Bítlaæði og margar aðferðir til að segja að maður elski einhvern eða annað fólk

Við að lesa þessa frétt rifjaðist upp lagið Bítilæði með Ómari Ragnarssyni. Leitt er að heyra að heilsa hans er ekki nógu góð, samkvæmt því sem hann sagði á vefsíðu sinni og vonar maður að rætist úr því.

Þegar afi minn var orðinn háaldraður og heilsan farin að bila tók hann uppá því að lesa heilsufræðibækur, sjóða sinn eigin fisk með engifer og lauk, og bæta heilsu sína þannig, en auk þess gekk hann alltaf og fór í sund, nema allra síðustu árin þegar heilsan var orðin of slæm til þess.

Annars var Berglind Festival í Vikunni með Gísla Marteini að tönnlast á orðinu að elska og að fólk ætti að nota það meira og vera ófeimið við það. Já, ég get tekið undir það að mörgu leyti, en tel þó óþarfi að ofnota það eina orð.

Þegar Berglind Festival var að fjalla um þetta á föstudaginn varð mér hugsað til Ómars Ragnarssonar og góðu pistlanna hans um betra málfar, og ekki þess einsleitni.

Þá er einmitt í því sambandi rétt að rifja upp hvað annað er hægt að segja en að elska.

"Einni þér ann ég" er lag sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söng snemma á ferlinum. Textann gerði að vísu Ólafur Gaukur Þórhallsson, sem einnig samdi marga góða texta, en ýmsa texta sem Vilhjálmur söng inná plötur í upphafi síns ferils gerði þó Ómar Ragnarsson. Hann var afkastamikill rétt áður en Þorsteinn Eggertsson varð aðaltextahöfundur Íslendinga, og hélt áfram að vera það áttunda áratuginn og jafnvel lengur.

Hér eru nokkrir frasar á góðri íslenzku sem nota má í staðinn fyrir að elska, til að ofnota ekki það orð eins og engilsaxar gera með sögnina "love".

Að unna einhverjum. Skylt þessu er að unna einhverjum hugástum, sem þýðir að elska í fjarska, þrá einhvern.

Að unna einhverjum er fínt bókmenntamál og svolítið fyrnt sem er lítið notað nú til dags og þekkist lítt meðal yngri kynslóða. Þetta er svolítið upphafið, og á við ást sem er ekki endilega holdleg, en getur þó verið það. Þetta er mjög kurteislegt að segja í upphafi sambands eða til að brjóta ísinn og gefa til kynna áhuga, myndi ég halda.

Að elska einhvern getur þýtt svo ótalmargt. Það getur þýtt að girnast holdlega, en yfirleitt þýðir það þó þetta almenna, sem getur falið margt í sér, að hafa áhuga, eða að þykja vænt um einhvern.

Að þykja vænt um einhvern er enn notað, og þó held ég að yngri kynslóðir þekki þetta ekki allar. Þessi setning hefur alltaf verið notuð um kærleikann, ekki það holdlega og kynferðislega. Þetta er virðuleg setning.

Að bera hag einhvers fyrir brjósti er enn virðulegra og upphafnara. Ætli það sé ekki notað mest í opinberu máli? Ég býst við því.

Að girnast einhvern er eiginlega bara notað í bókmenntum og listum, og þá til að lýsa persónum sem eru mjög hreinskilnar og tjá sig þannig. Þó hlýtur þetta að vera notað enn af sumum sem kjósa svona hreinskilna tjáningu.

Að lofa einhvern, það er sama orðið og "love" á ensku. Að lofa einhvern er mjög gamalt mál, alveg frá víkingatímanum. Það skilst enn, nema er lítið notað nema í sérstakri merkingu, að "lofa og prísa", og sagt stundum í háði og stundum í alvöru, mjög sterkt orðalag sem fáir þekkja og nota nú til dags.

Að dásama einhvern er svipaðrar merkingar, og svipað hátíðlegt og sjaldgæft. Það skilst vel, en er kannski tengt við trúarlegt málfar. Þó er það stundum notað í merkingunni að "dásama eiginleika", hluta, véla, tækja eða manneskja.

Að dýrka var notað af unglingum fyrir 40 árum, þegar ég var unglingur. Við notuðum það sem slangur yfir að vera yfir sig ástfanginn af einhverri stelpu, þá dýrkaði maður hana. Uppruni orðsins kemur þó úr helgimáli. Mætti nota það meira eins og önnur orð svipaðrar merkingar.

Að fría einhvern er svo enn eitt orðið sem hefur fallið í gleymsku og dá, enda er það með krossi fyrir framan í orðabókinni. Það er þó fagurlegar myndað en mörg önnur, og er gömul mynd sagnarinnar að frjá sem ég kem inná á eftir.

Að fría einhvern er þeirrar merkingar að frelsa einhvern, og það má segja að ástin frelsi okkur undan leiðindum og einsemd þannig að það á vel við. Sögnin er enda notuð í þeirri merkingu enn þann dag í dag. Upphafleg merking er þó enn skemmtileg og á vel við.

Að frjá er skylt frygð, líkamlegum losta. Það er þó enn eitt orð sem aðeins er notað í gömlu skáldamáli og ekki notað í daglegu tali. Kannski var það notað fyrir nokkrum öldum þannig, og mætti vel nota það meira nú til dags.

Fleira finnst, en þetta ætti að nægja.

Að lokum vil ég minnast þess að sögnin að elska þýddi upphaflega að ala upp, eins og Ásgeir Blöndal lýsti í Orðsifjabókinni. Í þeirri merkingu þýddi að elska að beita aga, og ekki láta allt eftir barninu, ekki ofdekra það, eins og tíðkast í nútímanum oft. Alskur eða elskaður, þýddi að vera rétt upp alinn. Því miður hefur fólk týnt tilfinningu sinni fyrir merkingum orðanna og notar það í röngum merkingum.

Þannig misskilur fólk orðin. Fólk telur að það sýni ást sína með að láta allt eftir börnunum, það var ekki upphafleg merking sagnarinnar að elska, langt frá því.


mbl.is Bjó til nýyrðið „bítill“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. febrúar 2025

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.2.): 110
  • Sl. sólarhring: 121
  • Sl. viku: 711
  • Frá upphafi: 136528

Annað

  • Innlit í dag: 81
  • Innlit sl. viku: 589
  • Gestir í dag: 77
  • IP-tölur í dag: 77

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband