Jólasaga úr bernsku minni

Ég óska öllum gleðilegra jóla.

 

Stundum er gaman að rifja upp jólaminningar sem eru kýmilegar eða ekki bara hátíðlegar.

Það gerast allskonar atburðir í tengslum við jólin, bæði þegar maður er krakki og fullorðinn. Hér er svolítið saga úr æsku minni sem mun víst hafa gerzt 1979 í desember. Þetta get ég verið viss um því ég man að þetta var árið eftir að ég gerði mynd sem var hengd upp á kennarastofunni, og það var 1978. Þá var ég 8 ára og mamma man þetta ártal með mér svo það er rétt.

Úr því að maður er að rifja svona upp þá er alveg eins hægt að gera það ítarlegar, eins og þörf þykir til að þjóna umfjöllunarefninu og fylla uppí myndina sem gefin er lesendum.

Ég var lítið eða ekkert fyrir íþróttir. Þannig að ég var einrænn strákur og mér leiddist fyrstu tvö árin í barnaskóla, sérstaklega fyrsta árið. Ég kunni að lesa þegar ég fór í 6 ára bekk, því amma hafði kennt mér að lesa þegar ég var 5 ára. Mér leiddist eiginlega öll fögin.

Þegar ég var 7 ára fór ég að kunna vel við myndlistina, myndmenntina. Ég fann að ég hafði hæfileika og fékk hrós, og kennarinn náði sambandi við mig, hún var kát kennslukona og ekki þurr og leiðinleg eins og sumir kennarar, ég man að hún hét Katrín sem kenndi okkur myndmennt. Einnig kunni ég vel við tónmennt, íslenzku, sögu og líffræði. Ólafur Þórðarson úr Ríó Tríói kenndi okkur tónmennt.

Þegar ég byrjaði í 8 ára bekk í september 1978, þá gerði atburður sem varð þess valdandi að ég ákvað að verða listamaður. Ég fékk bæði hrós kennara og nemanda fyrir eina mynd sem ég gerði.

Þannig var að í byrjun annarinnar hverju sinni í myndmennt áttum við að búa til möppu fyrir myndirnar okkar og gera mynd utaná þær. Katrín myndmenntarkennari hafði þetta þannig.

Þegar ég byrjaði í 8 ára bekk 1978, þá byrjuðum við að læra Íslandssögu, ef ég man rétt, það var þunn kennslubók sem stiklaði á stóru, og fyrsti kaflinn fjallaði um landnámið, Sturlungaöldina, mannvígin, víkingana og kristnitökuna, ásamt fyrstu öldum kristninnar þar á eftir.

Kennararnir samræmdu sumt í námsefninu. Þannig var það með Katrínu sem kenndi myndmennt. Hún vissi að þetta var á námsskránni.

Þess vegna setti hún okkur fyrir verkefni í fyrsta myndmenntartímanum, þegar kom að því að búa til möppuna og myndina utaná hana. Það var að búa til mynd sem tengdist Sturlungaöld, landnáminu eða víkingum.

Ekki vil ég segja að mín mappa hafi verið betur teiknuð en hjá öðrum, en þegar Katrín kennari sá hana þá flissaði hún fyrst eða skellti léttilega upp úr af hughrifum, varð hissa eða undrandi, og varð alvarleg strax á eftir, og var lengi að gaumgæfa þessa mynd og pæla í henni, eins og þetta væri meistaraverk eftir Pablo Picasso eða gömlu meistarana.

Síðan spurði hún hvort hún mætti hengja þetta upp yfir kennarastofunni! Ég varð svo hissa að ég sagði já um leið! Síðan var þetta þarna þar allan veturinn og hún lét mig gera nýja mynd á nýja möppu.

Þetta var mjög gott fyrir egóið, og ég vildi bara verða listamaður eftir þetta.

Það mun hafa verið fyrir jólin 1979, að það átti að búa til myndir af jólasveinum fyrir litlu jólin. Nemendur voru fengnir til að skreyta skólastofurnar með myndum og hinu og þessu. Ég átti að gera jólasveina sem yrðu skornir út.

Þetta er aðalsagan.

Nema kennarinn var ekki ánægður með þessa jólasveina. Þeir litu allir út eins og fyllibyttur, ræningjar eða útilegumenn! Ég varð að hirða þessar teikningar sjálfur og aðrir nemendur voru fengnir í verkefnið. Kennarinn sagði að börnin yrðu hrædd við þessa jólasveina, þeir litu svo skuggalega út.

En ég er stoltur af þessari sögu. Hún sýnir hvað ég var raunsær, ekki eldri en þetta. Þessi saga sýnir að ég lét ekki kennara eða þjóðfélagið segja mér hvernig jólasveinar hlytu að vera, rauðklæddir og sakleysislegir trúðar.

Mínir jólasveinar voru þreytulegir og með rauð nef, og illa farnir eftir að hafa legið úti í hellum og fjöllum. Auk þess þar sem þeir áttu að vera gamlir þá litu þeir út fyrir að vera fjörgamlir og útjaskaðir hjá mér. Svona var raunsæið hjá mér. Mér fannst ekki passa að búa til Hollywoodútgáfu af jólasveinum. Mig minnir að Skafti Þ. Halldórsson, sem kenndi okkur íslenzku, og var einn aðalkennarinn þarna hafi staðið með mér og sagt að svona hafi jólasveinarnir verið upphaflega fyrr á öldum og að þetta hafi verið rétt lýsing hjá mér, en þetta féll samt ekki í kramið hjá öðrum.

Mér finnst þetta reyndar vera ágætlega skemmtilegar jólaminningar. Sumir krakkar efla félagsþroska sinn snemma, en þessi minning sýnir að ég var kannski kominn með annarskonar þroska svona snemma, raunsæi þess efnis að lífið er allskonar og ekki Hollywoodkvikmynd eða barnaefni.

Það er greinilegt af þessari sögu að ég var ekki tilbúinn að láta fullorðna fólkið segja mér að jólasveinarnir væru trúðar í rauðum fötum. Annað í sögunum um þá benti til þess að þeir væru skuggalegir náungar, og þannig fannst mér þetta passa og ganga upp.

 

 

 


mbl.is „Ég hef haldið í það að vera á Íslandi um jólin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. desember 2024

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.12.): 70
  • Sl. sólarhring: 101
  • Sl. viku: 759
  • Frá upphafi: 130221

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 574
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband