8.7.2025 | 04:33
Ég er ekki sannfærður um framlíf, en þó finnst mér það örlítið sennilegra en tómið sjálft og ekkineitt sem margir virðast hylla og trúa mest á
Látið fólk er eins og lifandi, það er að segja maður setur það ekki á stall, ekki endilega, kostir og gallar þeir sömu, fátt breytist.
En hvað sönnun varðar þá finnst mér það merkilegt þegar maður talar við dána ömmu sína, og á ég þá við þessa í föðurættinni sem ég hafði alltaf minni samskipti við, og hún sýnir að hún hefur lítið sem ekkert breyzt. Mér þótti þó mjög vænt um að tala við hana, einnig að finna að þetta er ekki allt ímyndun í mér, því þegar hún kallaði mig veikan á geði fyrir "talibanaskoðanir um konur" og að ég "ætti að fá mér konu sem gæti haft vit fyrir mér", fannst mér það virkilega sannfærandi um að þetta væri hún í raun og veru en ekki nein ímyndun í mér.
Fanney Gísladóttir heitir hún eða hét. Hún er nú á annarri stjörnu eins og aðrir framliðnir.
Ég móðgast ekki við svona orð, veit hvaða holli hugur og hreinskilni býr að baki, eins og hjá henni. Ég hefði síður kunnað við einhverja hræsni frá henni og hefði þá efazt um að þetta væri hún.
Hún var góð við mig samt, en hún er sennilega enn sami kratinn og hún var og veit að mínar skoðanir eru öndverðar hennar.
Þetta var eins og að koma í heimsókn til hennar áður en hún veiktist af Alzheimersjúkdómnum, en hann var orðinn áberandi síðustu árin.
Já hún var ung og hress.
Þegar hún sá að ég lét ekki haggast sagði hún setningu sem í felst hrós og kærleikur frá henni, hún sagði að ég minnti á afa minn sem ég var nefndur eftir. Hún sagði að ég ætti að tala við hann.
Mér fannst það að sumu leyti eins og hún leyfði mér að fletta myndaalbúmi, en frekar eins og almynd eða skyndimynd.
En ég náði ekki að tengjast honum eða tala við hann, en fann áhrif frá honum samt.
Hann mun vera ánægður með mig og mínar skoðanir. Hann var og er frímúrari og í merkilegu starfi þarna fyrir handan.
En ég talaði við eina langömmu mína sem ég kynntist aldrei í lifanda lífi. Hún þusaði mikið um fólk sem ég þekki ekkert, en áhugaverð manneskja fannst mér hún vera. Sterkur persónuleiki, af gamla skólanum. Það var eins og hún leystist upp í móðu, en ég fann nú samt kærleika og velvild frá henni eins og frá ömmu.
En það er annað sem er merkilegt. Og það var að annan mann þurfti til, einnig látinn, til að koma okkur ömmu Fanney til að tala saman aftur.
Hún var nefnilega orðin ósátt við mig og mínar skoðanir áður en hún lézt.
Það er góður maður þarna fyrir handan sem ég læt eiga sig að segja hver er. Nema hann tengist mér vissulega, er skyldur mér í gegnum Jón afa og ættina á Ströndum. Afskaplega góður maður. Það er hluti af vinnu hans á annarri stjörnu að huga að svona málum.
Dóttir hans særði mig. Hann kom til mín nýlega og sagðist ætla að bæta fyrir það. Hann sagðist "taka ábyrgð á henni og þeim sársauka". Ég sagði við hann að hann yrði að standa við það og sýna það. Þá sagði hann að ég yrði sjálfur að vera tilbúinn að taka við tilmælum og gagnrýni frá sér eða öðrum. Ég féllst á það, en sagðist vera þrjózkur og lofaði engu um að breytast.
Fyrr í vetur sagði hann að "við ættum ekki saman", ég og eldri dóttir hans og ég ætti að láta hana hafa frumkvæðið að að kynnast mér og ekki reyna það sjálfur, ef hún vildi.
En hann allavega stóð við orðin sín, hann talaði við ömmu Fanney og kom á þessum fundi okkar. Mér fannst það merkilegt.
Hann er yndislegur maður, og amma Fanney á sína góðu punkta líka, stundum, einstaka sinnum.
En eins og ég segi, ég hef haft samskipti við látna svo lengi að ég tek því sem sjálfsögðum hlut. Þessvegna segi ég það, að þegar ég kynnist mannkostum, þegar ég læri að treysta fólki, þá er ég tilbúinn að eiga slík samskipti og eignast vini.
Það er nóg af skíthælum í öllum veröldum og aumingjum sem þora ekki að sýna aga eða fylgja prinsippum kristinnar trúar eða öðru.
En hann sagði við mig að ég hefði hrakið marga frá mér með ákveðnum skoðunum. Ég veit ekki hverju það breytir að tala við hinn og þennan.
Mér fyndist verra að þetta gleymist. Ég gæti sagt frá þessu í meiri smáatriðum, en læt það eiga sig.
Það er dýrmætt að eiga fullvissu eða von um að framlíf sé til og réttlæti sem þessi veröld býður ekki uppá.
Það er ekkert merkilegt í fréttum. Ég var mjög á báðum áttum hvort þetta kæmi nokkrum við en mér. En maður vill tjá sig, og manni finnst þetta merkilegt.
Það vantar svo mikinn kærleika í veröldina í dag.
Mér finnst eins og svona frásögn gefi fólki tilefni til að trúa á það góða og eitthvað réttlæti. Það er tilgangurinn með þessari frásögn, sem mér er ekki ljúft að segja frá í smáatriðum, því nógu margir hæðast að öllu sem er andlegt.
Ég hef sleppt úr mörgum atriðum með stríð sem geisa á öðrum hnöttum, og eru andleg ef svo mætti segja en einnig meira og miklu meira en það.
Aldingjar lesa á milli línanna og það er allt í lagi því næstum enginn trúir þeim.
En rétt er fyrir samhengið að segja fleira og halda aðeins meira áfram.
Mér skildist vegna þessa sem mér þarna lærðist að þetta sem Guð Biblíunnar er að gera, að það hafi stytt líf sumra ættingja minna og líf afa míns líka því mikið tekur það á.
Mér fannst vissulega sárt og leitt að afi minn sem ég heiti eftir skuli ekki hafa sýnt sig betur í návist minni. En ég sá hann þarna á bakvið skrifborð brosandi viðurkennandi en fjarlægan. Það var allt og sumt. Það hefur allt sinn tíma.
En mér var sagt að hann hefði ýmsu ráðið um það hverskonar sál kom í heiminn með mínum getnaði. Ég hef kennt pabba um það og mömmu og verið ósáttur við að hafa komið í þennan heim.
Síðan getur verið að þetta sé plott í karlinum sem ég kynntist aldrei og dó áður en ég fæddist. En ég hef talið að maður sjálfur velji sér foreldra á milli lífa. Það kann að vera einhver blekking, að ég hafi verið vélaður og blekktur til að fæðast inní þennan heim. Maður má ekki vera of viss, en maður þarf að halda möguleikum opnum og vera tilbúinn að læra og fræðast um þetta.
Maður getur rakið þræðina til ömurlegra persónuleika sem eru foreldrar manns og svo lengra.
Tengiliðurinn sem ég minntist á hér á undan, faðir vinkonu minnar, hann er eins og sálfræðingur. Hann reynir að fá mig til að sættast við tilveruna með því að rekja upp hvert lag af ranghugsun eftir aðra, og rökræða til gagns.
Hann hlýtur að hafa lært sálfræði þarna fyrir handan.
Hann finnur hvenær mér líður ekki vel.
En af hverju hleypi ég honum þá að mér frekar en öðrum?
Það er vegna þess að hann þekkir ákveðna leyndardóma sársauka míns frá árinu 1991 þegar taugaáfall vegna ástarsorgar var mér sérlega þungbært.
Og hann er ekki að hæðast að mér fyrir þetta eða telja viðbrögð mín ýkt.
Sá sem viðurkennir þannig sársauka sem aðrir telja bera vott um klikkun á traust manns og trúnað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 8. júlí 2025
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.7.): 12
- Sl. sólarhring: 25
- Sl. viku: 648
- Frá upphafi: 151320
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 436
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar