 tók ég lögin aftur upp og setti við þau gítargrip. Þannig hef ég oft verið að endurupptaka og endurgera lögin mín.

Maður þarf ekki hljóðfæri til að semja lög og texta og maður þarf jafnvel ekki að kunna neitt á hljóðfæri. Ég hafði þennan hæfileika að ég fann að það var laglína inní ljóðunum sjálfum, og ég fór ósjálfrátt að syngja nýtt lag. Þá þurfti maður bara að stilla á REC og svo hlustaði maður á útkomuna! Oftast var maður ánægður með það sem á bandinu var. Stundum gerði ég mörg lög við sama ljóðið. Mér fannst þetta mjög auðvelt og sjálfsagt. Skemmtilegra en skólanámið sem ég sinnti aldrei nema rétt fyrir próf.

Árið 1986 fór ég að læra á gítarinn og jafnvel tónfræði. Ég fékk mér svona bækur, en lærði þetta aldrei til fulls. Ég gerði þetta bara vegna þess að ég vildi búa til bækur eins og Megas hafði gert 1968-1973, söngbækur með ljóðum og nótum og gripum.

Nokkru síðar fór ég að þurrka út gömlu upptökurnar og búa til nýjar, með gripum, sömu lögin, það er að segja, stundum breytt og textarnir.

Ekki liðu mörg ár þar til ég fór að sakna gömlu hljóðritananna minna sem ég hafði tekið yfir. Þessvegna fór ég að reyna að herma eftir stílnum sem ég hafði hrifizt svo mikið af hjá mér, sérstaklega árið 1985. Það er uppruni demóupptakanna minna sem eru hálfrappaðar, og sem ég hef gert með þeim hætti í marga áratugi.

Bæði 1984 og 1985 tók ég upp mikið af nýsömdu efni og spilaði á gítarinn með sérstökum hætti, eins og Magnús Eiríksson lýsti að hann gerði líka áður en hann fór að læra á gripinn líka.

Þannig að ég lét gítarinn vera flatan á lærunum og notaði hann eins og ásláttarhljóðfæri með. Síðan stillti ég gítarinn með sérstökum hætti fyrir hvert lag, því ég kunni engin grip. Þetta tók enda 1986, þegar gítarnámið mitt hófst.

Reyndar var ég byrjaður að læra að halda á gítarnum um mitt árið 1985, en hélt áfram að kunna ekki gripin. Frá apríl 1984 og fram í júní 1985 spilaði ég á gítarinn flatan. Eftir það fór ég að taka hann í fangið eins og á að gera og sem rétthentur maður notaði ég vinstri höndina fyrir mín frumstæðu grip, sem ég fyrst fann upp sjálfur, frá júní 1985 og fram í febrúar eða marz 1986, þegar ég fór í alvöru að læra gripin almennilega.

En eitt er það sem var mjög sérstakt við þessar fyrstu upptökur og ég verð að lýsa því, af því að það hafði áhrif síðar.

Ég samdi ekki lögin fyrirfram, ég samdi þau á meðan ég tók upp lögin. Ég var með ritvél hjá mér, sem mamma hafði lánað mér, og ég skrifaði upp texta á A4 blöð með henni. Síðan skrifaði ég dagsetninguna, hvenær eitthvað var samið, því Ingvar Agnarsson kenndi mér það, afabróðir minn. Bara stundum notaði ég stuðla og höfuðstafi, þegar ég nennti, oft fannst mér það óþarfa tímaeyðsla, en ekki alltaf. Ef ég reyndi að búa til falleg og ljúf lög eða vönduð notaði ég það sem hann kenndi mér, bragfræðina.

En þarna mótaðist stíll sem ég reyndi að herma eftir í öllum mínum demóupptökum síðar, og hef gert í marga áratugi.

Stíllinn var þessi:

Fyrir framan mig var texti eftir sjálfan mig, kannski 5-8 erindi og stundum viðlag. Ekkert lag var tilbúið. Ég byrjaði á því að stilla gítarinn, og búa til óhljóð eða einhverskonar stemmningu, með því að stilla hljóðfærið, eða afstilla myndu flestir segja. Ekki var um neina hefðbundna stillingu að ræða. Þar af leiðandi var ég fastagestur í Rín og öðrum hljóðfæraverzlunum því ég var alltaf að slíta strengina, með því að stilla þá of fast! Ég kunni þetta ekki! Það eina sem ég vildi voru skrýtnir hljómar, eitthvað sem varð hvati að nýju lagi!

Af því að ég samdi lagið um leið og ég söng það þá var það algengt að hvert einasta erindi textans væri með nýju lagi, eða ögn frábrugðnu því sem kom í fyrsta erindinu.

Um nokkurra ára skeið hafði ég skömm á þessum upptökum og tók yfir þær. Það var ekki fyrr en um 1993 sem ég tók allt upp frá grunni að nýju, og lauk því 1998, þegar fyrsta platan mín kom út, endurgerð frá 1983-1988 með gripum.

Meðfram var ég svo auðvitað að taka upp nýtt efni, frá 1993 og fyrir þann tíma.

Ekki var skrýtið að ég teldi mig ekki hafa nokkurn minnsta tíma í félagslíf, eða að læra heima eða að vinna við annað og fyrir einhverju kaupi.

En að því kom að ég fékk leiða á þessari aðferð að endurtaka viðlagið með sömu laglínunni, og endurtaka erindin með sömu aðferðinni. Sérstaklega eftir að ég varð frægur 1998, og fyrsta platan mín kom út. Ég fór að fá ógeð á þessum tónleikum öllum, og að þurfa að syngja sama lagið aftur og aftur, endalaust sama textann og sama lagið, bara fyrir fólk!

Þá fór ég jafnvel að endurgera gömul demó með nýrri aðferð, að syngja fyrsta erindið og viðlagið, sem leiðarstef fyrir aðra tónlistarmenn, en tala eða rappa afganginn af textanum, ekki ósvipað og Bob Dylan gerði þegar hann tók upp Basement Tapes með The Band frá marz til september 1967, áður en hann tók upp breiðskífuna John Wesley Harding í hljóðveri frá september til desember 1967.

Upptökurnar frá árinu 2005 eru þessu sama marki brenndar. Lögin eru bæði sungin og röppuð í þessum demóupptökum. Fyrsta erindið er sungið, hitt er talað, æpt, röflað, drafað og rappað.

Þar að auki er urg í snúrum og hljóðnemum í sumum lögum, ég hef ekki gætt að þessu vel og metnaðurinn hefur verið takmarkaður. Oft eru bara til tvær upptökur af einu og sama laginu.

Fyrir kemur að einungis sé til ein stök upptaka af einhverju lagi!!!

Svona var diskurinn:"Frá stjörnunum berst lífið", tekinn upp.

Þetta verður seint eða aldrei vinsæll söluvarningur, því lögin eru ekki grípandi svona. Það þarf langan tíma að venjast þeim og læra þau þegar þau eru hljóðrituð með þessum hætti.

En þetta passar við áætlun sem ég gerði um þetta leyti. Ég vildi að tónleikaupptökurnar væru betri en stúdíóupptökurnar. Ég vildi þannig gefa hverri tónleikaupptöku meira vægi, með því að klára ekki lögin í stúdíóinu, gera bara grófa grunna sem yrði að klára seinna meir.

Ég er sérvitur, og þetta er dæmi um það.

Eitt er þó gott við þetta. Það er að segja, þetta passar furðulega vel við nútímann. Í nútímanum græða tónlistarmenn mest á tónleikum.

Fyrst þarf ég þó að gefa þetta út og athuga hvort fólk hlustar það mikið og kaupir að grundvöllur sé fyrir tónleikahaldi, allt í réttri röð.

 

 


Bloggfærslur 18. ágúst 2025

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 36
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 532
  • Frá upphafi: 155318

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 403
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband