Bókmenntir sem takast á við nútímann en fjalla um persónu sem var uppi um 1950.

Gorró er myndasögupersóna eftir mig sem er byggð á James Bond að miklu leyti andlega, en útlitið minnir á Daltónbræðurna, þannig að persónan er samsett úr mörgum persónum, en þannig fer persónusköpun mjög oft fram.

Nafnið er einnig afbökun á Zorró, enn einni hetjunni.

Gorró fer á vændishús og reykir vindla, eltist við bófa einnig og er einhverskonar yfirstéttarmaður brezkur. Hann er alltaf að vinna alþjóðleg verkefni fyrir brezku ríkisstjórnina eins og James Bond. Sögusviðið er kalda stríðið, eins og bækurnar sem Ian Fleming skrifaði.

En hvað er það sem rekur mann áfram að skrifa svona sögur?

Það er nú svo margt. Maður hefur lúmskt gaman af því að skrifa og teikna svona sögur sem ögra pólitískri rétthugsun vegna þess að þær eru upphafning á fiftís menningunni, en ádeila á hana á sama tíma. Það er þessi tvíræðni við Gorró bækurnar sem heillar mig, meðal annars, og auk þess að þær gerast á hinu dulfræðilega sviði að hluta til, í þeim koma fyrir óútskýrðir atburðir einatt.

Ég held að það sé rétt hjá mér að Gorró hafi verið fyrsta söguhetjan sem ég skapaði í myndasögugeiranum, og það hefur verið 1982, því ég merki teikningarnar mínar og gerði það líka þá, með ártölum og dagsetningum langoftast.

Ég var á tólfta ári þá. Það sem er merkilegt við þetta er að tólf ára unglingur býr kannski til öðruvísi persónur en sá sem eldri er. Þannig efaðist ég aldrei um að svona persóna væri hetja þá.

Í nútímans ljósi koma fleiri sjónarhorn og gera þetta margræðara.

Ég byggði Gorró á bíómyndum og dægurmenningunni allri eins og hún var þá.

Það vakna heimspekilegar spurningar við lestur svona bóka. Til dæmis veltir maður því fyrir sér hvort mikill munur sé á bófum og hetjum. "Bófaflokkurinn" er fyrsta Gorró bókin, og það stendur til að hún komi út, í litlu upplagi, nema áhuginn sé mikill á henni.

Vindla-Church er aðalbófaforinginn, og vegna þess að hann er mikill vindlareykingamaður má segja að stutt sé bilið á milli hans og Gorró og hetjanna.

Munurinn felst í að Vindla-Church er fullur af öfund og rán eru hans sérsvið til að verða ríkur, sem aldrei takast, á meðan Gorró býr við mikinn ættarauð og er í launuðu starfi sem einskonar 007.

En stærri spurningar vakna líka við lestur svona bóka. Mér finnst stærsta spurningin snúast um sjálfsmyndina, hvað er neikvætt og hvað er jákvætt í fari fólks.

Gorró er samkvæmt ímynd hins fullkomna karlmennis áður fyrr, en í dag er hann af femínistum talinn ofbeldismaður.

Myndasögugerð er í eðli sínu hlutlaus frásögn eins og kvikmynd. Sögunni vindur fram þótt sögumaður geti komið með athugasemdir í formi yfirskrifta eða skilaboða.

Alla vega kappkosta ég við hlutlausa og húmoríska sýn á Gorró og félaga. Hann veit ekki að hann er barn síns tíma frekar en aðrir í sögunum, en þar fyrir utan má segja að þeir geri allir gagn.

Ég fór að eyða tíma mínum í að teikna þessar myndasögur árið 2020 því mér fannst tíma mínum ekki betur varið í annað á meðan, mér fannst þetta verðugt verkefni. Mér fannst ég hafa vantrækt þetta of lengi.

Er hægt að láta allar bókmenntir nútímans snúast um pólitíska rétthugsun og femínisma? Gorró bækurnar eru nefnilega ádeila á fortíðina jafnt og nútímann eða nútímamenninguna. Þessar bækur segja okkur að engin menning er fullkomin, að hver einasta menning er barn síns tíma.

Þannig spyr lesandinn sig hversvegna allir séu svona heimskir að keðjureykja í þessum bókum, úr því að það er svona óhollt. Auðvitað er ég sem höfundur bókanna að segja lesandanum að persónurnar vissu þetta ekki eða þóttust ekki vita þetta um 1950 eða 1960 þegar sögurnar gætu hafa gerzt.

Það er þetta sem er svo skemmtilegt við bókmenntir. Við getum ekki lagt okkar dóm á fortíðina. Við verðum að skilja og sætta okkur við að við getum ekki breytt allra skoðunum eða fortíðinni, að margt var skrýtið og undarlegt þá og er kannski enn.

Svo er það annað sem mér finnst spennandi að setja inní sögurnar. Það er mystíkin. Ég reyni að láta einn óútskýranlegan og dularfullan atburð gerast í hverri sögu. Ekki nóg með það, heldur læt ég Gorró afneita öllu dularfullu, og þar með er ég að hæðast að honum.

Þetta getur höfundur gert við sína aðalsögupersónu. Ekki er nauðsynlegt að standa 100% með henni. Aðalhetjan getur verið andstæða höfundarins þessvegna.

Nú er það staðreynd að bókmenntir eru að deyja út eins og aðrar listir og menning. Nálaraugað þrengist stöðugt, hverjir mega vera höfundar samkvæmt elítunni.

Þessvegna þurfa Gorróbækurnar ekki mikla útbreiðslu til að vera taldar góðar bókmenntir. Já, ég held að þær séu góðar bókmenntir þótt ég sé ekki góður teiknari. Þær takast á við nútímann miskunnarlaust, og það eitt og sér gerir bókmenntir góðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 28
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 683
  • Frá upphafi: 108439

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 546
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband