27.4.2025 | 01:59
Enn um leyndarmál frægðarinnar - og ofurfrægðarinnar
Ég átti andlega samleið með Vinstri grænum mjög lengi og jafnvel á meðan ég var mjög heillaður af hægriöfgum líka, (til dæmis 2001) því ég hef aldrei losnað við umhverfisverndaráherzlur mínar í gegnum lífið, frá því að þær urðu að miklu baráttumáli um fermingu vegna áhrifa úr skólanum.
Ég gaf út nokkra tónlistardiska með minni tónlist frá 1998 til 2003, og svo aftur frá 2008 til 2010. (Þar af tvo með eldri upptökum, 2001 og 1999). En öll hin árin fyrir 1998 og svo á milli 2003 til 2008 og svo eftir 2010 hef ég líka verið að semja lög og taka upp.
Sum þessara laga mynda heild og eru nógu mörg til að mynda hljómplötu, tíu stykki eða meira af frambærilegu efni. Að vísu er það svo að mér finnst alltaf erfitt að vera viss um hvað er frambærilegt til útgáfu þegar tónlist er annars vegar og textar. Stundum er það þannig að maður býr til demó og hefur ekki álit á þessu sem maður var að gera. Síðan þegar maður hlustar á það kannski 20 árum seinna eða meira, þá finnst manni eitthvað vera þarna sem gaman er að og megi koma út.
Það eru nú reyndar liðin meira en 20 ár frá 2004, 21 ár eru síðan það var. Það eru þarna upptökur frá aprílmánuði 2004 sem eru svo margar að þær mynda heila plötu, 10 lög og reyndar alveg rúmlega það. Öll þessi lög eru gegn Kárahnjúkavirkjuninni og þessvegna mynda þau eina heild og gætu verið gefin út sem hljómplata. En upptökugæðin eru því miður ekki nógu mikil, eða margt má gagnrýna við þá hlið málsins. Ég veit ekki alveg hversvegna ég valdi þennan tíma til að semja og taka upp lög um þetta, en einhverra hluta vegna hefur þetta snert við mér þá, og þó var byrjað á framkvæmdunum þarna, en ég held að mótmæli hafi líka verið byrjuð þá gegn þessu.
En þarna í þessum pakka eru nokkur grípandi og áhugaverð lög og síðan önnur róleg og drungalegri. Ég hef verið nokkuð sannfærður um þetta, ég heyri það á þessum lögum, en ég man lítið sem ekkert eftir þessu nema að þetta var eitthvað verkefni sem ég tók að mér og ákvað að klára, því þetta fór eitthvað á sálina á mér og mér fannst ég þurfa að tjá mig um þetta svona í tónum og textum eða ljóðum.
En sum lögin eru sérlega illa hljóðrituð og ég er líka hissa á metnaðarleysinu í sjálfum mér að nenna ekki að sinna þessu verkefni nógu vel á sínum tíma. Sem dæmi má nefna að sum lög eru aðeins til í einni töku, eða tveimur eða þremur og síðan það látið nægja. Síðan er ég að eyða diskaplássinu í lög eftir aðra sem ég kann ekki einusinni og syng mjög óskýrt á milli! Sannar demótökur!
En eiginlega alla dagana í apríl 2004 eru til einhverjar upptökur, misgóðar frá þessu verkefni mínu og ný lög eiginlega daglega og textar og sumt sannfærandi.
Ég hef verið býsna hlynntur Vinstri grænum á þessum tíma, því ég fjalla um þá í textunum oft og vil að þeirra áhrif verði meiri. Það er nú samt þannig að það hefur farið eftir þessu verkefni, þessi hrifning mín á Vinstri grænum, því ég var að semja einmitt um þetta efni, og þá hefur þetta komið til.
En margt af þessari tónlist minni frá 2004 er mjög úrelt í dag í ljósi þess að Vinstri grænir sviku sínar hugsjónir og hurfu sem flokkur eiginlega í Katrínarstjórninni sem nú er farin frá.
En samt finnst mér þetta heillandi og mig langar að gefa þetta út, því mér finnst þetta heillandi á sama tíma og þetta er úrelt og gamaldags að einhverju leyti. Áherzlan á umhverfisvernd finnst mér enn mikilvæg, en það er mjög hallærislegt að rifja upp svona gamla baráttusöngva gegn virkjun sem varð að veruleika, og þar að auki að gefa út hrós um flokk, Vinstri græna, sem hvarf með skammarlegum hætti eftir stjórnarsetu með Framsókn og Sjálfstæðisflokknum, sem þau gagnrýndu mest á sínum tíma!
Allt byrjaði þetta með titillaginu sem heitir einfaldlega "Kárahnjúkar" og var samið og tekið upp 1. apríl 2004. Síðan fór þetta að þynnast eftir 11. apríl 2004 og minna um perlur og grípandi lög.
Sumar af þessum upptökum eru lélegar. Þar er söngurinn þannig hljóðritaður að ég er alltaf að færa mig nær hljóðnemanum og svo fjær honum á meðan upptakan stendur yfir, og á meðan ég er að lesa af blaðinu, nýortan textan, sem ég greinilega kann ekki neitt og varla lagið.
Samt er alveg hægt að gefa út svona "demóupptökur". Þetta selst alltaf svo lítið hjá mér, að það væri nóg að þetta væri fyrir örfáa útvalda, sem hafa gaman að sköpunarkraftinum á bakvið þetta og krefjast ekki fullkomnunar í tækniúrvinnslu eða upptökum.
Mér finnst það yndislega sjarmerandi og hallærislegt á sama tíma að hlusta á svona gamla tónlist. Það rifjar upp gamlar og skemmtilegar minningar frá svona löngu liðnum tíma, þetta eru einsog gamlar dagbækur eða gömul dagblöð sem maður er að blaða í.
En ég skrifaði bók um leyndarmál frægðarinnar 2017 eða svo, man ekki hvort ég lauk við hana alveg. Oft byrja ég bara en lýk ekki við verkefnin.
Í óútgefnu bókinni minni, "Leyndarmál frægðarinnar" frá 2017 þá er ég að tengja saman mannréttindabaráttuna á 20. öldinni og svo fræga tónlistarmenn frá þeim tíma, eins og Bob Dylan og Bítlana.
Ég fjallaði um Bítlaæðið í þessu riti á disklingi, sem ég ætti að finna og ljúka við.
Ég velti upp stórri spurningu:
Hvað veldur ofurfrægð tónlistarmanna?
Eru það hæfileikar einir saman eða er það fleira?
Bítlaæðið var drifið áfram af greddu unglingsstelpna á árunum 1962-1966 alveg sérstaklega, á meðan þeir enn héldu tónleika, og svo auðvitað út allan þeirra feril eitthvað líka.
En Bítlaæðið frá 1963-1965 er alveg sérlega merkilegt fyrirbæri. Stelpurnar skríktu svo ekki heyrðist mannsins mál og þær fellu í öngvit hópum saman á tónleikum af hrifningu. Bítlarnir heyrðu ekki í sjálfum sér. Þeir þurftu að horfa á meðleikara sína til að halda taktinum. Ekki gátu þeir heyrt tónfallið í sínum eigin lögum nema mjög, mjög takmarkað!
Merkilegt er að hugsa til þess að hljóðkerfin voru svo léleg og máttlaus á þessum tíma að allur þessi öngvitsfallandi unglingsstelpnaskari gat ekki heyrt eitt einasta orð í Bítlunum nema þær sem voru mjög nálægt máttlausum hátölurunum. Sérstaklega ekki eftir að skríkjandi lætin upphófust!
Þarna upphófst því múgsefjun, fyrsta flokks.
Bítlarnir voru auðvitað fyrsta flokks, ekki nokkur spurning með það. Sennilega hafa varla neinir tónlistarmenn verið þeim fremri á þeim tíma, nema kannski Roy Orbison, sem einnig var á toppnum á þeim tíma, eða það tel ég. Hann kunni að semja 100% popplög og hafði rödd sem var fyrsta flokks. En hann samdi þó ekki eins mikið og Bítlarnir, og hann féll í þá gryfju á sama tíma og Bítlarnir risu í vinsældum að treysta á drasl sem aðrir létu hann syngja, og þannig gjörsamlega týndi hann vinsældum á 7. áratugnum, og náði sér svo ekki upp aftur fyrr en árið sem hann dó, 1988, með Travelling Wilburys, og svo á sólóplötu sem hann tók upp rétt fyrir hjartaáfallið sem dró hann til dauða undir lok ársins 1988.
En hvað veldur ofurvinsældum tónlistarmanna?
Í fyrsta lagi er markaðurinn stærri í útlöndum, en það er ekkert svar, heldur mögnunaráhrif.
En Bandaríkin og Bretland hafa svolítið sérstaka menningu, og höfðu enn meira áður. Hollywoodmenningin hafði sigrað heimsbyggðina mörgum áratugum áður, alveg frá tíma þöglu myndanna á fyrri hluta 20. aldarinnar. Þannig þekktu næstum allir í heiminum enskuna og skildu hana sungna.
Auk þess var það rokkið. Það var tónlist sem spratt upp í Bandaríkjunum og fluttist út til Bretlands og blómstraði sem Merseybítið, sem var uppistaðan í fyrstu Bítlatónlistinni, og kennt við tónlistartímarit á þeim tíma. Það kom út í Liverpool og skólabróðir John Lennons úr Listaskóla Liverpool var frumkvöðullinn á bakvið það, Bill Harry. Eiginlega mætti segja að þetta tónlistartímarit hafi verið skólablað að uppistöðu, en um tónlist.
Merseybít er samheiti yfir bíttónlist og brezkt bít, sem Jakob Magnússon þýddi sem hryntónlist, held ég að rétt sé, á Stuðmannaplötu eða einhversstaðar. Eða hann notaði orðið hryntónlist almennt yfir popp, sem andstöðu við sígilda tónlist. Poppið má rekja aftur til jazztónlistar á millistríðsárunum eða lengra aftur.
Merseyvatnið sem rennur um Liverpool ljáði stefnunni heiti sitt. Orðsifjalega þýðir mersey jaðarvatn, eða umlykjandi vatn. Það er komið úr fornenska heitinu "mæres éa",landamæraáin eða landamerkjavatnið.
Mær eða mear er sama orð og mæri í landamæri, og þetta enska orð er viðurkennt norrænt tökuorð.
Ea er svo sama orð og á hjá okkur. Ahu er það á fornvesturgermönsku eða ahwo á forgermönsku.
Merseybítið sem fyrstu Bítlalögin falla undir þýðir því "Mæráarhryntónfallið".
Í Bandaríkjunum kom rokkið einna fyrst fram hjá svörtum blúsurum og frumrokkurum, og sú tónlist náði ekki jafnt til allra hópa þar. Hún var oft einskorðuð við slíka jaðarhópa eða allnokkuð mikið.
Í Bretlandi hinsvegar voru þetta piltar sem voru germanskir og úr millistétt, eða af sama uppruna og stelpurnar sem héldu uppá þá.
Einnig varð Merseybítið léttara en í Bandaríkjunum og einsleitnara, ekki hægt að einskorða það við ákveðna hópa eins og fyrsta rokkið í Bandaríkjunum.
Í Bretlandi má því segja að rokkið hafi orðið enn meiri unglingatónlist en í Bandaríkjunum. Þó var rokkið þannig líka í Bandaríkjunum, en taumhaldið sem foreldrarnir höfðu á börnum sínum var mjög sterkt, og jafnvel enn sterkara í Bandaríkjunum. Þar kom til enn sterkari kristni og svo stéttaskipting sem var kannski harðari að einhverju leyti.
En stærsta ástæðan fyrir ofurfrægð Bítlanna var þó eins og ég skrifaði um í þessu riti frá 2017, hún kom utanfrá, vegna þjóðfélagslegra breytinga sem kölluðu á byltingu æskufólksins.
Þannig skrifaði ég um það í "Leyndarmáli frægðarinnar" frá 2017 að hippabyltingin hafi í raun byrjað fyrr en 1968, og ég tel að hún hafi að minnsta kosti verið byrjuð 1963 með Bítlaæðinu, og jafnvel með Elvis Presley æðinu sem byrjaði 1956.
Bítlaæðið var undanfari hippabyltingarinnar í raun og maður hlýtur að komast að þeirri niðurstöðu.
Ég líkti þessu við fall niður til Vítis, frá hörðum kristilegum reglum og til upplausnar, sem augljós var orðin 1977-1980 þegar pönkið reis hæst.
Þetta er mjög áhugaverð rannsókn í félagsfræði, mannfræði og sálfræði og skyldum fræðigreinum, sem þarna fléttast saman.
Mannréttindabylting, vinstrisinnabylting, þetta er nöfn sem eiga við.
En grunninn má rekja til þriggja eða fjögurra meginþátta, og jafnvel fleiri.
1) Kvenréttindabyltingin.
2) Æskubyltingin, að meta ungt fólk til jafns við eldri kynslóðir, sem var stórmál fyrr á tímum þegar eldra fólk stjórnaði með harðri hendi börnum og unglingum.
3) Kynþáttabyltingin.
4) Jafnaðarbyltingin, að jafna kjör stéttanna, að fátækir fengju betri kjör.
Það má bera saman Bob Dylan og Bítlana í þessu sambandi eða jafnvel Elvis Presley. Þetta voru stærstu stjörnurnar og eru enn meðal þeirra stærstu á heimsvísu í tónlist.
Bob Dylan túlkaði í orðum það sem Bítlarnir túlkuðu í fasi og tónum og í viðtölum.
Elvis Presley var brú á milli kynslóða og hæfileikabúnt.
Elvis Presley ruddist til frægðar með kynþokkann einan að vopni myndi ég segja hiklaust, og einnig frábæra sönghæfileika og danshæfileika.
Elvis Presley var með flauelsrödd sem hann gat gert hrjúfa, karlmannlega og ruddalega í sama laginu, þegar honum sýndist svo. Hann hafði fullkomið vald á rödd sinni og fæddist með gullrödd sem hann lærði að beita sjálfur. Hann blandaði saman gospeltónlist og blús og lærði af ryþmablúsinum sem hann heyrði í útvarpinu og drakk þessi áhrif í sig.
En það sem skilur Elvis Presley frá öðrum söngvurum var ýmislegt.
Hann var með fullkomnunaráráttu og var með fullkomið eyra fyrir góðri upptöku.
Þannig vissi hann sjálfur frá byrjun þegar hann fór að taka upp eigin tónlist hvað var nógu gott, og hann var þekktur fyrir að vilja margar upptökur af sama laginu, frá byrjun, til að fá sem bezta upptöku.
Það voru raunar margir aðrir að keppa við hann, frábærir flytjendur.
Elvis Presley var þó með einstaka rödd og einstaka kyntöfra, og sviðsframkomu.
Örfá lög með Elvis Presley er hægt að telja einstök, hin fullkomnu dægurlög eins og hjá Bítlunum. Til dæmis þessi:
1) Hound Dog, 1956.
2) Blue Suede Shoes, 1956.
3) Love Me Tender, 1956.
4) Jailhouse Rock, 1957.
5) A Fool Such As I, 1958.
6) Little Sister, 1961.
Í þessum lögum er mismunandi raddbeiting, en framúrskarandi alltaf. Segja má að aðeins Elvis Presley hefði getað gert þessi lög svona vinsæl.
"Hound Dog" er næstum því pönklag og ekki sízt í flutningi kóngsins, Elvis Presley. Það var auðvitað bylting. Svona gróf og ruddaleg raddbeiting var hreinlega bylting, en ekki síður færnin, að hafa svona öfluga rödd og að kunna að beita henni svona markvisst; hver einasti tónn lagsins er sterkur og hvass, ekki einn einasti mjúkur punktur.
"Hound Dog" er karlremban holdi klædd. Þetta lag er fullkomlega í takt við tíðarandann á þessum árum, að með andlegu ofbeldi náðu piltarnir stjórninni og héldu henni, með svívirðingum í garð kvenna.
"Blue Suede Shoes" sýnir svo aðra hlið á Presley, frá sama ári.
Í sama laginu er hann skipandi, ógnandi, verndandi og valdsmannslegur.
Þetta er alhliða karlmennska og þroskaðri, eldri manns og valdsmannslegri.
Raddbeitingin er einnig fjölbreytilegri. Röddin er hvöss og mjúk á víxl, skipandi og heillandi, allt á sama tíma. Snilld söngvarans kemur hér einna bezt fram af öllum hans lögum.
"Love Me Tender" sýnir svo enn eina hlið á Presley, frá þessu sama ári. Þarna er hinn silkimjúki vögguvísusöngvari, og hann var skrifaður fyrir laginu ásamt Veru Matson, en í raun er lagið eftir hvorugt þeirra. Upptökustjórinn Ken Darby gerði textann en skráði konu sína fyrir honum því hann var samningsbundinn öðru fyrirtæki, en Elvis Presley var skráður fyrir laginu til að hann fengi að taka það upp, en það var þó eftir George R. Poulton, en Aura Lea hét upphaflega lagið, frá 1861 og var úr borgarastyrjöldinni bandarísku.
En nokkuð sannleikskorn er í því að lagið sé eftir Elvis Presley, því hann breytti því og útsetti á sinn hátt, og var talinn frumkvöðull í útsetningum á lögum sem hann söng sjálfur, því áður fyrr höfðu söngvarar svo til ekkert vald á því hvernig lögin voru útsett, þeim var skipað að syngja á ákveðinn hátt oft og einatt og oftast sennilega.
"Jailhouse Rock" frá 1957 sýnir enn eina hlið á Presley. Þetta er rokkarinn Elvis Presley, en lagið hefur vísun í glæpamannarapp seinni tíma og nútímans og það hefur vísun í þá undirheimamenningu sem rokkið var talið tengjast.
"A Fool Such As I" 1958 sýnir auðmjúka hlið á söngvaranum, og raddbeitingin er einnig mjög sannfærandi, en karlmannleg um leið, að hann skuli höndla það að tala sjálfan sig niður en hljóma samt valdsmannslegur, með þessari öflugu og næstum því ruddalegu raddbeitingu. Það skapar gagnstæð hughrif og í laginu eru töfrar.
"Little Sister" frá 1961 er hinn gamli og ruddalegi Presley aftur, en samt með mýkri undirtónum á milli.
En leyndarmál ofurfrægðarinnar er margvíslegt.
Það væri hægt að skrifa langa bók um þetta, en hér er ég búinn að týna mér í smáatriðum, og ætlaði að hafa þetta stuttan pistil um meginatriðin.
Aðalatriðið er þetta, að ofurfrægðin er hluti af þjóðfélagsbreytingum, það eru ytri atriði sem ýta á frægð svona einstaklinga.
En um þetta er hægt að skrifa marga pistla og margar bækur, ef maður fer djúpt í þetta.
Fólk nennir yfirleitt ekki að lesa langa pistla. Læt þetta nægja.
Þetta veitir ágæta innsýn inní hitt og þetta sem tengist frægðinni og það ætti að nægja fólki til að trúa að þessi bók sé til í handriti hjá mér frá 2017.
![]() |
Vinstri græn kynna helstu áherslumál sín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 27. apríl 2025
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.4.): 63
- Sl. sólarhring: 87
- Sl. viku: 749
- Frá upphafi: 143591
Annað
- Innlit í dag: 56
- Innlit sl. viku: 532
- Gestir í dag: 55
- IP-tölur í dag: 54
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar