Amma og afi, pistill í tilefni af afmæli afa, fæddist 24. júlí 1916.

Afi minn Jón Agnarsson á það alveg skilið að ég minnist hans á afmælisdegi hans sem er 24. júlí. Hann fæddist 1916 en lézt 2015. Hann varð næstum 99 ára. Hann hefði sennilega lifað af hjartaþræðingu, en það var ákvörðun læknanna að fara ekki útí hana vegna þess að hann var orðinn svona aldraður, en hann var af þeirri gerðinni að hann hefði talsvert líklega lifað hana af.

Það er einmitt vegna þess að mannkostir hans eru sjaldgæfir í nútímanum sem maður minnist hans, en þeir voru mjög algengir í upphafi 20. aldarinnar og fyrr á öldum býst ég við.

Til dæmis á ég við vinnusemi og heiðarleika, sjálfstæði og stolt yfir því að vera Íslendingur. Hann vildi alltaf vinna fyrir sér og ekki þiggja hjálp eða ölmustu ef hann gat undan því komizt. Það sem gerðist í Hruninu 2008 var vegna þess að manngerðir voru þá uppi sem voru öðruvísi en þetta gamla fólk.

Húsið okkar var eins og skip sem hélzt á floti vegna hans. Hann byggði húsið sjálfur, að Digranesheiði 8, Digranesvegi 92 áður, og 46 þar áður.

Hann var trésmiður, vélvirki, járnsmiður, pípulagningamaður, uppfinningamaður, rafvirki og margt fleira, alhliða reddari sem sá um að allt væri í lagi.

Ég ætla ekki að gleyma ömmu, Sigríði Tómasdóttur. Hún var frá Snæfellsnesi. Bæði voru þau fátæk, amma ólst upp í torfbæ en afi í bóndabæ sem var steinhús en einnig að hluta til úr torfi og timbri.

Amma var ári eldri, fæddist 1915 en dó 1985.

Í gær fann ég ljóðabók í Góða hirðinum sem heitir "Kveðjubros" eftir skáldkonuna Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Melgerði. Í formálanum kemur fram að hún var frá Ströndum eins og afi, en Kollafirði og því ekki sömu slóðum, afi var frá Trékyllisvík.

En það sem heillaði mig við þessa ljóðabók er sama trúræknin og hjá ömmu, Sigríði. Skáldkonan Guðrún mætti miklu mótlæti í lífinu en varð 93 ára, en var lömuð stóran hluta ævi sinnar og rúmliggjandi. Engu að síður reiddist hún ekki Guði eða Kristi heldur bar í brjósti eilífa trúarvon og trúarhita ef marka má kvæði hennar.

Þessar gömlu konur lærðu aldrei að hata karlmenn og eignuðust mörg afkvæmi. Að missa ekki vonina er dýrmætt. Böl kulda og trúleysis læsti helköldum klóm sínum í þjóð okkar síðar, er hún var farin á vit feðra sinna og mæðra.

Hún bjó á Elliheimilinu Grund lengi eftir að maður hennar dó og orti þar á meðan heilsan leyfði. Er hún af mörgum talin kvenhetja, jafnvel nútímakonum.

En amma Sigga og Jón afi voru alltaf samhent. Bar held ég aldrei skugga á hjónaband þeirra.

Það heyrði ég frá mömmu og öðrum að amma hafi verið of nægjusöm og ekki heimtað nýjar mubblur eða annað af afa eins og hún hefði átt að gera. Um þetta má deila.

Eitt sinn spurði nágrannakona okkar mig að því sem hafði verið góð vinkona ömmu löngu eftir að amma var dáin hvort afi hafi ekki verið karlrembusvín eins og margir voru taldir af hans kynslóð, reyndar ekki með þeim orðum, en ég skynjaði að hún meinti það, en ég tók af allan vafa að svo hafi ekki verið.

Nei, málið var það að þau voru svo samstíga, að ég held að amma hafi talið það frekju af sér að krefjast of mikils af honum. Þetta var bara tíðarandinn, að bera virðingu fyrir eiginmanninum og leyfa honum að ráða.

Mér er það ljóst að afi hefði virkilega getað orðið ríkur ef hann hefði bara viljað það og haft metnað í þá átt. Það má segja að hann hafi hugsað smátt í þeim efnum, en auk þess hafði hann óbeit á peningagræðgi sem maður fann á honum.

Það var líka annað sem einkenni afa, og það var að hann hafði óbeit á því að láta á sér bera. Hann var ímynd hógværðarinnar. Hann neitaði blaðamönnum um viðtöl sem vissu að hann var einstakur uppfinningamaður. Það var ekki nema ef þeir tóku mynd af bílnum hans við bílastæði og spurðu hann spurninga án þess að taka það fram að þeir væru blaðamenn sem myndir birtust af honum í gegnum árin.

Ef afi hefði stækkað verkstæðið og fengið menn í vinnu þá hefði hann getað þénað vel. Um mjög langt árabil komust færri að en vildu.

Þegar ég var 10 ára ákvað ég að flytjast til ömmu og afa. Það var haustið 1980. Þegar húsið hans afa var rifið 2021 missti ég það æskuheimili sem veitti mér innri frið og var tákn um kærleika og frið fyrir mig. Það voru alltaf vondar minningar tengdar við Álfhólsveg 145 þar sem ég ólst upp frá 6 ára til 10 ára, því ekki var mamma í nógu friðsamlegri sambúð þar.

Kannski langar mig að gefa út ævisögu afa og ömmu sem ég hef skrifað, en ég hef ekki reynt að fara með handritið til útgefenda enn að minnsta kosti. Það er svolítið sem mig langar til að gera. Kannski læt ég verða af því, og vonandi finnst áhugi á að gefa þetta út.

Það eru svo sem til margar svipaðar ævisögur fólks frá þessum tíma, en saga hverrar ættar er sérstök og einstök út af fyrir sig, ekki er alltaf alveg sama sagan sögð.

Það eru til margar fallegar konur og stúlkur í nútímanum, en maður ber þær svolítið saman við ömmu. Hún fórnaði sér fyrir manninn sinn og börnin, fyrir heimilið. Ungar nútímakonur sem hugsa um kynlífið sem eitthvað sem eigi bara að gleðja þær og einnig sem halda að trúnaður og tryggð við sama makann sé ekki endilega sniðugt fyrirbæri þegar allir hugsa um að græða og tolla í tízkunni, þær standast ekki samanburðinn við ömmu sem ól mig upp jafnvel frekar en mamma. Eigingirni er ekki nógu gott fyrirbæri.

Einnig minnist ég þess hvernig amma og afi ræddu saman. Oft ræddu þau um pólitík áður en þau fóru að sofa og voru þá sammála. Afi var á verkstæðinu frá 8 á morgnana til kvölds. Amma tók á móti kúnnum og bauð þeim kaffi og meðlæti sem hún bakaði jafnvel sjálf  eða keypti úti í búð.

Amma talaði mikið um ættfræði. Hún spurði hverra manna fólk var og þekkti til örnefnanna á landinu og þekkti allskonar fólk hér og þar, eða kannaðist við það. Hún var eins og gagnabanki.

Amma var líka mjög lífsglöð og kát. Hún hló mikið og brosti, hún söng hárri sópranrödd þótt aldrei hefði hún lært söng. En hún mundi lög og texta sem hún heyrði í útvarpinu eða í leikhúsinu eða annarsstaðar.

Mamma var með allskonar mótþróahugmyndir. Hún byrjaði að vinna í mjólkurbúð sem unglingur og síðan við allskonar störf, sem hún hefur verið samvizkusöm að sinna.

En amma ætlaðist til að hún hjálpaði til við heimilisstörfin, en mamma var alltaf ófús til þess. Hún lá í ástarsögum daginn út og daginn inn, lét sig dreyma um draumaprinsa og fullkomna menn. Amma miðaði við kröfurnar sem hún sjálf ólst upp við.

Ég hef spurt mömmu nýlega að því hvort hún sé femínisti, en hún neitar því. Þó getur hún ekki neitað því að hún varð fyrir miklum áhrifum frá femínistum, og þótt hún neiti því að vera femínisti hafa femínistar stjórnað henni mjög mikið án þess að hún viðurkenni það.

Þessi pistill átti víst að vera um afa. En það lýsir afa líka mjög vel að fjalla um ömmu, eiginkonuna hans, og konuna sem hann elskaði alltaf.

Afi átti trúartraust en hann talaði sjaldan eða næstum aldrei um trúmál. Afi reyndar var þögull maður og talaði lítið yfirleitt.

Hinsvegar hlustaði hann vel og kom með eitt og eitt orð eða setningar sem oft gátu geymt merkilega og skemmtilega speki.

Oft hélt ég ræður um Ásatrú eða heiðni og hann hlustaði án þess að móðgast. Þá fór hann með kvæði sem hann kunni um Ásbrú, Óðin og Sleipni hestinn hans, kannski eftir Einar Benediktsson, en hann kunni mörg kvæði utanað.

Afi var opinn og frjálslyndur að mörgu leyti. Amma var sannkristin og móðgunargjörn og gat fordæmt trúleysingja eða þá sem ekki voru samkvæmt hennar stöðlum, eða kristinnar trúar almennt.

Áður en amma dó var ég kominn í uppreisn gegn henni. Kannski var það ekki fallegt af mér, en svona eru unglingar. Það var áður en ég heyrði fyrst í Sverri Stormsker. Það gerðist 1986, ári eftir að hún dó.

Uppreisn mín gegn ömmu fólst í því að ég rökræddi við hana um trúmál og efaðist, um það leyti sem ég fermdist, 1984. Það var svo margt sem ég gat ekki talið trúlegt. Amma kenndi Megasi um og vildi að ég hætti að hlusta á hann, en það gerði ég ekki, heldur varð æ ákafari aðdáandi hans eftir að við amma urðum ósáttari um trúmál.

Samt finnst mér gott að við amma sættumst alltaf. Hún áleit mig vera með unglingaveikina og fussaði bara og sveiaði og bað Guð að hjálpa mér og fyrirgefa ef ég guðlastaði eða sagði eitthvað sem hún var óánægð með.

Árið 1987 fór afi að huga að heilsunni og meðal annars með því að fara í jógatíma, Róshildur Sveinsdóttir kenndi honum jóga, en mamma var ekki hrifin af því, því mamma taldi jóga heiðið og austrænt og því ekki guði kristninnar þóknanlegt, en afi var ekki svo forhertur að láta það á sig fá og hélt áfram í jóga.

Ég held að góðir mannkostir komi oft þegar fólk elzt upp við erfiðar aðstæður. Amma mín Sigríður ólst upp við mikla stéttskiptingu. Hún bar alla tíð mikla virðingu fyrir prestum, bankastjórum og alþingismönnum.

Skólakerfi nútímans kennir jöfnuð og kommúnisma. Allir eiga að heimta sem mest fyrir sig.

Kosturinn við uppeldið sem amma fékk er að hún var auðmjúk og þakklát. Hún var ekki heimtufrek eins og kynslóðirnar sem komu á eftir.

Það er til mjög skemmtileg saga sem amma sagði og sem raunverulega gerðist.

"Eitt sinn stóð hann bara á tröppunum hjá okkur og vildi koma inn!" Amma var mjög stolt af því að hafa talað við einn ráðherra landsins, og auk þess mann sem hún hélt mikið upp á og var ein af sjálfstæðishetjum landsins að hennar mati.

Hún var að tala um einn RÁÐHERRA landsins, Hermann Jónasson, sem var pabbi Steingríms Hermannssonar. Já, hann kom víst einu sinni inn í stofu til ömmu þegar afi var ekki heima og það var víst á sunnudegi árið 1952, þegar hann var landbúnaðarráðherra.

Þessi saga er mjög merkileg. Kannski sýnir hún að Hermann Jónasson var við alþýðuskap og lét ekki undirtyllur gera allt fyrir sig.

En ég þekki ekki forsöguna, veit bara brot af þessu. Ég veit samt ástæðuna fyrir því að Hermann Jónasson kom í heimsókn.

Þegar afi var að byggja húsið að Digranesheiði 8 frá 1946 til 1950 þá var hann held ég of stoltur til að biðja um bankalán. Þá var það pabbi hans sem fór á fund einhvers bankastjóra eða ráðherra og fékk lán fyrir hann.

Finnbogi Rútur og Hannibal voru skyldir afa og það mun hafa hjálpað uppá lánið. En ég held að langafi hafi talað við Finnboga Rút eða einhvern háttsettan.

Allavega var það þannig að ég veit hvernig afi fékk efnið í þakið á húsinu. Það var bárujárn sem var sléttað og fengið úr bragga sem var verið að rífa um þetta leyti, árið 1949.

Þegar Hermann Jónsson kom var það eitthvað út af þessu, semja um eitthvað svona eða eitthvað tengt þakinu og bárujárninu sem var keypt í það og einhver ráðherrann hafði reddað held ég.

Þetta voru skrýtnir tímar. Íslendingar voru svo fáir. Það varð stundum að hafa sambamd við áhrifamikla menn og því var oft tekið vel.

Ingvar frændi, bróðir hans afa, hann erfði þennan metnað sem Agnar langafi hafði. Ingvar skrifaði í Morgunblaðið allskonar pistla, bæði um Nýalssinnamálefni og dýravernd og fleira. Ingvar bróðir hans afa vildi að Nýalsmálefnið yrði frægt um öll lönd og hafði þannig stórar hugsjónir.

Já ég man eftir fleiri smáatriðum úr þessari sögu sem amma sagði. Þetta var skömmu fyrir hádegi og hún var að elda matinn. Af einhverjum ástæðum var afi ekki heima, sennilega að sinna viðgerðum úti í bæ.

En ég vissi það líka að afi stóð í skilum og þetta varð ekkert vandamál, en í þetta eina skipti kom ráðherrann mikli í heimsókn sem amma bar mikla virðingu fyrir. Annað skipti þegar afi þurfti bankalán var 1992 til 1993, en þá voru vegirnir allir grafnir út og suður í brekkunni vegna viðgerða, og viðskiptavinirnir komust ekki. Afi fékk engar bætur fyrir það, nema malbikað planið til hálfs þegar vegurinn var malbikaður í kjölfarið árið 1993.

Já, talað var um það að Kópavogur hafi verið svefnbær þegar kommúnistarnir voru þar við völd, og göturnar ekkert malbikaðar og allt hafði staðið í stað, stöðnun á öllum sviðum.

Afi minn var alltaf vinnandi, en samt var hann ekki eins og pabbi sem sagði mér að tónlistarmenn (eins og ég) sem ekki urðu landsfrægir og gætu lifað af list sinni ættu að finna sér aðra vinnu.

Afi lifði samkvæmt því að allir væru mismunandi og ekki þýddi að reyna að breyta fólki. Þessvegna þrasaði hann eiginlega aldrei í mér, nema út af drasli og kenndi mér að vaska upp eftir sjálfan mig.

Það er margt fleira sem ég gæti skrifað um afa. Ég hef áður skrifað um það að hann var viðgerðarmaður af Guðs náð og einnig vel menntaður á því sviði.

Það var mikill missir að verkstæðið hans var rifið. Þangað sóttu margir til að gera við bílana sína, til að fá aðstöðu, jafnvel eftir að hann var dáinn. Öll verkfærin voru til staðar, og líka þessi sérsmíðuðu verkfæri og skrýtnu sem hann bjó til, en gerðu vissulega sitt gagn og biluðu aldrei.

Hann var þolinmóður og úrræðagóður. Ef eitthvað var ekki til smíðaði hann það bara sjálfur, en var ekki sáttur við þessa tölvuvæðingu í bílunum, því það var nokkuð sem hann réð ekki við, og hann hafði ekki heldur neina trú á rafbílum.

Hann hafði sennilega rétt fyrir sér að því leytinu til.


Bloggfærslur 24. júlí 2024

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.10.): 11
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 853
  • Frá upphafi: 123216

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 714
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband