24.2.2023 | 04:33
Á heimurinn 2000 ár eftir?
Stundum þegar maður fær athugasemdir við pistla sem eru snjallar og þarfnast pælinga tekur maður sér tíma í að svara þeim. Þessi pistill átti að vera svar við góðri athugasemd við síðasta pistil, því ég fór að velta því fyrir mér hvort ég væri orðinn of svartsýnn um framtíð mannkynsins.
Við því er ekkert auðvelt svar. Ég hef kannski orðið fyrir of miklum áhrifum frá Davosliðinu sem margir gagnrýna, úr því að ég trúi einni möntrunni þeirra, sem er trúin á hamfarahlýnun á jörðinni. En um annað er ég ekki sammála Davosliðinu.
Þegar Magnús, sem skrifaði athugasemdina góðu sem virkilega snerti við mér þannig að ég þurfti að velta ýmsu fyrir mér, fjallaði um Jesus Christ Superstar söngleikinn, sem var til á mínu æskuheimili eftir Andrew Lloyd Webber, þá áttaði ég mig á því að stór hluti af minni heimsmynd er heimsmynd foreldra minna, sem voru af hippakynslóðinni, og allavega tóku talsvert af þeirra hugsjónum í arf, eins og til dæmis umhverfisvernd.
Góðar athugasemdir sem láta mann íhuga afstöðu sína, eins og Magnús kom með, þær láta mann velta því fyrir sér hvort maður ætti að skipta um skoðun að einhverju leyti.
Sem sagt, ég átta mig á því að stór hluti af umhverfisverndarsjónarmiðum mínum eru komin úr bernsku minni þegar ég kannski var ekki vanur að gagnrýna jafn grimmt og síðar allskyns áreiti úr umhverfinu.
En það er ekki allt sem þessi athugasemd vakti mig til umhugsunar um.
Hann minntist á stjörnualmanak Majanna, sem ég ber mikla virðingu fyrir, eins og þeirra menningu. Hann minntist einnig á öld Vatnsberans, sem var grunnhugtak í hippamenningunni.
Ég man að 2012 var ég mjög kvíðinn út af því að heimsendir gæti orðið vegna Mayaheimsendaspánni svokölluðu. Þá samdi ég fullt af ástarlögum til manneskju sem ég var hrifinn af, en þau hafa ekki verið gefin út ennþá, en ég vildi fara útúr heiminum ástfanginn og hamingjusamur, ef heimsendir yrði.
En kannski varð heimsendir 2012. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs var við völd frá 2013 til 2016. Strax árið 2013 hafði ég á tilfinningunni að við lifðum í hliðstæðum alheimi, því svo ótrúlegt fannst mér að þjóðernissinni var orðinn forsætisráðherra, mér fannst það of ótrúlegt.
Síðan þegar Wintris-málið kom upp árið 2016 og Sigmundur Davíð var felldur vegna haturs óvina hans og dáleidds almúgans, þá fannst mér aftur eins og ég væri hluti af raunveruleikasjónvarpi en ekki veruleika fólks sem stjórnaði sér sjálft.
Sama gerðist þegar Trump var kosinn 2016. Það fannst mér alls ekki í takt við veruleikann. Aftur þegar Joe Biden var kosinn, það fannst mér ekki í takt við söguna. Hann var kosinn sem mótvægi við Trump og eitthvað var undarlegt við það allt. Nú er það komið í ljós að hakkari í Ísrael stjórnaði teymi til að hafa áhrif á forsetakosningar, og viðurkenndi að það tókst í flestum tilvika. Kannski er það bara toppurinn á ísjakanum þegar kemur að því að breyta niðurstöðum kosninga í heiminum, og ásakanir Trumps réttar þar af leiðandi um að sigurinn hafi verið tekinn af honum.
En það vona ég að Magnús muni á sinni vefsíðu fjalla nákvæmlega um túlkun sína á Völuspá betur, og þessi 2000 ár, því þann part var ég ekki viss um að ég skildi nógu vel.
Völuspá er það dulræn að fólk skilur hana á sinn hátt og þarf vel að útskýra hverja túlkun.
En allavega, það vona ég að hann hafi rétt fyrir sér, að heimsendir sé ekki í vændum. Nóg er um slíkar fréttir.
Erlendir spekingar fullyrða að heimsendir sé í nánd. Dómsdagsklukkan glymur brátt, er þeirra söngur, og það er okkur að kenna sjálfum, segja þeir fræðingar, í loftslagsmálum og í alþjóðlegum samtökum sem njóta mikillar virðingar.
Heimsendir getur verið margskonar.
Hann getur verið visthrun, endir efnislegs lífs.
Hann getur líka verið hrun menningar, þar sem andleg vakning á sér stað. Það felst í orðinu veröld. Veröld þýðir í raun tilvera mannsins, öld er sama og maður í fornu máli, og veröld gæti því einnig þýtt mannsins tími, eða menningin. Veraldarendir, sem er annað orð yfir heimsendi, gæti þannig þýtt endir menningarinnar, upphaf nýrrar menningar.
Íslenzkan er margslungin og margræð.
Takk fyrir spaklega og djúpviturlega athugasemd, Magnús. Hún vakti upp spurningar sem erfitt er að svara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Bloggfærslur 24. febrúar 2023
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.9.): 59
- Sl. sólarhring: 61
- Sl. viku: 656
- Frá upphafi: 159069
Annað
- Innlit í dag: 50
- Innlit sl. viku: 473
- Gestir í dag: 45
- IP-tölur í dag: 43
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar