Aga vantar í skólakerfið og þjóðfélagið, það stóð uppúr í Silfrinu, sem aftur var með skárra móti

Það var mikið fjallað um fylgishrun Sjálfstæðisflokksins í Silfrinu. Hvers vegna var ekki fjallað um vígslu nýs biskups eða áhyggjurnar sem starfsmenn RÚV hafa af uppgangi "hægriöfgaafla" í heiminum, eins og hægt er að lesa útúr nýafstöðnum kosningum í Þýzkalandi?

Ég var nefnilega nokkuð viss um að tveir fastagestir myndu mæta í Silfrið til að fjalla um þessi mál, Eiríkur Bergmann til að fjalla um popúlisma og svo Guðrún, hinn nýi biskup landsins til að fjalla um stöðu kirkjunnar. Nei, það voru aðrir gestir og ekki fjallað mikið um popúlisma eða kirkjuna.

Enn verð ég að hrósa Silfrinu, það var með skárra móti, þó ekki jafn gott og síðast. Margt var þó sagt sem vit var í og jafnvel var ég sammála Helgu Völu Helgadóttur í sumu að minnsta kosti, og fannst hún mun skárri sem álitsgjafi en þingmaður, kannski hefur hún róazt blessunin.

Ég var sérlega ánægður með orð Helgu Völu í upphafi þáttarins og fannst þau skynsamleg, eins og það sem Vigdís Hauksdóttir sagði.

Þær voru að tala um hina skelfilegu atburði sem urðu á Menningarnótt, stúlkan sem lézt af sárum sínum eftir árásina sem sennilega jafnaldri þeirra gerði.

Tvö hugtök stóðu upp úr hjá Helgu Völu og Vigdísi sem ég var sammála og lýsa vandanum vel. "Lífsgæðakapphlaup" og "agi". Helga Vala held ég að hafi notað bæði þessi orð og Vigdís Hauksdóttir svipuð hugtök líka.

Þetta er nákvæmlega í hnotskurn vandinn og þessar tvær lýstu honum vel. Stundum hefur mér fundizt ég vera gamaldags þegar ég hef fjallað um það í pistlum mínum hér að aga vanti miðað við það sem áður var, en þessar konur eru mjög nálægt mér í aldri, og ef samstaða er um þetta meðal fólks á mínum aldri er ég ekki gamaldags heldur sammála fjöldanum. Gamaldags er að tileinka sér eitthvað sem er úrelt og tilheyrir eldri kynslóðum, þannig skil ég það hugtak. Þær eru varla gamaldags og gott því að geta verið alveg hjartanlega sammála þeim í þessu.

Frábært hjá Helgu Völu að tala um að það megi setja reglur í skólunum og hafa aga í skólunum! Frábært hjá henni. Vigdís Hauksdóttir tók alveg í sama streng, þær hittu alveg í mark og þetta er sannleikurinn, og börnin sjálf jafnvel kalla eftir þessu held ég.

Engu að síður er það alveg ljóst að bann við að eiga eða bera hnífa mun aldrei ganga fullkomlega, því margt er hægt að nota sem vopn, ef menningin er orðið helvízk, eins og lengi hefur verið þróunin.

Það sem Helga Vala stakk upp á, að stoppa, og hafa frí í skólanum í tvær vikur til að spyrja náungann hvernig honum líði, það var bara alveg frábært hjá henni og sýnir náungakærleika. Tek alveg undir þetta með henni. Virðing mín fyrir henni hefur sannarlega aukizt.

Síðan fór næstum allur þátturinn í að tala um fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins.

Páll Magnússon blómstraði sem álitsgjafi þar. Sanna talaði eins og sannur sósíalisti, sumt rétt sem hún sagði, en mér fannst það takmarkað og einskorðað við sjónarhorn kommúnisma.

Þegar Helga Vala fór að tala um Sjálfstæðisflokkinn og að þar sé ofuráherzla lögð á að útlendingum sé allt að kenna held ég að það sé rangt hjá henni. Þótt Bjarni Benediktsson hafi vikið að þessu í ræðu sinni um helgina kom hann inná miklu fleiri mál. Ekki er skrýtið þótt hann vilji skerpa línurnar þarna, flokkurinn hefur verið gagnrýndur fyrir stefnuleysi og linkind þarna, og málamiðlanir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi.

Ég tek einna sízt mark á Helgu Völu Helgadóttur þegar hún talar um útlendingamál. Þar er hún þvermóðskufull og áköf og vill ekki líta á nema þessa hlið sem minnir á No borders hliðina, finnst mér.

En rétt er það hjá henni að loft er farið úr Bjarna Benediktssyni og hann virðist bæði ráðvilltur og áhugalaus og vinna af skyldurækni frekar en hugsjón, kannski vegna þess að hann er búinn að gefa eftir málin sem hann brennur fyrir í þessari hræðilegu ríkisstjórn sem hefur rústað alla flokkana sem henni tilheyra, en mismikið samt, og minnst Framsókn, enn.

Skínandi góðar lýsingar og samanburður á Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni hjá Páli Magnússyni. Opinn faðmur Samfylkingarinnar og hriplekt skip Sjálfstæðisflokksins sem er alveg að sökkva á botninn, það var upplifunin sem maður fékk. Enginn minntist á Vinstri græna, enda virðist búið að syngja líkræðuna yfir þeim flokki og útförin búin.

Já, Samfylkingin er orðin þessi breiðfylking sem Sjálfstæðisflokkurinn var. Allir sem vilja efla Sjálfstæðisflokkinn ættu að kynna sér þessi orð og líkingar.

Mér varð hugsað til ömmu og afa. Mér varð hugsað til gömlu kynslóðanna sem héldu tryggð við flokkinn sinn eiginlega til æviloka. Mér varð hugsað til fleiri andstæðna, milli fyrri kynslóða og yngri kynslóða.

Það var fastakúnni á verkstæðinu hjá afa sem hét Ólafur Valdimarsson. Hann kom ár eftir ár þar til hann dó, um svipað leyti og amma, en nokkrum árum fyrr samt.

Ég man eftir honum vegna þess að hann kom svo oft á verkstæðið að hann var orðinn eins og einn af fjölskyldunni, hann var held ég einstæðingur og beið oft á meðan verið var að laga bílinn hans smávegis. Hann kom bæði vegna smáviðgerða sem tóku nokkrar klukkustundir og svo vegna meiri viðgerða sem tóku lengri tíma, eins og til að ryðbæta bílinn hans eða skipta um öxla og vélahluti.

Hann var orðinn mjög gamall maður þegar ég talaði við hann, en maður kunni ágætlega við hann, því hann var viðkunnanlegur.

Ég man þó kannski sérlega vel eftir honum af annarri ástæðu, en það var vegna þess að ég vissi að hann var kommúnisti, og amma hafði sérstaklega gaman að tala við hann, og ég held að hann hafi haft gaman af að tala við hana líka. Þau voru ósammála í pólitík, en oft kom hann inn meðan hann beið eftir viðskiptum og fékk kaffi og kökur hjá ömmu. Þá hækkuðu þau málróminn og heyrðist hátt í þeim.

Hann var einnig kennari, en vörubílstjóri líka. Hann átti eina bílinn sinnar tegundar á Íslandi, hann var enskur og klunnalegur, stór og mikill sendiferðabíll, hár en ekki mjög langur og grár á litinn og massífur. Hann fékk hvergi viðgerðarþjónustu nema hjá afa og syni hans, á verkstæðinu. Þeir þekktu bílinn, hann var samvizkusamur og borgaði á réttum tíma, en vissulega voru þeir þreyttir á bílnum hans, sem þeir töldu ónýtan, og héldu honum á götunni 20 árum eftir að hann hefði átt að vera orðinn brotajárn, eins og ég heyrði þá segja. Ég veit að vélabúnaðurinn undir honum hafði gengið í gegnum endurnýjun hjá þeim nokkrum sinnum, og jafnvel skipt um vélahúsið að framan að stórum hluta vegna ryðs, og nýjar járnplötur settar í staðinn.

Einnig hafði verið sérpantað í vélina og gírkassann nokkrum sinnum frá Bretlandi, en merkilegt nokk, að talsvert fékkst í hann með að sérpanta, ef beðið var.

Ef ég man rétt þá talaði þessi trausti viðskiptavinur talsvert mikið um það að afi ætti að kjósa Alþýðubandalagið, því hann var ekki ríkur maður. Um þetta snérust deilur þeirra ömmu oft, minnir mig. Afi hinsvegar ræddi ekki mikið um pólitík eða annað, leiddi það hjá sér yfirleitt, en hafði sínar skoðanir.

Þegar rætt var um það í Silfrinu að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki lengur breiðfylking, fannst mér rétt að rifja upp þessa gömlu tíma, sem varpa ljósi á tryggð fólksins við flokkana hér áður fyrr.

Núna í sumar lézt Margrét Birna Aðalsteinsdóttir, sú eina sem var eftirlifandi af nánum vinkonum ömmu úr götunni okkar, sem hét Digranesvegur en svo Digranesheiði upp úr 1995, þegar byrjað var að byggja upp hinn nýja Kópavog, Smárahverfið og hin nýju hverfin. Vil ég votta afkomendum og ættingjum hennar samúð sem ég þekki suma nokkuð vel.

Þetta fólk sem afi og amma þekktu vel í götunni tilheyrði sömu eða svipaðri stétt, iðnaðarmenn, millistéttarfólk. Það vann ekki hjá ríkinu heldur annaðhvort átti eigin fyrirtæki eða vann hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Ég held að þá hafi almennt verið talið að kommúnistar væru annaðhvort menntamenn eða verkamenn af sérstakri tegund, verkalýðsbundnir í Reykjavík.

Hins vegar voru kratarnir sérstök tegund, og ekki sammála kommum eða íhaldinu. Amma mín Fanney í föðurættinni var þannig.

Nú heyrir maður sagt að Sjálfstæðisflokkurinn sé bara fyrir ríkt fólk og mjög flokksbundna einstaklinga frá fyrri tíð. Það er ekki beint gæfulegt.

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma þá mun fylgi Samfylkingarinnar dala um leið og fólk verður óánægt, til dæmis ef flokkurinn kemst í ríkisstjórn og fólki líkar ekki sú stjórn.

Vandinn við Bjarna Benediktsson er að hann er eins og Ken, en Ken og Barbý eru dúkkur sem stelpur léku sér með og gera enn.

Ken er voða sætur og karlmannlegur, en hann er ekki nema dúkka, hann er ekkert nema útlitið og þurfa aðrir að stjórna honum, krakkarnir sem leika sér með dúkkuna, og þá heldur stelpur en strákar, því Barbýdúkkur eru jú stelpuleikföng frekar og hafa alltaf verið.

Þannig er Bjarni Benediktsson. Hann er ímynd glæsileikans, en þegar á reynir lætur hann undan og þóknast fólki. Það er vinsælt upp að vissu marki, en ekki til lengdar.

Áslaug Arna er einnig glæsileg kona eins og aðrar barbídúkkur af kvenkyninu sem hann hefur safnað utanum sig, en þær eiga það sammerkt þó að hafa veigrað sér við að taka miklar ákvarðanir og umdeildar, og Guðrún dómsmálaráðherra síðasta og frægasta dæmið um það.

Sem sé, Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn samansafn af barbídúkkum af báðum kynjum. Þessar barbídúkkur eru leiksoppar og strengjabrúður annarra flokka og pólitíkusa, og í sviptivindum feykjast þær til og frá. Þetta er vandi flokksins, að einhverju leyti, er ég eiginlega viss um, og þessu hafa líka margir aðrir lýst á svipaðan hátt, svo ekki er ég einn um þessa skoðun.

Sigríður Á. Andersen er alvöru kona og alvöru pólitíkus með bein í nefinu, enda hefur hún þurft að gjalda þess. Hún stundaði alvöru pólitík, en loðin var hún í svörum síðast þegar hún var spurð í fjölmiðlum, og ekki það stólpakvendi sem hún reyndist vera hér áður fyrr.

Það hefur ekki reynt á Kristrúnu í Samfylkingunni í stórviðrum. Við vitum ekki hvernig hún mun reynast. Hún er þó ekki forstokkuð manneskja sem hefur óbeit á pólitískum andstæðingum, og það er fyrsta prófið sem hún stóðst.

Bjarni sem barbídúkka er ekki lengur trúverðugur. Flokkarnir hverfa ef þeir ætla að halda svona áfram, með ákvarðanafælni og undanlátssemi við hina flokkana.


mbl.is Áhorf á Silfrið hefur tekið stökk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. september 2024

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 38
  • Sl. sólarhring: 90
  • Sl. viku: 608
  • Frá upphafi: 119329

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 498
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband