10.4.2025 | 01:19
Um kveðskap, sjálfsaga og menntun í tónlist eða kveðskap
Það var fjallað um þjóðskáld í Kiljunni í gær sem ortu hefðbundið, eins og ég geri stundum. Mig langar að lýsa því hvernig mér var kennt að yrkja hefðbundið og hvað það er mikið strit í raun, í fyrstu að minnsta kosti.
Árið 1983 var ég farinn að semja lög og texta. Ingvar, bróðir hans afa kom oft í heimsókn og ég sagði honum frá þessu, og sýndi honum textana fyrstu. Hann ákvað að kenna mér bragfræði. Þannig að ég lærði grunnreglurnar strax um það leyti, en þær vísur voru klúðurslegar og stirðar oft, og því nennti ég ekki að nota reglurnar nema stundum fyrstu árin.
Ég fékk alltaf skammir frá honum fyrir að yrkja ekki nógu vel, en hann gafst aldrei upp á mér. Hann lifði til ársins 1996 og allan þennan tíma heimsótti ég hann reglulega og hann var ánægður með þær framfarir sem ég sýndi. Um 1990 fékk ég loksins það hrós að kvæði eftir mig væru orðin frambærileg, en hann hélt áfram að sníða af galla og vantkanta samt.
Ég fékk nokkuð mikið hrós frá honum í janúar 1990 þegar ég bjó til kvæðin "Njóla í Ránar sal", og "Sonnetta". Fyrra kvæðið í dróttkvæðum stíl og það seinna í sonnettustíl, hvort tveggja nokkuð erfiðir bragarhættir, og þarna var ég 19 ára, en var búinn að ná nokkuð góðum tökum á þessum bragarháttum.
Ég var svo ánægður með hrósið frá honum um Sonnettu eftir mig, að ég sendi Herdísi ljóðið í pósti og hringdi í hana, en ég var skotinn í henni um það leyti. Ég veit ekki hvort hún tók þessu sem ástarljóði til sín, en allavega fannst mér það hrós að ég gæti ort eins og þjóðskáldin og gladdi mig.
Ég hafði einnig lært það að tempra tilfinningar mínar í ljóðum þegar ég vildi, þótt ég væri í mörgum "óbundnum" ljóðum og söngtextum að tjá óbeizlaðar tilfinningar án allrar ljóðrænu. Þannig er ýjað að því í ljóðinu Sonnetta að hún sé ort til kvennmanns, en það ljóð er ekki opinská ástarlýsing, heldur ljóðræn mynd um mannlegt samfélag yfirleitt, sem hægt er að telja að sér ort um mann persónulega, ef maður það vill.
Megas kenndi mér líka margt, en ég kynntist honum einmitt líka um tvítugt.
Hann kenndi mér að yrkja myrkt, sem sé að tjá mig ekki óbeizlað. Hann sagði að beztu ljóðin eða textarnir væru þannig að fólk túlkaði þá á sinn eigin, persónulega hátt.
Þannig hafði hann gaman af því þegar ég reyndi að túlka textana hans, og stundum útskýrði hann þá, en einnig viðurkenndi hann stundum að vita ekki um hvað sumir textar eftir sig væru.
Þó man ég eftir lagi og texta sem kom út 1997 á Fláa veröld, og ég útskýrði þetta á minn hátt, en þá hló hann og sagði að þetta hafi verið samið um stelpu í Myndlistarskólanum sem hann hafði kynnzt og asískan kærasta hennar, en ég hafði haldið að þetta væri um geimverur! En hann sagði að sér þætti gaman að heyra svona skýringar sem væru honum framandi, og gætu veitt sér innblástur samt.
Þetta kvæði eftir Megas heitir Naðran með zippóinn. Zippó var og er kveikjari fyrir sígarettur, ef ég hef rétt fyrir mér. Það kom út 1997 á Fláa veröld, einni af beztu plötum Megasar, að mínu áliti.
Hér er línan sem ég túlkaði að væri um geimverur og ég bar það undir Megas og hann hló og sagði þetta um stelpu í Myndlistarskólanum sem hann þekkti:
"Gekk það upp kúppið úniversala að greiða náðarhögg öllu formi?"
Kúpp er enska og þýðir samsæri eða uppreisn, úniversalur er alþjóðlegur.
Hann sagði að "greiða náðarhögg öllu formi" væri um myndlistarstefnur.
Annars var fjallað um Stein Steinarr í Kiljunni, og Megasi hefur oft verið líkt við hann. Enda er það góð líking. Báðir hafa þeir ort um sársauka og neikvæðar hliðar tilverunnar á raunsærri hátt en skáldin á undan þeim.
Bæði húsið hans Ingvars og húsið hans afa voru einbýlishús og mér fannst þau eins og herragarðar. Einnig áttu þau það sameiginlegt að afi hafði teiknað þau bæði, og samt var hann ekki lærður arkitekt, nema hann hafði lært slíkt í sjálfsnámi.
Bæði þessi hús voru rifin, og tók ég það sárt, Ingvar og Heiða bjuggu að Hábraut 4 í Kópavogi og afi og amma að Digranesheiði 8, áður Digranesvegi 92. Í báðum tilfellum keypti bærinn þessi hús og reif. Bæði húsin voru fyrir skipulagi, en skipulögin voru í báðum tilfellum óþörf og hræðileg mistök.
Enginn maður fannst mér með eins mikla fullkomnunaráráttu og Ingvar Agnarsson, bróðir hans afa. Með því að kynnast honum skildi ég hvernig þjóðskáldin voru, eins og Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson og allir hinir.
Ég lærði að lesa þjóðskáldin alveg uppá nýtt með því að kynnast honum. Ég lærði að gagnrýna form og innihald kvæða og ljóða alveg uppá nýtt.
Hann hafði ekki mikið álit á nútímalist og fannst hún skemmdarverkastarfsemi hreint út sagt. Þetta er manni ekki kennt í skólunum, en ef maður fær ekki að heyra þessa hlið á málunum, þá skortir mann dómgreind gagnvart ýmsu sem tíðkast í nútímanum og þykir gott og gilt, en er það í raun alls ekki.
Ég lærði hjá honum enn frekar en hjá Megasi að setja mér háleit markmið. Hann kenndi mér að setja markið svo hátt að ég fór að gera ofurmannlegar kröfur til mín, um fullkomið kveðskaparform og fullkomið innihald, en það er keppikefli sem maður leitast eftir alla ævi, hafi maður lært hvernig það er, hið fullkoma ljóð eða hið fullkomna lag.
Eitt sinn hélt ég að skáldskapur væri bara tjáning. Þetta heldur fólk í nútímanum og þetta er kennt í skólunum. Krökkunum er kennt að búa til tónlist og hvaðeina, og svo er gervigreindin notuð til að fullkomna málin líka. Þetta hefði Ingvar frændi ekki verið ánægður með. Hann var þeirrar skoðunar að einungis örfáir gætu verið almennileg skáld, og að maður ætti ekki að vera að flíka skáldskap sínum ljóðum eða sögum eða öðru, nema vera viss um að það væri frambærilegt og á pari við það bezta sem aðrir höfðu gert, eða að minnsta kosti gæfi vísbendingu um að maður gæti komizt í þann hóp með hæfileikum og ástundun, vinnusemi og elju.
Ingvar frændi kenndi mér að öll ljóð ættu að vera mannbætandi. Hann sagði að Megas kynni vissulega að yrkja, en hann "væri að yrkja niðurávið", og alltaf ætti að "leita upp á við" eftir innblæstri.
Hann sagði að æðri mannkyn á öðrum hnöttum gæfu okkur skáldunum góðan innblástur, og maður ætti ekki að halda upp á það sem sýndi neikvæðar tilfinningar, hatur, reiði eða eitthvað annað neikvætt.
Þarna lenti ég strax í klemmu og vandræði með þessar tvær fyrirmyndir mínar í kveðskap, menn sem voru frábærir hvor á sinn hátt, Ingvar frændi og Megas.
Vegna þess að ég lenti í ástarsorg og sársauka í lífinu fór ég sömu leið og Megas. Ég tjáði mig frjálslega um allt, reiði og gleði, ást og hatur.
Ljóð geta sagt meira heldur en laust mál. Bæði er að þau geta verið eins og tímahylki, þar sem ákveðin augnablik eru fryst í tíma, ef svo má segja. Síðan geta þau geymt miklu meira en á ytra borðinu virðist vera.
Síðan geta þau verið eins og málverk, þar sem maður finnur sífellt eitthvað nýtt í þeim við að lesa þau aftur og aftur.
Mér finnst að mér takist bezt upp við að yrkja þegar ég er í jafnvægi. Það er eins og að vinna við málverk í langan tíma og mála yfir með penslinum aftur og aftur þar til maður er ánægður.
Ég nota oft þá aðferð að gera marga stutta söngtexta um sama viðfangsefnið.
En ef ég þekki þessa fullkomnunaráráttu, af hverju gaf ég þá út texta eins og "Allar konur elska ofbeldi", eða "Kúgaðu allar konur?" Eða "Jafnréttið er eina svarið", ef ég var ekki sannfærður um þetta?
Eða "Jafnréttið er framtíðin". Var það bara hræsni í mér?
Málið er það, að þessi ljóð þau fannst mér nauðsynleg til útgáfu. Þetta er eins og með Megas og önnur skáld. Það er ekki hægt að segja að skáldið sé að lýsa sjálfu sér í verkum sínum, heldur ákveðnum þáttum í fari sínu eða í fari annarra.
Oft er það þannig að maður yrkir um eitthvað sem manni finnst hneykslanlegt.
"Ein hjúskaparlög fyrir alla" var hljómdiskur sem kom út 2009, hljóðritaður 2008.
Til að gera það upp við mig hvað mér fannst um þessi hinseginmálefni þá samdi ég tugi laga og texta, mikið af því frá 2008 þegar þetta var mikið í opinberri umræðu í landinu. Kannski eru þessi ljóð 100, kannski aðeins fleiri, en eitthvað þar um bil.
Þannig er það að mér finnst einna mest spennandi að yrkja um það sem ég er ekki viss um. Með því að yrkja þá kemst maður skrefi nær því að skilja eitthvað málefni og mynda sér skoðun.
Oft er það þannig, og mér finnst það regla frekar en undantekning hjá mér, að maður er að spegla sjálfan sig í öðrum og notar til þess ýkjur, til dæmis.
Þannig er að maður fréttir um eitthvað, og notar fyrstu persónu frásögn í söngtextanum eða ljóðinu til að setja sig í spor annarra og læra af þeim.
Þegar femínistar reyndu að berja niður alla karlrembu fyrir nokkrum áratugum, þá brást ég ókvæða við og samdi svona ljóð og önnur verk, til að mótmæla þannig skoðanakúgun. Ég fór gagngert að færa það í orð sem hafði ekki verið fært í orð, nema kannski af Megasi og örfáum öðrum.
Ég komst á þá skoðun, að ef kvenréttindafrömuðir hefðu rétt fyrir sér, að karlar væru svona skepnur sem vildu bara kúga og beita ofbeldi, þá yrði maður að leiða það fram í dagsljósið og vera ekki alltaf með draugasögur og tröllasögur um það, maður yrði að skrifa það niður og lýsa þeim viðhorfum. Ekki ósvipað og að búa til strámann, eins og það er orðað í nútímanum.
Seinna varð ég þreyttur og leiður á þessum opinskáu textum.
Þannig að ég fór að skoða afgangslög, texta sem teljast dulrænni og flóknari. Þau lög eru til í demóútgáfu.
Sum þessara laga og texta í demóupptökum eftir mig frá liðnum árum eru þannig flóknari tónsmíðar og ljóð en komu út. Mér finnst þau endast betur. Því er ég til í að breyta lagavalinu af því sem kom út, nota afgangslögin frekar, sum að minnsta kosti. Mörg þeirra eru allsekki skárri en það sem kom út.
Ég hef raðað saman á CD diska endurskoðuðum útgáfum af sumum CD diskum sem ég hef gefið út. Auk þess hef ég látið þessa "mastera" vera 45 mínútur, næstum nákvæmlega oft, til að það komist á 90 mínútna snældu, öðru megin, eins og venjan var með vinylplöturnar.
Auk þess hef ég komizt að því að þetta er mjög góð vinnuregla, því þá notar maður stuttar upptökur, ekki of langar, eins og þegar maður raðar á 79 mínútna CD útgáfu, eins og maður gerði oft.
Með því að gefa mér lengri tíma í að velja og hafna finnst mér lokaútkoman betri. Mitt keppikefli er að fá ekki leiða á mínum CD diskum eða breiðskífum, að nenna að hlusta á þetta aftur og aftur. Það hefur tekizt í sumum tilfellum.
Það kostar þó að lögin eru ekki eins grípandi. Það finnst mér allt í lagi, og jafnvel kostur. Það er þroskaðri tónlist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 10. apríl 2025
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.4.): 52
- Sl. sólarhring: 80
- Sl. viku: 452
- Frá upphafi: 142389
Annað
- Innlit í dag: 41
- Innlit sl. viku: 357
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 38
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar