10.2.2025 | 01:55
Ratatoskur, Níðhöggur og Esus
Þegar ég fjalla um eitthvað sem ég hef mestan áhuga á þá lesa það mjög fáir, kannski 10-20. Þegar ég fjalla um pólitík lesa það allt upp í 300 manns þegar mér tekst vel til, en að jafnaði kannski 50-120 ef það eru meðalgóðir pistlar um pólitík.
Mér finnst það leiðinlegt að ljóðin mín lesa líka fáir og söngtextana. Ég hef lagt mikla vinnu í sumt af því, eða þannig séð.
Ég er virkilega ánægður með mörg ljóð eftir mig og finnst þau vera framúrskarandi þótt ég segi sjálfur frá, enda hafði ég góða kennara, Megas og Ingvar Agnarsson.
Jafnvel háskólafólk sem hefur prófgráður í goðafræði eða öðru fær ekki endilega marga lesendur að greinum eða bókum, því almenningur hefur ekki nógu þroskaðan smekk.
Í nútímanum er auðveldara en oft áður að verða amatörfræðimaður eins og ég, með því að kynna sér Youtube og fleira á netinu, og með því að lesa vel valdar bækur um viðfangsefnin.
Áhugamannafræðimenn geta haft forskot á þessa sem koma úr háskólunum, við erum frjálsari að nálgunum, og ekki eins mótuð af akademíunni, og framsetning okkar jafnvel lausbeizlaðri, en meira um mistök býst ég við, meira gammurinn látinn geisa án sjálfsgagnrýni.
Engu að síður er það svo að ég hef pælt í ýmsu og rannsakað í áraraðir, til dæmis keltneska og gaulverska goðafræði. Því telst ég vera sæmilega vel fróður um þetta, þótt ég noti ýmislegt úr Youtubemyndböndunum sem ekki telst allt jafn faglegt eða viðurkennt, eða eitthvað frá öðrum hnöttum sem ég hef fengið sjálfur með fjarsambandi, hinu mikla sambandi geimsins, eins og dr. Helgi Pjeturss útskýrði það, á sama hátt og Emanuel Swedenborg fékk upplýsingar og taldi sig tala við engla, en auðvitað var hann að tala við fólk á öðrum hnöttum eins og ég.
Ráðgátan um guðinn Esus er áhugaverð. Um hann er fátt vitað með vissu, nema talið er að hann tengist Lífsins tré í gaulverskri goðafræði, sem teljast má 3000 ára gömul. Það má merkja af líkneskjum af honum, en ekkert var um þetta ritað á sínum tíma, eða það hefur ekki varðveizt, svo vitað sé, nema það sé falið í Vatikaninu, eða því hafi verið eytt af ráðandi öflum, kirkjunni, eða Rómverjum á sínum tíma.
Líkindin á milli Esusar og Níðhöggs eru mikil, eða þá að hann eigi að vera Ratatoskur, eða einn hinna fjögurra hjarta, Dáinn, Dvalinn, Duneyrr eða Duraþrór.
Cernunnos tel ég að sé faðir Esusar, og hann er sýndur hyrndur. Snorri Sturluson veigraði sér sérlega mikið við að bæta þessum lýsingum við sum goðanna, guðanna og gyðjanna sem hann lýsti, þar sem hans samtími tengdi það við Satan einkum og sér í lagi, er þar hægt að tala um fordóma hans samtíma.
Alderva hygg ég að sé gaulverska og keltneska nafnið á heimstrénu, Lífsins tré, en Mugna er annað heiti sem er þekkt úr írskum heimildum fornum.
Alderva mun þýða "Hinn ókunni skógur, eða hinn mikli skógur, eða annar skógur".
Keltar og Gaulverjar trúðu ekki á að guðirnir byggju í fjalli eins og Forngrikkir, sem trúðu á sínir guðir byggju á Olympstindi. Þeirra himnaríki var djúpt inni í skóginum í einhverju leyndu ríki, þar sem enginn yrði gamall eða þjáðist.
Ef Esus er Níðhöggur þá er það stórmerkilegt í ljósi þess að drekar eru ævafornt tákn fyrir mátt og guðdómleika en hið djöfullega einnig. Það staðfestir eiginlega það sem ég hef haldið fram, að Esus hafi verið svipaður guð og Shiva í hinni indversku goðafræði, sem sé eyðileggjandi.
Mér virðist sem Teutates hafi verið svipaður og Vishnu, sá sem viðheldur sköpuninni, en Cernunnos eins og Brahma, skaparinn, upphafsskaparinn.
Það sem flækir þessi mál er að Taranos er einnig eins og upphafsskaparinn, Brahma. Það er jafnan viðurkennt að þótt sitthvað finnist hliðstætt í trúarbrögðum og trúarbragðakerfum þá eru þversagnirnar margar og þetta sem er einstakt við trúarbrögð hverrar þjóðar og menningar.
Jahve virðist hafa gleypt alla þá guði sem áður ríktu með honum. Ashera er dæmi um slíkt, fyrrverandi kona hans.
Það er þekkt úr trúarbrögðunum að fram komi sigursæll guð sem drepur aðra guði og tekur þeirra hlutverk yfir á sig.
Þessvegna gegnir Freyja mörgum nöfnum. Þessvegna ber Óðinn mörg nöfn.
Ég tel að Freyjunafnið Hörn þýði "Hin hyrnda gyðja", en ekki "gyðja hörsins" eins og Ásgeir Blöndal hélt, en viðurkenndi þó að það væri óljóst, "uppruni öldungis óviss", stendur skrifað í hans orðsifjabók um gyðjuheitið Hörn.
Tengsl eru milli Cernunnosar og Jahves. Cernunnos hefur verið tengdur við Chrónos, gríska guðinn sem át börnin sín og er guð tímans, og svo Satúrns, sem gerði slíkt hið sama og er rómverskur guð. Í Youtubemyndbandi sá ég Davíðsstjörnuna sem eitt af táknum Satúrns. Þar með er komin tenging á milli Jahves og Cernunnosar, þótt Cernunnos ásamt Pan hafi verið notaður sem staðalmynd fyrir Satan ásamt Bafómet, sem kannski á eitthvað skylt með þeim.
Dulfræðingar segja að satanismi sé aðeins táknaður með fimmarmastjörnu sem snýr niður en ekki upp, rétt eins og kross á hvolfi eigi að túlka slíkt, satanisma.
Davíðsstjörnuna má líka túlka á ýmsan veg og sagt er að þessi tákn séu ekki einkaeign eins hóps fólks eða trúfélags, heldur notuð af mörgum.
Ég fullyrði að Esus er mjög gamalt goð, og þróaðist og breyttist um langt skeið.
En það er víst alveg pottþétt og 100% víst, að Esus er sá sem heggur greinar af lífsins tré í keltneskri goðafræði, eins og Níðhöggur gerir í norrænni goðafræði.
Þetta er stórmerkilegt, og sýnir fram á ævafornar hugmyndir manna um að sköpun og eyðing haldist í hendur, hvort geti án annars verið.
Það að þetta vanti í þankagang margra í nútímanum er upplýsandi fyrir mörg vandamál nútímans.
Eftir því sem maður leitar lengra aftur í trúarbrögðin, þeim mun meiri sannleika finnur maður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggfærslur 10. febrúar 2025
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.2.): 1
- Sl. sólarhring: 109
- Sl. viku: 529
- Frá upphafi: 135395
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 457
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar