Krossatáknfræði og regnbogatáknfræði

Sögnin að fyrirgefa er sennilega komin úr heiðnu máli, að borga fyrir eða gefa fé fyrir misgjörðir, eða refsa með öðru drápi.

Þó hefur verið til einhver fyrirgefning en þá annað hugtak og orð notað, eða mörg önnur orð misjafnrar merkingar, til dæmis orðið sátt eða bætur.

Ef þessi kenning er rétt um að fyrirgefning hafi þýtt að borga fyrir eða gefa fyrir mannslífið fé eða láta annað í té sömu vigtar þá kemur þetta úr svipaðri hugmyndafræði og þekkt var meðal Forn-Egypta, að sálin sé vegin og metin á banastundinni, og að jafnvægis þurfi að vera gætt, að góðverk og illverk komi á vogaskálar þær sem senda sálina eða andann til refsingar eða umbunar í framlífi.

Þeir sem þekkja táknfræði vita að þar eru margar kenningar, en svo mikið er víst að sú táknfræði sem ef efst í huga nútímafólks er grunnhyggileg að mörgu leyti, og byggist á froðumenningu Hollywood að miklu leyti.

Hakakrossinn sem er að flestra áliti einungis tákn fyrir nazismann núna, hann hafði allt aðra merkingu eða víðtækari áður, og eftir landsvæðum ekki sízt, enda þekkist hann víðar en á Norðurlöndum og Vesturlöndum og á fyrri öldum ekki síður. Búddisminn notar hann, hindúisminn og janisminn, svo dæmi séu tekin.

Sumir halda því fram að hakakrossinn sé elztur allra krossa og faðir og móðir annarra krosstákna og sterk rök eru færð fyrir því, þar sem hann mun vera tákn fyrir vopn Þórs, sjálfur Mjölnir, eða Mjöllnir öllu heldur, hamar Þórs.

Slíkir guðir eru þekktir frá því fyrir ævafornu og í mörgum menningarheimum, og Seifur heldur á eldingu ekki ósvipaðri hamri Þórs, og það er aðeins eitt dæmi af mörgum um þetta alþekkta minni í goðafræðinni.

Á sama hátt hefur regnboginn eða regnbogafáni ýmsar merkingar. Hann er til dæmis mjög frægt tákn úr kristinni trú, sem tákn fyrir friðinn og sátt milli manna og Guðs.

Regnbogafáni sem tákn fyrir hinseginsamfélagið og hinseginfólk var fyrst notaður í San Francisco 1978. Þá sögu kunna aðrir betur og ég tel óþarfi að fjölyrða um það, og auðvelt er að nálgast þær upplýsingar á netinu, því þessu er haldið að fólki og er ofarlega á baugi og í tízku núna sem frelsistákn og gleðitákn sem jafnvel aðrir samgleðjast hinseginfólki með.

Skemmtilegra er að skoða hinar fornu merkingar regnbogans og þær eru margar, og aðeins hér tæpt á nokkrum atriðum af mörgum.

Í Biblíunni er það Guð sem gefur Nóa merki um að flóðið sé í rénun þegar regnboginn birtist, og er því tákn um að reiði Guðs sé í rénun.

Íris er gyðja nefnd í grískri goðafræði og er gyðja regnbogans þar. Sagt var að hún tengdi mannfólkið við guðina.

Í írskri og keltneskri goðafræði er sagt að álfar feli gull við enda regnbogans, og glitið komi þessvegna.

Kínversk speki segir að móðurgyðjan Nüwa hafi gert sprungu í himininn og regnboginn hafi komið þessvegna.

Engilsaxnesk þjóðtrú kveður á um að við dauða gæludýra þá fari þau yfir brú regnbogans og bíði eigandans við enda hans, þegar eigandinn lætur lífið líka. Sú þjóðtrú er mjög greinilega komin úr Ásatrú, sem ég mun útskýra hér á eftir.

Kvikmyndin um galdrakarlinn í Oz innihélt frægt og fallegt lag, sem Judy Garland söng, "Einhversstaðar yfir regnboganum". Það var tákn um að finna betra líf og von.

Rauður er talinn tákn lífsgleði og lífsþróttar, styrks. Appelsínugulur er talinn tákna þolgæði og styrk, gulur talinn þýða gleði og kæti, grænn endurvöxt og náttúru, blár rósemd og stillingu, djúpfjólublár innsæi og varkárni, fjólublár ímyndunarafl og sköpunargáfu.

Í Sádí-Arabíu er þess gætt að börn hafi engin föt nálæg sem eru regnbogalituð eða klæðist þeim þar sem það er stranglega bannað og talið auka hættu á samkynhneigð, eða bera jafnvel vott um þesskonar bannfærðar tilhneigingar.

Sennilega er flest í heiðnum trúarbrögðum glatað sem lýtur að regnboganum og hvað hann táknar, en við Íslendingar erum svo heppnir að Íslendingurinn Snorri Sturluson skráði meira um norræna fjölgyðistrú en finnst í öðrum löndum, og er það auðvitað í Snorra Eddu.

Áður hef ég þó minnzt á keltneska og írska trú, sem var skráð á Írlandi, en eins og hér á Íslandi, fjallar um miklu eldri menningu og heiðna, drúízka og keltneska í því tilfelli.

Það skemmtilega við þetta má segja að Bifröst er sennilega næstfrægasta dæmið um regnboga í heimstrúarbrögðunum, ef ekki það frægasta, en miðað við hversu útbreidd kristnin er þá er regnboginn í sögunni um Nóa væntanlega frægasta dæmið.

Eiríkur Kjerúlf gaf út skýringar sínar um heiðni og margt fleira í bókinni Völuspá sem kom út 1945.

Þar telur hann Heimdall tákn regnbogans, og skrifar margt fleira um þetta.

Margir fræðimenn hafa skrifað um Bifröst og Heimdall, og svo mikið er til um þau fræði að varla er hér rétt að tíunda það, ekki sízt vegna þess að fræðimönnum kemur ekki saman um þetta, og Heimdallur er talinn eitt dularfyllsta goðið í Ásatrú, þar sem fremur lítið er um hann vitað, og upplýsingarnar jafnvel mótsagnakenndar.

Í bókinni "Heiðin minni" sem kom út 1999 er ein bezta umfjöllun sem ég hef lesið um Heimdall, eftir þýzka fræðimanninn og Íslandsvinininn Kurt Schier, sem nú er nýlátinn.

Svo mikið er víst að Heimdallur er heilagur og mikill guð, og það stendur eitthvað á þá leið í Snorra Eddu. Auk þess gætir hann brúarinnar á milli heimanna, sem er regnboginn, Bifröst, brú á milli Miðgarðs og Ásgarðs. Ásgarður er Himnaríki heiðinna manna, en Miðgarður er jörðin.

Heimdalli er lýst sem miklum stríðsmanni, hann þarf minni svefn en fugl en er þó alltaf á verði, veit og sér betur, en heyrir betur en aðrir einkum og sér í lagi. Því er hann vörður Himnaríkis, Lykla Pétur í kristninni hefur ekki jafn fjölþætt hlutverk og hann, en þó að einhverju leyti hliðstætt.

Bifröst merkir eiginlega sjór sem er alltaf á hreyfingu, eða straumiðukast sem er óvenju hvikult og hreyfanlegt.

Þar sem Bifröst, eða regnboginn, er tákn fyrir ferðalag í geimnum, á milli framlífshnatta og frumlífshnatta, þá má segja að orðið Bifröst sé sönnun fyrir lífi utan jarðarinnar og að guðir og gyðjur Valhallar séu til, og veruleiki, því orðið Bifröst lýsir betur en nokkurt orð í nútímaíslenzku fyrirbærinu Ormagöng, sem alltaf eru á hreyfingu samkvæmt nútímamönnum, en eru samt fyrirbærin sem helzt eru talin gera fólki kleift að ferðast um óravegalengdir í geimnum, og í vísindaskáldsögum og kvikmyndum eru oft notuð til þess.

En svo ég taki saman þessi tvö tákn sem er fjallað um í fréttinni og annað með neikvæðu formerki (hakakrossinn) en hitt með jákvæðu formerki (regnboginn), þá eru bæði þessi tákn komin úr Ásatrú, norrænni goðafræði, eða nátengd henni, og bæði þar jákvæð en ekki neikvæð.

Það er að segja, hamar Þórs var oft táknaður hakakrossi hér áður fyrr, en sumir Ásatrúarmenn skammast sín fyrir þessi tengsl á okkar tímum.

Og regnboginn er jú tákn fyrir brúna sem Heimdallur gætir, sem heitir Bifröst og er regnboginn.

Í raun og veru þá hafa eiginlega öll merki og tákn margvíslega merkingu. Það er okkar að leggja merkingu í þau, og hvort hún sé viðurkennd eða ekki, það tilheyrir okkar menningu, en gott er að þekkja sögu táknanna líka, eldri sögu þeirra langt aftur í aldir.

En vonandi skemmta sér allir vel í Gleðigöngunni. Það er ágætt að hægt sé að margnýta táknin þó þau komi úr eldri heimildum og trúarbrögðum.


mbl.is Hakakross blasir við á nýmálaðri regnbogagötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. ágúst 2024

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 16
  • Sl. sólarhring: 105
  • Sl. viku: 485
  • Frá upphafi: 119099

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 402
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband