Pælingar um nokkrar hljómskífur eftir Bubba Morthens og Sverri Stormsker. "Glens er ekkert grín" er miklu betri en þegar hún kom út, og á betur við okkar samtíma en þann sem hún talaði til 1990.

Fyrir nokkrum árum hætti ég að safna Bubbaplötum því mér fannst hann vera farinn að endurtaka sig. Í Góða hirðinum má finna það sem vantar. Ég fann plötuna hans frá 2011 nýlega sem heitir:"Ég trúi á þig". DVD diskur fylgir með viðtölum við Bubba og samstarfsmenn.

Ég hafði keypt í Bónus árið 2016 plötuna "18 konur" (ásamt Spaðadrottningunum sem undirleikurum) og hafði orðið fyrir mjög miklum vonbrigðum með þá plötu, sem mér finnst enn með því alversta sem Bubbi Morthens hefur gert, og er þó af nógu að taka í deild lélegra hljómdiska og hljómplatna frá honum, því þar er vélræn framleiðsla á ferðinni og endurtekningar á því sama og hann hefur áður samið og sent frá sér.

En þegar ég hlustaði á tónlistina á "Ég trúi á þig" frá 2011, 4 árum fyrr, þá varð ég undrandi, og varð að viðurkenna að ég hefði aldrei trúað því að Bubbi gæti komið mér á óvart svo seint á ferlinum, sem hann þó gerði. Í viðtölunum við Ólaf Pál útvarpsmann á DVD disknum sagðist hann aldrei hafa sungið betur (eða gaf það í skyn), og það er einmitt það sem ég verð að taka undir, þótt oft hafi Bubbi sungið vel, hef ég aldrei heyrt betri söng frá honum en á þeim hljómdisk, þar sem hann syngur áreynslulaust hæstu tónana og án þess að rembast og sperra sig eins og hann gerir oft.

Á þessari plötu kemst Bubbi Morthens upp með það sem Bob Dylan komst ekki upp með árið 1990, það er að segja að búa til barnaplötu. Bob Dylan tileinkaði dóttur sinni plötuna "Under The Red Sky", sem kom út 1990, og mörg lögin á henni þóttu barnaleg og því fyrir neðan virðingu meistarans, Bob Dylans. Sú hljómplata hefur því æ síðan fengið lélega dóma, að ósekju, því hún er skemmtileg á köflum, og betri en sumar aðrar plötur eftir Bob Dylan.

Bubbi Morthens faldi þó barnaskapinn 2011 með sálartónlistarútsetningum, en það fer ekkert á milli mála þegar maður hlustar á þessa tónlist og texta að þetta eru upp til hópa barnagælur eins og á plötunni "Under The Red Sky" með Bob Dylan.

Því finnst mér textarnir lélegir eins og oftast hjá Bubba Morthens á þessari plötu, en tónsmíðarnar eru betri en oftast áður, "óbubbalegar", held ég að hann hafi sjálfur sagt, og útsetningar og flutningur alveg uppá 10, alveg fyrirtak.

Rómantíkin finnst mér ekki lengur í þessu hjá Bubba, heldur er þetta orðin vélræn framleiðsla eftir formúlu. Stundum ganga þannig vinnubrögð samt upp, og það gera þau svo sannarlega á plötunni hans, "Ég trúi á þig" frá 2011, því þetta er létt og skemmtileg tónlist, fjölskylduvæn, barnvæn.

En platan frá 2015, "18 konur", hún er algjörlega andlaus. Sama hversu oft ég hlusta á hana, mér finnst ekkert nýtt koma í ljós. Þar er hinn femíníski Bubbi kominn enn einu sinni sem hefur 100% misst alla andagift og frumleika og semur bara eftir formúlu og mærir kvenréttindin, án þess að manni finnist það sannfærandi.

Einu gleymdi þó Bubbi að segja frá. Ég er nokkuð viss um það að trúarlegi keimurinn sem fylgir plötunni er kominn frá Bob Dylan, og hann hefur vafalaust hnuplað titli plötunnar frá Bob Dylan, en eitt frægasta kristilega lagið eftir Bob Dylan heitir einmitt "I Believe In You," og kom út 1979 á "Slow Train Coming". Hafa ekki ófrægari menn en ég og Páll Rósinkranz gefið þetta lag út eftir Bob Dylan, var það á minni fyrstu plötu frá 1998, "Insol" og svo af plötu með Páli Rósinkranz frá 1996 sem heitir einnig "I Believe In You". Ég var ekki að herma eftir stórsöngvaranum þegar ég setti þetta lag á mína fyrstu plötu. Bob Dylan hafði verið mitt átrúnaðargoð frá 1983 að minnsta kosti, og þegar maður hefur ekki trú á eigin tónsmíðum grípur maður í að ábreiða hans lög, sem margir syngja, á tónleikum og á plötum.

Þessi fyrsta hljómskífa kom þannig til að eftir miklar upptökulotur í Fellahelli frá janúar til maí 1998 hafði ég úr ýmsu að velja til útgáfu. Ég ákvað að gefa út upphitunarlögin eftir Bob Dylan og Bítlana, um 10 stykki. Ástæðan var sú að þau hljómuðu betur en ég hafði búizt við. Ég átti samt demó heima með eigin lögum á ensku. Ef ég gef þá plötu út aftur gæti verið að ég gefi frekar út mínar tónsmíðar í demóútgáfunni. Ýmislegt er mögulegt í því.

Þessi pistill átti þó að vera lofrulla um plötu Sverris Stormskers sem ég er farinn að meta betur en nokkrusinni fyrr, frá 1990 og heitir:"Glens er ekkert grín".

Þegar "Í góðri trú" með Megasi kom út 1986 fannst mér ég þurfa nýtt átrúnaðargoð af innlendum hljómlistarmönnum. Mér fannst Megas vera orðinn jafn lélegur og aðrir popparar, að syngja ástarlög á þessari plötu. Þá tók Sverrir Stormsker við sem næsta innlenda átrúnaðargoð.

"Lífsleiðinn" frá 1986 fannst mér áhugaverð skífa, en samt ekki nógu skrýtin. Ég eignaðist "Hitt er annað mál" frá 1985 sem enn var til í búðum þá, og mér fannst hún enn skrýtnari, og þá jókst virðing mín fyrir Sverri Stormsker enn meira. Ekki fannst mér það verra að sumir vildu banna hana vegna klúrleika.

"Örlög" frá vorinu 1987 fannst mér köflótt og misjöfn, mér fannst sumir textar of hraðsoðnir saman, en tónlistin alltaf jafn skemmtileg og mismunandi söngvarar sem gerðu þetta að toppskífu.

Það var þó ekki fyrr en með "Stormskersguðspjöllum" sem ég féll kylliflatur af aðdáun fyrir Sverri Stormsker. Hún fannst mér pottþétt og fullkomin frá toppi til táar.

Það voru fáein atriði sem mér líkaði ekki við fyrst þegar ég hlustaði á "Glens er ekkert grín". Mér fannst vanta heildarsvip. Gerði mér þó ljóst að enginn nema Sverrir gat búið til svona snilldarlegar melódíur, en textalega fannst mér þetta vera framlenging en ekki viðbót.

Ég hef sett skífuna á fóninn öðru hvoru í gegnum árin.

Nú bregður svo við að þessi hljómplata Sverris hefur enzt alveg ÓTRÚLEGA vel, og öll lögin á henni eiga betur við en þegar hún kom út, og tala bara beint inní samtímann!!!

Ég ætla að fara yfir þetta frá lagi til lags.

"Göfugugginn" er fyrstur. Hér rífur Sverrir Stormsker kuklara og andlega spekinga í tætlur, og þetta fólk sem þykist heilagt og betra en aðrir, og fannst mér sumar línurnar móðgandi 1990, því þá var mér eitthvað af þessu heilagt og hafði ekki alveg húmor fyrir þessu. En í dag hef ég húmor fyrir þessu. Sérstaklega vegna þess að þegar ég hlustaði á lagið í gær, datt mér enginn annar í hug en Bubbi Morthens, sem þykist heilagur engill í dag.

"Paradís" er svo lag númer 2. Lagið syngur Alda Björk Ólafsdóttir, og syngur hún mjög falskt á köflum í laginu, en röddin samt gífurlega flott og skræk, á köflum virkilega flottur söngur, og í heildina. Þess má geta að Bubbi syngur einnig nokkra tóna falska og rembist í laginu á undan, því jafnvel er hans raddsvið varla nógu breitt til að ráða við það lag, sem fer mjög hátt upp.

Stefán Hilmarsson hefur gagnrýnt Sverri vin sinn fyrir hroðvirkni við plötugerð. Mér finnst það smotterí sem er aukaatriði, þótt fáeinar tökur í viðbót hefðu sniðið af slíka vankanta, en þetta fer mest eftir stemmningu. Ef maður er tilbúinn að meðtaka boðskapinn, þá fílar maður þetta í tætlur og annars bara ekki, sama hversu sterelíserað þetta gæti verið.

En ég verð að fjalla meira um lagið "Paradís". Fyrst þegar ég heyrði það 1990 fannst mér Sverrir óþarflega neikvæður útí sænsku paradísina. Síðan bara kom það í ljós að allt sem ýjað er að með háði í laginu reyndist rétt, og Svíþjóð er Víti en ekki Paradís, eins og lesa má út úr ljóðinu ef maður er næmur. Já, lagið lýsir ranghugmyndum Frónbúans, sem finnst grasið alltaf vera grænna hinumegin við lækinn. Þetta er drepfyndið lag eins og öll platan, en samt glimrandi satt og rétt og í takt við okkar tíma, sem aldrei fyrr.

"Ávallt viðbúnir" er lag sem fékk mikla spilun í útvarpi og varð vinsælt strax 1990. Ég kunni að meta það frá upphafi eins og aðrir.

Ég vil geta þess að ég var farþegi í bíl hjá eiginmanni móðursystur minnar 1990 og hafði verið í heimsókn hjá þeim, og Guðmundur Sighvatsson hét hann, er látinn núna, en var skólastjóri Austurbæjarskólans. Það kom mér á óvart að hann hefði húmor fyrir þessu, því þetta er gálgahúmor. Sagan er þannig að hann fór að skellihlæja er hann heyrði þetta lag í útvarpinu, sérstaklega eftir línuna:"Svo leiðum við kellingar þvert fyrir bílana" (Eða blindingja"). Já, svona Lákahúmor og gálgahúmor hittir í mark hjá hinu virðulegasta fólki, sem hefur fleiri hliðar en það oft vill sýna.

Ég man að hann sagði nokkurnveginn orðrétt að Sverrir Stormsker væri með fyndnustu textahöfundum Íslands, sem er alveg rétt.

Fjórða lagið heitir "Negrablús". Mér fannst það leiðinlegt fyrst þegar ég heyrði það, og mér fannst það ekkert passa við veruleikann, því þá var Ísland næstum alveg einsleitt samfélag með ljóshærð og bláeygt fólk. Brandarinn um manninn sem reykir sig í hel í bælinu fannst mér líka alveg útí hött.

En ég verð að hrósa þessu lagi líka núna. Sverrir Stormsker var bara nokkrum áratugum á undan tímanum. Þetta átti nákvæmlega eftir að gerast, að fólk frá öllum heimshornum myndi setjast hér að eins og fram kemur í laginu.

"Man Is The Woman Of The World" er svo fimmta lagið. Heldur náði það mér ekki 1990. Þekkti að vísu ekki lagið sem hann snéri útúr eftir John Lennon. En kannski fílaði ég ekki lagið því ég hafði engan áhuga á kvenréttindum þá og hafði ekki myndað mér sérlega ákveðna eða trausta skoðun á kvenrembu eða karlrembu eða femínisma yfirleitt.

Núna í dag er þetta hrein snilld og allt hefur þarna komið fram í laginu. Segja má að það tali beint inní okkar samtíma, en hafi virzt mjög ýkt 1990, fólk gat varla ímyndað sér að til væru ofbeldisfullar eiginkonur þá og fullar af karlahatri. Núna vita þetta allir, að þær eru orðnar svona alltof margar.

  Hlið 2 hefst með laginu "Hildur", hugljúfasta lag plötunnar, og það fjallar um dóttur Sverris Stormsker. Það lag náði einnig spilun á útvarpsstöðvunum og fólk kunni vel að meta það, enda líka gott lag.

Þegar þetta kom út fannst mér það vera ruglingslegt að hafa svona fallegt lag innanum kaldhæðnina og heimsósómann allt í kring. Kannski má það enn segja, að enn betra hefði verið að dreifa þessu á fleiri þemaplötur en hafa þetta á einni skífu. Þó er þessi hljómplata einfaldlega mjög góð í dag, því þetta er ekki miðjumoð eins og flest, tónsmíðar sem minna á Beethoven, og textar sem minna á Einar Benediktsson!

Lag númer 7 heitir:"Einu sinni = alltaf". Það fjallar um dómhörkuna í samtímanum. Ég man nú að þarna fannst mér platan rísa hæst hjá Sverri, í þessu lagi og "Samúð", næst á eftir. Ástæðan er sú að þarna nær Sverrir að fjalla um þjóðfélagsmál sem aðrir þora ekki að snerta á, hræsni þjóðfélagsins og óréttlæti gagnvart ýmsum. Auk þess er lagið bara mjög gott og skemmtilegt, í staðinn fyrir að fylla mann af sorg og trega út af málefninu, þá glottir maður af fávitaskap samfélagsins, og það er eflandi. Lagið er hressilegt.

"Samúð" er texti eftir Sverri við lag eftir systur hans. Hún hefur svipaða hæfileika og Sverrir, því lagið er býsna gott líka, en afköstin sennilega ekki eins mikil og hjá honum.

Ég átti reyndar erfitt með að ná boðskapnum 1990. Var þetta gagnrýni á rjúpnaskyttur og veiðimenn almennt eða eitthvað annað? Ég var ekki viss.

Ég get hlegið að þessu í dag, virkilega dátt og vel. Mér verður hugsað til góða fólksins sem vill drita niður Úkraínumenn og Rússa til að trúa áfram á femínismann, og vill senda vopn til að fækka Rússum og Úkraínumönnum, til að þurfa ekki að takast á við vandamálin hér á Vesturlöndum, og telja sér trú um að sigurinn á Rússum sé smámál og auðvelt mál.

Já, lagið "Samúð" er líkingamál, yfir það hvernig allir geta gengið lengra, hvernig eitthvað getur breyzt úr því að vera sakleysislegt yfir í eitthvað hryllilegt, ef fólk telur sér trú um eitthvað og hnikar ekki frá skoðunum sínum þótt annað komi á daginn.

"Glens er ekkert grín" er númer 9. Mér fannst þetta alltaf fyndið og skemmtilegt lag, en frekar augljóst og þunnur kveðskapur. Nei, ég tel það í dag, að það eigi enn betur við en þá, eins og önnur lög plötunnar.

Einfaldlega vegna þess að við höfum nýjan hóp af fólki sem tekur sig hátíðlega. Það telur sig hafa fundið sannleikann og býr til lög á Alþingi til að styðja hátíðleika sinn.

Ef fólk lærir að meta svona húmor þá kannski myndi hneykslunargirnin minnka og þykkjuþunginn í umræðum og samskiptum.

Þegar maður hefur húmor fyrir sjálfum sér og öðrum þá nennir maður ekki að hatast.

Þetta hefur Sverrir Stormsker fram yfir marga. Hann er umdeildur, en umfjöllunarefnin eiga enn vel við.

Síðasta lagið heitir "Austurstræti 1984". Það staðfesti það sem mér fannst, að lögin á plötunni væru hrærigrautur eldri laga. Það er greinilega samið 1984 eins og fram kemur í titlinum og útskýringunum undir.

Ágætt að enda hljómplötu á svona kvæði. Þetta er fyndin mannslífsmynd og eiginlega stutt kvikmynd í tónum og söng.

Nú er útgáfa á vínylplötum aftur hafin, en hún hætti 1991.

Ég vona innilega að markaður sé fyrir nýjar plötur með Sverri Stormsker, og að hann finni andagift og áhuga til að halda áfram að gefa út nýtt efni, á hverju ári vonandi.

Það er enginn Mozart í íslenzku poppi nema hann, og hann veit það sjálfur.

Nema hann skýtur of oft yfir markið, finnst fólki í textum.

En hann getur einnig samið ljúfar ballöður, svo hann kann ýmislegt.

En ef ég ber saman plöturnar hans Bubba Morthens sem skipta tugum og verkin hans Sverris Stormskers, þá er þetta eins og Bubbi sagði sjálfur í viðtalinu 2011, hans beztu plötur eru steinvölur, "Ísbjarnarblús" 1980, "Kona" 1985, og fleiri. Plöturnar hans Sverris eru kannski frekar píramídar, eða musteri til að læra eitthvað nýtt í fyrir komandi kynslóðir sem eru týndar í afmennskandi femínismanum og öðru slíku bulli.


Bloggfærslur 26. júní 2024

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Júní 2024
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.6.): 44
  • Sl. sólarhring: 97
  • Sl. viku: 566
  • Frá upphafi: 112120

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 411
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband