6.3.2023 | 05:22
Vorið, kapha, og ýmis forn fræði
Eiginlega finnst mér skemmtilegra að fjalla um jákvæð og uppbyggileg málefni en eitthvað sem veldur áhyggjum og lýtur að vandamálum. Nýr pistill Guðrúnar Kristjánsdóttur finnst mér áhugaverður, ég hef ekki nóg sökkt mér ofaní þetta, en eitthvað þó.
Kapha mun þýða slím á íslenzku, og sameining jarðar og vatns, og lífverur háðar því. Blótin til forna komu jafnvægi á orkustöðvar mannsins og einnig jafnvægi á alheiminn í víðara samhengi, en nútímamenningin er því miður lítið tengd þessari vizku, ef nokkuð.
Í bók Þorvalds Kristjánssonar um áhrif Keltanna á okkar land, eða eins og hann gizkar á að þau hafi verið, er minnzt á gyðjuna Brigid. Hún er verndari búfjár, mjólkurvöru, ölgerðar, helgra brunna og linda. Merkilegt að verkfallið ógnaði því að landsmenn fengju nóg af slíkri vöru til sín. Heimir Már Pétursson fréttamaður hefur gert meira gagn en margur stjórnvitringurinn með vandaðri þáttastjórn og að taka ábyrgð á vandanum á sig með gagnrýnum og góðum spurningum til deiluaðila, sem skiluðu árangri og neyddu þau til að komast að skilningi og samkomulagi.
Friggjarblótið mun hafa verið á sama tíma og Brigidarmessan, í kringum afmælisdag Katrínar forsætisráðherra, 1. febrúar, samkvæmt bók Þorvaldar.
Helgiathafnir heiðinna manna snúast allar um hringrásir af einhverju tagi, eða það eru flestir sammála um það. Friggjarblótið fjallar um hjónabandið og ástina í grunninn og söguna um það þegar Frigg gaf sig Óðni sem eiginkona, eftir stormasöm atvik þar á undan.
Um leið fjallar þessi goðsögn um endurnýjun og hringrás, því hún fjallar um fæðingu og dauða líka. Hún kemur úr tröllaheiminum og deyr sem tröllskessa en endurfæðist sem Ásynja með því að verða kona Óðins.
Um leið er ógnum heimsendist bægt frá, nokkuð sem verður sífellt erfiðara fyrir okkar jörð og okkar mannkyn. Náttúruöflin eru sefuð.
Vel gæti ég trúað að Brigid og Frigg séu sama gyðjan, og einnig er mögulegt að ekki sé um sömu gyðju að ræða, heldur hafi dýrkunin á Brigid meðal Kelta haft áhrif á forna norrænna menn og þeirra helgihald, að gyðjan Frigg hafi verið til en jafnvel fengið nýtt heiti í stíl við það keltneska, eða þá tekið á sig eiginleika frá henni, vegna áhrifa Kelta á norræna og germanska menningu.
Þegar allt kemur til alls má segja að Keltar séu hluti Germana, og Vanadýrkenda, og á tímum Sesars var þetta allt talið það sama meðal Rómverja oft, þótt sumir gerðu greinamun á þessum ættbálkum og þjóðum sem tilheyrðu Evrópu til forna og gengu undir ýmsum heitum.
Orðsifjafræðin segja okkur, hin hefðbundna orðsifjafræði, að Frigg merki einfaldlega Frú, eða Drottning, eða Eiginkona, en það hefur mér aldrei þótt mjög trúanlegt. Það er nefnilega þannig með orðin að þau geta komið úr ýmsum áttum og þýtt ýmislegt.
Ég tel að orðið frigid á ensku sé dregið af gyðjuheitinu Frigg, kynköld eða kynkaldur. Það er vegna þess að sumt í Friggjarblótinu bendir til þess að samskipti þeirra hjónanna Óðins og Friggjar séu stormasöm og að það skiptist á ástríkir og ástlausir kaflar í því með kerfisbundnum hætti, eins og gert er ráð fyrir árstíðum í náttúrunni sjálfri, jarðlífinu.
Eins þversagnakennt og það er held ég raunar líka að orðið frygð á íslenzku sé dregið af gyðjuheitinu Frigg, því Frigg er þetta tvennt og svo miklu meira.
Í bók Þorvaldar um Keltana eru mörg áhugaverð atriði. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að vita með vissu um fortíðina er það víst að Keltar og norrænir menn áttu samskipti til forna. Útlitslegur munur á þeim vafalaust sáralítill, enda talið að rauða hárið komi frá Írum og Skotum, og þá ljósa hárið frá Noregi og Norðurlöndum.
Enda er talið að stór hluti landnámskvenna hafi komið frá Bretlandseyjum samkvæmt erfðarannsóknum, en meginhluti landnámskarla frá Noregi. Þær niðurstöður verða að teljast býsna traustar.
Eitt af því sem er áhugavert við heiðin trúarbrögð eru leyndardómarnir sem umlykja þau. Kristnir guðfræðingar hafa skrifað ósköpin öll um Biblíuna, en frumheimildir skortir, skráðar á þeim tíma þegar heiðnu trúarbrögðin voru í blóma.
Því verður fólk að nota innsæið til að upplifa þau trúarbrögð. Sumt er þó vitað með vissu.
Í pistli Guðrúnar skrifar hún að kapha fyrirgefi eins og jörðin. Það sama hef ég heyrt sagt um gyðjuna Frigg, og þá má segja að hún gegni svipuðu hlutverki og María mey, sem kom í staðinn fyrir heiðna gyðjudýrkun í kaþólsku trúnni og gerir enn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggfærslur 6. mars 2023
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.9.): 51
- Sl. sólarhring: 60
- Sl. viku: 648
- Frá upphafi: 159061
Annað
- Innlit í dag: 44
- Innlit sl. viku: 467
- Gestir í dag: 41
- IP-tölur í dag: 39
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar