Ég horfði á fréttirnar þegar Hermann Ólafsson lýsti því hversvegna sérsveitin yfirbugaði hann, hjartveikan manninn fyrir að hafa verið "hættulegur og ógnandi byssumaður".
Þetta er eitt af því sem hefur verið nokkuð mikið í fréttum í DV og Vísi og sitt sýnist hverjum.
Það kemur hvergi fram í fréttum að Hermann hafi ekki byssuleyfi, svo það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að hann hafi byssuleyfi.
En eins og hann sagði frá þessu var hann beðinn af björgunarsveitarmanni sem var að hjálpa honum að sækja skotbómulyftara til Grindavíkur um að mega taka myndir af sér og umhverfinu, sem hann, Hermann leyfði. Síðan vitna ég í Hermann sjálfan:
"Ég spurði hann hvort hann vildi ekki fá myndir af kallinum með haglarann og hann tók af mér nokkrar myndir. Ég meira að segja brosti til hans. Ég beindi byssunni upp í loftið og gekk svo frá henni. Ég get svo Guðsvarið það. Ég sýndi honum byssuna."
Síðan er eins og aðrir hafi orðið hræddir sem sáu þetta í fjarska og hringdu í sérsveitina. Hermann sagði:
"Það munaði minnstu að þeir dræpu mig", í frétt á Vísi 1. apríl 2025.
Lýsir hann því hvernig hann er hjartveikur og hafi fengið harðhenta meðhöndlun að óþörfu hjá sérsveitarmönnunum og hjartað hafi verið farið á fullt í sér af ótta og hefði hann getað drepizt, orðinn sjötugur maðurinn og í yfirþyngd, og hjartveikur.
"Haugalygi að ég hafi ógnað einhverjum með byssu", kemur fram í annarri frétt um hann þar sem tekið er viðtal við hann.
Öll málsatvik liggja ljós fyrir. Hann lyfti byssunni upp yfir höfuð sér og unga mannsins sem var við myndatöku, en beindi henni ekki að neinum. Það var allt og sumt, eins og ekki sumir hafi panikerað við það eitt að sjá byssu.
Nú er sonur "byssumannsins" kominn honum til varnar, sem er nú ekki hættulegur, heldur er þetta refabyssa sem hann hefur leyfi fyrir, hlýtur að vera. Maðurinn er ekki þekktur ofbeldismaður og það hlýtur að segja allt sem segja þarf.
Hemmi í Stakkavík er "byssumaðurinn" kallaður, og ósköp venjulegur maður og ekki þekktur fyrir neitt misjafnt.
"Hópuppsögn í Grindavík:"Erfiðasta ákvörðun sem við höfum tekið í lífinu", sagði hann, "byssumaðurinn" þann 2. febrúar 2024, þegar vegna jarðhræringa hann varð að segja upp í Stakkavík, fólki við fiskvinnslu.
Það er alvarlegt mál þegar sérsveitarmenn eða aðrir greina ekki á milli hættulegra einstaklinga og svona klaufalegra aðstæðna sem skapast.
Sumir vísa í reglugerðir, að ekki megi sveifla byssu, hlaðinni eða óhlaðinni. Aðrir telja að brotið hafi verið gróflega á manninum, Hemma í Stakkavík.
Það er sumt í þessu skrýtið. Hefðu sérsveitarmennirnir ekki átt að sjá að Hemmi í Stakkavík sé ekki hættulegur? Viðurkennir hann að vísu að hafa eitthvað streizt á móti handtökunni.
Þó má sjá myndband á Netinu þar sem handtakan er sýnd, og þar sést að hann er þvingaður í götuna og virðist algjörlega bjargarlaus og ekki ógnandi á neinn hátt.
Enda er það svo að fleiri standa með honum en móti honum í athugasemdum á DV um þetta atvik, sem umdeilt getur talizt.
Björgunarsveitarfólki var ógnað og það fékk áfallahjálp, kemur fram í annarri frétt um málið.
Flestir sem gera athugasemdir í DV meta það svo að þarna hafi óþarfur ótti gripið um sig vegna byssunnar, og að hann hafi ekki afhent hana strax heldur farið að rífast og kýta við þá.
Að lokum skal minnast á viðbrögð Þorbjargar dómsmálaráðherra. Hef ég satt að segja fengið minna álit á henni eftir þetta, því hún virðist ekki standa með manngarminum sem lenti í þessu.
"Fordæmir atvikið í Grindavík", heitir frétt einnig frá 1. apríl 2025, þar sem hennar sjónarmið eru viðruð.
Þetta eru hennar orð:
"Þetta var mjög alvarlegt og ég fordæmi að það að þetta hafi gerst. Svona hegðun og svona atvik á auðvitað ekki að geta átt sér stað við þær aðstæður, að björgunarsveitarmenn séu að við störf sín að tryggja öryggi fólks og þurfi að reyna svona hegðun," segir Þorbjörg Sigríður."
Hér virðist mér hún sem dómsmálaráðherra gera sín fyrstu mistök, að sýna ónærgætni gagnvart Hermanni. Vissulega fengu sumir hland fyrir hjartað við að sjá byssuna, en skotum var víst ekki hleypt af, og óttinn stafaði bara af því að sjá byssuna og svo að hann skuli ekki hafa afhent hana strax. Það er allt annað en að einhver hafi ógnað fólki með byssu, hvað þá hleypt af skotum!
Síðan lýsir Þorbjörg aðdáun hvað Grindvíkingar unnu vel með yfirvöldum. Sagði hún að auki:
"Um þetta snýst þetta allt saman. Þetta er jaðartilvik en ofboðslega leitt tilvik og alvarlegt og ég fordæmi það."
Þessi yfirborðskenndu orð hennar lýsa ekki þessum aðstæðum eins og vera ber. Reyndar vantar alveg fréttaflutning sem er hlutlaus og lýsir staðreyndum, að fólk varð hrætt í fjarska við að sjá byssuna og taldi manninn vera að ógna, sem reyndist ekki vera.
Þess í stað eru tekin viðtöl við Hemma sjálfan og svo þá sem töldu hann hættulegan, en ekki farinn millivegurinn og reynt að lýsa þessu hlutlaust, staðreyndunum og því sem fram fór.
Það er óþarfi að skapa úr þessu múgæsingamál. Það má gagnrýna mjög fréttaflutninginn af þessu, eins og það sé keppikefli að skipa fólki í fylkingar út af þessu.
Staðreyndirnar eru held ég alveg ljósar. Hermann ætlaði ekki að ógna neinum, en streittist við að afhenda byssuna, það er allt og sumt.
Við viljum ekki búa í lögregluríki. Við viljum að fagfólkið hvorki geri of mikið úr neinu, né of lítið úr neinu.
Við viljum að fagfólkið okkar sýni öllum nærgætni, og líka þeim sem hugsanlega gætu verið hættulegir.
Það má læra af þessu að gera betur. Hemmi í Stakkavík þarf að læra að veifa ekki byssum og sérsveitarmennirnir þurfa að læra að meta aðstæður þannig hvort einhver sé að ógna í alvöru eða að streitast á móti og af þrjózku en ekki afbrotavilja.
Síðan er spurning hvort nauðsynlegt sé að blása þetta út í fjölmiðlum.
Enginn hefði viljað að maðurinn hefði fengið hjartaáfall.
![]() |
Byssumaðurinn: Versti dagur í mínu lífi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 9. apríl 2025
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.4.): 52
- Sl. sólarhring: 77
- Sl. viku: 452
- Frá upphafi: 142389
Annað
- Innlit í dag: 41
- Innlit sl. viku: 357
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 38
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar