Eru til sjálfstæðishetjur enn á Íslandi?

Pistill Rúnars Kristjánssonar hreyfði við mér um NATÓ aðildina. Ég hef alltaf átt erfitt með að skilja þetta með vörnina sem átti að fylgja bandaríska hernum. "Segulstöðvarblús" eftir Þórarin Eldján finnst mér lýsa þessu betur, og rétt.

Hinsvegar gæti verið gott fyrir okkar þjóð að hafa okkar eigin her, móralskt séð. Ég er hlynntur íslenzkum her vegna þess að slíkt styður við sjálfstæðistilfinningu ungra manna og kvenna.

Ég held samt að slíkur her yrði alltaf táknrænn. Þjóðverjar hefðu getað náð Íslandi á sitt vald, ef þeir hefðu talið það nógu hernaðarlega mikilvægt. Það hefðu Sovétmenn einnig verið færir um, þrátt fyrir bandaríska herinn, jafnvel þótt þeir hefðu þurft að sprengja megnið af landinu til Andskotans, eins og þeir kunna.

Hernaðarlegt mikilvægi Íslands er ofmetið. Ísland er ekki miðpunktur tilverunnar hjá stórveldunum, þótt þægilegt sé að eiga það til að skjóta flaugum frá og nota sem millilandaflugvöll eða höfn á langleiðum.

Það má færa rök fyrir því að það algera hlutleysi sem Rúnar kallar eftir hefði haft ýmiskonar farsæld í för með sér, og ekki innrás Sovétmanna heldur, að öllum  líkindum.

Þá hefði Viðreisnarfólkið fluzt úr landi. Andi þess er á meginlandi Evrópu.

Það er hægt að gera samninga um eftirlit Norðurlandaþjóða og þannig varnir. Alþjóðasamningar um hlutleysi og samstarf ætti að nægja jafn vel og vera með her í Keflavík eða í Nató. 

Eftir því sem fleiri lönd eru í Nató þá verður það hættulegra bandalag, sem ögrar Rússum, og kannski fleiri þjóðum. Mesta tryggingin fyrir friði er að ögra ekki öðrum þjóðum, eins og með Nató tilvistinni yfirleitt, og samskonar fyrirbærum.

Helztu rökin með því að við séum leppur Bandaríkjanna eru efnahagsleg einsog hjá Úkraínu. En margur hefur orðið af aurum api. Kapítalismi getur verið gagnlegur í hófi. Nú er kapítalismi íslenzku þjóðarinnar genginn úr hófi og við erum hundflöt fyrir Mammon, sjálfstæðið ekkert. Ég gerði þau sjónarmið að mínum þegar ég var að byrja í Menntaskólanum í Kópavogi að þjóðin hefði selt sálu sína Mammon með Natóaðildinni og herstöðinni bandarísku. Ennþá hef ég sannfæringu fyrir þessu.

Gömlu kynslóðirnar höfðu varann á. Ég heyrði jafnvel sjálfstæðisfólk tala um hættuna af því að blandast bandarísku hermönnunum. Það var líka langt frá því að allir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn væru kapítalistar þá, frekar þjóðernissinnar, og sjálfstæðisfólk, í merkingunni að vilja sjálfstæði óháð hvaða flokkur væri að bjóða uppá það.

Ég er þeirrar skoðunar að íslenzka þjóðin sé orðin OF RÍK, fjárhagslega.

Það er vegna þess að of mikið ríkidæmi veldur siðleysi og siðblindu, og rofi, dyggðir eru látnar lönd og leið og einsog Megas orti, "akfeitur þræll með gljáandi hlekki."

Afi minn vildi að við værum utan við Schengen, ESB og EES. Ég veit ekki til þess að hann hafi viljað að þjóðin færi úr Nató, en það var líka fjarlægt öllum nema kommúnistum þá, held ég.

Ég verð að vera sammála þeirri djarflegu ályktun að þjóðin ætti að standa utan við Nató, og Schengen og EES má bæta við líka.

Kannski var eitt sinn hætta á innrás Sovétríkjanna. Það eru þá 50 ár síðan eða meira. Forgangsröðun Rússa er allt önnur núna. Þeir eiga í basli með fyrrum ríki sín, og það mun nægja þeim næstu áratugina, ég held að það séu 99% líkur á því, og þessvegna gjörsamlega óþarft og jafnvel skaðlegt að Svíþjóð og Finnland þurfi í Nató eða ESB. Móðursýki, ekkert annað.

Núna er kannski meiri hætta á innlimun Íslands í Kína, og það yrði þá gert efnahagslega en ekki hernaðarlega. Svona eru nú áherzlurnar öðruvísi í heimsmálunum og varnarmálunum.

Þegar allt kemur til alls höfum við alltaf verið í mestri hættu af hendi Breta og Bandaríkjamanna, enda voru þeir fyrstir að næla sér í okkur, og Þorskastríðin sögðu þetta sama.

Það má sjá í gegnum það hversvegna sjálfstæðismenn hafa alltaf verið hlynntir Natóaðildinni. Þar með tryggðu þeir sér völd, því þessi tengsl við Bandaríkin tryggðu fjármagnsflæði, viðskipti og samninga, Marshallaðstoðin skipti líka máli. Sjálfstæðisflokkurinn var risaflokkur því hann gerði Íslendinga ríka. Á sama hátt ef Hitler hefði unnið stríðið og Þýzkaland orðið fjárhagslegt og hernaðarlegt stórveldi Evrópu eftir stríðið þá hefði einhver flokkur gifzt nazistunum, ef þeir hefðu sigrað, og tryggt sér þannig velvild kjósenda á Íslandi, og fjármagnsgflæði til landsins þaðan.

Þegar til lengri tíma er litið munu Íslendingar annaðhvort nátengjast ESB eða Kína, það fer eftir því hvort Evrópa leggur endanlega upp laupana eða ekki.

Fullkomið sjálfstæði er þó betur fallið til gæfu og farsældar. Bandaríkin eru á fallanda fæti, ESB vissulega, og Kína kannski líka, þegar Indland tekur endanlega fram úr því og svo loks Afríka, sem allt er fyrirsjáanlegt.

Ég varð Nýalssinni snemma. Dr. Helgi Pjeturss ritaði einhversstaðar um það í bókum sínum að tilgangur íslenzku þjóðarinnar væri að vera fyrirmynd og leiðarstjarna annarra þjóða, bæði sem friðarþjóð og eins sú þjóð sem fyrst byggði á þessu landi stjörnusambandsstöð og breytti trúarbrögðunum í vísindastarf. Þessvegna er mér ljúft að skilja og vera sammála því sem Rúnar fjallar um. Ísland getur ekki verið fyrirmynd eða leiðandi ef það er undir hælnum á erlendum herveldum alltaf!

 


Bloggfærslur 3. janúar 2024

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 119
  • Sl. viku: 655
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 520
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband