Þrumuguðinn Taranis - þrumur og eldingar voru tákn um sönnun guðdómsins, reiði Guðs áður fyrr. Æðsti guðinn var talinn sá sem minnti á sig með áþreifanlegum hætti, faðir hinna guðanna

Þrumuguðir voru áður fyrr taldir æðstir allra guða einatt. Við Íslendingar treystum á Þór jafnvel eftir að kristnin var lögtekin. Sjómenn og bændur hétu á hann og aðrir sem tókust á við krefjandi, erfið verkefni.

Það er forvitnilegt að leita svara, hvers vegna var þrumuguðinn oft æðsti guðinn í fjölgyðistrúarbrögðum fortíðarinnar?

Ég grúska mikið í trúarbrögðum. Ég er að reyna að klára bækur um þrjá guði, auðvelt að byrja, erfitt að ljúka verkinu.

Guðirnir heita Taranos, Esus og Teutates. Þeir eru hluti af keltneskri goðafræði, nánar tiltekið gaulverskri, en vandinn er sá að drúíðar skrifuðu ekkert niður af þessum fræðum, eða svo er talið, ég efast um það.

Engu að síður er ýmislegt augljóst.

Taranos, stundum nefndur Taranis eða Tanarus til dæmis er þrumuguð. Það sést á nafninu. Taranos þýðir þruma, hann er þruman persónugerð.

Þetta er mjög áhugavert, ekki sízt vegna þess að eins langt aftur og hægt er að kafa í sögu indóevrópskra þjóða er þrumuguðinn meðal þeirra æðstu, en Týr, guð himinsins og hádegissólarinnar virðist þó eldri og upprunalegri.

Júpíter og Zeus eru þekktari guðir vegna forngrískra og latneskra rita þar sem um þá er fjallað. Hlutverk þeirra virðist þó vera hliðstætt hlutverki Taranosar.

Með þessum rökum er hægt að fullyrða að Taranis hafi verið æðstur guða Gaulverja, sérstaklega vegna þess að Júlíus Sesar fullyrti í bókum sínum að guðir Gaulverja væru samskonar og þeirra eigin guðir, Rómverja.

Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um þetta, en hafa komizt að þeirri niðurstöðu eftir áralangar rannsóknir að það sé að nokkru leyti rétt, en mikil einföldun samt.

Málið flækjast nefnilega þegar maður skoðar Esus og Teutatis að auki og jafnvel fleiri guði Gaulverska. Þessir tveir eru greinilega stórmerkilegir einnig og voru mikið tignaðir og víða í Evrópu fyrir Krists burð. Áletranir á gröfum, steinum og annarsstaðar staðfesta þetta, að útbreidd var trúin á þessa guði. Allt frá Þýzkalandi og til Ítalíu var trúað á guði Kelta og þessa kannski einna helzt.

Taranis er sýndur á steinmyndum, höggmyndum, sem guð sem heldur á þrumufleyg eða einhverju slíku og hjól er oft og einatt sýnt nálægt honum.

Guð Biblíunnar er jafnvel talinn hafa verið þrumuguð af sumum fræðimönnum, sem hafa gaumgæft og skoðað gamla texta. El og Jahve runnu saman í einn guð, Jahve, sem er af sumum kallaður Jehóva.

Annaðhvort var Jahve stríðsguð eða þrumuguð upphaflega eða hvort tveggja, það er hægt að lesa um það.

Guð Biblíunnar stjórnaði mönnum bæði með ógn og skelfingu, og reglum og kærleika.

Talið er að nákvæmlega þannig hafi menn einnig trúað á Zeus í Grikklandi til forna og á Júpíter í Róm til forna og á Taranis í Gallíu til forna.

Þrumur og eldingar eru áþreifanlegt "tákn frá himni", og þar sem allir trúðu því að guðirnir væru himneskir, annaðhvort íbúar annarra stjarna eða byggju í tóminu í loftinu, eða á fjöllum á jörðinni, þá voru þrumur og eldingar taldar "sönnun" fyrir því að guði þrumanna væri ekki sama, hann væri að segja sitt, gefa sitt álit, minna á tilveru sína, sanna sig fyrir mönnunum.

Faðirinn var æðstur á þessum tíma og ættfaðirinn. Þetta voru feðraveldissamfélög öll upp til hópa, nema kannski örfá, þarsem mæðraveldi ríkti, eins og til dæmis á eyjunni Krít.

Faðirinn stjórnaði með ógn og skelfingu, með því að beita eiginkonuna ofbeldi, eða hafa fullt leyfi til þess, og með því að stjórna börnum sínum og öðrum í fjölskyldunni með sama hætti.

Sögurnar um Jahve, guð Biblíunnar, sem refsar mönnunum í reiði sinni staðfestir þetta, að svona sýnir hann yfirburði sína og vald, staðfestir hver hann er og hvað hann má, umfram aðra.

Það má því fullyrða með næstum 100% vissu að Taranis var svona guð, blíður og harður í senn, en ógnvaldur ekki sízt.

Rómverjar sem drápu Kelta í stórum stíl til að ná yfirráðum yfir landi þeirra sem innihélt mikil auðævi, gróðursæla akra, málma og veiðibráð í gnægtum, þeir notuðu þá guði Kelta sem tengdust mannfórnum til að sannfæra almenning í Rómarveldi um að Keltar og Gaulverjar væru réttdræpir villimenn og viðbjóður.

Ég hef verið að rannsaka þetta í mörg ár og ég hef komizt að því að Esus, Taranis og Teutatis hafa sennilega verið svipaðir Títönum meða Forn-Grikkja, þetta voru sennilega einhverjir ógnvænlegustu guðir sem Keltar og Gaulverjar áttu.

Þó var Cernunnos enn ógnvænlegri sennilega. Hann hefur verið svipaður Chronosi og Saturnusi, en Jahve hefur einnig verið tengdur honum. Í allavega einu Youtube myndbandi hef ég séð fjallað um að Saturnus hafi haft tákn eins og Davíðsstjörnuna, sexarma tákn eða sexarma stjörnu, hexagram. Þar með er komin tenging á milli Cernunnosar og Jahves, sem er fullt af kaldhæðni, vegna þess að Cernunnos og Pan, og aðrir hyrndir guðir voru notaðir til að búa til staðalmynd af Satan, í kristninni, en Satan gæti að hluta til verið dregið af nafni rómverska guðsins Saturn.

Hexagon eða sexhyrnd stjarna er hluti af þeim leyndardómi sem umlykur reikistjörnuna Satúrnus í okkar sólkerfi, og þannig eru komin ákveðin tengsl.

Keltar Evrópu fyrir Krists burð voru sundurleitir, innihéldu fjölmarga ættbálka undir tugum eða hundruða nafna og guðir þeirra og gyðjur skiptu einnig hundruðum, og ekki öll nöfn þeirra þekkt.

Þegar Rómverjar vísuðu í villimenn og barbara voru þeir einatt að tala um þessa nágranna sína af fullkomnum hroka. En Rómverjar voru eins og Bandaríkjamenn og Bretar, þeir urðu sterkastir í hernaði, en urðu spilltir með tímanum.

Ef maður reynir að svara því hvers vegna þrumuguðirnir voru oft ættfeðurnir og voldugastir, þá er fyrst því til að svara að það var hefð, sem fylgdi indóevrópskri menningu. Sumir fræðingar telja að hægt sé að rekja hana aftur til annarra menningarsamfélaga, Súmera og annarra þar sem hámenning hófst fyrst. Enlil gæti verið svipað goðmagn, sá sem réð yfir himni, eða An, hinn fjarlægi, líkur Tý í goðafræði Germana.

Enlil var stormaguð, og því gæti þetta vel passað.

Ég lít ekki á heiðin trúarbrögð sem hjáguðadýrkun. Þvert á móti. Ég trúi því að guðirnir séu geimfarar, eins og Erich von Däniken hefur haldið fram og fleiri. Ég tel að í þessum gömlu sögum séu stórmerkilegar heimildir og sannar um uppruna lífsins á jörðinni og fleiri vísindi, blönduð skáldskap, því sögurnar breyttust.

Þó var það svo að fyrr á tímum var skáldskapur bannaður með lögum.

Ég tel að þannig hafi þetta verið meðal Kelta til forna.

Glæpamenn voru brenndir í Stórmanni, tágamanni, og það var til heiðurs Taranosi, þrumuguðinum, og til að blíðka hann.

Fólki var bannað að skrifa niður, nema í sambandi við viðskipti og það sem var alveg nauðsynlegt í þessum keltasamfélögum.

Allt var lært utanað sem snéri að mýtunum.

Helgi var á mýtunum.

Skáldskapur var ekki til meðal Kelta. Hann var álitinn glæpur, hygg ég.

Það er vegna þess að drúíðar álitu trúarbrögð vísindi.

Að víkja út frá því sanna, það var dauðadómur.

Drúíðar þurftu ekki að vinna. Samfélagið sá um þá. Þeir voru virtir og dýrkaðir eins og poppstjörnur nú til dags.

Þeir voru bæði prestar, löggjafar og læknar þess tíma.

Til eru kenningar um það að Jesús Kristur hafi verið erkidrúíði og einnig Júlíus Sesar, og Píþagoras, einn frægasti spekingur allra tíma.

Drúíðar voru eins og Essenar. Þeir kenndu útvöldum. Rétt eins og Míþrasardýrkunin þá var Esusartrúin launhelgatrú. Þeir kenndu herstjórnarlist, heimspeki, stjörnufræði, náttúrufræði, trúarbrögð og fleira.

Þar af leiðandi passar það að frægir menn eins og Júlíus Sesar, Jesús Kristur og Píþagoras gætu hafa lært hjá þeim.

Það eru þó aðeins kenningar, en þær eru spennandi.

Enginn veit með vissu hvaða speki drúíðar bjuggu yfir.

Það verður þó æ sennilegra með tímanum eftir því sem maður skoðar þetta betur, að þeir hafi sett djúp merki á söguna. Kristnin ber væntanlega merki þeirra líka.

Samfellulögmálið, það fjallar um að engin trúarbrögð verða vinsæl nema eitthvað svipað hafi verið til staðar áður.

Kristnin fellur undir þetta.

Esusardýrkunin var launhelgatrú. Fyrst í stað var gaulverskur og keltneskur almenningur ekki samstilltur og þekkti lítt trúna á Esus. Það breyttist þó eftir því sem Júlíus Sesar drap fleiri. Þá varð Esus sameiningartákn Kelta.

Þegar drúíðar voru pyntaðir og drepnir þá voru þeir pyntaðir til sagna. Leynileg rit voru skrifuð eftir þeim, þegar þeir sjálfir voru dauðir. Þessi rit voru álitin heilög. Á meðan voru hof þeirra brennd og hörgar, og heilögum menjum eytt að mestu leyti. Kristnir leiðtogar héldu nákvæmlega þessu sama áfram, eins og þekkt er úr heimildum.

Aðeins löngu seinna vaknaði áhugi og virðing fyrir þessu, þegar klaustrin voru orðin almenn.

Þó voru til heiðin klaustur, hörgarnir voru þannig, fræðasetur, og samsvarandi trúarmiðstöðvar drúíða í skógum, þau voru ekki uppfinning kristinna manna.

Þegar drúíðar voru pyntaðir og drepnir þá breiddist trú þeirra út eins og eldur í sinu meðal lágstéttanna, en sérstaklega meðal kvenna, sem fundu sjálfstyrkingu í trúarbrögðum sem innihéldu femínískar fyrirmyndir og jafnrétti kynjanna, nokkuð sem lítið var um meðal Rómverja og í þeirra miklu hernaðarhyggju.

Þetta er samfella sögunnar. Það er ekki hægt að gera trúarbrögð vinsæl nema jarðvegurinn hafi verið undirbúinn áður.

Þó má segja að drúízkan sé ólík kristninni að flestu leyti.

Nema hvað, að fáein atriði ríma þó.

Esus er guð ferðalaga, mjög svipaður Hermes og Merkúr, en þó fjölbreytilegri. Esus er einnig guð dauðaríkisins.

Ef skoðaðar eru andstæður á milli Taranosar, Esusar og Teutatesar þá kemur ýmislegt merkilegt í ljós.

Taranos var guð grimmdar eins og Cernunnos.

Esus og Teutates voru guðir kærleikans.

Teutates er guð mannlegra samskipta, heimilislífs, verndari samskipta, ásta, friðar, en einnig guð ófriðar og haturs, stríðs.

Esus hafði sérstöðu að því leyti að í nafni hans var boðuð andatrú, að andinn væri æðri en efnið.

Þetta gerði hann vinsælan guð meðal kvenna og jafnvel meðal Rómverja.

Eitthvað svipað og kærleiksboðorð kristninnar var hluti af Esusartrúnni, "það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra".

Þetta snýst um andóf gegn yfirvaldinu, svipað og gerðist með kommúnismann löngu seinna.

Ég tel að upphaflega hafi Esus verið talinn sonur Cernunnosar, svo sonur Taranosar.

Það fór eftir landsvæðum og tímabilum.

En um Esus var sagt að hann kæmist skjótar sem andinn hvert sem var og enginn gæti neitað honum eða lokað á hann. Hvort sem það var vegna fegurðar eða annarra eiginleikar hefur hann verið svipaður og til dæmis Baldur í norrænni goðafræði, fagurt goð.

Jafnvel Rómverjar skrifuðu sáralítið um Míþras, sem var helzti og vinsælasti guð rómversku hermannanna. Rómverjar voru ekki miklir andans menn, aðallega hermenn.

Þeir tóku grísku guðina og gerðu að sínum, breytti stundum nöfnum þeirra en ekki alltaf.

Úr því að varla finnast nokkur rit um Míþras, sem var aðalguð Rómverja, hermanna að minnsta kosti, þá er meira en mögulegt að guð eins og Esus hafi verið vinsæll meðal þeirra, en fátt finnist um hann ritað.

Fyrir þessu eru ýmsar ástæður.

Drúíðarnir vildu ekkert rita, þetta var þeirra guð.

Rómverjarnir hötuðu og fyrirlitu Kelta, kölluðu þá plebba, sveitamenn. Hví hefðu þeir átt að rita um þá og sýna þeim þá virðingu?

Drúíðar voru drepnir af Rómverjum með kerfisbundnum hætti.

Drúíðar ógnuðu valdi Rómverja eins og Jesús Kristur.

Drúíðar stjórnuðu almúgafólki, sem bar fyrir þeim gríðarlega virðingu.

Við sjáum því af þessum staðreyndum sem eru fyrir hendi, að allt var til hendi til þöggunar, til að gera sem minnst úr þætti gaulversku og keltnesku guðanna og þessarar menningar í heild.

Þó finnast fáeinar setningar.

Fólk hét á Taranis til að fá góða uppskeru.

Esus var persónulegur vinur. Hann átti að tryggja góða heimkomu sálarinnar. Hann átti að veita lækningu.

Teutatis var hernaðarguð og margt fleira.

Þjóði er nafn hans á íslenzku. Þó nær það nafn ekki alveg yfir upphaflegu merkinguna, sem er kannski Ættbálki, eða Landablessari, Landsvættur.

Talið er að nafn hans hafi borizt mjög víða, en hann verið tignaður á mismunandi hátt og honum gefnir mismunandi eiginleikar.

Guðinn Teutatis eða Toutatis (margar útgáfur eru til af nafni hans, enda áletranir sem finnast með nafni hans víða í Evrópu) var verndarguð ættbálksins. Hann er að mínu áliti einn fyrsti vitnisburðurinn um þjóðerniskennd, eða ættbálkahyggju sem var að þróast í þá átt. Þó áttu Rómverjar sína þjóðerniskennd, sem átti kannski meira skylt við hroka en þjóðerniskennd eða ættbálkahyggju.


Bloggfærslur 7. febrúar 2025

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.2.): 8
  • Sl. sólarhring: 135
  • Sl. viku: 763
  • Frá upphafi: 135127

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 564
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband