Að læra af eldri kynslóðum

Ég tel að tvær meginástæður liggi til grundvallar aukinni útkallstíðni sérsveitarinnar og neikvæðri þróun, sem minnir á erlendar stórborgir.

Í fyrsta lagi er búið að flytja inn fjölmenna hópa mismunandi einstaklinga af mörgum þjóðernum svo hið einsleitna og sannkristna samfélag er orðið fjölbreytilegra. Spennuna er reynt að bæla niður með boðum og bönnum en það tekst aldrei til lengdar, eins og saga Bandaríkjanna kennir bezt.

Í öðru lagi, og það er held ég veigamesta ástæðan, er að uppeldið er ekki eins hart og það var. Þegar ég var að skrifa ættarsögu ömmu og afa áttaði ég mig á því að sú breyting á uppeldi sem varð á 20. öldinni var mjög margþætt. Ekki er hægt að kenna foreldrum þess tíma um að hafa sýnt börnum sínum linkind eingöngu, vegna þess að áhrifin sem komu frá útlöndum báru sök á þessum breytingum einnig. Þannig má segja að öll hin vestræna menning hafi samtaka gengið í gegnum breytingar, með öllum þessum iðnbyltingum, miklum barnafjölda og svo takmörkunum á barneignum og réttindum kvenna og allskonar hópa sem áður var talið rétt að kúga, í harðasta feðraveldinu, þegar stéttskiptingin var sérlega hörð og allir urðu að samþykkja hana. Það var fyrir miðja 20. öldina sem slíkar reglur og hefðir voru sterkar, og þar á undan um margra alda skeið.

Síðan eru aðrar minni ástæður sem spila inní, eins og ofbeldiskvikmyndir í sjónvarpinu, rapptextar, og dægurmenning sem hefur ýtt undir dýrkun á því sem fyrri kynslóðir hafa talið synd, satanisma og öllu þvílíku. Það er nú ekki hægt að neita því að unglingauppreisnir hafa einkennt 20. öldina og kynslóðabil, sem merkir sífellda uppreisn gegn hefðum og venjum sem oftar en ekki hafa verið mikilvægar og nauðsynlegar, en heyra nú því miður sögunni til að miklu leyti.

Barn sem ólst upp við að þurfa að vinna um 1960 eða 1950 horfði þó á kvikmyndir og las barnabækur þar sem uppreisn gegn foreldrum var talin sniðug og jákvæð. Þannig má minnast á Georg eða Georgínu í bókum Enyd Blyton um Hin fimm fræknu, Fimm á Fagurey og allar þær bækur sem nutu vinsælda. Í dag hefði verið talað um transbarn í þessu tilfelli, því hún þoldi ekki að vera stelpa og vildi láta kalla sig strákanafni. Hinsvegar hefði hún ekki komizt upp með þetta 30 árum áður, og þar á undan, Georg, eða Georgína í þessum bókum. Þá var aginn enn harðari, nánast á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þetta ætti að vekja alla til umhugsunar um þróun í þjóðfélaginu og hvert hún leiðir.

En fleiri dæmi má nefna úr bókum Enid Blyton. Baráttan við Gunnar lögregluþjón í Dularfullu bókunum ber gott vitni um þessa andúð á reglum og yfirvaldi og andúð á fullorðnum, nokkuð sem Blyton hefur nýtt úr sinni eigin barnæsku í ritverkum sínum fyrir börn sem urðu heimsfræg og vinsæl.

Í dag er þetta einkenni menningarinnar ýkt uppúr öllu valdi, þannig að kennarar mega ekki bysta sig við nemendur og hvað þá leggja hendur á þá, nema kallaðir ofbeldisfullir. Þannig var þetta ekki áður.

Nýleg frétt um aukið ofbeldi barna gegn foreldrum sínum vekur upp spurningar um uppeldisaðferðir í nútímanum, og hvort þær séu að virka.

Einnig vil ég minnast á kirkjuna og kristnina. Þótt ég hafi áhuga á mörgum trúarbrögðum viðurkenni ég góð áhrif kristinnar trúar, þegar slíkt hefur áhrif og aginn er til staðar meðfram.

Raunar er ég sannfærður um að harðar reglur hafi verið í Ásatrú og Vanatrú og öðrum heiðnum trúarbrögðum fyrir hinn kristna tíma, það hlýtur bara að vera, því ekki varð upplausn þá, heldur hélt ákveðinn samfélagssáttmáli í flestum tilfellum.

Þessi mál eru einsog umhverfismálin. Þetta byrjar ekki að versna að ráði fyrr en eftir ákveðinn tíma þegar ákveðið kaos myndast, eða skipulagsleysi, þegar hinir ófyrirsjáanlegu þættir fara að spila meira inní en fólk gerði sér grein fyrir. Magnús Þór Hafsteinsson og aðrir í Frjálslynda flokknum vöruðu við því að Ísland væri að stefna inní þróun sem væri þekkt erlendis. Þessi orð þingmanna Frjálslynda flokksins hafa ræzt, og þó voru þeir vinstrisinnuðustu að segja þessi varnaðarorð skammarlegan rasisma eða eitthvað þesslegt.

Jafnvel ef þjóðin væri enn eins kristin og hún var fyrir 50 árum væri samfélagið friðsamlegra. Ég man það svo vel hversu mikil samheldnin var í gamla daga, á heimili ömmu og afa. Nú er jafnvel minni samgangur á milli ættingja og vina og kunningja, nema þeir séu þeim mun nánari. Nú kom frétt um helgina um að um 60% fólks er farið að kynnast á stefnumótasíðum á netinu og allskyns samskiptaforritum þar. Er ekki eitthvað bogið við þetta í raun? Síðan hvenær getur ástin frekar kviknað ekki augliti til auglitis heldur í gegnum algóryðma og tæknitól?

Vandinn er sá að jafnvel þótt sérfræðingar viðurkenni vandann og komi sér saman um að úrbóta sé þörf er hraði breytinganna á samfélaginu orðinn svo mikill að erfitt er fyrir sérfræðinga eða aðra að hafa áhrif á samfélagið, en þó er það mögulegt, það hlýtur að vera.

Er þetta ekki eins og með málræktarátak og annað, að fyrsta skrefið er ábyrg forysta sem kemur með úrlausnir, tekur fyrir málvillur í samfélaginu og hvetur fólk til úrbóta? Vilji er allt sem þarf er ágætt orðtæki, allavega er allt betra en að fólk fljóti sofandi að feigðarósi, sama í hvaða máli það er.

Mér leizt vel á það að margir í forystu í atvinnulífinu sögðust ætla að setja kröfur um betri íslenzku á oddinn í framtíðinni, í umræðum um auglýsinguna á ensku, sem breytt var yfir á íslenzku, að sjálfsögðu, eftir dugnað og framtak fólks sem á þetta benti.

 


mbl.is Áminning um alvarlega stöðu Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Eina ástæðan fyrir aukinni útkallstíðni morðsveitarinnar úr Hraunbænum, er útkallsblæti kommúnistanna sem hafa yfirtekið landið.

Guðjón E. Hreinberg, 22.9.2022 kl. 01:02

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mörlendingar tala og skrifa almennt afskaplega lélega íslensku, eins og vel sést í til að mynda athugasemdakerfum fjölmiðlanna, þrátt fyrir tíu ára grunnskólanám og í mörgum tilfellum einnig nám í framhaldsskóla og háskóla.

Stafsetning, fallbeyging og málfar þeirra er yfirhöfuð mjög bágborið og einnig hjá flestum íslenskum fréttamönnum.

Hér á Klakanum búa um 59 þúsund útlendingar, sem eru um 15% af þeim sem hér búa, og engin tölfræði sýnir, svo undirritaður viti til, að þeir brjóti hlutfallslega meira af sér en íslenskir ríkisborgarar.

Og fjölmargir Íslendingar hafa brotið af sér í útlöndum, eins og komið hefur fram í fréttum.

Miðað við höfðatölu er hættulegast hér á Íslandi að búa á Blönduósi, þar sem Mörlendingur skaut annan mann til bana nú í sumar og var sjálfur drepinn.

Og á Egilsstöðum skaut annar Mörlendingur í fyrrasumar á allt sem fyrir varð og var að lokum sjálfur skotinn af lögreglunni.

29.4.2022:

Um 77 þúsund skotvopn skráð í notkun hér á Íslandi

En að sjálfsögðu eiga Mörlendingar að sakna þeirra tíma þegar þeir drukku frá sér ráð og rænu á föstudags- og laugardagskvöldum en álitu þá drykkjusjúklinga sem fengu sér rauðvínsglas á miðvikudagskvöldi.


Í góðu lagi var að menn keyptu brennivín en þeir máttu alls ekki kaupa bjór, unglingar voru almennt sauðdrukknir á útihátíðum og slagsmál á sveitaböllum þóttu sjálfsagður hlutur.

Hommar voru barðir sundur og saman og flúðu land.

Gert var grín að andlega veiku fólki, Ómar Ragnarsson leitaði uppi alls kyns furðufugla, enn skrítnari en hann sjálfur, sýndi þá í sjónvarpinu og hlegið var að þeim.

Og barnaníðingurinn Bjartur í Sumarhúsum var aðalhetjan.

Mörlendingar sváfu hjá ættingjum sínum og skyldleikaræktin því í heiðri höfð en útlendingar sáust varla á landsbyggðinni, hvað þá svart fólk.

Helga Rafnsdóttir á um 99 þúsund afkomendur

Og tengdamóðir mín fyrrverandi á Húsavík spurði þegar hún átti þar von á heimsókn svartrar söngkonu:


"Borða svertingjar pönnukökur?"

frétt ársins

Þorsteinn Briem, 22.9.2022 kl. 02:04

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Hversu mikið er hægt að breyta kristinni trú og kalla hana samt upprunalega?

Ég sagði að ég teldi aðalástæðuna vera okkur að kenna, verra uppeldi og ekki haldið í agann og hefðirnar, það góða og jákvæða við kristna trú. 

Steini, þú tekur nýleg dæmi frá Egilsstöðum og Blöndósi. Ég benti á breytingar almennt, sem er líklegt að hafi áhrif í þá átt sem þekkist úr erlendum stórborgum. Af hverju að afneita því að sama gerist á þessu landi eins og annarsstaðar? 

Sá sem hræðist kúgunarefnin (þau verða sífellt fleiri) í umræðunni getur ekki velt upp mögulegum skýringum eða bent á vandamál. Ég styð þá kenningu að engin höft eigi að vera á tjáningafrelsinu, þið megið hafa ykkar skoðanir og tjá allt sem þið viljið mín vegna. Skoðanir eru jafnréttháar og fólk verður bara á lýðræðislegan hátt að geta verið óhrætt um að skipta um skoðun eða mynda sér skoðun.

Hvort sem það er kommúnismi eða annað sem er vandamálið, þegar búið er að búa til tabú í þjóðfélaginu er umræðan orðin heft eins og gerist í fasískum og kommúnískum ríkjum.

Vímuefni, skotvopnaeign, auðvitað skiptir þetta máli líka. 

Þú segir að minnihlutahópar hafi verið ofsóttir í gamla daga. Það er gjaldið til að halda saman samfélögum oft. Sjáðu hvað er að gerast í Kína, fólk er logsoðið inní íbúðum sínum útaf Covid-19, þeir eru fjölmenn þjóð og verða að hafa hörð tök á fólkinu. Að öðrum kosti myndi Kína liðast í sundur í uppreisnum.

Viljið þið heldur samfélög þar sem uppreisnir, deilur og átök hópa eru daglegt brauð? Eða þar sem borgarastyrjaldir eru yfirvofandi? Sumir segja að Bandaríkin séu að verða þannig. Nú fjölgar mótmælum í Rússlandi þegar þeim gengur ekki eins vel í stríðinu.

Eins og menn hafa lýst þessu með slagsmálin í gamla daga, þau voru saklausari. Harkan er meiri nú til dags, allskyns vopnaburður, skipulag.

Það sem einum finnst neikvætt finnst öðrum kannski gott og jákvætt. Mér finnst það bara gott að þessi Helga Rafnsdóttir eigi 99 þúsund afkomendur.

Mörlendingar eru ekki fullkomnir, er ekki að halda því fram. Guðjón, þú hefur oft sagt að menningin sé hrunin. Ég hef túlkað þetta sem hluta af þeirri breytingu. 

Viljið þið frekar vera eins og kvennakirkjan (ríkiskirkjan) í dag, gera láta pólitík nútímans ráða og lýðskrumið? Hvaða gagn er þá í kristninni? Braut ekki Kristur borð fjárplógsmannanna sem sagði þá gera hús Guðs að ræningjabæli?

Maður stendur fyrir ákveðin gildi og verður að berjast fyrir þeim. 

Ingólfur Sigurðsson, 22.9.2022 kl. 15:30

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góður pistill eins og svo oft Ingólfur, þar sem þú kemur inn á marga punkta sem vekja umhugsun.

Uppeldið síðustu áratugina hefur verið að færast alfarið til ríkisins  og er nú svo komið að hið opinbera tekur við uppeldi manneskju um eins árs aldurinn.

Þegar ég var að alast upp þá var það um sjö ára aldurinn sem skipuleg innræting af hálfu þess opinbera hófst. Auðvitað voru kenndar bænir og góðir siðir fyrr, eins og þú bendir í gegnum trúarbrögðin.

Foreldrar í dag telja það jafnvel brot á mannréttindum komi þau ekki ungabörnum nógu snemma í umsjón þess opinbera. Nýlega voru mótmæli vegna þess.

Steini fimbulfambar um fréttir úr ríkisstyrktri medíunni, sem hann hefur litla sem enga nasajón af sjálfur eins og stundum áður, en hann veit þetta samt sjálfur og ef ekki þá ætti hann að hugsa til afa síns úr Svarfaðardalnum. 

Magnús Sigurðsson, 22.9.2022 kl. 17:03

5 Smámynd: Loncexter

Þegar íslendingar þykjast ætla að byggja upp samfélag þar sem á að ægja samann alls kyns stefnum og trúarbrögðum, er voðin vís.

Gamla T. var ritað að miklu leiti til að kenna okkur afleiðingar fjölmenningarstefnunar. Þegar t.d Salomon konungur var kominn með allskyns framandi og furðulegar kellur í búrið sitt hvarf öll velgegni og blessun Drottins frá honum á stuttum tíma.

Eitthvað svipað var uppi á teningnum hjá Alexandri mikla.

Loncexter, 22.9.2022 kl. 18:35

6 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Ég þakka ykkur öllum innlitið, sérstaklega þér Magnús, sem oftar sem áður nærð að orða hlutina vel. Þegar menn eins og Þorsteinn Briem verða fastagestir með langlokur sínar og copy-paste málflutning er það til marks um að fleiri taka mark á manni. Reyndar tel ég nýlega pistla mína ekki betri en venjulega en samt hafa verið rúmlega 100 gestir í dag og rúmlega 200 í gær, og það er sjaldgæft en gleður. Kannski vegna þess að ég varð samtaka vinsælum pistlum Páls Vilhjálmssonar nýlega í að gagnrýna að RÚV verndar sína vinstrimenn og fjalla um þetta byrlunarmál sem marga óar við.  

 

Já Magnús, í svari þínu koma einnig mikilvægir punktar. Væri hægt að skrifa annan pistil um slíkt við tækifæri.

Ingólfur Sigurðsson, 23.9.2022 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 163
  • Sl. viku: 456
  • Frá upphafi: 103431

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 336
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband