Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2023

Spilling í verðlaunaveitingum og víðar. Vonandi fær Björk Grammy verðlaun einhverntímann.

Vandinn er sá að gengið er framhjá þeim sem geta hjálpað og koma með réttu tillögurnar og ættu að stjórna. Sífellt meiri samþjöppun auðs og valda hefur gert óréttlætið á jörðinni svo að segja algjört. Hvatinn til að vinna er farinn hjá gríðarlega fjölmörgum hópum.

Mannvirðingar, atvinna, auður og völd. Þegar ekkert mark er tekið á venjulegu fólki eru samfélagsmiðlar orðnir óþarfir, og maður missir áhugann á þeim.

Ég er vissulega sammála Sólveigu Önnu hjá Eflingu að það er nauðsynlegt að berjast svona verkalýðsbaráttu. Hún er ein af fáum manneskjum núorðið sem gefa von um réttlæti.


mbl.is Alltaf gengið fram hjá Björk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar fasisminn sigrar eru dæmdir óréttlátir dómar

Margir hafa ritað og talað um að lýðræðið á Vesturlöndum sé við það að hrynja, eða sé hrunið. Nýleg dæmi er umdeildur og pólitískur dómurinn yfir Margréti á Fréttinni, og svo Hryðjuverkamálið svonefnda sem gæti orðið nýtt Geirfinnsmál, og sumum finnst það orðið þannig nú þegar.

Öllum er það ljóst ungu mennirnir í uppdiktaða hryðjuverkamálinu eru kallaðir hægriöfgamenn, jafnvel þótt sérfræðingar telji þá skaðlausa, og að sérfræðingar í slíkum málum sem fjalla um skipulagningu hryðjuverka segi að það sé frekar merki um vinstriöfga að vilja gera árásir á lögregluna og stjórnmálamenn. Það sannar það sem margir hafa sagt: Það eru engir hægrimenn á Íslandi, bara vinstriöfgamenn, og sífellt meiri öfgar viðgangast á þessu landi til vinstri.

Það er einnig öllum ljóst að Margrét Friðriksdóttir á Fréttinni er kölluð hægriöfgamanneskja, og þótt hún kannski hafi tjáð sig við Semu Erlu með vafasömum hætti þá hafa vinstrimenn gert það líka við svonefnda hægrimenn eða þjóðernisöfgamenn (ímyndaða eða ekki) á netinu, ekki sízt í athugasemdakerfi DV, þar sem alsiða er að vinstrimennirnir æpi upp yfir sig með mannorðsmeiðandi orðum í garð allra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn, Miðflokkinn, Íslenzku þjóðfylkinguna, Frelsisflokkinn eða nokkur sjónarmið sem þeir hafa staðið fyrir.

Þannig að sjá má mikla vinstri slagsíðu í dómskerfinu nú um þetta leyti. Það er eins gott að menn eins og Arnar Þór Jónsson, Jón Magnússon og Jón Steinar Gunnlaugsson eru óhræddir við að tjá sig. En það dugar auðvitað ekki til ef almenningur verður múlbundinn og þrælslyndur í garð ófrelsisanda vinstristefnunnar.

En rétt er að binda vonir við að dómskerfið er orðið flóknara en áður, og niðurstöður mismunandi á hverju dómsstigi oft núorðið. Samt vekur það ekki heldur endilega traust til réttra niðurstaða, þegar útkomur eru mismunandi. Ástandið á Íslandi er farið að minna enn meira á það sem gerist í Bandaríkjunum, þar sem peningar og lýðskrum ráða meiru en vönduð vinnubrögð samkvæmt reglum byggðum á Biblíunni, til dæmis, eða siðvenjum yfirleitt um rétt og rangt. Ég tek undir með Magnúsi Sigurðssyni bloggara um að þörf sé á blessun guða eða ákveðins guðs þegar ástandið er svona á jörðinni.

 

 

 


mbl.is Kæra frávísun í hryðjuverkamálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunar ekkert valið, ljóð frá 23. október 2022.

Ekki vil ég aftur leika

almúgans trúð og syngja.

Gleði þegar gellur

grimmdar þinnar hinzti tónn.

Ekki mun sig yngja

upp sú kona,

eða aftur vona.

Aðeins Heljar sónn.

Hamar hans því fellur,

hina fyrir bleika.

 

Saklaus verður sekur talinn,

syndanna djöflaleikar.

Allt er öfugt raunar,

einmitt sá fær launin, Hel.

Kölski víða kreikar

kátur, lipur.

Prúð en piltafipur,

pínleg þessleg skel.

Ei slík ást þér launar,

aðeins hetjan kvalin.

 

Réttlátt barn er rægt og kvalið,

ræningjar verðlaun hljóta.

Sjáðu gildin grotna,

geðsjúkt valdið opinbert.

Ræflar því upp róta,

raunar tapa,

gellur líka gapa,

geta tök þó hert.

Reglur allar rotna,

raunar ekkert valið.

 

Piltafipur: Nýyrði eftir Jónas Friðrik, sem lætur truflast af piltum, eða truflar pilta.


Fylgishrun Framsóknarflokksins og Einars Þorsteinssonar í samstarfinu við Dag B. Eggertsson og Samfylkinguna í Reykjavík. Úr 18% í 8%.

Framsóknarflokkurinn hefur tapað mjög miklu fylgi í Reykjavík eftir að Einar Þorsteinson komst að þeirri merkilegu og þversagnakenndu niðurstöðu að bezta leiðin til að breyta einhverju í Reykjavík væri að breyta engu og gerast enn ein "viðreisnarhækjan" fyrir Dag B. Eggertsson, samkvæmt því sem kom fram í Íslandi í dag undir stjórn Snorra Mássonar í gærkvöldi á Stöð 2.

"Tími til kominn að breyta Reykjavík", sagði hann og eftir kosningar spartzlaði saman gamla meirihlutanum með Degi B. Eggertssyni. Eitthvað undarlegt við það.

Leitt þótti mér að hann gerði tvær málvillur, viljandi eða óviljandi. Talaði um "bæði" en ekki "hvort tveggja", þegar "hvort tveggja" passaði betur. Svo talaði hann um að taka"áhættur í svona kulda" eða eitthvað slíkt, en eins og ég lærði þetta er orðið áhætta alltaf í eintölu. Er hann ekki íslenzkufræðingur? Eða er þetta tízkubylgja íslenzkufræðinganna í dag, að gera villur viljandi?

Fylgi Framsóknarflokksins er "alveg hrunið" í Reykjavík í samstarfinu með Degi B. Eggertssyni, eins og Snorri sagði í þættinum, fór úr 18.7% í síðustu kosningum í 8.2% í könnun Maskínu.

Orðalagið "verkefnastjóri framtíðarinnar" var gert að sökudólgi, en væntanlega var það bara grín hjá Snorra.

Það voru margir búnir að spá fylgistapi Framsóknar eftir að Einar ákvað að vinna með Degi en ekki Sjálfstæðisflokknum, Hildi Björnsdóttur. Auðvitað er það málið að þetta var gjörsamlega fyrirsjáanlegt. Kjósendur voru að heimta breytingar sem þeir fengu ekki, Einar í Framsókn gerðist enn einn útlitsstjórnmálamaðurinn en ekki prinsippstjórnmálamaður sem breytir einhverju í raun og veru, en útlitsstjórnmálamaður þykist aðeins gera það.

Hvenær ætla menn að læra af því hvað kjósendur eru að kalla eftir í Reykjavík, ekki meira af Degi B. Eggertssyni og Samfylkingunni heldur einhverju nýju?


Lukku Láki og Hin fjögur fræknu - samanburður á þróun gæða

Eitt eiga bækurnar um Lukku Láka og Hin fjögur fræknu sameiginlegt, margir telja að beztu bækurnar hafi komið fyrst, gæðum svo farið hnignandi. Ein bezta Lukku Láka bókin er "Allt í sóma í Oklahóma", sem gefin var út 1958 í Frakklandi en 1977 á Íslandi. Þar er mannlegt eðli útskýrt á fyndinn en raunsannan hátt og örlög mannsins í heiminum á meðan allir eru ofurseldir syndinni og löstunum.

"Rangláti dómarinn", sem einnig kom út 1958 á frönsku en svo 1979 á íslenzku er einnig ein albezta bókin í flokknum, en segja má að Evrópusambandið, Bandaríkin, Rússland og flestar eða allar valdasamsteypur noti aðferðir Hróa baunadómara í Villta Westrinu að einhverju leyti, það er að segja óheiðarleika af einhverju tagi. Bókin er hinsvegar mun fyndnari en veruleikinn, því Hrói í bókinni svífst einskis og er holdgervingur lasta og synda, alveg þar til hann gerist góðmenni og hlýðir Lukku Láka undir lok bókarinnar.

"Karlarígur í Kveinabæli" kom út 1961 á frönsku en 1978 á íslenzku. Einnig hún er mjög góð. Þar er mannlegu eðli lýst sérlega vel og tilgangsleysi stríða, hversu sorgleg sóun þau eru á mannslífum, auðæfum, tíma og hverju sem er.

Bókin "Fúlspít á Fúlalæk" er ókomin út á íslenzku, en kom út 1959 á frönsku. Hún er frekar umdeild vegna þess að hún er raunsönn lýsing á lífinu í Mississippi á kúrekatímanum en ekki fegruð lýsing, grimmilegir bardagar uppá líf og dauða og háðið lendir á fólk af margvíslegum uppruna. Sagan er hinsvegar mjög spennandi og fyndin, og mjög lifandi frá upphafi til enda, vonandi að hún verði gefin út á íslenzku, hún er ein af perlunum í bókaflokknum, ekki miðjumoðið sem kom síðar og hefur verið einkenni bókanna eftir 1965 að miklu leyti. Einmitt vegna þess að bókin er umdeild er hún góð, raunveruleg og spennandi, hrá og grimm, bókmenntaafrek en ekki slepja.

"Bláfótungar koma" frá 1956 er einnig góð, eða "Baráttan við bláfótunga", sem kom út 1983 á íslenzku, aðeins eftir Morris, en frá 1957 til 1977 þegar Goscinny lézt voru allar bækur eftir þá saman.

Fyrstu bækurnar eru einnig góðar, í þeim er ekta ofbeldi þótt teikningarnar séu frekar frumstæðar og Lukku Láki líkist Stjána bláa heldur mikið, en hann mun hafa verið einhver fyrirmynd að Lukku Láka, telja sumir bókmenntafræðingar.

"Tuttugasta riddarasveitin" frá 1964, sem kom út 1977 á íslenzku er einnig góð, þar sem erfiðum ákvörðunum í stríði er lýst vel.

"Hin fjögur fræknu og kappaksturinn mikli", sem kom út á frönsku 1969 en á íslenzku 1977 er talin með beztu bókunum í þeim flokki. Söguþráðurinn er flókinn, persónugalleríið er mjög auðugt, og þar kemur Jói næturgali fram, sú stórskemmtilega persóna. Hann er poppstjarna en með svo gríðarlega margar grúpppíur á hælunum sem elta hann hvert sem er að honum tekst aldrei að klára neitt sem hann tekur sér fyrir hendur í kappakstrinum.

Síðustu bækurnar um Hin fjögur fræknu finnst mér einnig með þeim beztu. Bókin "Hin fjögur fræknu og Tasmaníuúlfurinn" frá 2003 var gerð af François Craenhals einum, og þar eru gerðar tilraunir með meira lifandi persónulýsingar, í teikningum, og söguþráðurinn er harkalegri.

Snilldarverkin eru fleiri. Bókin "Hin fjögur fræknu og stóridómur", sem kom út 2004 er gríðarleg ádeila á trúarbrögðin og þeim lýst sem blekkingaleik. Sú bók kom út sama ár og teiknarinn lézt, 2004, François Craenhals, en hann gerði handritið en Jacques Debruyne teiknaði.

Árið 1993 kom út bókin "Hin fjögur fræknu og geimverurnar", en þar er geimverum vel lýst, og hvernig þær taka yfir veruleikann samkvæmt lýsingum, stjórna tímanum og birtast í dulargervum sem einhver sem fólk þekkir, og allt verður að ofskynjunum, eða þannig má túlka bókina, og það er í samræmi við margar sögur sem um þær hafa verið sagðar. Þessi bók er sérlega góð einnig.

Síðasta bókin "Söguljóðið um Hin fjögur fræknu", sem kom út 2007, eftir Sergio Salma og Alain Maury þykir einnig sérlega góð, raunsönn en ekki eins ævintýraleg og hinar bækurnar.

Annars eru veikleikar þessara bóka augljósir. Þær virðast stílaðar inná unga lesendur, þannig að þótt þær séu vel teiknaðar eru sögurnar yfirleitt mjög léttvægar, með þessum undantekningum, og jafnvel fleiri, það er smekksatriði.

En þannig er þetta með góða og vonda list. Þau fyrirbæri skarast, og gott er að ekki eru allir sammála um þetta.


Forald, ljóð frá 13. apríl 2018.

Sýnist oft en burtu berst,

bragði slíku verst.

Forald farið mitt,

fyllra markið liðið.

Mér er sama; mannkyn þitt

mengar yfir sviðið.

Skelfing birtist svikarasvanni,

svínin í stjórnum halda völdum.

Annað öll við höldum,

eiginvilla í manni.

 

Hún er týnd í sjálfri sér,

sigur hverfur mér.

Ef ég annars vinn

upphefst nýlífsvíti.

Örlög ráðast annað sinn

eftir þessi býti.

Rugluð innra, píratapía,

pælandi í röngum hlutum núna.

Missa menn svo trúna,

muna ei það nýja.

 

Eins og hún er indæl þó,

ekki kemur ró.

Fann ég villuveg,

vergjur margar kveina.

Eitt er víst að ekki ég

ætla þar að reyna.

Kommagæra, blekkingabelja,

búkurinn nægði einusinni.

Verður veröld minni,

virðist aðeins Helja.


Um væntanleg verkföll og annað

Silfrið var um verkalýðsmál. Sum viðhorf finnst mér vanta í það sem ég kannast við og man eftir frá mér eldra fólki. Sumt finnst mér algjörlega eins og það var þá, eins og tal um verkalýðsfélög.

Guðmundur Hagalín var bróðir ömmu minnar í föðurættinni og sá Alþýðuflokkur sem hann vann fyrir var flokkur verkalýðsins. Mér finnst verkalýðstalið núna minna meira á það sem maður þekkti frá æskunni, og minnkaði á tíma nýfrjálshyggjunnar.

Ég kynntist líka öðru viðhorfi sem mér finnst lítið áberandi á okkar tímum. Það var þjóðerniskennd íhaldsmanna og verkalýðsins til jafns. Pabbi skammaði mig fyrir að vilja frekar vera listamaður en verkamaður. Hann kenndi mér að það væri dyggð að leggja mikið á sig, og hjá enn eldra fólki lærði ég að það væri kristileg dyggð að stuðla að samstöðu og þjóðrækni, að ganga í störf og aðstoða án kröfu til launa. Þannig var mér kennt að fólki yrði boðið starf sem sýndi af sér þannig mannkosti. Ég var svo sem alltaf latur og hugsaði um listir, tónlist og slíkt, en þetta rifjast upp.

Ég heyrði sögur um fólk í sveitunum sem fékk borgað í mat eða vöruskiptum eða fór í reikning hjá kaupfélaginu. Kynslóð ömmu og afa vann að vísu fyrir sér sjálf að mestu, en það fólk mundi eftir því og vissu um þannig sögur.

Sólveig Anna hefur endurvakið gamla verkalýðsbaráttu. Það er nógu merkilegt fyrir sig. Nú er aftur farið að tala um grunnhugtök.

Fólk af minni kynslóð hefur lært í útlöndum og búið erlendis ekkert síður en á Íslandi. Horfin er sú hugsjón og hugsun þjóðernisstefnunnar að það sé skylda okkar að standa okkur vel á þessu landi í samanburði við önnur lönd, og að það sé skylda okkar að vinna láglaunastörfin, sem hluti af þjóðarímynd og þjóðarstolti. Nú þykir í lagi að bjóða útlendingum lág laun og að þeir gangi í þannig störf. Þá þekktist það einnig að börn láglaunafólksins hélt áfram í sömu stétt. Nú eru langflestir Íslendingar að hugsa um að hækka sig upp í stéttastiganum og fá eins hágt launuð störf og mögulegt er. Það þýðir samskipti við útlönd og að fá betur launaða vinnu í útlöndum oft.

Já ég held að Sólveig Anna sé mjög merkileg kona sem hristir upp í spilltum og stöðnuðum kerfum. Hún rifjar upp gömul handtök og baráttumál, meiri hörku í þessu.

Afi var með eigið fyrirtæki. Á því heimili var talað um að treysta á réttlæti og mannkosti ráðherra og svo á eigin dugnað.

Undir áhrifum frá kennurum fór ég að trúa á mannréttindi, umhverfismál, og að fólk ætti að berjast fyrir hærri launum. Með Stormskersguðspjöllum, sem Sverrir Stormsker gaf út 1987 sveigðist ég aftur til hægristefnu.

Ég heyrði svo oft að maður ætti að leita sér að vinnu fyrir þjóðfélagið og þjóðarhag. Ég var á móti þessu og í mikilli andstöðu við þetta og vildi verða frægur tónlistarmaður.

En þá heyrði ég oft þessar röksemdir um að maður ætti ekki að hugsa um hvað maður sjálfur vildi heldur hvað væri bezt fyrir þjóðfélagið, að allir ættu að standa saman og auka hagvöxtinn. Þá minntist enginn á að flytja inn útlendinga, heldur að við sem vorum ung yrðum að taka við öllu sem gamla fólkið vann við. Skrýtið hvernig þetta breytist og gömul viðhorf gleymast með breyttum aðstæðum.

Verðbólga og þensla eru fyrirbæri sem fylgja oft launahækkunum. Ég man eftir verðbólgunni á áttunda áratugnum og kennaraverkfallinu 1984. Þá bjó ég til stutta myndasögu um Albert Guðmundsson til að skemmta krökkunum í skólanum með henni þegar skólinn byrjaði aftur.

Sumir voru ekki óánægðir með verðbólguna undir lok áttunda áratugarins. Ég heyrði um marga sem eignuðust íbúðirnar sínar með hjálp verðbólgunnar. Þá unnu menn í törnum og fluttu inní ókláraðar íbúðir.

Það er ágætt að rifja upp gamla tíma, gott og slæmt, breytingar.

Fólkið sem ólst upp í torfbæjunum á seinni hluta 19. aldarinnar taldi að það að eignast eigin íbúð væri eitt helzta takmarkið sem ætti að stefna að. Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft verið hlynntur þeirri stefnu.

Sigríður Hagalín í Silfrinu minnir á ömmu Fanney og hennar skoðanir. Já, mér fannst þetta nokkuð góður þáttur af Silfrinu.

Ég vil bara minna á göfugmennsku fyrri kynslóða.


mbl.is Efling kúgi félagsmenn sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algilt réttlæti á undanhaldi?

Þessi maður fór í mál við konu sem hafnaði honum. Þetta sýnir nokkuð vel það sem ég hef fjallað um, að í okkar nútíma er varla neitt rétt eða rangt lengur, heldur hver er sterkari fjárhagslega og félagslega til að hafa rétt fyrir sér, vinna dómsmál og slíkt. Fyrra máli hans var vísað frá, en þetta er tímanna tákn, dómsmál af þessu tagi, sem áður þótti óhugsandi, sem byggjast á tilfinningum, mati og einhliða túlkun. Hitt dómsmálið hans verður tekið fyrir eftir nokkra daga.

Ekki skiptir öllu hvort svona dómsmál vinnast eða tapast. Þetta er andsvar karlmanns í Singapúr við gríðarlegum sigri kvenöfgastjórnmála og þau verða fleiri á heimsvísu. Þau sýna breytingu frá reglum um rétt og rangt yfir í persónulegra mat á þeim fyrirbærum.

Sagan sýnir að þegar öfgar koma í eina áttina, eins og femínisminn, þá rísa einatt öfgar í hina áttina, það er að segja í karlréttindaáttina og feðraveldisáttina. Svona dómsmál eru ný, að karlar heimti rétt sinn er nýtt í tilfinningamálum og samskiptamálum kynjanna. Bakslag í Metoobaráttunni myndu kannski sumir femínistar segja. Kemur það á óvart? Tæplega. Ef fólk er almennt ekki sátt við breytingar ganga þær til baka, og enn lengra í öfuga átt jafnvel, í hina íhaldssömu átt, til feðraveldisins, fortíðarinnar.

Frumskógarlögmálið gildir að miklu leyti. Kristin gildi eru að hverfa, eftir því sem jafnaðarmenn fá meiri völd.

Vissulega er það svo að fólk fær misjafnlega mikið áfall þegar það fær ekki sínu framgengt, nær ekki í aðilann sem það elskar eða girnist. Þessvegna er þetta ekki eins fráleitt og gæti virzt. En dómstóll götunnar, sem stendur með mismunandi kynjum eftir tímabilum og tízkustraumum ræður líka miklu um niðurstöður hefðbundinna dómstóla núorðið, eins og Jón Steinar Gunnlaugsson hefur lýst.

Á okkar landi ríkir kvennaveldi og mæðraveldi, frekar en feðraveldi. Þannig hefur þetta verið frá 1980, þegar Vigdís var kjörin forseti og femínistinn Bubbi Morthens varð vinsælasti tónlistarmaður landsins. Fyrir þann tíma var ríkjandi feðraveldi, og frá kristnitökunni árið 1000, og kannski frá landnámi.

Orðspor, heiður, mannorð, orðstír, allt er þetta hægt að meta til fjár, og hamingju þar að auki. Þessvegna finnst mér þetta ekki undrunarefni að úr því að femínistar sinni kvennavaldabaráttu fari hlutirnir í aðra átt.

En er tilfinningalíf okkar lögverndað? Yfirleitt ekki, en breytingar gætu orðið á því. En hvernig á að skylda makann eða aðra til að reynast manni alltaf vel? Enn eitt dæmið um regluvæðingu í anda sögunnar 1984 eftir George Orwell eða raunverulegar framfarir?


mbl.is Fór í mál við konu sem hafnaði honum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Poppgoðakeppnin er ævinlega góð skemmtun

Ædollkeppnin finnst mér alltaf skemmtileg, en eins og ég hef áður sagt er Poppgoðakeppnin rétt þýðing, þótt hrá þýðing sé skurðgoðskeppnin.

Í gær voru flutt lög eftir Tómas R. Einarsson og Stefán Hilmarsson og fleiri. Ég talaði nokkur orð við Tómas R. þegar hann hélt fyrirlestur um suðræna tónlist í Borgarbókasafninu fyrir nokkrum árum. Hann var kurteis í viðmóti og svaraði á áhugaverðan hátt ýmsu um þetta.

Mér finnst ekki alltaf gaman að skrifa pistla sem eru nöldur. Að þessu sinni langar mig að fjalla um eitthvað skemmtilegt.

Ég var að vísu aldrei mikill aðdáandi hljómsveitarinnar Sálin hans Jóns míns, en hélt samt uppá Stefán Hilmarsson, bæði vegna þeirra frábæru laga sem hann söng með Sverri Stormsker og með ýmsum hljómsveitum og á sólóferlinum.

En þegar jafnaldrar mínir í menntaskóla og aðrir dýrkuðu Stefán Hilmarsson og Sálina og Skítamóral eða slíkar hljómsveitir var ég að hlusta á annað.

Engu að síður kom mér það skemmtilega á óvart þegar Stefán Hilmarsson fór að tala við mig þegar við biðum eftir afgreiðslu í banka einum 2011. Einnig bað hann um að fá að taka mynd af okkur saman á símann sinn, sem mér fannst ekkert mál. Hann sagðist hafa komið á tónleika með mér árið áður.

Já, einnig hann er mjög skemmtilegur viðkynningar og kurteis maður. Það gladdi mig þó sérstaklega þegar hann sagðist hafa keypt með mér hljómdiska í Japis þegar hann heyrði mig syngja á Stöð 2 í býtið eitt sinn, "Hvenær mun hér á Íslandi rísa stjörnusambandsstöð?"

Mér finnst hann betri textasmiður en mjög margir í poppinu, og hann er sérlega góður söngvari. Hann notar íslenzkar bragreglur og aðrir ættu að taka sér það til fyrirmyndar.

Í Ædollkeppninni sér maður að margir góðir söngvarar berjast um sigur, en langmestu skiptir að hafa sjálfstraust, góða sviðsframkomu, góða rödd og óútskýranlegan stjörnusjarma.

Þegar ég var að burðast við að flytja lög á tónleikum æfði ég mig næstum aldrei. Ég bögglaðist við að muna laglínurnar, mundi eiginlega aldrei textana og söng þá af blaði og var yfirmáta feiminn og söng of lágt.

Þegar mér tókst að ná til fólks á tónleikum og fékk kröftugt blístur eða klapp var það vegna þess að lögin sem ég samdi voru nægilega góð til að komast til skila þrátt fyrir alla þessa annmarka á flutningnum sem ég taldi upp.

Í tvö skipti hef ég tapað vinsældum með því að búa til dægurlög sem ætlað er að kenna fólki eitthvað, en taka ekki undir einfaldan og lágan samnefnara hjá fólki.

Á árunum 2001 til 2003 gaf ég út þrjá hljómdiska um jafnréttið, nema þar inn á milli voru lofsöngvar um karlrembu. Það féll í misjafnan jarðveg þegar ég til dæmis gaf út lagið:"Kúgaðu allar konur 2003". Ástæðan var einföld, ég taldi mig vera að verja hefðina áður en hún gleymdist, ég gat ekki sætt mig við að femínistar væru að einoka opinbera umræðu og annað fengi ekki að heyrast. Þótt á sama hljómdiski væri lag eins og "Jafnréttið er framtíðin", skipti það ekki máli, þetta féll ekki í kramið hjá femínistum.

Árið 2010 gaf ég út hljómdiska um kristilega bókstafstrú, meira að segja tvo, annan frá 1999 og hinn frá 2001. Kristið fólk vildi helzt þegja um þetta og veraldlegt fólk hafði lítinn áhuga á þessu einnig. Þó voru til einhverjir sem voru ánægðir og keyptu þessa diska, "Ég er laus undan losta og synd" (tekinn upp 1999) og "Kristur kemur", (tekinn upp 2001).

Mér finnst tónlist miklu meira en einhver froða. Mér finnst að maður eigi að fjalla um allt í tónlist, og einnig það sem flokkast undir heimspeki og óvinsælar skoðanir. Það lærði ég af Megasi og Sverri Stormsker, til dæmis.

Hefði það ekki verið ljúft að hafa ráðgjafa sér til aðstoðar á þessum árum, til að kenna manni að gefa ekki út sum lög og einbeita sér að einhverju lýðskrumi? Hefði ég nennt að fara eftir einhverju slíku? Erfitt að segja.

En samfélagið okkar væri miklu betra ef hægt væri að syngja um miklu fleira en gleði og glaum. Erlendis er fjölbreytnin meiri.

Ædollkeppnin kennir manni ýmislegt um það hvað íslenzkt samfélag er lítið og hvernig frægðin er óréttlát, möguleikarnir takmarkaðir á að lifa af listinni og ná miklum vinsældum. Erlendar poppstjörnur hafa ævinlega heillað mig mest, með milljónir aðdáenda, rokkgoð á Bítlatímanum og fram að diskótímanum.


Salan á TF-Sif er aðeins eitt dæmi af ótalmörgum dæmum um hnignun í nútímanum

Fólk spyr sig hversvegna bankakreppa er ekki komin á vesturlöndum, meiri en sú sem byrjaði 2008. Svarið er væntanlega það, að örfáir auðmenn eiga meira en 99% af öllum auðævum mannkynsins. Það þýðir að bankakreppa byrjar aðeins þegar þessum eigendum mannkynsins þóknast það, til að græða meira og gera almenning enn fátækari.

Alþingismenn og ráðherrar á Íslandi verða stöðugt valdaminni, eins og almenningur á þessu landi eins og í öðrum löndum. Vinstrimenn og jafnaðarmenn voga sér að kenna stefnu sína við jöfnuð og samúð með fólki, á meðan þeir ráðast á Sigmund Davíð og þannig fólk sem kemur með raunverulegar lausnir og bendir á vandann.

Mennskan er horfin. Þar sem enginn áhugi er á að varðveita menningu, tungumál eða speki eru ræsisrottur en ekki menn. Menning byggist á tungumáli, heimspeki, samskiptum, einhverjum sem skilur menn frá dýrum.

Fólk eltir gulrót og hleypur á hamstrahjóli til dauðadags.

Píratar efna til málþófs út af útþynntu og gagnslausu útlendingafrumvarpi Jóns Gunnarssonar eins og himinn og jörð séu að farast út af því. Hann ákveður að selja nauðsynlega flugvél á meðan háum fjárhæðum er hent í vitleysu.

Eldri þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að trompa þá ungu í andþjóðrækni og leggja til að enskan verði gerð að opinberu tungumáli, ekki aðeins að mannanafnanefnd verði lögð niður. Baráttan er töpuð við eyðileggingaröflin, allir verða að gera sér grein fyrir því. Nú er um að gera að hefja keppni í því hver kemur með heimskulegustu niðurrifstillögurnar og hækka verðlaunin fyrir mestu skemmdarvargana.


mbl.is Sameiginleg niðurstaða ráðuneytis og LHG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 23
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 678
  • Frá upphafi: 108434

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 542
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband